Listamenn

Leiðsögn og leikur á síðasta sýningardegi með Björgu Erlingsdóttur

 

Leiðsögn og leikur á síðasta sýningardegi með Björgu Erlingsdóttur

Björg er ein þriggja sýningarstjóra sýningarinnar Samstíga-abstraktlist en hinir eru Sigríður Melrós Ólafsdóttir deildarstjóri sýningadeildar Listasafns Íslands og Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Það var hugmynd Bjargar árið 2011 þegar hún var forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar að leita eftir samstarfi við Listasafn Íslands og Listsafn Árnesinga um gerð sýningaraðar þriggja sýninga til þess að efla almenna vitund um íslenskan myndlistararf og auðvelda skilning á samtímalist. Samstíga er önnur sýningin af þremur í þessu samstarfsverkefni og verkin á sýningunni eru valin með það í huga að skapa áhugaverða heild. Við gerð sýningarinnar nutu sýningarstjórarnir einnig góðs af Rakel Pétursdóttur deildarstjóra fræðsludeildar Listasafns Íslands.

Markmið sýningarinnar er að veita innsýn í heim íslenskrar abstraktlistar um miðbik síðustu aldar og benda á tengsl við erlenda strauma. Verkefni sem geta vakið áhuga skólanemenda á viðfangsefninu voru útbúin, en þau geta ekki síður höfðað til hins almenna gests. Þau gefa tilefni til íhugunar en eru líka nothæf til að bregða á leik.

Björg er þjóð- og safnafræðingur að mennt og starfaði við safnadeild Listasafns Reykjavíkur 2002-2006 og sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar 2006-2013 en er nú sjálfstætt starfandi sérfræðingur. Í leiðsögninni mun Björg fjalla um hvernig listir endurspegla tíðaranda en eru ekki einangrað fyrirbæri í samfélaginu og hvernig þær mótast af því en hafa líka áhrif. Gestir eru hvattir til þess að spyrja og taka þátt í samræðunni og ekki er ólíklegt að Björg virki gesti í leik.

Listasafn Árnesinga býður gesti velkomna til þess að njóta leiðsagnar um sýninguna Samstíga-abstraktlist og skoða hvernig sú sýning kallast á við sýninguna Rósa Gísladóttir –skúlptúr en yfirheiti beggja sýninganna er Hliðstæður og andstæður. Þetta er síðasti sýningardagur þessara sýninga.

Leiðsögn með skúlptúra Rósu Gísladóttur

Leiðsögn um skúlptúra Rósu Gísladóttur
í Listasafni Árnesinga sunnudaginn 2. febrúar kl. 15

Rósa Gísladóttir er athyglisverður listamaður sem í verkum sínum veltir vöngum yfir stöðu listarinnar á mismunandi tímum. Á sunnudaginn mun Rósa segja frá tilurð verkanna sem nú eru til sýnis í Listasafni Árnesinga og tækifæri gefst til þess að spyrja frekar, en stóru verkin hennar voru sérstaklega unnin fyrir sýningu sem sett var upp í hinu virta safni, Mercati di Traiano, í Róm sumarið 2012. Verk hennar hafa sterka tilvísun í klassíska hefð um leið og þau eru nútímaleg og tengjast hversdagsleikanum. Á sýningunni í Listasafni Árnesinga eru verk hennar sett upp eins og tvær kyrralífsmyndir af ólíkri stærðargráðu. Sú minni sem er frá árinu 1999, endurspeglar kyrralífsmálverk en í stóra salnum hefur nýjustu verkum Rósu verið stillt upp á sama hátt en þar eru stærðarhlutföllin slík að það er sem gesturinn gangi inn í verkið.

Jólasýningin Jólin koma

Jólin koma

Jólasýningin Jólin koma er samvinnuverkefni Listasafns Árnesinga, Hveragerðisbæjar, Listvinafélags Hveragerðis og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Þetta er sýning á Jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum og teikningum Tryggva Magnússonar og er sýningin fengin frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni með góðfúslegu leyfi erfngja Tryggva. Þá eru einnig til sýnis 22 eintök af kvæðakveri Jóhannesar úr Kötlum, þar á meðal frumútgáfan frá 1932 og hátíðarútgáfan frá síðasta ári í tilefni af 80 ára útgáfuafmæli.  Fáar bækur hafa verið endurútgefnar jafn oft og von er á nýrri útgáfu nú í desember sem er sennilega sú þrítugasta.  Kverin eru fengin að láni hjá syni Jóhannesar, Svani Jóhannessyni. Kvæðin í kverinu eru „Jólin koma“, „Jólasveinarnir“, „Grýlukvæði“, „Jólakötturinn“ og „Jólabarnið“.

Kvæðakverið Jólin koma

Árið 1932 kom út kvæðakver Jóhannesar úr Kötlum Jólin koma með vísum um íslenskar jólavættir. Tryggvi Magnússon myndskreytti bókina, en hann var þá þekktasti teiknari landsins. Bókin kom út á tíma sjálfstæðisbaráttunnar þegar þjóðararfurinn gekk í endurnýjun lífdaga. Þjóðsagnaminni voru færð nær þjóðinni og um leið mörkuð sérstaða íslenskrar menningar. Á fyrri hluta 20. aldar var litið á íslensku jólasveinana sem tröll en jólasveinar Tryggva minna frekar á bændur. Þeir eru í eðlilegri stærð og klæðaburður þeirra þótti kunnuglegur. Þannig færði Tryggvi íslensku jólasveinana nær börnunum og jafnframt varð smám saman til málamiðlun á milli íslensku tröllanna og ameríska jólasveinsins. Jólasveinarnir fengu að vera þrettán talsins og heita sínum gömlu nöfnum. Aftur á móti fóru þeir smám saman að klæðast sömu fötum og sá ameríski og gefa gjafir jafnframt því að halda sínum séreinkennum og hrekkjum. Jóhannes úr Kötlum notaði að mestu sömu nöfn á sveinana og séra Páll Jónsson á Myrká (1812-1889) sjötíu árum fyrr í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Með þessu kvæði sínu má segja að Jóhannes hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna, fjölda þeirra og í hvaða röð þeir halda til byggða. Landsbókasafn eignaðist árið 1989 frumeintök teikninganna í Jólin koma.

Jóhannes úr Kötlum

(Jóhannes Bjarni Jónasson)
(1899-1972)

Jóhannes úr Kötlum var rithöfundur og ljóðskáld, þýðandi, farkennari og alþingismaður. Jóhannes samdi bæði bundin ljóð og prósaljóð og einnig nokkrar skáldsögur. Jóhannes fæddist að Goddastöðum í Laxárdal í Dölum en ólst upp frá sex mánaða aldri í Ljárskógaseli í sömu sveit. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Jóhannesson og Halldóra Guðbrandsdóttir. Skammt frá Ljárskógaseli rennur áin Fáskrúð og þar eru svonefndir Katlar, fossar, hyljir og klettar, þar sem Jóhannes lék sér mikið í bernsku. Þegar hann gaf út fyrstu ljóðabók sína kenndi hann sig við þetta svæði og nefndi sig Jóhannes úr Kötlum. Jóhannes tók kennarapróf árið 1921 og stundaði kennslu við ýmsa skóla í Dalasýslu frá 1917 til 1932. Þá flutti hann til Reykjavíkur og kenndi einn vetur við Austurbæjarskólann en einbeitti sér síðan að ritstörfum og ritstjórn, fyrst í Reykjavík og síðan í Hveragerði, en fluttist aftur til Reykjavíkur 1959 og bjó þar til æviloka.

Tryggvi Magnússon

(1900-1960)

Tryggvi Magnússon fæddist að Bæ í Steingrímsfirði á Ströndum. Hann lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri og stundaði nám í Kaupmannahöfn í tvö ár og fór svo til New York til náms í andlitsmyndagerð. Hann stundaði svo nám í málaralist í í Dresden og fluttist að námi loknu til Reykjavíkur. Stundum er sagt að Tryggvi hafi verið fyrsti teiknarinn sem hafði atvinnu af listgrein sinni. Hann teiknaði fornmannaspilin, sýslumerkin fyrir Alþingishátíðina 1930 og skjaldarmerki Íslands. Tryggvi var hvað þekktastur fyrir teikningar sínar í skopritið Spegilinn.

Dagskrá:

Fimmtudaginn 12. desember Kl. 17
Jóladagskrá fyrir börn á öllum aldri þar sem m.a. Jólavísur Jóhannesar úr Kötlum við lag Ingunnar Bjarnadóttur verða sungnar. Stekkjarstaur kominn til byggða og lítur inn.

Föstudaginn 13. desember kl. 17
Listasmiðja fyrir fjölskylduna og barnadagskrá með Giljagaur sem kom til byggða nóttina áður.

Laugardaginn 14. desember kl. 17
Listasmiðja fyrir fjölskylduna og barnadagskrá með Stúf sem kom til byggða nóttina áður.   

Sunnudaginn 15. desember kl. 17
Listasmiðja fyrir fjölskylduna og barnadagskrá með Þvörusleiki sem kom til byggða nóttina áður.

Síðasti dagurinn sem Listasafn Árnesinga er opið á árinu.

Upplestur - tónlist

Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði bjóða til jóladagskrár
þriðjudaginn 3. desember kl. 20:

UPPSPRETTA HUGMYNDA
- bókmenntir með tónlistar- og myndlistarívafi

Á jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga í ár munu rithöfundarnir Guðmundur Andri Thorsson, Óskar Árni Óskarsson, Sigrún Pálsdóttir, Sjón og Vigdís Grímsdóttir lesa úr nýjum höfundaverkum sínum. Jazzkvartett Vigdísar Ásgeirsdóttur mun flytja nokkur lög og sýningarnar Jólasýning, Samstíga og Skúlptúrar Rósu Gísladóttur verða líka opnar. Flytjendur gera lítillega grein fyrir því hvaðan og hvernig hugmyndirnar að þessum verkum eru fengnar.
Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Um jazz-kvartettinn:

Í Jazzkvartett Vigdísar Ásgeirsdóttur eru trymbillinn Páll Sveinsson, bassaleikarinn Jón Ómar Erlingsson, gítaristinn Jacob Hagedorn-Olsen og Vigdís sér um sönginn. Kvartettinn mun flytja nokkra jazz-standarda og segja söguna bak við lögin.

Um bækurnar sem lesið verður upp úr:

Í bókinni Sæmd byggir Guðmundur Andri á raunverulegum atburðum og persónum, dregur upp mynd af svipmiklu fólki og mannlífi á viðkvæmu skeiði í sögu þjóðarinnar, en segir líka sögu um glæp og refsingu, hugrekki, eðli valdsins, stéttaskiptingu, hlutverk skáldsins í samfélaginu – og sæmdina.

Það sem við tölum um þegar við tölum um ást er smásagnasafn eftir bandaríska höfundinn Raymond Carver (1938-1988) sem Óskar Árni þýddi. Carver er þekktur fyrir knappan og einfaldan stíl og viðfangsefnið er sársauki og brostnir draumar alþýðufólks. Óskar Árni mun einnig lesa úr prósabókinni Kuðungasafnið sem út kom á síðasta ári og dregur upp þorpsmyndir.

Sigrún og Friðgeir – Ferðasagaer saga ungra hjóna sem héldu til Bandaríkjanna í sérnám í læknisfræði 1940 og snéru heim með Goðafossi sem var skotinn niður skammt frá Reykjavík. Þetta er saga úr síðari heimsstyrjöldinni sem snertir ólíka þætti í sögu Íslands á 20. öld. Inn í hana sogast líka atburðir úr sögu bandarísks samfélags. Höfundurinn, Sigrún Pálsdóttir, byggir söguna á bréfum og dagbókum Sigrúnar og Friðgeirs.

Sjón lætur söguna Mánasteinn – drengurinn sem aldrei var til gerast í Reykjavík 1918 með Kötlugos, spænsku veikina og undirbúning fullveldis í bakgrunni. Drengurinn Máni Steinn lifir í kvikmyndum. Sofandi dreymir hann myndirnar í tilbrigðum með ívafi úr eigin lífi, en vakandi er hann á jaðri samfélagsins.

Dísusaga – Konan með gulu töskunaer óhefðbundin skáldævisaga sem fjallar um einægni, ofbeldi og mannúð. Saga þar sem Dísa Gríms af Kleppsveginum fær orðið en svarta Gríms sem bæði er bjargvættur og kúgari víkur. Það upplýsist jafnframt að það er hin svarta Gríms sem hingað til hefur ráðið ferðinni hjá rithöfundinum Vigdísi Grímsdóttur.

Hliðstæður og andstæður

HLIÐSTÆÐUR OG ANDSTÆÐUR

er samheiti tveggja nýrra sýninga:

Rósa Gísladóttir – skúlptúr
Samstíga – abstraktlist

Sýningarnar tvær kallast á í tíma og rúmi.
Viðfangsefni þeirra draga fram sjónarhorn á listasöguna og gefa tilefni til umræðu.

Markmiðið með sýningunni Samstíga er að kynna ákveðin tímabil og stefnur í íslenskri myndlist og opna fólki aðgang að þeim menningararfi sem Listasafn Íslands varðveitir. Skúlptúrar Rósu víkka hið sögulega sjónarhorn á geómetríuna í myndlist þar sem hún birtist bæði hliðstæð og andstæð í inntaki og formi.

Verk Rósu eru sett upp sem tvær kyrralífsmyndir sem vísa í klassíska hefð. Sú stærri nýtir stærsta sal listasafnsins og samanstendur af verkum sem Rósa vann fyrir sýningu í rústum Keisaratorganna í Róm sumarið 2012 en sú minni er frá árinu 1999 og endurspeglar klassísk kyrralífsmálverk. Verkin „fela í sér sprengikraft í kyrrstöðu sinni vegna þess að þau mynda skammhlaup á milli tveggja heima“ svo vitnað sé í áhugaverðan texta Ólafs Gíslasonar listfræðings í sýningarskránni þar sem hann heimfærir hugtak Walter Benjamin um „hina díalektísku kyrrstöðumynd“ upp á skúlptúra Rósu. En Benjamin var það hugtak hugleikið „í andófi hans gegn þeirri hugsun sem lítur á söguna og sagnfræðina sem uppfyllingu staðreynda í tiltekna tímaröð án frekari umhugsunar“.

Hin sýningin ber heitið Samstíga og opnar sýn inn í þróun abstraktlistar á árunum 1945-1969 í víðu samhengi. Sjónum er sérstaklega beint að geómetrískri abstraktlist sem var fyrirferðamikil hér á landi um miðbik 20. aldar. Þá náðu íslenskir myndlistarmenn athygli erlendis og voru samstíga öðrum listamönnum í Evrópu. Heiti sýningarinnar vísar líka í þá samþættingu listgreina sem abstrakt list einkum geometrían boðaði þó að titillinn sé ef til vill í andstöðu við þá ólgu sem fylgir róttækum breytingum. Þetta er önnur sýningin í þriggja sýninga samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga, Listasafns Hornafjarðar og Listasafns Íslands. Eyborg Guðmundsdóttir, Guðmunda Andrésdóttir, Guðmundur Benediktsson, Hörður Ágústsson, Karl Kvaran, Nína Tryggvadóttir, Svavar Guðnason, Valtýr Pétursson og Þorvaldur Skúlason eru höfundar verka sem koma úr safneign Listasafns Íslands en verk eftir Gerði Helgadóttur eru fengin að láni hjá Listasafni Kópavogs - Gerðarsafni.

Samstíga er þriðja sýning ársins sem tileinkuð er 50 ára listaverkagjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona hennar til Árnesinga og í anda hugsjóna Bjarnveigar hefur lítilli listasmiðju verið komið fyrir í safninu þar sem börnum og fullorðnum er boðið upp á leik og fræðslu með verkefnum til þess að glíma við og hafa gaman af. Báðum sýningunum er fylgt úr hlaði með sýningarskrám.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn