Heitar ástríður í Hveragerði

Síðasta sýningarhelgi

Heitar ástríður í Hveragerði - tangó og tal um myndlist Magnúsar Kjartanssonar

sunnudaginn 20. júlí kl. 15

Sunnudaginn 20. júlí kl. 15 mun Kristín Bjarnadóttir ljóðskáld lesa úr ljóðum sínum um argentínskan tangó og í kjölfarið ræða þær Inga Jónsdóttir safnstjóri og Kolbrún Björgólfsdóttir, Kogga, leirlistamaður og ekkja listamannsins um verk Magnúsar við gesti sýningarinnar.

Síðasti sýningardagur á verkum Magnúsar Kjartanssonar í Listasafni Árnesinga er nk sunnudag, 20. júlí. Sýningunni hefur verið vel tekið enda fjórtán ár frá því hægt hefur verið að skoða verk Magnúsar á stórri sýningu. Verkin marka mikið umbrotatímabil í list hans og hann vann með gamla ljósmyndatækni sem hann þróaði á sinn persónulega hátt. Hann reiddi sig minna á fágun og formtækni en áður og gekk nær sjálfum sér, bæði í myndefninu og aðferðunum við gerð myndanna. Líkamleg tjáning í þessum verkum er sterk og þar birtast handa og jafnvel fótaför innan um ágengar táknmyndir svo tjáning þeirra er einna líkust dansi og sterkir litir og kröftug teikning láta áhorfandann finna fyrir ástríðunni sem liggur að baki.

Tangó býr líka yfir ástríðu og er Kristínu Bjarnadóttur ljóðskáldi hugleikinn. Hún er menntaður leikari, hefur skrifað og þýtt leikhúsverk og hefur séð um eða tekið þátt í ýmsum menningardagskrám víða um land. Hún hefur lagt stund á jazzdans, nútímadans og afródans en áhugi hennar á tangó vaknaði þegar hún sá sýningu um sögu tangósins í dansi og tónlist með ýmsum stílbrögðum. Hún hefur dvalið í Buenos Aires og í textum sínum fjallar hún oft um tangóheiminn frá sjónarhóli tangóþyrstrar norrænar konu. Kristín er ættuð úr Húnavatnssýslu en er nú búsett í Svíþjóð. Hún hefur dvalið þennan mánuð í listamannaíbúðinni í Hveragerði.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12 – 18. Hægt er að kaupa m.a. kaffi, kakó og vöfflur í kaffistofu safnsins. Núverandi sýningu lýkur 20. júlí. Aðgangur er ókeypis.

Nánar um sýninguna - Listamaðurinn í verkinu - Magnús Kjartansson

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn