Listamenn

ÁR: málverkið á tímum straumvatna

ÁR: málverkið á tímum straumvatna

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson •  Þorvaldur Skúlason

Sýningarstjóri: Auður A. Ólafsdóttir listfræðingur og safnstjóri

Listasafn Háskóla Íslands býr að langstærsta safni landsins af verkum eftir Þorvald Skúlason; rúmlega 200 málverk og yfir þúsund teikningar og skissur frá öllum tímabilum ferils hans. Safnstjóri Listasafns Háskóla Íslands er Auður A. Ólafsdóttir listfræðingur og er hún jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar ÁR: málverkið á tímum straumvatna. Hún hefur valið að láta verk Þorvalds eiga stefnumót við samtímalistina, við verk Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar og kallar það í sýningarskrá „hinn óvænta fund rökhyggju og rómantíkur í miðju straumvatni.”

Einn virtasti abstraktmálari landsins, Þorvaldur Skúlason (1906-1984) dvaldi sumrin 1967-69 að Þórustöðum í Ölfusi. Björn Th. Björnsson segir frá því í bók sinni um Þorvald Skúlason að þar eystra hafi málarinn haft að venju að ganga upp með Ölfusá með skissubók og spá í soghvilftir, straumrásir og framrás vatnsins. „Straumurinn í þessu mikla fljóti, iðuköstin, andstreymið og spegillygnurnar á milli fundust honum svo nýstárlegt og heillandi formspil að penslar hans gátu ekki látið það í friði.” Tímabilið undir lok sjöunda áratugarins og á þeim áttunda hefur verið talið eitt djarfasta tímabilið í list Þorvalds. Það einkennist af kraftmiklum og litríkum straumrasta- og hringiðuverkum og er jafnan kennt við Ölfusárverkin. Árið 1969 málar Þorvaldur olíumálverk í bláum, gulum og hvítum litum sem hann nefnir Ölfusá.

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson myndlistarmaður er fæddur árið 1966,  ári áður en Þorvaldur Skúlason fer austur fyrir fjall og gengur upp með Ölfusá. Síðast liðin ár hefur Sigtryggur að mestu einbeitt sér að því að gera straumvatni skil í formi olíumálverka, vatnslitamynda, lágmynda og innsetninga. Verk hans eiga sér rætur í hugmyndamálverki tíunda áratugarins en í myndum sínum af ám veltir Sigtryggur m.a. fyrir sér spurningunni um „samhliða eðli málverks og vatnsyfirborðs”. Straumvatnamálverk hans eru ólík innbyrðis, sum hafa yfirbragð abstraktverka, önnur eru natúralískari. Sumarið 2004 gengur Sigtryggur meðfram bökkum Ölfusár með ljósmyndavél og tekur myndir. Í kjölfarið málar hann olíumálverk í rauðbrúnum, gulum og bláum litum sem hann nefnir Ölfusá.

Þrjátíu og fimm ár skilja að Ölfusármyndir þeirra Þorvalds og Sigtryggs. Á því tímabili hafa margar ár runnið til sjávar í samtímalistinni. Við fyrstu sýn kann að virðast sem himinn og haf skilji að hugmyndaheim módernista af gamla skólanum og samtímamálara, en á sýningunni má sjá að nálgun konseptmálarans Sigtryggs á þó býsna margt sameiginlegt með formrannsakandanum og rökhyggjumanninum Þorvaldi Skúlasyni.

Þjóðleg fagurfræði

Þjóðleg fagurfræði


Sýningin er tilraun til að skoða hvernig þjóðleg fagurfræði birtist í verkum ólíkra myndlistarmanna á ólíkum tímum. Á sýningunni eru verk eftir listamenn tveggja alda. Þeir eldri eru fæddir á tuttugu ára tímabili undir lok 19. aldar og eru Ásgrímur Jónsson (1876-1958), Gísli Jónsson (1878-1944), Halldór Einarsson (1893-1977), Jóhannes Kjarval (1885-1972) og Kristinn Pétursson (1896-1981). Verk þeirra byggja á  þjóðernisrómantík og sjálfstæðisbaráttu um leið og þeir skilgreina inntak þjóðernislegrar listar.

Yngri listamennirnir sem fæddir eru á árunum 1947-61 eiga það sammerkt að sækja í alþýðlegan menningararf á frjóan hátt sem getur verið bæði hnyttinn og beittur. Þeir eru Bjarni H. Þórarinsson, Birgir Andrésson, Guðjón Ketilsson, Hulda Hákon, Daníel Þ. Magnússon, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Ólöf Nordal.

Verkin á sýningunni eru mörg úr safneign Listasafns Árnesinga en einnig eru verk fengin að að láni frá Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og úr einkaeign.

Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir.

AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA

AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA

Á sýningunni hafa listamennirnir nálgast viðfangsefnið á margslungna vegu og opna mismunandi innönguleiðir að þekkingarvíddum myndlistar. Verkin fjalla í senn um miðlun þekkingar og aðgengi að henni, aðferðafræði myndlistarmannsins við þekkingarsköpun, sem og eðli og mismunandi tegundir þekkingar í samfélagi okkar.

Sýningin vekur einnig upp spurningar um skilin milli persónulegrar þekkingar og sameiginlegrar þekkingar, vald og ábyrgð þeirra sem búa yfir þekkingu, sem og fagurfræði þekkingar.

Sýningin hefur verið framlengd til 18. júlí og er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Sýningarstjórar og listamenn

Ingirafn Steinarsson myndlistarmaður og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir mannfræðingur og forstöðumaður rannsóknarþjónustu Listaháskóla Íslands eru sýningarstjórar þessarar sýningar. Þau völdu eftirtalda listamenn til þess að taka þátt í sýningunni og þar má sjá ýmist eldri verk sett í nýtt samhengi eða ný verk unnin sérstaklega í tilefni hennar. Saman mynda þau áhugavert innlegg í orðræðuna um þekkingu og samtímamyndlist.

Anna Líndal, Birta Guðjónsdóttir, Einar Garibaldi Eiríkssson, Huginn Þór Arason, Hugsteypan, en það er heiti listatvíeykisins Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdís Jóhannesdóttur, Jeannette Castioni, Karlotta Blöndal, Olga Bergmann, Ólafur Sveinn Gíslason, Ósk Vilhjálmsdóttir, Pétur Örn Friðriksson, Sara Björnsdóttir, Sirra Sigrún og Unnar Örn.

Umræðudagskrá

Samhliða sýningunni hafa verið skipulagðar umræðudagskrár í safninu og hefjast þær kl. 15.

Sunnudagurinn 27. júni kl. 15 - leiðsögn og sýningaspjall. Inga Jónsdóttir safnstjóri mun ræða um verkin og hvetja gesti til samræðu um þau.

og

Sunnudagurinn 11. júlí kl. 15 - íslenski safnadagurinn - fjölskylduleikur allan daginn og leiðsögn og sýningaspjall kl. 15. 
Inga Jónsdóttir safnstjóri mun ræða um verkin og hvetja gesti til samræðu um þau.

Fyrri umræður:
Sunnudaginn, 16. maí kl. 15. Heimspekingurinn Henry Alexander Henrysson og mannfræðingurinn Sveinn Eggertsson fjölluðu um þekkingu út frá hugmyndasögulegu, þekkingarfræðilegu og mannfræðilegu sjónarhorni. Auk þess ræddu Karlotta Blöndal og listamannateymið Hugsteypan um viðfangsefni sýningarinnar út frá persónulegu sjónarhorni myndlistarmannsins með hliðsjón af eigin verkum á sýningunni.

Laugardagurinn 5. júní kl. 15 – Að þessu sinni flytur erindi mann- og safnafræðingurinn Sigurjón Baldur Hafsteinsson og listfræðingurinn Margrét Elísabet Ólafsdóttir, auk þess sem listamennirnir Olga Bergmann og Sara Björnsdóttir taka þátt í umræðum. Rætt verður um stofnanavæðingu þekkingar í gegnum söfn; vald, sögu og upphaf safna eins og við þekkjum þau í dag með hliðsjón af þekkingarsöfnun heimsins. Einnig verður rætt um þekkingarmaskínuna sem listasagan drífur áfram, sem og hlutverk listfræðinga og sýningarstjóra í að ramma inn þekkingu um listir. Jafnframt verður sjónum beint að stöðu listamannsins sem þekkingarskapandi afli í samfélagi og vöngum vel yfir stöðu þeirra í þekkingarkerfi nútímans.

Sunnudagurinn 13. júní kl. 15 - Að þessu sinni er spurt  hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið? Inngangserindi flytur Skúli Sæland fyrir hönd Upplits - menningarklasa Uppsveita Árnessýslu. Hann mun skoða og skilgreina nærsamfélagið, tengsl þess við hið stærra samfélag og hvernig safnið getur virkað sem gátt milli nær- og fjærsamfélagsins.  Inngangserindi flytja einnig sýningarstjórarnir Ingirafn Steinarsson og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir. Þau munu gera grein fyrir núverandi sýningu og fjalla um hlutverk sýningarstjóra og miðlunarþátt safnsins. Ingirafn er starfandi myndlistamaður, Ólöf Gerður er mannfræðingur og forstöðumaður Rannsóknar-þjónustu Listaháskóla Íslands og Skúli Sæland er sagnfræðingur og meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun og safnafræði.

ÍSLENSK MYNDLIST – hundrað ár í hnotskurn

ÍSLENSK MYNDLIST – hundrað ár í hnotskurn

30. janúar – 2. maí
Val verka á sýningunni byggist á þeirri hugmynd að verkin endurspegli ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði en ekki einstaka listamenn eða þróun þeirra.  Verkin standa sem tákn um ákveðið tímabil og viðhorf til myndlistar.

Verkin á sýningunni koma flest úr safneign Listasafns Íslands, höfuðsafni íslenskrar myndlistar en nokkur verkanna eru úr safneign Listasafns Árnesinga einkum úr gjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona. Litið var til sunnlenskra listamanna eftir því sem hægt var, en fyrst og fremst er sýningin um íslenska myndlist.

Umsjónarmaður og annar höfundur fræðsluefnis er Rakel Pétursdóttir deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Íslands og Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands hefur ritað texta í sýningarskrá.

Ítarefni fyrir kennara er hægt að fá sent til skóla til þess að undirbúa nemendur fyrir heimsóknina í safnið. Einnig er hægt að vinna verkefni á staðnum og í skólanum að heimsókn lokinni. Vert er að benda á að þótt fræðsluefnið eitt og sér sé áhugavert og ýmsar upplýsingar um myndlist að finna í bókum og á netinu, þá er sú tilfinning að standa andspænis listaverkinu sjálfu alltaf önnur en sú sem endurunnin birtingarmynd þess vekur.

Þessi sýning byggist á sýningu sem var opnuð í janúar 2008 í Skaftfelli á Seyðisfirði, og unnin í samvinnu Listasafns Íslands og Skaftfells, miðstöð myndlistar á Austurlandi. Markmiðið nú eins og þá er að vinna fræðslusýningu sem nýtist ungu fólki og öðrum áhugasömum til að átta sig á samhenginu í myndlistinni, samhengi nútíðar og fortíðar. Sýningunni er gróflega skipt niður í fjórar bylgjur hugmynda, en þar sem sýningin í Listasafni Árnesinga er mun umfangsmeiri en sýningin í Skaftfelli  er einnig rými fyrir örlitla útúrdúra. Því þó að sagan virðist línuleg framvinda þróast hugmyndir lagskipt, þ.e. eldri bylgjur hugmynda halda áfram þó að nýjar hafi komið fram.  Stund og staður skipta einnig máli.

Sýningarstjórar eru Dagný Heiðdal, deildarstjóri listaverkadeildar Listasafns Íslands, Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Íslands og Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Jólapokagluggasýning

Jólapokagluggasýning

17. desember 2009 - 6. janúar 2009
JólapokagluggasýningJólapokagluggasýningin er í anddyri safnsins og sett upp  í tengslum við Jól í bæ, sem er jóladagatal Hveragerðisbæjar. Hugleiðing um hin ýmsu tákn sem tengjast jólum og mynd af hverju tákni útdeilt um allan bæ. Tákn og texti eru unnin af Guðrúnu Tryggvadóttur myndlistarmanni.  Tákninu sem útdeilt var til Listasafnsins var jólapoki.

Listasafn Árnesinga fékk 20 listamenn til þess að vinna með hvíta bréfpoka sem nú eru til sýnis í anddyri safnsins og eru aðgengilegir til skoðunar í gegnum gluggana allan sólarhringinn. Pokarnir eru meðhöndlaðir á afar fjölbreyttan hátt og á sýningunni má sjá hina heilögu þrenningu, ofgnóttarpoka, kartöflupoka, snjóbolta, útskurðarpoka með meiru, fæðinguna, verkefnalista, hreindýrahjörð, stjörnur, jólatré, jólakúlur og jólapoka, jólasveina á grein, móður jörð, móður og barn, byltingarsinna, ljósritunarpoka, brjóstsykurspoka, pokadýr, íslenska fánann, hangikjötslæri og friðardúfuna.

Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eru  Alda Sigurðardóttir, Borghildur Óskarsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Eygló Harðardóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Guðrún Tryggvadóttir, Hannes Lárusson, Haraldur Jónsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hildur Bjarnadóttir, Hildur Hákonardóttir, Húbert Nói, Ingirafn Steinarsson, Ingvar Högni Ragnarsson, Karen Ósk Sigurðardóttir, Margrét Zophoníasdóttir, Steinunn Helgadóttir, Þórdís Sigurðardóttir og Þuríður Sigurðardóttir.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn