Listamenn

Hliðstæður og andstæður

HLIÐSTÆÐUR OG ANDSTÆÐUR

er samheiti tveggja nýrra sýninga:

Rósa Gísladóttir – skúlptúr
Samstíga – abstraktlist

Sýningarnar tvær kallast á í tíma og rúmi.
Viðfangsefni þeirra draga fram sjónarhorn á listasöguna og gefa tilefni til umræðu.

Markmiðið með sýningunni Samstíga er að kynna ákveðin tímabil og stefnur í íslenskri myndlist og opna fólki aðgang að þeim menningararfi sem Listasafn Íslands varðveitir. Skúlptúrar Rósu víkka hið sögulega sjónarhorn á geómetríuna í myndlist þar sem hún birtist bæði hliðstæð og andstæð í inntaki og formi.

Verk Rósu eru sett upp sem tvær kyrralífsmyndir sem vísa í klassíska hefð. Sú stærri nýtir stærsta sal listasafnsins og samanstendur af verkum sem Rósa vann fyrir sýningu í rústum Keisaratorganna í Róm sumarið 2012 en sú minni er frá árinu 1999 og endurspeglar klassísk kyrralífsmálverk. Verkin „fela í sér sprengikraft í kyrrstöðu sinni vegna þess að þau mynda skammhlaup á milli tveggja heima“ svo vitnað sé í áhugaverðan texta Ólafs Gíslasonar listfræðings í sýningarskránni þar sem hann heimfærir hugtak Walter Benjamin um „hina díalektísku kyrrstöðumynd“ upp á skúlptúra Rósu. En Benjamin var það hugtak hugleikið „í andófi hans gegn þeirri hugsun sem lítur á söguna og sagnfræðina sem uppfyllingu staðreynda í tiltekna tímaröð án frekari umhugsunar“.

Hin sýningin ber heitið Samstíga og opnar sýn inn í þróun abstraktlistar á árunum 1945-1969 í víðu samhengi. Sjónum er sérstaklega beint að geómetrískri abstraktlist sem var fyrirferðamikil hér á landi um miðbik 20. aldar. Þá náðu íslenskir myndlistarmenn athygli erlendis og voru samstíga öðrum listamönnum í Evrópu. Heiti sýningarinnar vísar líka í þá samþættingu listgreina sem abstrakt list einkum geometrían boðaði þó að titillinn sé ef til vill í andstöðu við þá ólgu sem fylgir róttækum breytingum. Þetta er önnur sýningin í þriggja sýninga samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga, Listasafns Hornafjarðar og Listasafns Íslands. Eyborg Guðmundsdóttir, Guðmunda Andrésdóttir, Guðmundur Benediktsson, Hörður Ágústsson, Karl Kvaran, Nína Tryggvadóttir, Svavar Guðnason, Valtýr Pétursson og Þorvaldur Skúlason eru höfundar verka sem koma úr safneign Listasafns Íslands en verk eftir Gerði Helgadóttur eru fengin að láni hjá Listasafni Kópavogs - Gerðarsafni.

Samstíga er þriðja sýning ársins sem tileinkuð er 50 ára listaverkagjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona hennar til Árnesinga og í anda hugsjóna Bjarnveigar hefur lítilli listasmiðju verið komið fyrir í safninu þar sem börnum og fullorðnum er boðið upp á leik og fræðslu með verkefnum til þess að glíma við og hafa gaman af. Báðum sýningunum er fylgt úr hlaði með sýningarskrám.

Afmælishóf kl. 16 - 18

Þér er boðið í afmæli
í Listasafni Árnesinga
laugardaginn 19. október kl. 16-18
hlýða á vangaveltur á tímamótum
og þiggja léttar veitingar.

Vatnslitamynd af Bjarnveigu BjarnadótturBjarnveig Bjarnadóttir, teikning eftur Ásgrím JónssonFyrir fimmtíu árum eða þann 19. október 1963 var Árnesingum færð stór málverkagjöf sem lagði grunn að Listasafni Árnesinga. Gefendur voru Bjarnveig Bjarnadóttir og synir hennar, Loftur og Bjarni Markús Jóhannessynir. Afhendingin fór fram í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands þar sem verkin voru til sýnis, en á þeim tíma var aðsetur Listasafns Íslands einnig í húsi Þjóðminjasafnsins.

Á þessum tímamótum viljum við fagna þessu framtaki og skoða hvaða þýðingu þessi gjöf hefur haft og tækifæri sem felast í safninu. Flutt verða sex stutt erindi og að þeim loknum er opið fyrir spurningar og umræður gesta og frummælenda. Að endingu verður boðið upp á léttar veitingar. Leitað var til einstaklinga með það í huga að varpa sýn á Bjarnveigu sem listaverkasafnara, tengsl hennar við Ásgrím Jónsson og þetta svæði ásamt löngun hennar að ungt fólk fái notið góðra lista.

Frummælendur eru:

  • Knútur Bruun listaverkasafnari með meiru sem fjalla mun um ástríðuna fyrir myndlist.
  • Dagný Heiðdal deildarstjóri listaverkadeildar Listasafns Íslands. Hún mun segja frá starfi Bjarnveigar við Safn Ásgríms Jónssonar sem er deild innan Listasafns Íslands en hún var forstöðumaður þess safns þegar það var opnað árið 1960. Hún ræðir einnig um gildi samstarfs Listasafns Íslands við önnur innlend listasöfn s.s. Listasafn Árnesinga.
  • Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður segir frá 150 ára afmæli Þjóðminjasafnsins í ár og ræðir um gildi og samstarf safna í samfélaginu.
  • Hildur Hákonardóttir myndlistarmaður og fyrsti safnstjóri Listasafns Árnesinga mun líta tilbaka og skoða hvernig safnið hefur þróast.
  • Ásthildur B. Jónsdóttir lektor í kennslufræðum sjónlista í Listaháskóla Íslands (og stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni) ræðir um gildi safna fyrir listkennslu og tækifæri sem þar liggja.
  • Margrét Elísabet Ólafsdóttir doktor í list- og fagurfæði. Margrét sem ólst upp á Selfossi mun rifja upp minningar um Listasafn Árnesinga og velta upp framtíðarsýn á starfsumhverfi listasafna.

Undir samheitinu HLIÐSTÆÐUR OG ANDSTÆÐUR eru nú tvær sýningar uppi í safninu, annars vegar Samstíga sem er um abstraktlist og svo skúlptúrar eftir Rósu Gísladóttur. Í tengslum við sýningarnar hefur einnig verið sett upp listasmiðja þar sem börn á öllum aldri fá að spreyta sig.

Sunnudaginn 20. október bjóðum við börn sérstaklega velkomin til þess að fagna með okkur í listasmiðjunni og fá blöðru að launum.

Nútímakonur

NÚTÍMAKONUR

Uppspretta þessarar sýningar eru þrjú verk úr gjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona hennar til safnsins. Verkin eru eftir Björgu Þorsteinsdóttur, Ragnheiði Jónsdóttur og Þorbjörgu Höskuldsdóttur og voru unnin á áttunda áratugi síðustu aldar, þeim merka áratugi sem oft er skírskotað til sem „kvennaáratugarins“, en nýja kvennahreyfingin, sem nefnd hefur verið önnur bylgja femínisma, laust niður sem eldingu austan hafs og vestan og fór af stað á fullri ferð.

Heiti sýningarinnar „Nútímakonur„ vísar til þess að mótunarár listamannanna voru árin eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar íslenskt þjóðfélag hafði tekið grundvallarbreytingum og breyttist hratt úr hefðbundnu norrænu bændasamfélagi í nútímavætt borgarsamfélag og við blasti ný heimsmynd. Árin eftir stríð urðu því uppgangstímar og alþjóðlegir straumar í bókmenntun, myndlist og fatatísku bárust hratt til landsins og settu sterkan svip á þjóðfélag og menningarlíf. Í þessari þróun öðluðust konur stöðugt aukið frelsi, pólitískt, menntunarlega, fjárhags- og kynferðislega.

Í sýningarstjórn Hrafnhildar Schram er áherslan lögð á þá og nú sýningu, þ.e.a.s. að sýna verk frá áttunda áratugnum en einkum verk sem þær hafa unnið að á síðustu árum og undirstrika þannig virkni kvennanna sem enn reka eigin vinnustofur.

Leiðir þeirra Bjargar, Ragnheiðar og Þorbjargar lágu fyrst saman í Myndlistaskóla Reykjavíkur og síðan þá hafa þær allar átt frækinn feril sem spannar sýningar og viðurkenningar hér á landi sem erlendis. Björg er fædd 1940 og hefur á ferli sínum málað, teiknað, unnið í grafík og gert collage-verk auk þess að hafa einnig kennt og starfað sem forstöðumaður Safns Ásgríms Jónssonar um tíma. Ragnheiður er fædd 1933 og varð þekkt fyrir ætingar þar sem reynsluheimur kvenna var viðfangsefnið og síðar stórar kolateikningar. Þorbjörg er fædd 1939 og sérkenni hennar í myndlistinni er að fella klassíska fjarvíddarteikningu inn í landslagsverk og vekja þannig athygli á viðvæmu samspili manns og náttúru.

Rútuferð – uppspretta hugmynda

Rútuferð - uppspretta hugmynda

Ferd um thingvallavatn og floaLaugardaginn 7. september verður efnt til rútuferðar um Þingvallavatn og Flóann í tengslum við sýninguna TÍMINN Í LANDSLAGINU Ásgrímur Jónsson og Arngunnur Ýr. Markmiðið með ferðinni er að skoða landslagið sem uppsprettu hugmynda og hvernig það nýtist bæði myndlist og bókmenntum. Þessi rútuferð er fyrsti hlutinn af þremur í samstarfsverkefni sem Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði skipuleggja þar sem útgangspunkturinn er uppspretta hugmynda og fanga leitað í nærsamfélaginu. Listasafn Árnesinga er í eigu allra sveitarfélaganna átta í Árnessýslu og í þessari ferð er farið um sex þeirra.

Fararstjórar verða safnstjórarnir Inga Jónsdóttir og Hlíf Arndal en einnig verða með í för Jón Proppé heimspekingur og sýningarstjóri sýningarinnar TÍMINN Í LANDSLAGINU og myndlistarmaðurinn Arngunnur Ýr, annar höfundur verkanna á sýningunni. Í sameiningu munu þau beina sjón og heyrn að Ásgrími Jónssyni (1876 – 1958) sem fæddist og ólst upp í Rútsstaðahverfi í Flóa, vann á unglingsárunum um þriggja ára skeið í Húsinu á Eyrarbakka og í verkum hans má sjá mörg kennileiti sem bent verður á í ferðinni. Arngunnur, sem starfandi myndlistarmaður, mun segja frá hvernig náttúran verður að landslagi í verkum sínum og hvernig hún m.a. setur kennileiti tveggja landa í eitt og sama verkið. Þó verk þessara tveggja listamanna verði í forgrunni þá verður einnig litið til annarra listamanna og úrvinnslu þeirra og eins vitnað í bókmenntir þar sem umhverfið er dregið fram. Síðast en ekki síst er vonast til þess að þátttakendur eigi sinn þátt í því að fjörugar umræður skapist.

Lagt verður að stað frá Listasafni Árnesinga í Hveragerði kl. 11. Ekið verður upp Grafninginn og umhverfis Þingvallavatn réttsælis. Fyrsta stopp verður við útsýnispall Hengilssvæðisins og síðan stansað við Hakið þar sem einnig er gengið að útsýnispalli. Þaðan geta þeir sem þess óska gengið niður Almannagjá og niður á Vellina þar sem hægt verður að ná rútunni aftur en rútan mun aka að þjónustumiðstöðinni þar sem áð verður. Stutt stopp verður gert við útsýni að Arnarfelli og síðan ekið í gegn um Selfoss að minnisvarða um Ásgrím í Flóanum. Síðan verður ekið meðfram sjónum að Húsinu á Eyrarbakka og ferðin endar síðan í Listasafni Árnesinga þar sem hægt verður að skoða sýninguna TÍMINN Í LANDSLAGINU. Áætlað er að það verði um kl. 16.

Þátttökugjald er 4.000 krónur á mann og er fólk er hvatt til þess að taka með sér nesti.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku í netfang listasafn@listasafnarnesinga.is eða í síma 483 1727.

Ferðin og sýningin nýtur stuðnings Menningarráðs Suðurlands.

JAZZ- JASS- DJASS- að í Listasafni Árnesinga

JAZZ- JASS- DJASS- að í Listasafni Árnesinga

lars janssonFöstudaginn 9. ágúst kl. 20 munu Lars Jansson píanóleikari, Paul Svanberg trommuleikari, Sigurður Flosason saxófónleikari og Gunnar Hrafnsson kontrabassaleikari flytja djass á tónleikum í Listasafni Árnesinga.

Lars Jansson er einn fremsti djass-píanisti Svía og mjög stórt nafn í djassheimi Norðurlanda. Þá er hann einnig virtur sem tónskáld. Lars er fæddur og uppalinn í Svíþjóð og nam tónlist í Gautaborg en árið 1998 varð hann fyrsti djass-prófessorinn við Tónlistarháskólann í Århus í Danmörku.

Það er upplifun að hlýða á Lars á tónleikum; hann er aðgengilegur tónlistarmaður sem spilar þannig að allir hrífast. Sonur hans Paul er, þrátt fyrir ungan aldur, orðinn einn af þekktari slagverksmönnum Svía og fastur liðsmaður í tríói föðurins. Lars hefur einnig fengið til liðs við sig tvo frábæra íslenska tónlistarmenn þá Sigurð Flosason saxófónleikara og Gunnar Hrafnsson kontrabassaleikara svo útlit er fyrir dúndur tónleika sem enginn djassunnandi ætti að missa af.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn