Þjórsá

Um nokkurn tíma hefur Borghildur Óskarsdóttir rannsakað ýmislegt sem tengist fjölskyldusögu hennar og skilað niðurstöðunum í formi margbreytilegra listaverka sem oft má skilgreina sem umhverfislist. „Í verkinu Þjórsá skrifar Borghildur nýjan kafla í heildarverk sitt og setur rannsóknina á fjölskyldusögunni í fyrirbærafræðilegt samhengi. Áherslan er ekki lengur á ættfræðina og frásagnir fólksins af baráttunni við sandinn, heldur á beina náttúrutengingu vitundarinnar við umhverfið. Í verkinu beinir hún athygli áhorfandans að Þjórsá, lengsta fljóti á Íslandi sem á upptök sín á norðanverðum Sprengisandi og rennur til sjávar í suðri. . . . Í verkinu miðlar hún birtu, lit, hreyfingu, hljóðum, áferð, og öðrum eiginleikum umhverfisins sem hafa sterkt fagurfræðilegt aðdráttarafl.“ Segir m.a. í grein eftir Æsu Sigurjónsdóttur sem birtist í sýningarskrá sem safnið gefur út um sýninguna. Þjórsá Borghildar í Listasafni Árnesinga er innsetning sem felur í sér vinsamlega hvatningu til þess að læra að þekkja og virða söguna og landið. Við það vakna líka pólitískar spurningar um samband manns og náttúru og með því að setja sýninguna Þjórsá upp samhliða sýningu á verkum úr safneign Listasafns Árnesinga verða spurningar um mat á verðmætum og gildi varðveislu enn áleitnari. Hvað felst í þeirri siðferðislegu og samfélagslegu ábyrgð að skila verðmætum til komandi kynslóða og hver eru þau verðmæti?

Borghildur Óskarsdóttir

Borghildur fæddist í Reykjavík árið 1942. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1959-60 og Listaháskólann í Edinborg, Skotlandi 1961-63. Árið 1973 lauk hún einnig prófi frá kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún kenndi myndlist í 3 ár við Hvassaleitisskóla og 10 ár við Myndlistaskólann í Reykjavík samhliða eigin listsköpun en hún hefur lengstum unnið sem sjálfstætt starfandi myndlistarmaður. Borghildur hefur einkum fengist við þrívíð verk og í upphafi vann hún einkum með leir en efniviður hennar hefur verið af ýmsum toga sem hæfir viðfangsefninu hverju sinni. Síðustu verk hennar tengjast rannsóknum á eigin fjölskyldusögu. Á löngum ferli hefur hún sýnt víða innanland og erlendis ssvo sem í Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi, Póllandi og á Norðurlöndunum. Verk eftir Borghildi er að finna bæði í einkasöfnum og safneignum opinberra stofnanna og safna.

Borghildur er félagi í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir þessi félög.

www.borghildur.com

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn