Articles

Heimkynni

Sigrid Valtingojer

Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns ASÍ og Listasafns Árnesinga, þar sem það fyrrnefnda leggur til verkin, allt grafíkverk, en í hinu síðarnefnda er sýningin sett upp. Sigrid Valtingojer fæddist 1935 en við andlát sitt 2013 hafði hún arfleitt Listasafn ASÍ að öllum verkum sínum, um 300 alls, ásamt ýmsum gögnum þeim tengdum. Í safneign Listasafns Árnesinga er skráð eitt verk eftir Sigrid og nú gefst tækifæri til þess að bæta þar við mikilvægum upplýsingum um feril hennar og miðla til gesta. Sýningarstjóri er Aðalheiður Valgeirsdóttir listfræðingur og myndlistarmaður.

Auk þess að gefa innsýn í ólíkar aðferðir grafíklistar sem var aðalviðfangsefni Sigridar er hér kynntur heimsborgari því hún nam bæði erlendis og hér á landi, sýndi og starfaði víða og hlaut viðurkenningar fyrir list sína. Sem barn, við lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945, kynntist Sigrid því að vera flóttamaður þegar fjölskylda hennar var svift eignum og rekin brott frá heimkynnum sínum í Súdeta-héruðum Tékkóslóvakíu. Þau flúðu til Thüringen héraðs Þýskalands og settust að lokum að í Jena sem þá var á sovésku yfirráðasvæði. Í lok ársins 1947 flúði fjölskyldan til Vestur-Þýskalands. Fullorðin valdi Sigrid Ísland sem heimkynni sín, en árið 1961 settust hún hér að og hér skildi hún eftir arfleifð sem á rætur í evrópskri menningu.

Sýningin Heimkynni mun standa til og með 18. júní.


Sigrid Valtingojer (1935-2013)

fæddist í Teplitz í Tékklandi, en var búsett í Þýskalandi á árunum 1945-1961. Hún stundaði nám í Frankfurt/Main, Institut für modegrafik á 1954-1958. Hún fluttist til Íslands árið 1961 og vann við auglýsingateiknun fyrstu árin. Sigrid lauk námi frá Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1979 og kenndi við grafíkdeild skólans á árunum 1986-2001. Hún var gestakennari og gestalistamaður við Kyoto Seika listaháskólann í Kyoto 1990 og stundaði framhaldsnám við Winchester School of Art í Barcelona 2001-2002. Sigrid hélt fjölda einkasýninga hér á landi og erlendis og verk eftir hana eru í eigu helstu safna á Íslandi og víða um heim. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Grand Prix 1987 á alþjóðlegri grafíksýningu í Biella á Ítalíu. Umhverfis- og friðarmál voru henni hugleikin. Hún var ötul baráttukona fyrir frjálsri Palestínu og fór þangað sem sjálfboðaliði árð 2003. Hún hélt sýningar fyrir málstaðinn hér á landi og í Þýskalandi.

Aðalheiður Valgeirsdóttir

(1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014, og BA-gráðu í listfræði með menningarfræði sem aukagrein árið 2011. Í upphafi myndlistarferils síns vann Aðalheiður aðallega grafíkverk en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni, en hún fæst auk þess við teikningar og vatnsliti. Hún hefur haldið á 3. tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Undanfarið hefur hún einnig tekið að sér sýningarstjórnun og var ásamt Aldísi Arnardóttur sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög – Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir sem sett var upp í Listasafni Árnesinga á síðasta ári.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn