Listamenn

Upplestur úr nýjum bókum

Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði
bjóða til samveru í Listasafninu
fullveldisdaginn 1. desember kl. 20

Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga viðhalda þeirri hefð að bjóða upp á lestur úr nýjum bókum í Listasafninu 1. desember með tónlistarívafi, kertaljósum og piparkökum.

Höfundar lesa úr fjórum nýjum skáldsögum sem eru Bónusstelpan eftir Rögnu Sigurðardóttur, Meistaraverkið og fleiri sögur eftir Ólaf Gunnarsson, Trúir þú á töfra? eftir Vigdísi Grímsdóttur og Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson. Þá munu einnig Björg Einarsdóttir og Hildur Hákonardóttir lesa úr sínum köflum í bókinni Á rauðum sokkum - baráttukonur segja frá sem Olga Guðrún Árnadóttir ritstýrði.

Ungur fiðluleikari, Irena Silva Roe mun brjóta upplesturinn upp með því að leika nokkur lög á fiðlu. Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Bónusstelpan Trúir þú á töfraMeistaraverkiðValeyrarvalsinnÁ rauðum sokkum - baráttukonur segja fráBÓNUSSTELPAN
eftir Rögnu Sigurðardóttur

Sem útskriftarverkefni í Listaháskólanum velur Diljá að afgreiða á kassa í Bónus, með Bónusbleikt hár og skærbleikar varir. Þegar sá kvittur kemst á kreik að Bónusstelpan geri kraftaverk hikar Diljá ekki við að taka gjörninginn skrefi lengra. Skólinn og fjölskyldan vilja að hún hætti en þúsundþjalasmiðurinn Hafliði stendur með henni. Grípandi saga beint úr blæðandi íslenskum samtíma.

Ragna Sigurðardóttir nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1985-1989 og framhaldsnám við Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1989-1991. Frá árinu 2002 hefur hún starfað sem myndlistargagnrýnandi, fyrst hjá Morgunblaðinu en nú hjá Fréttablaðinu, auk þess að skrifa um myndlist og listamenn fyrir tímarit, söfn og sýningarstaði. Áður en hún einbeitti sér að ritstörfum hafði hún unnið með texta á margvíslegan hátt í ólíkum miðlum í myndlist sinni. Fyrsta skáldsaga Rögnu, Borg, sem kom út 1993 var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en áður hafði hún gefið út tvær ljóðabækur.

TRÚIR ÞÚ Á TÖFRA? eftir Vigdísi Grímsdóttur

Trúir þú á töfra? leiðir lesendur inn í völundarhús gerræðis og grimmdar sem enginn skilur – en einnig til þeirrar tæru gleði yfir lífinu sem ilmur fortíðar og angan framtíðar færir. Hjartnæm og eftirminnileg saga sem er sannkallaður óður til skáldskaparins en afhjúpar jafnframt varnarleysi manneskjunnar í flókinni lífsbaráttu þar sem töfrarnir einir megna að lýsa henni veginn.

Vigdís Grímsdóttir lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, og lagði síðan stund á íslensku, bókasafnsfræði, og íslenskar bókmenntir við Háskóla Íslands og lauk þaðan líka prófi í uppeldis- og kennslufræðum. Hún starfaði sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari í Reykjavík og Hafnarfirði til 1990 en hefur síðan nær eingöngu fengist við ritstörf. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Tíu myndir úr lífi þínu kom út árið 1983 og síðan hefur hún sent frá sér skáldsögur (þar á meðal barnabók), ljóðabækur, smásögur og ævisögu. Vigdís hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1989 fyrir Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón, 1996 fyrir Z og 2007 fyrir Söguna um Bíbí Ólafsdóttur. Verðlaunin hlaut hún árið 1994 fyrir Grandaveg 7. Leikgerðir Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón og Grandavegur 7 hafa verið á fjölum Þjóðleikhússins og Hilmar Oddson gerði minnisstæða kvikmynd eftir sögunni Kaldaljós. Frá árinu 2006 hefur Vigdís notið heiðurslauna listamanna.

MEISTARAVERKIÐ OG FLEIRI SÖGUR eftir Ólaf Gunnarsson

Í sínu fyrsta smásagnasafni leikur Ólafur á ýmsa strengi. Hér segir frá Íslendingi sem barðist í Víetnam, útbrunnum rokksöngvara sem fær óvænt tækifæri til að stíga á svið með Rod Stewart, súludansmey sem fer að búa með bifvélavirka, nasista og morðingja og ótal fleiri litríkum persónum. Og svo var það maðurinn sem þurfti að stela sínu eigin húsi árið sem Ísland varð lýðveldi.

Ólafur Gunnarsson lauk verslunarprófi frá VR 1969 og sinnti verslunarstörfum 1965 til 1971 Hann var bifreiðastjóri læknavaktar frá 1972 til 1978 en hefur stundað ritstörf frá 1974. Hann hefur verið tilnefndur til margvíslegra verðlauna og hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2003 fyrir bókin Öxin og jörðin. Margar bækur hans hafa verið þýddar á erlend mál. Bók hans Tröllakirkjan sem út kom 1992 var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðalunanna og var líka tilnefnd til IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunanna. Gerð var leikgerð upp úr sögunni sem frumsýnd var í Þjóðleikhúsinu 1996 og kvikmyndaréttur sögunnar hefur verið seldur. Einnig er búið að selja sjónvarpsseríurétt á Blóðakri.

VALEYRARVALSINN eftir Guðmund Andra Thorsson

Hrífandi og margslungið skáldverk þar sem sextán sögur fléttast saman og skarast margvíslega enda gerast þær allar á sömu tveimur mínútunum í litlu þorpi. Þetta eru sögur um mannfólkið og það sem kemur fyrir það, sögur um ástir og afglöp, alls konar tengsl og öll leyndarmálin, þau sem allir þekkja og hin sem liggja djúpt grafin.

Guðmundur Andri Thorsson nam íslensku og bókmenntafræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan cand.mag.-gráðu 1985. Guðmundur Andri hefur starfað sem blaðamaður, gagnrýnandi, ritstjóri og þáttagerðamaður. Fysta bók hans, Mín káta angist kom út 1988. Hann hlaut menningarverðlaun DV fyrir Íslenska drauminn 1991 og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Íslenska drauminn 1991 og Íslandsförina árið 1996.

Á RAUÐUM SOKKUM - BARÁTTUKONUR SEGJA FRÁ undir ritstjórn Olgu Guðrúnar Árnadóttir

Í ritinu segja tólf konur frá uppruna sínum og aðdraganda þess að þær urðu virkir þátttakendur í kvenréttindabaráttunni undir merkjum Rauðsokkahreyfingarinnar. Þær lýsa upphafinu, umbrotsárunum og þeirri þróun sem varð til þess að þáttaskil urðu í starfseminni á miðjum áttunda áratugnum. Baráttan var hörð og rauðsokkar beittu oft óhefðbundnum aðferðum til þess að koma málstað sínum á framfæri og vöktu með því hneykslan margra og kæti annarra. Í bókinni eru birt ljóð eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur sem flest voru ort á þessum árum og margar myndir sem aldrei hafa komið fyrir almenningssjónir.

Höfundar eru: Auður Hildur Hákonardóttir, Björg Einarsdóttir, Edda Óskarsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Friðgeirsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Helga Ólafsdóttir, Lilja Ólafsdóttir, Rannveig Jónsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Vilborg Sigurðardóttir. Vilborg Sigurðardóttir ritar inngangsorð og Dagný Kristjánsdóttir eftirmála. RIKK, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum gefur bókina út í samstarfi við Háskólaútgáfuna.

Auður Hildur Hákonardóttir lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1968 og hélt þá til framhaldsnáms við listaháskólann í Edinborg. Árið 1980 bætti hún síðan við sig réttindum sem vefnaðar-kennari frá Myndlista- og handíðaskólanum eftir að hafa kennt þar á árunum 1969–81. Þar af var hún skólastjóri hans 1975–78 á miklum umbrotatímum í sögu skólans. Hildur starfaði jafnframt að listvefnaði á árunum 1969 – 90. Hún var virk í SÚM-hópnum og kvenna-baráttunni sem endurspeglast í verkum hennar. Hildur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, s.s. setið í stjórn Textílfélagsins, í Listahátíðarnefnd og í stjórn Listskreytingasjóðs. Hún var forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnesinga á Selfossi 1986-93 og safnstjóri Listasafns Árnesinga 1998-2000. Síðustu ár er Hildur einkum þekkt fyrir ræktun og ritstörf.

Björg Einarsdóttir fræðimaður og rithöfundur stundaði nám í íslenskum og erlendum bókmenntum og almennri sögu í einkaskóla á árunum 1964-68. Hún sinnti skrifstofustörfum og kennslu áður en hún snéri sér að ritstörfum. Árið 1984 stofnaði hún ásamt fjórum öðrum konum útgáfufélagið Bókrún ehf. Björg var virk í kvennabaráttunni hér á landi  á áttunda og níunda áratugnum og hefur m.a. unnið áhugavert úrklippusafn sem veitir innsýn í þann tíma. Hún hefur einkum skrifað um konur og er ritsafn hennar "Úr ævi og starfi íslenskra kvenna" I-III, sem upphaflega var safn útvarpserinda, mikill fróðleikur um formæður okkar. Hún hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum í gegn um tíðina og leggur enn stund á ritstörf. Björg hefur verið búsett í Hveragerði síðastliðin ár.


Almynstur

Almynstur

3. september – 11. desember

Arnar Herbertsson
JBK Ransu
Davíð Örn Halldórsson

Hvað eiga þeir sameiginlegt og hvað skilur þá að? Þeir eru allir starfandi listmálarar án persónulegra tengsla og hver af sinni kynslóð. Þeir hafa valið sér tjáningarmáta óhlutbundinnar listar og draga fram form og mynstur í sterkum litum. Á sýningunni leitast sýningarstjórinn Sigríður Melrós Ólafsdóttir að varpa ljósi á það sem sameinar þá í ljósi listasögunnar. Sigríður er menntaður myndlistarmaður en hefur snúið sér æ meir að sýningargerð og sýningarstjórnun. Hún er nú deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Íslands.

Arnar-Herbertsson-220Arnar hóf sinn feril með haustsýningum FÍM (félagi íslenskra myndlistarmanna) 1965 en snéri sér fljótlega að SUM-urunum sem leituðu nýrra leiða í tjáningu, efnisvali, framsetningu og innihaldi listarinnar og tók virkan þátt í umbrotum sem þá áttu sér stað. Um tíma var hann lítt sýnilegur en hefur undanfarið vakið æ meiri og verðskuldaða athygli.

JBK-RansuÍ verkum JBK Ransu má sjá þaulhugsuð konseptverk þar sem hann teflir gjarnan saman tveimur ólíkum straumum í myndlist, tveimur öfgum. Hann lítur ekki á abstrakt málverk sem óhlutbundin heldur sem hluta út sögunni og vinnur samkvæmt því svo úr verður xgeo og popop.

David_OrnDavíð endurspeglar síðan enn nýrri strauma sem spretta upp úr teiknimyndum, tölvugrafík og götulist. Slík verk hafa verið skilgreind sem kómík-abstraksjón en líka ein hvers konar popp-súrrealismi.

Listasafn Árnesinga tekur á móti haustinu með litríkum og fjörugum verkum

Myndin af Þingvöllum

Myndin af Þingvöllum

Enginn staður á Íslandi hefur verið jafn vinsæl fyrirmynd íslenskra listamanna og Þingvellir. Sýningin tekur á þeim fjölbreyttu birtingarmyndum sem Þingvellir hafa notið í íslenskri myndlist sem og hönnun, kortagerð, ljósmyndun, ferðabókum og fjölmiðlun samtímans.

Elstu verk sýningarinnar eru eftir erlenda listamenn og ferðalanga 18. og 19. aldar, auk nokkurra af elstu ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar er hann tók á Þingvöllum í kringum Þjóðhátíðina árið 1874. Sýningin varpar ljósi á þróun Þingvallamyndarinnar allt frá forvígismönnum íslenskar myndlistar í upphafi 20. aldar, í gegnum myndafjöld sjálfstæðisbaráttunnar og til öndvegisverka Kjarvals, ásamt því að víkja að brotthvarfi hennar á tímum eftirstríðsáranna og upprisu í meðförum yngri kynslóða.

Sýningarstjóri er myndlistarmaðurinn Einar Garibaldi Eiríksson, en hann hefur sett saman sýningu úr verkum yfir 50 listamanna, sem fengin eru að láni bæði frá einstaklingum og helstu listasöfnum þjóðarinnar. Þessi veigamikla sýning er sumarsýning Listasafns Árnesinga og mun standa opin til 21. ágúst næstkomandi.

Listamenn / Artists

A. E. Thompson / Anna Guðjónsdóttir / August Schiøtt / Ásgrímur Jónsson / Bjarnleifur Bjarnleifsson / Borghildur Óskarsdóttir / Carl L. Pedersen / Daði Guðbjörnsson / Daníel Þ. Magnússon / Eggert M. Laxdal / Einar Falur Ingólfsson / Emanuel Larsen / Finnur Jónsson / Frederik T. Kloss / Gísli Jónsson / Gunnlaugur Blöndal / Gylfi Gíslason / Halldór Baldursson / Héðinn Ólafsson / Hreinn Friðfinnsson / Hrólfur Sigurðsson / Hulda Hákon / Húbert Nói Jóhannesson / Johann H. Hasselhorst / Jóhannes S. Kjarval / Jón Stefánsson / Júlíana Sveinsdóttir / Kristinn E. Hrafnsson / Kristinn Pétursson / Kristín Jónsdóttir / Lárus Karl Ingason / Magnús Á. Árnason / Magnús Ólafsson / Ólafur K. Magnússon / Ólafur Magnússon / Ólöf Nordal / Ragnar Kjartansson / Rúrí / Sigfús Eymundsson / Sigurður Guðmundsson málari / Sigurður Tómasson / Sigurhans Vignir Einarsson / Stefán Jónsson / Sverrir Haraldsson / Sverrir Vilhelmsson / Vignir Jóhannsson / William G. Collingwood / Þorkell Þorkellsson / Þóra Pjetursdóttir Thoroddsen / Þórarinn B. Þorláksson.

Síðasta sýningarhelgin - snjór og þjóðleg fagurfræði

Síðasta sýningarhelgin

Snjór og Þjóðleg fagurfræði

SnjórÍ tengslum við Jól í bæ í Hveragerði verður opnaður jólagluggi í safninu á sunnudaginn kl. 13. Hönnuður tákna dagatalsins er Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður og táknið í jólaglugga safnsins í ár er snjór. Af því tilefni er gestum boðið að taka þátt í gerð snjókristalla úr ýmsu efni sem verður til staðar í safninu endurgjaldslaust. Einhverjir snjókristallar verða valdir til þess að skreyta glugga safnsins en gestum er líka velkomið að búa til snjókristalla og taka með heim. Snjókristalagerð verður í gangi allan daginn og þáttakendum boðið upp á safa, kaffi og piparkökur.

Leiðsögn og samræður um sýninguna Þjóðleg fagurfræði  verður klukkan 15 með Ingu Jónsdóttur sýningarstjóra.

Safnið er opið kl. 12 -18 fimmtudag til sunnudagsins 12. desember en verður síðan lokað til laugardagsins 15. janúar 2011.

Jólastemning á sunnudag  -  allir velkomnir  -  aðgangur ókeypis

IS(not) | (El)land

IS(not) | (El)land


Ljósmyndasýning 12. mars - 8. maí 2011
Í samstarfið við Menningarmiðstöðina Gerðuberg og Sputnik photos

Á sýningunni má sjá afrakstur úr ferðalögum fimm margverðlaunaðra pólskra ljósmyndara og fimm íslenskra rithöfunda sem ferðuðust í pörum um landið á síðasta ári. Sýningarstjóri er Andrzej Kramarz og Marzena Michalek er verkefnisstjóri sýningarinnar. Sýningin er unnin af Sputnik photos með styrk frá Menningarsjóði Póllands og EES / EFTA ríkjanna, Íslands, Liechtenstein og Noregs.

Sýningin er tvískipt og þarf því að heimsækja báða sýningarstaði til þess að sjá alla sýninguna.

5 pólskir ljósmyndarar, 5 íslenskir rithöfundar, 1 eyja

Sjá dagskrá

________________

IS(no) | (El)land  Ljósmyndasýning 12. mars - 8. maí 2011Að skilja annan aðila er að öðlast aukinn skilning á sjálfum sér. Á gamla meginlandinu hefur hlutverki Hins aðilans þegar verið úthlutað – það er leikið af litlu skrýtnu landi á milli Evrópu og Ameríku og þar búa álfar og andstæðingar Evrópusambandsins. Til að skilja þetta land, verður maður að kljást við fjölmiðlaklisjur – um þjóð sem var efnuð en hefur nýlega stungist á kaf í efnahagskreppu eða um land stórkostlegra eldfjalla sem hafa lamað flugsamgöngur um hálfa Evrópu. Ljósmyndarar Sputnik Photos hafa ákveðið að takast á við þessar klisjur og fanga innsta eðli Íslands, hið mannlega eðli. Hinir heiðnu siðir eylandsins, goðsagnir, þjóðsögur og frásagnir sem miðlað hefur verið frá kynslóð til kynslóðar og eru enn í fullu gildi meðal þeirra, voru upphafspunktur ljósmyndaranna.

Adam Pańczuk ljósmyndari og Sindri Freysson rithöfundur fóru í leiðangur um íslenska goðafræði í leit að undirstöðum íslenskrar vitundar. Ljósmyndirnar, afrakstur leiðangursins, eru sönnun þess hvernig hin útflutta tilverufræði hefur fullnægt þörfum ferðamannaiðnaðarins.

IS(no) | (El)land  Ljósmyndasýning 12. mars - 8. maí 2011Fyrir Michał Łuczak og Hermann Stefánsson hófst leiðangurinn að skilningi á Íslandi í hinu yfirnáttúrulega og endaði í náttúruöflum sem oft eru miskunnarlaus. Ljósmyndir Michał Łuczak leiða mann frá fæðingu til dauða; í gegnum lífið – með einmanaleik sínum, bræðralagi, örvæntingu og undrun – og fanga öfgarnar báðum megin. Áhorfandinn upplifir öfgafullar aðstæður sem fylgja daglegum átökum Íslendinga við náttúruöflin. Þar er ekkert svigrúm fyrir óþarfa áreynslu eða hreyfingar sem ekki eru nauðsynlegar til að lifa af. Þar er reglulegur andardráttur, ró og tími fyrir kaffi í skörðóttum bollum.

Ljósmyndir Jan Brykczyński sýna fjölskyldu þar sem húsdýrin standa jafnfætis mannfólkinu. Að brynna hestum og beita kindum er jafn mikilvægt og að borða kvöldverð með fjölskyldunni.IS(no) | (El)land  Ljósmyndasýning 12. mars - 8. maí 2011 Kristín Heiða Kristinsdóttir rithöfundur hefur lýst slíku lífshlaupi með orðum. Dagleg störf verða að helgisiðum. Jan Brykczyński virðist horfa á fjölskylduna og búfénaðinn og spyrja – erum við svo ólík hverju öðru þegar allt kemur til alls?

Agnieszka Rayss og skáldið Sigurbjörg Þrastardóttir hafa staðsett sig á bökkum íslenskra vatna og brúnum nútímalegra sundlauga. Listakonurnar hafa bæði skoðað náttúrulegar vatnslindir, sem verið hafa meðal eyjaskeggja frá ómunatíð, og fína ferðamanna-staði, sem sprottið hafa upp með tæknivæðing-unni. Vatnið hefur reynst vera hið íslenska gull. Náttúran var tamin og svo seld úr landi.

IS(no) | (El)land  Ljósmyndasýning 12. mars - 8. maí 2011Ljósmyndir Rafał Milach sýna hungur hans í reynslu og löngun hans til að snerta allt sem hann sá á ferð sinni um eyjuna, þörfin fyrir að kíkja inn um allar gáttir og setja mark sitt á hverja manneskju sem hann hitti, eins og til að segja „Ég var hér”, setti allt á annan endann. Skýra þarf þúsundir hluta sem krefjast réttlætingar á tilvist sinni. Fólkið á myndunum á sér auðvitað nafn en myndirnar minna meira á minnisbók grasafræðings en fjölskyldualbúm. Er þetta fólk virkilega til? Við erum komin allan hringinn. Þessum myndum fylgir persónuleg ferðasaga Huldars Breiðfjörð.

IS(no) | (El)land  Ljósmyndasýning 12. mars - 8. maí 2011Til að kynnast Hinum aðilanum, til að komast frá fáfræði til skilnings, ferðuðust ljósmyndararnir frá meginlandinu til eyjunnar. Þeir komu utan frá en kynntust landinu innan frá, frá sjónarhóli íslenskra rithöfunda sem ferðuðust með þeim og annars fólks sem þeir hittu á eyjunni. Um leið og þeir horfðust í augu við klisjurnar leituðu þeir eftir persónulegri reynslu. En þeim mun betur sem þeir kynntust Íslandi, þeim mun betur áttuðu þeir sig á því hversu lítið þeir raunverulega vissu. Þeir komu til að leita svara en fóru með margar spurningar. Spurningar um eðli eyjunnar og um okkur sjálf.

Sjá nánari upplýsingar um verkefni Sputnik photos á heimasíðunni www.sputnikphotos.com

Sjá heimasíðu sýningarstjórans Andrzej Kramarz, www.andrzejkramarz.com

Sjá bloggsíðu Andrzej Kramarz um verkefnið: http://icelandictales.sputnikphotos.com/

Styrktaraðilar

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn