Articles

Tímalög

Á sýningunni er teflt saman verkum eftir listmálarana Karl Kvaran frá tímabilinu 1968–1978, og málverkum og skúlptúrum eftir Erlu Þórarinsdóttur frá síðustu tíu árum.

Hinn huglægi þáttur er eitt af því sem sameinar verk listamannanna þar sem litur, form, lína, áferð og tækni skapa óhlutbundna myndheima. Í málverkum Erlu á sér stað ákveðið íhugunarferli þar sem andleg gildi leiða áhorfandann um innri hugarheima. Í list sinni leitaði Karl sífellt inn á við og leitin að hinu klára og tæra var drifkrafturinn í list hans.

Karl Kvaran rannsakaði möguleika og þanþol gvasslitarins rækilega og vann nánast óslitið með hann í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1956. Verk hans frá þessum tíma grundvallast á kröftugri línuteikningu sem síðar leikur mikilvægt hlutverk í olíumálverkum hans á 8. áratugnum. Hann leysir upp agaða lárétta myndbyggingu sem einkennir verk hans frá 6. áratugnum og bugðóttar grafískar línur fara að leika um myndflötinn í hrynjandi takti. Verk Karls eru máluð í mörgum lögum. Við fyrstu sýn virðast þau í fáum litum en við nánari skoðun má greina vinnuferlið og eldri litalög í gegnum yfirborðið.

Línan leikur sömuleiðis mikilvægt hlutverk í málverkum Erlu Þórarinsdóttur og er undirstaðan í formrænni útfærslu þeirra ásamt litnum. Verkin eru byggð upp af línuteikningu sem sveigir og beygir formin svo þau framkalla sjónræn þrívíddaráhrif. Oft má sjá glitta í undirlög á yfirborðinu sem gera myndflötinn lifandi og kvikan. Erla leggur verkin sín oft blaðsilfri sem ýmist þekur ákveðin form eða undirstrikar einstaka þætti þeirra. Á yfirborðinu rifar í undirliggjandi teikningu, liti og strúktúr verksins sem vitnar um vinnuferlið.

Athöfnin að mála afmarkast af þeim tíma sem varðveittur er í málverkinu í undirliggjandi tímalögum sem skrásett eru með pensilfarinu. Það byggist upp lag fyrir lag, ofan á það sem fyrir er og þannig varðveitist tíminn í verkinu.

Ferill tímans sem greina má í verkum listamannanna er sameiginlegur þráður. Undirmeðvitund málverksins kemur fram í mismunandi tímalögum, listsköpun sem Erla og Karl vinna með á persónulega hátt.

-------

Karl Kvaran

Karl fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð árið 1924 og lést í Reykjavík 1989. Hann nam myndlist í einkaskóla Marteins Guðmundssonar og Björns Björnssonar 1939-1940 og við Kvöldskóla Jóhanns Briem og Finns Jónssonar 1941-1942. Eftir nám við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík frá 1942 til 1945 hélt hann til Danmerkur þar sem hann nam við Konunglega listakademíið í Kaupmannahöfn og í einkaskóla Peters Rostrup Bøyesen frá 1945-1948. Karl hélt reglulega einkasýningar á verkum sínum í Reykjavík frá 1953, m.a. í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1968, 1969 og 1971. Hann tók þátt í Septembersýningunum í byrjun sjötta áratugarins og sýndi nær árlega með Septem hópnum frá 1974-1983. Árið 2010 var haldin stór yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni Íslands.

Erla Þórarinsdóttir

Erla er fædd í Reykjavík árið 1955, hún nam myndlist í Svíþjóð og lauk námi frá Konstfack, lista- og hönnunarháskólanum í Stokkhólmið árið 1981 og var gestanemi við Gerrit Rietweld Akademie í Hollandi sama ár. Erla bjó um árabil í Stokkhólmi og kom þar að rekstri listamannagalleríanna ZON og Barbar, auk þess að starfa við myndlist og hönnun. Hún hefur ferðast víða og hefur m.a. búið og starfað í New York, Kína og Marokkó.

Erla hefur haldið fjölmargar einka- og samsýningar hérlendis og erlendis og hefur hlotið viðurkenningar og styrki fyrir störf sín m.a. úr sjóði Pollock-Krasner Foundation árin, 2000 og 2008. Verk eftir Erlu eru í eigu einkaaðila og helstu safna hérlendis.
erlathor.org

-------------

Sýningarstjórar: Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir

Aðalheiður (f. 1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk BA-prófi í listfræði með menningarfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2011 og MA-prófi í sömu grein árið 2014. Í lokaritgerð sinni til MA-prófs sem ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. öld, fjallar hún um eðli málverksins, nálgun íslenskra samtímalistamanna á því og endurskilgreiningu málverksins með tilkomu nýrra miðla. Í upphafi myndlistarferils síns lagði Aðalheiður áherslu á grafík og teikningar en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni. Hún hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim.   Aldís (f. 1970) er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA-gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA-prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012. Í meistara ritgerð sinni fjallar hún um norrænu myndlistarsýninguna Experimental Environment II sem haldin var að Korpúlfsstöðum árið 1980 en BA-ritgerðin fjallar um áhrif Henris Bergson á myndmál Kjarvals. Hún hefur sinnt rannsóknarverkefnum tengdum myndlist og gert sýningartexta fyrir listamenn og gallerí. Aldís hélt fyrirlestur við opnun sýningarinnar Fletir í Arion banka árið 2015 og hlaut nýverið styrk til rannsóknar á landlist á Íslandi.

Saman stýrðu þær Aðalheiður og Aldís sýningunni Heimurinn án okkar í Hafnarborg en sýningartillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar árið 2015.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn