Listamenn

Sköpun sjálfsins

Sköpun sjálfsins

expressjónismi í íslenskri myndlist frá 1915 til 1945

Á sýningunni eru verk eftir frumkvöðla íslenskrar nútímalistar sem urðu fyrir áhrifum frá verkum þýskra og franskra expressjónista á fyrstu áratugum 20 aldarinnar. Verkin spanna þrjátíu viðburðarík ár þar sem saga íslenskrar myndlistar fléttast saman við menningarlega og pólitíska sjálfstæðisbaráttu millistríðsáranna, sem lýkur þegar Ísland fær sjálfstæði árið 1944. Í upphafi tímabilsins voru flestir frumkvöðlar íslenskrar nútímalistar búsettir í Kaupmannahöfn, en á þriðja áratugnum eru þeir fluttir aftur til Íslands, þar sem ný kynslóð listamanna var að vaxa úr grasi. Íslensku listamennirnir urðu fyrir áhrifum frá frumkvöðlum expressjónismans, stefnu frjálsrar tjáningar, sem kollvarpaði eldri gildum og skapaði ný. Verkin á sýningunni sýna bæði hvernig áhrif expressjónistanna birtast í verkum íslensku listamannanna, en einnig hvernig þeir vinna úr þessum áhrifum og gera þau að sínum.

MEOMargrét Elísabet Ólafsdóttir, sýningarstjóriEftirtaldir eru höfundar verkanna á sýningunni:

Finnur Jónsson (1892-1993)
Gunnlaugur Scheving (1904-1972)
Jóhann Briem (1907-1991)
Jóhannes S. Kjarval (1885-1972)
Jón Engilberts (1908-1972)
Jón Stefánsson (1881-1962)
Muggur (1891-1924)
Snorri Arinbjarnar (1901-1958)
Svavar Guðnason (1909-1988)

Flest verkanna eru fengin að láni frá Listasafni Íslands, en verk frá einkaaðilum og úr safneign Listasafns Árnesinga eru einnig á sýningunni.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er lektor við Háskólann á Akureyri og sjálfstætt starfandi fræðimaður, gagnrýnandi, sýningar- og verkefnastjóri. Hún er stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni og stundaði háskólanám í listum, boðskiptafræðum og fagurfræði við Parísarháskólann Sorbonne-Panthéon. Hún lauk doktorsprófi í list- og fagurfræði frá sama skóla árið 2013. Margrét starfaði sem blaðamaður frá 1987 til 2000, var deildarstjóri listaverka- og sýningardeildar Listasafns Íslands í eitt ár, frá 2000 til 2001, og stundakennari við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands á árunum 2002 til 2015. Hún var ein af sýningarstjórum sýningarinnar Sjónarmið – á mótum myndlistar og heimspeki í Listasafni Reykjavíkur árið 2011 og setti upp sýninguna Íslensk vídeólist frá 1975-1990 í sama safni árið 2013. Viðfangsefni rannsókna Margrétar hafa aðallega beinst að raf- og stafrænum listum á Íslandi, en undanfarið hefur hún einbeitt sér að því að skoða íslenska nútímalist. Árið 2014 var hún sýningarstjóri sýningarinnar Snertipunktar í Listasafni Árnesinga þar sem tekin voru fyrir verk tveggja listamannahópa. Í sýningarskrá ritaði Margrét grein um félagslegt samhengi myndlistar í sögulegu ljósi og velti fyrir sér starfsumhverfi íslenskra myndlistarmanna. Margrét sat í dómnefnd fyrir sýninguna Sumar sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er fædd árið 1965 og ólst upp í Hveragerði og á Selfossi. Hún er nú búsett á Akureyri.

Alþjóðlegi safnadagurinn og Gilitrutt

Alþjóðlegi safnadagurinn og Gilitrutt

Söfn og samfélög um heim allan hafa fagnað Alþjóðlega safnadeginum í kringum 18. maí ár hvert frá árinu 1977 og er markmiðið að vekja athygli á mikilvægi safna í þróun samfélagsins. Yfirskrift dagsins í ár er „Söfn og umdeildar sögur: að segja það sem ekki má í söfnum“

Báðar sýningarnar HEIMKYNNI – Sigrid Valtingojer og ÓÞEKKT – Tinna Ottesen taka á málefnum samtímans sem eru sumum erfið, þe. málefni flóttamanna (Heimkynni) og tengsl okkar við náttúruna (Óþekkt). Sjá líka safnmenn.is/safnadagur

Söfn eru vettvangur samskipta og á safnadaginn, fimmtudaginn 18. maí kl. 18:00 verður boðið upp á sýningu á óperunni Gilitrutt eftir Þórunni Guðmundsdóttur og flytjendur eru söngnemendur, eldri strengjasveit og blásarar frá Tónlistaskóla Árnesinga. Flutningur óperunnar tengist þema vetrarins hjá skólanum sem er „Kventónskáld“.

Aðgangur að safninu og óperunni er ókeypis og allir velkomnir.

Óþekkt

Óþekkt - eftir Tinnu Ottesen

er staðbundin innsetning sem hólfuð er í þrjú rými og inn í innsta rýmið á bara einn að fara í einu. Áður en gengið er þar inn er hægt að virða fyrir sér myndskeið að öðrum innsetningum Tinnu þar sem hún er að vinna með sömu hugmyndir. Verkið býður upp á heimspekilegar vangaveltur og vekur vonandi fleiri spurningar en svör og það er hvers og eins að leita þeirra og svara.

Efni hegða sér á ólíkan hátt; eiginleikar þeirra eru mismunandi, efni geta vísað í söguna eða staðið sem myndlíking fyrir eitthvað annað. Hvaðan er það fengið, hvernig er það unnið og hvaða áhrif hefur það á okkur og umhverfið?

Innsetningin sem stóð uppi í apríl og maí var unnin úr plasti, en nú er hún unnin úr latex. Það er efni með aðra eiginleika og nýjar spurningar vakna. Og þar sem þetta er gagnvirk innsetning þá getur efnið líka gefið sig og verkið breyst af þeim sökum.

Verkið í heild hverfist líka um hið háleita sublim sem nefnt hefur verið ægifegurð á íslensku. Á rómantíska tímabilinu vísaði ægifegurðin til smæð mannsins andspænis ógnarkrafti náttúrunnar en nú er farið að túlka það sem ógnarkraft tæknivæðingarinnar. Er maðurinn hluti af náttúrunni – eða teljum við okkur yfir hana hafin með því að ætla að stjórna öllu – og getum við það?

Munið þið hafa stjórn á öllum aðstæðum þegar það gangið inn í Óþekkt Tinnu? Er verið að vísa í hið ókunna eða óþekka hegðun? Er það efnið sem er óþekkt eða er það sá sem fer inn? Og er öllu óhætt?


Tinna Ottesen

Tinna er fædd 1980. Hún stundaði nám í sjónrænum samskiptum við konunglega danska hönnunar og arkitektaskólann og sviðshönnun (production design) við danska kvikmyndaskólann í Kaupmannahöfn á árunum 2002-2009. Meðan á náminu stóð var hún einnig skiptinemi við Listaháskóla Íslands einn vetur og í starfsþjálfun við Zentropa í Danmörku. Tinna fékk inngöngu í a·pass (advanced performance and scenography studies) skólann í Belgíu og lauk þaðan post-master-gráðu 2016.

Allt frá árinu 2009 hefur Tinna unnið með fjölbreyttum hópum skapandi fólks (myndlistarmönnum, leikhúsmönnum, kvikmyndafólki, tónlistarfólki, hönnuðum) að ýmsum verkefnum sem mörg hver hafa unnið til viðurkenninga. Þar má nefna Neo Geo hópinn sem hefur skipulagt og framkvæmt tónleika neðanvatns í Sundhöll Reykjavíkur, hönnunarverkefni um miðbæ Hveragerðis sem fékk sérstaka viðurkenningu, heimildarkvikmyndina The Gentlemen sem vann til áhorfendaverðlauna á RIFF kvikmyndahátíðinni 2009 og Eins og í sögu (Storydelicious) á Hönnunarmars 2013 sem var innsetning og létt máltíð í senn; upplifun sem örvaði öll skilningarvitin og vann til hönnunarverðlauna Grapevine sem verkefni ársins. Tinna hefur unnið að verkefnum hér á landi og víða í Evrópu, nú síðst í Hamborg áður en hún setti verkið Óþekkt upp hér.
tinnaottesen.com

Heimkynni

Heimkynni

Sigrid Valtingojer

Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns ASÍ og Listasafns Árnesinga, þar sem það fyrrnefnda leggur til verkin, allt grafíkverk, en í hinu síðarnefnda er sýningin sett upp. Sigrid Valtingojer fæddist 1935 en við andlát sitt 2013 hafði hún arfleitt Listasafn ASÍ að öllum verkum sínum, um 300 alls, ásamt ýmsum gögnum þeim tengdum. Í safneign Listasafns Árnesinga er skráð eitt verk eftir Sigrid og nú gefst tækifæri til þess að bæta þar við mikilvægum upplýsingum um feril hennar og miðla til gesta. Sýningarstjóri er Aðalheiður Valgeirsdóttir listfræðingur og myndlistarmaður.

Auk þess að gefa innsýn í ólíkar aðferðir grafíklistar sem var aðalviðfangsefni Sigridar er hér kynntur heimsborgari því hún nam bæði erlendis og hér á landi, sýndi og starfaði víða og hlaut viðurkenningar fyrir list sína. Sem barn, við lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945, kynntist Sigrid því að vera flóttamaður þegar fjölskylda hennar var svift eignum og rekin brott frá heimkynnum sínum í Súdeta-héruðum Tékkóslóvakíu. Þau flúðu til Thüringen héraðs Þýskalands og settust að lokum að í Jena sem þá var á sovésku yfirráðasvæði. Í lok ársins 1947 flúði fjölskyldan til Vestur-Þýskalands. Fullorðin valdi Sigrid Ísland sem heimkynni sín, en árið 1961 settust hún hér að og hér skildi hún eftir arfleifð sem á rætur í evrópskri menningu.

Sýningin Heimkynni mun standa til og með 18. júní.


Sigrid Valtingojer (1935-2013)

fæddist í Teplitz í Tékklandi, en var búsett í Þýskalandi á árunum 1945-1961. Hún stundaði nám í Frankfurt/Main, Institut für modegrafik á 1954-1958. Hún fluttist til Íslands árið 1961 og vann við auglýsingateiknun fyrstu árin. Sigrid lauk námi frá Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1979 og kenndi við grafíkdeild skólans á árunum 1986-2001. Hún var gestakennari og gestalistamaður við Kyoto Seika listaháskólann í Kyoto 1990 og stundaði framhaldsnám við Winchester School of Art í Barcelona 2001-2002. Sigrid hélt fjölda einkasýninga hér á landi og erlendis og verk eftir hana eru í eigu helstu safna á Íslandi og víða um heim. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Grand Prix 1987 á alþjóðlegri grafíksýningu í Biella á Ítalíu. Umhverfis- og friðarmál voru henni hugleikin. Hún var ötul baráttukona fyrir frjálsri Palestínu og fór þangað sem sjálfboðaliði árð 2003. Hún hélt sýningar fyrir málstaðinn hér á landi og í Þýskalandi.

Aðalheiður Valgeirsdóttir

(1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014, og BA-gráðu í listfræði með menningarfræði sem aukagrein árið 2011. Í upphafi myndlistarferils síns vann Aðalheiður aðallega grafíkverk en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni, en hún fæst auk þess við teikningar og vatnsliti. Hún hefur haldið á 3. tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Undanfarið hefur hún einnig tekið að sér sýningarstjórnun og var ásamt Aldísi Arnardóttur sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög – Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir sem sett var upp í Listasafni Árnesinga á síðasta ári.

Pallborðsumræður

Pallborðsumræður

Grafík panel

Í tengslum við sýninguna Heimkynni-Sigrid Valtingojer efnir Listasafn ASÍ til umræðna um íslenska grafík sunnudaginn 28. maí í Listasafni Árnesinga, en sýningin er sameiginlegt verkefni safnanna.

Elísabet Stefánsdóttir formaður Félagsins íslensk grafík flytur stuttan sögulegan inngang og í framhaldinu verða pallborðsumræður og almennar umræður með þátttöku gesta í sal. Í pallborði verða auk Elísabetar, Aðalheiður Valgeirsdóttir sýningarstjóri sýningarinnar Heimkynni, Jóhann Ludwig Torfason myndlistarmaður og umsjónarmaður grafíkverkstæðisins í Listaháskóla Íslands, Leifur Ýmir Eyjólfsson myndlistarmaður og annar stofnenda verkefnisins Prent & Vinir og síðast en ekki síst Ragneiður Jónsdóttir teiknari og grafíker.

Umræðustjóri er Heiðar Kári Rannversson listfræðingur. Heiðar Kári lauk MA prófi í listfræðum frá Háskólanum í Amsterdam árið 2012 og hefur starfað á sviði íslenskrar myndlistar um árabil. Hann stýrði fræðslu- og viðburðardagskrá Listasafns Reykjavíkur á árunum 2013-2016, en er nú sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri.

Í pallborðinu verður m.a. velt vöngum yfir stöðu grafíktlistarinnar í samtímanum, sem einkennist einna helst af örri þróun stafrænnar tækni og spurt hver staða grafíkverka sé í samtíma myndlist. Hvað einkennir grafík dagsins í dag og hvernig má bera hana saman við blómaskeið grafíklistarinnar hér á landi á áttunda áratug síðustu aldar? Eiga form og aðferðafræði grafíklistarinnar ennþá erindi við samtímann? Hvað vilt þú vita um grafík?

Dagskráin hefst kl. 16 á sunnudaginn eins og fyrr sagði og aðgangur er ókeypis. Sýningin Heimkynni – Sigrid Valtingojer mun standa til 18. júní

pallbord Horund jardar Sigrid Listasafn ASI logo
LA logo

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn