Articles

Rúrí – samtal á sunnudegi

á sýningunni TÍMA – TAL

Sólheimur - RúríTitill sýningarinnar getur falið í sér þá túlkun að boðið sé upp á sam-tal við sam-tímann og það er það sem boðið er upp á þegar Rúrí gengur um sýninguna og ræðir við gesti um verk sín sunnudaginn 17. júlí kl. 15. Það er líka áhugavert að fá tækifæri til þess að sjá verk sem sýnd hafa verið víða en aldrei fyrr hér á landi og einnig eru á sýningunni verk sem listamaðurinn vann sérstaklega fyrir sýninguna og vakið hafa athygli gesta.

Mæling tímans út frá gangi sólar hefur lengi verið viðfangsefni Rúríar og í verki hennar Sólgátt sem senn rís við Sólheima í Grímsnesi er það einmitt einn af útgangspunktunum. Á sýningunni má sjá verk sem ber heitið Sólheimur þar sem finna má þær grunnforsendur sem útilistaverkið byggir á. Einnig er að sjá fleiri verk sem þar sem tími og tímamælingar eru skoðuð út frá ólíkum sjónarhornum sem og náttúruvitund í margvísandi og víðu samhengi.

Rúrí

Rúrí er fædd í Reykjavík 1951 og býr þar. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971-74, járnsmíði við Iðnskólann í Reykjavík 1974-75 og við De Vrije Academie í Haag Hollandi 1976-78. Rúrí lét snemma til sín taka og var einn af stofnendum Gallerís Lóu í Hollandi, Nýlistasafnsins á Íslandi og var virkur þátttakandi i stofnun SÍM, Sambands íslenskra myndlistarmanna. Hún hefur verið meðal forvígismanna fjölmargra listviðburða innanlands og utan svo sem Experimental Environment sem haldið var víðs vegar á Norðurlöndunum og hún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum tengdum myndlist. Sýningarferill Rúríar er umfangsmikill, bæði einka og samsýningar, hér á landi og á alþjóðlegum vettvangi og útilistaverk eftir hana hafa verið sett upp á Íslandi og víðar í Evrópu. Verk hennar hafa vakið athygli og eru að finna í safneignum fjölmargra einka og opinberra safna innanlands sem utan og árið 2011 gaf þýska listabókaforlagið Hatje Cantz út yfirgripsmikla bók um Rúrí. Hún hefur einnig notið ýmissa annarra viðurkenninga, svo sem unnið samkeppnir um gerð útilistaverka og verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2003.

Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis, en eru sett fram með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúr, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndaverk, videoverk, ljósmyndaverk, hljóðverk, blönduð tækni, tölvuvædd og gagnvirk verk.

www.ruri.is

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn