Articles

Tohuku sýning Listasafn Árnesinga

TOHOKU með augum japanskra ljósmyndara

1. febrúar - 22. mars

Á sýningunni má sjá verk eftir níu japanska ljósmyndara og einn ljósmyndarahóp og eru allir virtir og vel kynntir í sínu heimalandi sem utanlands. Sýningin er unnin að frumkvæði Japan Foundation sem fól einum fremsta ljósmyndagagnrýnanda landsins, Kotaro Iizawa, sýningarstjórnina. Viðfangsefnið var að endurspegla lífið og menninguna í TOHOKU í fortíð, nútíð og jafnvel framtíð, með augum ljósmyndunar, sem mótvægi við þær ljósmyndir sem fóru um heim allan í kjölfar hörmunganna vegna stóra jarðskjálftans 2011. Tohoku er jaðarsvæði á norðaustur hluta eyjarinnar Honsu sem er stærsta eyja Japans. Svæðið er búið einstökum og ríkulegum náttúruauðlindum þannig að landbúnaður, fiskveiðar og skógarhögg  blómstrar þar, en þrátt fyrir náttúrugæði sín markast saga Tohoku einnig af erfiðri lífsbaráttu.

Ljósmyndararnir eru allir fæddir í Tohoku á árunum 1917 – 1974 og endurspegla því mismunandi tíma, stíla og sjónarhorn. Sýningin hefur verið á ferð um heiminn frá árinu 2012 og ánægjulegt að fá tækifæri til þess að kynna hana hér á landi því þótt margt sé ólíkt milli þessara tveggja þjóða, Japan og Íslands, þá er ýmislegt sem sameinar eylöndin tvö, svo sem jarðskjálftar, eldfjöll, heitir hverir og fiskveiðar.

Sýningin er sett upp í Listasafni Árnesinga í samvinnu við Sendiráð Japans á Íslandi og sendiherrann herra Yasuhiko Kitagawa mun opna sýninguna. Á sýningartímanum verður einnig fengist við japanska menningu svo sem origami og kalligrafíu í fjölskyldusmiðjum safnsins.

Upplýsingar um ljósmyndara

Teisuke Chiba

Fæddur í Kakunodate í Akita-umdæminu árið 1917. Bjó í Yokote í Akita-umdæminu allt sitt líf. Hann var sjálfmenntaður í ljósmyndun. Stuttu eftir seinni heimsstyrjöldina fór hann að vinna verðlaun ljósmyndatímarita sem komu út mánaðarlega og voru helguð verkum lesenda. Þrátt fyrir að vera áhugamaður varð hann mikilsvirtur ljósmyndari í Akita. Flestar myndir hans spegla ást hans á Akita, en hann tók myndir af siðum og lífsháttum bænda í héraðinu sem hann bjó í, sem er afar snjóþungt svæði. Raunsæisstefna í ljósmyndun sem ríkti eftir stríðið og Ken Domon og Ihei Kimura voru í forsvari fyrir, hafði mikil áhrif á Chiba og aðra ljósmyndara í Akita.  Metnaðarfull félög ljósmyndara voru sett á fót, svo sem Akita-ljósmyndarahópurinn (stofnaður árið 1952, nafninu var breytt í Hópur Akita árið 1954) en myndir þeirra sameinuðu húmanisma og blákaldan raunveruleika. Heimildaljósmyndir Chiba af bændaþorpum á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar voru meðal nýstárlegustu og snjöllustu myndanna sem þessi hópur birti. Magakrabbamein varð Chiba að aldurtila árið 1965, hann var þá 48 ára gamall. Vinir og starfsfélagar settu upp sýningu á ljósmyndum hans að honum látnum í Fuji Photo Salon í Tokyo árið 1966 og gáfu út Teisuke Chiba isaku shu (Samsafn ljósmynda eftir Teisuke Chiba heitinn).  Áhugi á verkum hans hefur vaknað á síðustu árum.


Ichiro Kojima

Fæddur í Aomori árið 1924, sonur kaupmanns sem verslaði með leikföng og ljósmyndavörur. Hann útskrifaðist frá Verslunarskólanum í Aomori og var kvaddur í herþjónustu meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð. Mikil óreiða ríkti á tímabili eftir stríðið en árið 1954 hóf hann að starfa af fullum krafti sem ljósmyndari. Myndefni hans var dæmigerðar landslagsmyndir af Tohoku – hlað fyrir utan bóndabæ í Tsugaru eða einmanaleg gata í vetrarnæðingi. Yonosuke Natori, brautryðjandi á sviði blaðaljósmynda, uppgötvaði Kojima og dáðist að hæfni hans til að framleiða myndir sem upphefja hversdagslífið með afbragðs tilfinningu fyrir formum og snilldartækni. Kojima hélt sína fyrstu einkasýningu í Konishiroku-ljósmyndagalleríinu í Tokyo árið 1958. Hann flutti til Tokyo árið 1961 og stefndi á að verða atvinnuljósmyndari. Tímaritið  Camera Geijutsu  veitti honum verðlaun sem athyglisverðasti nýliðinn árið 1961 fyrir Seas of Úfið haf Akita, ljósmynd sem hafði verið birt þetta sama ár. Ferill Kojima virtist lofa góðu en hann dalaði eftir að hann flutti til Tokyo. Hann fór til Hokkaido árið 1963 í von um að hleypa nýju lífi í verk sín en erfiðar aðstæður þar höfðu skaðleg áhrif á heilsu hans. Eina bókin með myndum eftir hann sem gefin var út meðan hann var enn á lífi, Tsugau shi, bun, shashin shu (Tsugaru: Ljóðlist, laust mál og ljósmyndir) kom út þetta sama ár. Hann dó ungur, aðeins 39 ára gamall árið 1964. Kojima hafði sterka samkennd með fólkinu sem bjó í harðbýlu umhverfi Tohoku og skapaði sérlega áhrifamikil prent með því að beita möskun við gerð þeirra og einnig eftirmyndanna. Myndir hans hafa verið sýndar á fjölda sýninga síðan hann lést og orðstír hans fer vaxandi.


Hideo Haga

Fæddur í Dairen í Kína, árið 1921. Varð fyrir áhrifum frá  Shinobu Orikuchii, sem var þjóðháttafræðingur við Hugvísindasvið Keio-háskólans. Hann var stofnmeðlimur Félags atvinnuljósmyndara í Japan sem sett var á fót árið 1952. Hann myndar hátíðir og hefðbundnar sviðslistir í Japan og í öðrum löndum.  Hann hefur tekið myndir í öllum héruðum Japans og 101 erlendu landi.  Hann var stjórnandi Festival Plaza á Expo 70 heimssýningunni í Osaka og hefur tekið þátt í mörgum öðrum uppákomum og starfsemi af ýmsu tagi. Meðal stærri útgefinna verka hans má telja Ta no kami (Guð hrísgrjónaakranna) (Heibonsha, 1959), Nihon no matsuri (Japanskar hátíðir) (Hoikusha, 1991), og Nihon no minzoku jo, ge (Japönsk alþýða, tvö bindi) (Cleo 1997). Meðal verðlauna má telja Silfur-heiðursorðu Vínarborgar, Austurríki 1988; Purpuraborðann árið 1989 og Orðu hinnar rísandi sólar, fjórða stig árið 1995; svo og Heiðurskross lista og vísinda frá austurríska lýðveldinu árið 2009.


Masatoshi Natio

Fæddur árið 1938 í Tokyo. Gerðist sjálfstætt starfandi ljósmyndari eftir að hafa lokið námi  í hagnýtum vísindum  frá Waseda-háskólanum og unnið fyrir  trefjafyrirtæki. Hann ljósmyndaði múmíur Búddamunka sem höfðu dáið meðan þeir föstuðu til að bjarga sveltandi bændum í Dewa Sanzan og fór að taka myndir sem beindu athyglinni að þjóðtrú og þjóðháttafræði Tohoku. Samtök japanskra ljósmyndagagnrýnenda veittu honum verðlaun sem athyglisverðasti nýliðinn árið 1966. Hann tók þátt í Ný japönsk ljósmyndalist í MOMA, New York árið 1974 og Handan við Japan í Barbican listamiðstöðinni í London árið 1991. Hann hélt einkasýningu MASATOSHI NAITO (ljósmyndun og þjóðsögur) í Listasafni Kichijoji árið 2009. Hann hlaut aðra Domon Ken viðurkenningu fyrir bók sína Dexa Sanzan and Shugen (Kosei útgáfufélagið 1982). Meðal annarra ljósmyndabóka má telja Miira shinko no kenkyu (Athugun á múmíu-trúarbrögðum) sem heyra undir þjóðháttarannsóknir (DaiwaShobo, 1974) og Tohoku no sei to sen (Helgi og vanhelgi Tohoku) (Housei University Press, 2007).


Hiroshi Oshima

Fæddur í Morioka í Iwate-umdæminu árið 1944. Hann vakti atygli með Sanhei-syrpunni 1973-1977, í Tanohata, Iwate/Ohashi Gallerí, Tokyo, en hún fjallaði um stað í heimasveit hans þar sem bændauppreisn braust út á Edo-tímabilinu. Hann hlaut verðlaun Félags ljósmyndara fyrir ljósmyndabókina Koun no machi (Gæfubærinn) árið1987. Hann hlaut 28. verðlaun Ina Nobuo fyrir sýninguna Þúsund andlit,  þúsund lönd – Eþíópía árið 2003. Hann stofnaði tímarit um ljósmyndagagnrýni, Shashin sochi (Verkfæri ljósmyndunar) (Gendaishokan, 1980) og var ritstjóri þess. Meðal ljósmyndabóka og skýringarrita má nefna Koun no machi (1987), Shashin genron (Kenning tálsýna í ljósmyndun) (Shobunsha, 1989), Aje no Pari (Misuzu Shobo, 1998); hann ritstýrði Tokyo Metropolitan Museum of Photography Library, Re-recorded Commentary on Photography 1921-1965 (Tankosha, 1999), 101 World Photographers (101 heimsljósmyndarar)(Shinshokan, 1997) og svo framvegis. Kort af bænum Tairajima  (PUT, Kagoshima, 1975-80), og dah-dah-sko-dah-dah To Kenji Miyazawa (Petit Musee, Tokyo, 1996) hafa verið sýndar á mörgum ljósmyndasýningum. Í dag er hann meðlimur í dagskrárnefnd  Nikon Salon,  stjórnarmeðlimur hjá Goethe minningarsafninu í Tókýó, prófessor við Graduate School of Fine Arts, Listfræðasvið Kyushu Sangyo-háskólans og leiðbeinandi við Hönnunarskólann í Kuwasawa.


Meiki Lin

Fæddur í Yokosuka, Kanawaga-umdæminu árið 1969. Hann fór að læra ljósmyndun upp á eigin spýtur, 18 ára gamall. Hann hélt ljósmyndasýningar í sýningarsölum Fuji víðsvegar um Japan, og sýndi meðal annars Mt. Amakazari (1998), frægt fjall sem stendur á milli umdæmanna Niigata og Nagano,  Við vatnsbakkann (2001), sem sýnir fegurð vatnsins og hið einstaka landslag sem tengist vötnum í Japan, og Stund í skóginum (2004) sem sýnir skóga Japans. Sýningin Chikyu (hoshi) no tabibito (Hugleiðingar um Gaju: Ný sjónarsvið í náttúruljósmyndun) var sett upp í Tokyo Metropolitan-ljósmyndasafninu 2007 og var síðan flutt í Borgarlistasafnið í Matsumoto. Fukushima borgarljósmyndasafnið stóð fyrir sýningunni  Arata naru takami e (Nýjar hæðir). Hann gaf út ljósmyndabókina Treasures of season  (Nihon Shashin Kikaku, 2011) þar sem hann kannar landslag vítt og breitt í Japan með stafrænni myndavél og hélt sýningu með sama titli í sýningarsal Canon. Hann sat í ljósmynda dómnefnd fyrir East-West-verðlaunin í London árið 2011. Hann gaf ljósmyndir á leiðtogafund Indlands og Japans um hnattræna samvinnu árið 2011, sem haldinn var í Tadami. Hann heldur áfram að taka myndir sem tjá hárfínan hugblæ og gagnsæi náttúrulandslagsins. Hann er forstjóri Meirin Co hf., leiðbeinandi  hjá Club Tourism International Inc. og framkvæmdastjóri Kibo-ljósmyndaskólans.


Masaru Tatsuki

Fæddur í Toyama-umdæminu árið 1974. Gerðist sjálfstæður ljósmyndari sem beindi athygli sinni að listrænt skreyttum trukkum árið 1998. Hann eyddi næstu níu árum í að ljósmynda þá og bílstjóra og birti myndirnar í DECOTORA (Little More, 2007).  Hann hélt einkasýningu, DECOTORA í Little More chika í Tokyo og  í TAI Galleríinu í Santa Fe, Nýju Mexíkó, BNA. (2008). Hann tók ljósmyndir í Tohoku-héraðinu frá 2006 til 2011 og birti þær í Tohoku (Little More, 2011) og hlaut fyrir þær 37. Kimura Ihei ljósmynda minningarverðlaunin árið 2012. Hann hefur nú gert Tohoku að lífstíðarverkefni og heldur áfram að heimsækja héraðið, spjalla við fólk og taka ljósmyndir sem sýna virðingu fyrir náttúrunni. New Mexico Arts sem er deild út frá menntamálaráðuneyti Nýju-Mexíkó keypti nokkrar mynda hans úr DECOTORA-syrpunni.


Sendai-hópurinn

Toru Ito, Shiro Ouchi, Makoto Kotaki, Wataru Matsutani, Hidekazu Katakura, Hisashi Saito, Ryuji Sasaki, Reiko Anbai.

Sendai-hópurinn samanstendur af hóp ljósmyndara sem búa í Sendai og er rekinn af Toru Ito. Markmið hópsins er að varðveita venjulegt landslag borgarinnar sem er að verða að engu í straumi tímans og mun brátt hverfa á vit gleymskunnar. Þeir byrjuðu að vinna þetta verkefni árið 2001 og stefndu á að taka 10.000 heimildaljósmyndir af landslaginu eins og það er í dag. Þeir settu sér reglur til að ná þessu markmiði  ̶  að útmá huglægni og stílbrög úr myndum sínum og forðast að nota linsubrellur eins og t.d. óskerpu eða fjarvíddaráhrif. Hópurinn hefur haldið 15 sýningar í Sendai og gefið úr tvö bindi af bókinni Sendai söfnunin, 1. bindi árið 2005 og 2. bindi árið 2007.


Nao Tsuda

Fæddur í Kobe í Hyogo-umdæminu árið 1976. Hann lauk BA-prófi og framhaldsnámi í ljósmyndun við Osaka-listaháskólann. Hann hefur ferðast víða um heiminn og tekið myndir af landslagi, stöðum og fólki með „ljósmyndastílbragði“ sínu, sem lýsa má þannig að hann hafi sett sér það verkefni að rannsaka „hugmyndir sem ná út yfir tíma og rúm“ og „uppruna hugmynda“. Hann kemur að ljósmyndun eins og nútímalist, stíll hans að kafa djúpt ofan í jafnt gömul sem ný þemu, sýnir mann sem leitar sannleikans í listinni. Orðstír kyrrlátra verka hans fer vaxandi í Japan og erlendis og hann hefur haldið einkasýningar í New York, París og Frankfurt á síðustu árum.  Í Japan vakti bók hans SMOKE LINE (Línumökkur), sem Shiseido-galleríið kynnti árið 2008, mikla athygli.  Hann hlaut verðlaun menntamálaráðherra sem athyglisverðasti nýliðinn á sviði fagurlista árið 2010. Meðal útgefinna verka hans eru Kogi (MONDE Books 2007), SMOKE LINE  (AKAAKA, 20080), Coming Closer (AKAAKA+hiromiyoshii, 2009), og Storm Last Night (AKAAKA, 2010).


Naoya Hatakeyama

Fæddur í Rikuzentakata í Iwate-umdæminu árið 1958. Hann lærði hjá Kiyoji Otsuji við Lista- og hönnunarskóla Tsukuba-háskólans. Hann lauk framhaldsnámi við Tsukuba-háskólann árið 1984. Hann stofnaði heimili, fór að vinna í Tokyo og bjó til ljósmyndasyrpu þar sem hann beindi atyglinni að sambandinu milli náttúrunnar, borgarinnar og ljósmynda. Myndir hans af kalknámum, byggingasvæðum og skurðum í Tokyo vöktu athygli. Hann hlaut 22. Kimura Ihei-ljósmyndaverðlaunin og 42. Mainchini-listverðlaunin árið 2001. Hann hefur tekið þátt í mörgum einka- og hópsýningum innan Japans og erlendis. Hann var valinn fulltrúi Japans á Feneyja tvíæringnum árið 2001. Meðal stærri sýninga á síðustu árum má nefna Draftsman‘s Pencil (Blýantur teiknarans) í Nýlistasafni Kamakura árið 2007 og Natural Stories (Náttúrusögur) í  Tokyo Metropolitan ljósmyndasafninu árið 2011, Huis Marseille ljósmyndasafninu og Nýlistasafni San Fransisco árið 2012. Meðal stærri ljósmyndabóka hans má nefna LIME WORKS (Synergy hf., 1996, amus arts press, 2002, Seigensha, 2007), Underground (Media Factory hf., 2000), Naoya Hatakeyama (Hatje Cantz, 2002), Ciel Tombé (SUPER LABO, 2011), og Terrils (Light Motiv, 2011). Hann ljósmyndaði eyðileggingu heimabæjar síns sem jarðskjálftinn mikli í Japan olli árið 2011.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn