Articles

Undirstaða og uppspretta
– sýn á safneign

Upphaf Listasafns Árnesinga er rakið til gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona á 42 málverkum til Árnesinga sem unnin voru af helstu myndlistarmönnum þess tíma. Gjöfin var afhent 19. október 1963 og var komið fyrir á Selfossi. Þetta var jafnframt fyrsta listasafnið utan Reykjavíkur sem opið var almenningi. Bjarnveig hélt áfram að gefa listaverk í safnið og nokkrum árum síðar bættist önnur stór gjöf við þegar Halldór Einarsson tréskurðarmeistari gaf æviverk sitt og peningagjöf sem var hvati þess að hús yfir þessar tvær stóru gjafir var reist og var það vígt á Selfossi 1974. Smám saman hefur síðan bæst við safneignina og þrjátíu og átta árum eftir að safnið var fyrst aðgengilegt almenningi var sú ákvörðun tekin að flytja Listasafn Árnesinga í Hveragerði í enn stærra hús sem væntingar voru bundnar við að gæti verið sú umgjörð er gæfi safninu fleiri tækifæri til eflingar m.a. með fjölbreyttu sýningarhaldi og menningardagskrá.

Í safneign Listasafns Árnesinga eru varðveitt um það bil 550 listaverk. Með sýningunni Undirstaða og uppspretta – sýn á safneign er sjónum einkum beint að þeim verkum sem nýlega hafa bæst í safneignina en einnig að nokkrum öðrum verkum sem flest hafa ekki verið sýnd áður í safninu. Heiti sýningarinnar vísar í það að undirstaða safnastarfs er safneignin og hún er varðveitt til þess að vera öðrum uppspretta til frekari sköpunar bæði nú og í framtíðinni. Á sýningunni eru verk eftir sjö ólíka listamenn sem fæddir eru á árunum 1874-1951. Flest verkin á sýningunni koma úr nýlegri gjöf til safnsins frá Listaverkasafni Valtýs Péturssonar.

Þessir listamenn eru höfundar verkanna á sýningunni:

  • Einar Jónsson (1874-1954),
  • Ásgrímur Jónsson (1876-1958),
  • Kristinn Pétursson (1896-1981),
  • Jóhann Briem (1907-1991),
  • Valtýr Pétursson (1919-1988),
  • Guðmundur Benediktsson (1920-2000)
  • Ólafur Lárusson (1951-2014)

Á sýningunni liggja einnig frammi bækur sem ritaðar hafa verið um myndlist þessara listamanna og gestir sýninganna eru líka hvattir til þess að láta verkin verða hvata eigin sköpunar með pappír og litum sem þeim stendur til boða.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn