Á ferð með fuglum

Á ferð með fuglum - Höskuldur Björnsson

Sýningarlok og sýningastjóra spjall

Nú er komið að lokum sýningarinnar á verkum Höskuldar Björnssonar, sem listgagnrýnir Morgunblaðsins gaf yfirskriftina „Yndisleiki íslenskrar náttúru.” Höskuldur náði að skapa sér sess í íslenskri listasögu sem fuglamálari og flest verkanna á sýningunni eru af fuglum, en þar má líka sjá landlagsmyndir, sjálfsmyndir og uppstillingar. Þær eru ýmist unnar með olíulitum eða vatnslitum en einnig er hægt að skoða myndskreytt sendibréf til vina og ættingja. Höskuldur fæddist 1907 í Nesjum við Hornafjörð en lést fyrir aldur fram 1963 og hafði þá búið síðustu sautján æviár sín í Hveragerði, á listamannsárum þess.

Um sýninguna
Höskuldur skipar sérstakan sess í íslenskri listasögu sem helsti fuglamálari Íslands. Þessi sérstaða hans hélst vel fram á sjöunda áratuginn og í hugum margra landsmanna lifir hann enn sem slíkur. Höskuldur var einnig  afkastamikill  landslagsmálari en hann málaði fyrst og fremst á  suður- og suðausturlandi og einbeitti  sér meðal annars að fjarlægum sjóndeildarhringnum og óendanlegum himni hins  víðáttumikla landslags.
Flest verkanna á sýningunni eru fuglamyndir, en þar má líka sjá landlagsmyndir, sjálfsmyndir, uppstillingar og myndskreytt sendibréf. 
Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram.

Ferill listamannsins
Höskuldur fæddist í Dilksnesi í Nesjum í Hornafirði  26. júlí árið 1907 og ólst þar upp. Hann fékk snemma áhuga á myndlist og naut félagsskapar sveitunga sinna, æskuvinarins Svavars Guðnasonar og frænda síns Jóns Þorleifssonar, sem allir áttu sér sama áhugamál. Það að Ásgrímur Jónsson kom og málaði á Hornafirði hefur eflaust haft einhver áhrif á val Höskuldar að leggja fyrir sig myndlist. Hann var næmur á umhverfi sitt og ríkulegt fuglalíf Hornafjarðar lagði grunninn að sérstöðu hans sem málara. Höskuldur var að mestu leyti sjálflærður en sótti listaskóla sem bræðurnir Finnur og Ríkharður Jónssynir ráku og naut einnig leiðsagnar Jóns Stefánssonar einn vetur.
Um tíma bjó Höskuldur á Laugarvatni en síðustu sautján ár ævi sinnar bjó hann í Hveragerði  þar sem hann lést árið 1963. Á þeim tíma má segja að Hveragerði hafi verið eins konar listamannanýlenda því þá bjuggu þar fjöldi þjóðþekktra listamanna;  listmálarar og myndhöggvarar, tónskáld, rithöfundar og skáld.

Um sýningarstjórann

Hrafnhildur Schram er sýningarstjóri þessarar sýningar og ritar grein um Höskuld í sýningarskrá þar sem hún skoðar hans feril með tilliti til listasögunnar. Hrafnhildur lauk licentiatsprófi í listasögu frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún hefur starfað sem safnstjóri Listasafns Ásgríms Jónssonar, Listasafns Einars Jónssonar og verið deildarstjóri í Listasafni Íslands. Hrafnhildur hefur kennt listasögu, ritað listgagnrýni og fjölda greina um íslenska myndlist í blöð og tímarit og unnið heimildarmyndir fyrir sjónvarp um íslenska myndlistarmenn. Hún hefur unnið að rannsóknum á íslenskum myndlistarkonum og er höfundur fyrstu sérbókar um íslenska myndlistarkonu, Nínu Tryggvadóttur. Árið 2005 sendi hún frá sér bókina Huldukonur í íslenskri myndlist sem fjallar um fyrstu konurnar sem sigldu til myndlistarnáms í Kaupmannahöfn. Hrafnhildur starfar  nú sem sjálfstæður fræðimaður og rithöfundur.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn