Listamaðurinn í verkinu - Magnús Kjartansson

á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2008

Verkin á sýningunni marka mikið umbrotatímabil í list Magnúsar þar sem reiddi sig minna á fágun og formtækni en áður og gekk nær sjálfum sér, bæði í myndefninu og aðferðunum við gerð myndanna. Magnúsi lynti ekki alltaf við samtíð sína en margt í list hans kallast sterkt á við verk yngri íslenskra listamanna, einkum hvað varðar sjálfsskilning listamannsins og líkamlega nálægð í verkunum. Líkamleg tjáning í þessum verkum er sterk og þar birtast handa og jafnvel fótaför innan um ágengar táknmyndir svo tjáning þeirra er einna líkust dansi og sterkir litir og kröftug teikning draga áhorfandann nær.

Um sýninguna
Magnús Kjartansson (1949-2006) vakti snemma mikla athygli en sýndi sjaldnar er á leið þótt sýningarnar vektu alltaf athygli. Magnúsi lynti ekki alltaf við samtíð sína en margt í list hans kallast sterkt á við verk yngri íslenskra listamanna, einkum hvað varðar sjálfsskilning listamannsins og líkamlega nálægð í verkunum. Magnús dó fyrir aldur fram en hafði þegar á ferli sínum tekist á við undramarga miðla, klippimyndir, málverk, skúlptúr, ljósmyndir og hvers konar þrykk.

Þessi sýning tekur á verkum sem Magnús vann á pappír milli 1982 og 1988. Aðeins fáein af þessum verkum hafa áður verið sýnd þótt nokkur hafi ratað í bæði almennings og einkasöfn. Í þeim má rekja tilraunir Magnúsar með ýmsar ljósprentsaðferðir sem gerðu honum kleift að þrykkja hluti, myndir og jafnvel eigin líkama beint á pappírinn. Í mörgum myndunum má síðan sjá hvernig Magnús hefur unnið þær áfram, stundum með kemískum aðferðum en stundum með málningu. Verkin sýna hvernig endurtekin form, myndir og tákn verða að persónulegu myndrænu tungumáli og saman eru þau til vitnis um einstæða listræna rannsókn Magnúsar sem ögraði ekki einasta viðurkenndum aðferðum heldur var líka afar nærgöngull í sjálfsskoðun og fól í sér gagnrýnið endurmat á hlutverki listamannsins og erindi hans í listinni.
Slík viðfangsefni hafa orðið æ algengari í list nýrrar kynslóðar listamanna sem greinilega upplifa eitthvað í list og samfélagi vorra tíma svipað því sem Magnús var að takast á við á níunda áratugnum.
Sýningarstjóri er Jón Proppé.

Ferill listamannsins
Magnús Kjartansson (1949-2006) byrjaði að mála strax í menntaskóla í Reykjavík og sótti námskeið hjá Herði Ágústssyni. Þegar hann hafði lokið stúdentsprófi 1969 hóf hann nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands  þar sem hann var til 1972 en það ár hélt hann sýningu ásamt Sigurði Örlygssyni í Norræna húsinu áður en hann fór utan til Kaupmannahafnar og var næstu þrjú árin við nám í Konunglegu listaakademíunni, meðal annars hjá hinum þekkta danska málara Richard Mortensen. Að námi loknu sýndi Magnús á Kjarvalsstöðum 1976 og næstu árin kvað strax mikið að honum. Hann sýndi klippimyndir, skúlptúra, málverk og hvers konar þrykk en hvar sem hann bar niður þekktist sterkt handbragð og afstaða höfundarins. Þessi leit í hinum ýmsu miðlum og aðferðum einkenndi list Magnúsar alla tíð og með hverri sýningu birti hann ekki aðeins ný verk heldur nýja aðferð og nýja hugsun. Magnús lést fyrir aldur fram árið 2006.

Ferill sýningarstjóra
Jón Proppé (fæddur 1962) lærði heimspeki við Illinois-háksóla í Bandaríkjunum en býr og starfar í Reykjavík. Hann hefur skrifað mikið um menningu og listir, mörg hundruð sýningarumfjallanir, greinar og bókakafla, auk greina í á annað hundrað sýningarskráa hér á Íslandi, á Norðurlöndum, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Hann hefur líka stýrt sýningum fyrir söfn og aðrar stofnanir á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Þýskalandi. Um tíma stýrði hann Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, í afleysingum og hefur gegnt ýmsum opinberum ábyrgðarverkefnum síðan. Jón hafur líka starfað að bókaútgáfu, bæði sem ritstjóri og hönnuður, kennt, haldið fyrirlestra og leitt ráðstefnur, auk þess sem hann hefur komið að gerð margra heimildamynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahús. Jón er einn þeirra höfunda sem nú starfa við að skrifa nýja sögu íslenskrar myndlistar á tuttugustu öld.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn