Articles

Sköpun sjálfsins

expressjónismi í íslenskri myndlist frá 1915 til 1945

Á sýningunni eru verk eftir frumkvöðla íslenskrar nútímalistar sem urðu fyrir áhrifum frá verkum þýskra og franskra expressjónista á fyrstu áratugum 20 aldarinnar. Verkin spanna þrjátíu viðburðarík ár þar sem saga íslenskrar myndlistar fléttast saman við menningarlega og pólitíska sjálfstæðisbaráttu millistríðsáranna, sem lýkur þegar Ísland fær sjálfstæði árið 1944. Í upphafi tímabilsins voru flestir frumkvöðlar íslenskrar nútímalistar búsettir í Kaupmannahöfn, en á þriðja áratugnum eru þeir fluttir aftur til Íslands, þar sem ný kynslóð listamanna var að vaxa úr grasi. Íslensku listamennirnir urðu fyrir áhrifum frá frumkvöðlum expressjónismans, stefnu frjálsrar tjáningar, sem kollvarpaði eldri gildum og skapaði ný. Verkin á sýningunni sýna bæði hvernig áhrif expressjónistanna birtast í verkum íslensku listamannanna, en einnig hvernig þeir vinna úr þessum áhrifum og gera þau að sínum.

MEOMargrét Elísabet Ólafsdóttir, sýningarstjóriEftirtaldir eru höfundar verkanna á sýningunni:

Finnur Jónsson (1892-1993)
Gunnlaugur Scheving (1904-1972)
Jóhann Briem (1907-1991)
Jóhannes S. Kjarval (1885-1972)
Jón Engilberts (1908-1972)
Jón Stefánsson (1881-1962)
Muggur (1891-1924)
Snorri Arinbjarnar (1901-1958)
Svavar Guðnason (1909-1988)

Flest verkanna eru fengin að láni frá Listasafni Íslands, en verk frá einkaaðilum og úr safneign Listasafns Árnesinga eru einnig á sýningunni.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er lektor við Háskólann á Akureyri og sjálfstætt starfandi fræðimaður, gagnrýnandi, sýningar- og verkefnastjóri. Hún er stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni og stundaði háskólanám í listum, boðskiptafræðum og fagurfræði við Parísarháskólann Sorbonne-Panthéon. Hún lauk doktorsprófi í list- og fagurfræði frá sama skóla árið 2013. Margrét starfaði sem blaðamaður frá 1987 til 2000, var deildarstjóri listaverka- og sýningardeildar Listasafns Íslands í eitt ár, frá 2000 til 2001, og stundakennari við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands á árunum 2002 til 2015. Hún var ein af sýningarstjórum sýningarinnar Sjónarmið – á mótum myndlistar og heimspeki í Listasafni Reykjavíkur árið 2011 og setti upp sýninguna Íslensk vídeólist frá 1975-1990 í sama safni árið 2013. Viðfangsefni rannsókna Margrétar hafa aðallega beinst að raf- og stafrænum listum á Íslandi, en undanfarið hefur hún einbeitt sér að því að skoða íslenska nútímalist. Árið 2014 var hún sýningarstjóri sýningarinnar Snertipunktar í Listasafni Árnesinga þar sem tekin voru fyrir verk tveggja listamannahópa. Í sýningarskrá ritaði Margrét grein um félagslegt samhengi myndlistar í sögulegu ljósi og velti fyrir sér starfsumhverfi íslenskra myndlistarmanna. Margrét sat í dómnefnd fyrir sýninguna Sumar sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er fædd árið 1965 og ólst upp í Hveragerði og á Selfossi. Hún er nú búsett á Akureyri.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn