Listamenn

ÞRÆDDIR ÞRÆÐIR

ÞRÆDDIR ÞRÆÐIR


Ásgerður Búadóttir, Hildur Hákonardóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Hildur Bjarnadóttir
Á sýningunni Þræddir þræðir eru verk eftir Ásgerði Búadóttur, Hildi Hákonardóttur, Guðrúnu Gunnarsdóttur og Hildi Bjarnadóttur. Þar er þráðurinn skoðaður sem vettvangur átaka, hvort heldur um mörk myndlistar eða togstreitu milli kynja og pólitískra afla en ímyndir þráðarins birtast á ólíkan hátt hjá fjórum kynslóðum. Ásgerður er frumkvöðull nútíma veflistar hér á landi, en hún yfirfærði hefðbundið akademískt listnám í vefnaðinn og skapaði þannig nýja sýn á textílverk. Hildur Hákonardóttir beitti vefnaðinum sem pólitísku vopni. Hún hefur unnið með teikninguna og virkni hennar í kvennabaráttunni endurspeglast í verkunum. Guðrún hefur skapað sér ákveðna sérstöðu með efnisvali, sem er einkum vír og gúmmí. Hún hefur einnig farið út fyrir hefðbundinn mörk með því að nota efnið sem eins konar teikningu í rýminu og lætur það rjúfa mörkin milli kvenlegs handverks og karlmannlegrar hörku. Hildur Bjarnadóttir rannsakar tilveru listarinnar og mörk handverks og myndlistar á nýstárlegan hátt, en verk hennar fela einnig í sér pólitísk átök kynja og listforma.

Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir og í sýningarskrá ritar Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur, en hún hefur einnig fengist við myndlestur.

Um listamennina
Ásgerður Búadóttir

EINU SINNI ER

EINU SINNI ER


Sýning frá HANDVERKI OG HÖNNUN
Sýningin Einu sinni er kemur frá HANDVERKI OG HÖNNUN. Hugmyndin að henni var að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar með því að stefna saman tveimur ólíkum listamönnum. Tólf einstaklingar voru valdir og hver þeirra valdi sér samstarfsaðila. Þema sýningarinnar er „gamalt og nýtt“ og á sýningunni má sjá fjölda nýrra og áhugaverðra nytjahluta sem unnir eru af þessum tólf pörum, en þau eru Anna Guðmundsdóttir og Tinna Gunnarsdóttir, George Hollanders og Guðrún Á. Steingrímsdóttir, Guðbjörg Káradóttir og Frosti Gnarr, Guðný Hafsteinsdóttir og Karen Ósk Sigurðardóttir, Inga Rúnarsdóttir Bachmann og Stefán Svan Aðalheiðarson, Lára Gunnarsdóttir og Sigríður Erla Guðmundsdóttir, Lára Vilbergsdóttir og Fjölnir Björn Hlynsson, Ólöf Einarsdóttir og Sigrún Ólöf Einarsdóttir, Páll Garðarsson og  Margrét Jónsdóttir, Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir og Birna Júlíusdóttir, Sigríður Ásta Árnadóttir og Kristín Sigfríður Garðarsdóttir, Þorbergur Halldórsson og Ari Svavarsson.

Sýningin var fyrst sett upp í Safnasafninu á Svalbarðseyri í apríl á þessu ári en hefur síðan verið sett upp á Ísafirði, Egilsstöðum, Sauðárkróki og nú í Listasafni Árnesinga, Hveragerði.

pdf Sýningarskrá - EINU SINNI ER
Heimasíða HANDVERK OG HÖNNUN

Blómstrandi dagar í Hveragerði

Listasafnið tekur þátt í Blómstandi dögum í Hveragerði


Fimmtudag – sunnudagur 27. - 30. ágúst

Menningarganga

Vegna fjölda áskorana er ákveðið að endurtaka menningargönguna

                                         KONUR OG ANDINN

með örlitlum breytingum á Blómstrandi dögum - laugardaginn 29. ágúst kl. 11.
Gangan er samvinnuverkefni Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga.

Mæting kl. 11 við götuhornið Heiðmörk – Laufskógar og göngunni lýkur í Listasafni Árnesinga með spjalli um yfirstandandi sýningu ANDANS KONUR, Gerður Helgadóttir, Nína Tryggvadóttir, París – Skálholt. Nánari upplýsingar um sýninguna hér

Á leiðinni munu einstaklingar sem tengjast fjórum skapandi konum, sem bjuggu í Hveragerði á árum áður, segja frá þeim og verkum þeirra. Konurnar eru Valdís Halldórsdóttir (1908-2002) rithöfundur og ritstjóri ásamt því að vera einnig kennari og húsmóðir, Ingunn Bjarnadóttir (1905-1972) tónskáld meðfram sínum húsmóðurstörfum, Árný Filippusdóttir (1894-1977 ) hannyrðakona og rekstrarstýra kvennaskóla í Hveragerði og Ásdís Jóhannsdóttir (1933-1959) ljóðskáld, sem skrifaði auk þess dagbók með skemmtilegum vangaveltum.

Hlíf Arndal og Inga Jónsdóttir munu leiða gönguna og sýningarspjallið. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Fjölskylduleikur

skjal_fjolskylduleikur.jpgÞessi leikur byggist á því að fjölskyldan les leiðbeiningarnar saman, ræðir þær, leitar að vísbendingunum sem bent er á og skráir niðurstöðurnar á  þetta blað.

Nína og Gerður voru meðal frumkvöðla í íslenskri abstraktlist, Nína á sviði málaralistar og Gerður á sviði höggmyndalistar eða skúlptúrs.

Þær fengust einnig báðar við gler og mósaíklist auk fleiri miðla.

Leiðsögn

Sunnudaginn 30. ágúst mun Inga Jónsdóttir safnstjóri ræða við gesti um sýninguna ANDANS KONUR þar sem skoða má verk eftir listakonurnar Gerði Helgadóttur og Nínu Tryggvadóttur, en leiðir þessarra ólíku listamanna lágu saman í París á árunum 1952-57 og í Skálholts kirkju má sjá verk þeirra, glugga og altaristöflu, sem eiga rætur í þessum tíma.

ER OKKAR VÆNST ? - Leynilegt stefnumót í landslagi

ER OKKAR VÆNST? - Leynilegt stefnumót í landslagi

8. mars – 4. maí 2008 

Tveimur ólíkum listakonum - sem báðar vinna með samfélagstengt efni- er teflt saman á núverandisýningu í Listasafni Árnesinga. Það er Hjálmar Sveinsson sem er sýningarstjóri en listakonurnar eru Borghildur Óskarsdóttir og Sigríður Melrós Ólafsdóttir.

Við fyrstu sýn virðast verk þeirra Borghildar og Sigríðar eiga fátt sameiginlegt enda eru þær af sitt hvorri kynslóðinni og hafa unnið með ólík efni út frá ólíkum forsendum án þess að vita mikið hvor af annarri.

En þegar verkum þeirra er teflt saman skapast óvæntir snertifletir og spenna.

Í maí 1918 fóru hjónin Bjarni Bernharðsson og Ragnhildur Höskuldsdóttir með börnin sín fimm frá Hafnarfirði að bænum Sléttabóli í Gaulverjabæjarhreppi. Heimili þeirra hafði verið leyst upp en Bjarni átti sveitarfestu í Gaulverjabæjarhreppi og því bar þeim að fara þangað. Daginn eftir dreif að fólk til að sækja börnin.

Ári eftir flutning fjölskyldunnar var byggt sjúkrahús fyrir Suðurland rétt við Eyrarbakka. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni í íslenskum stíl með bröttum rauðmáluðum burstaþökum. Því var breytt í vinnuhæli árið 1929 og jarðirnar Litla- og Stóra-Hraun lagðar til þess. Síðan þá hefur „vinnuhælið“ jafnan verið kennt við Litla-Hraun.

Borghildur tengir sig og fjölskyldusögu sína við landslagið í Flóanum og víðar á Suðurlandi. Sigríður sýnir myndir af föngum og varpar um leið ljósi á framandi heim. Myndverk þeirra beggja endurspegla samfélagið á forsendum listrænnar endursköpunar.

í veglega sýningarskrá er grein eftir Hjálmar sýningarstjóra, sem er þekktur útvarpsmaður en hefur einnig unnið við sýningarstjórnun listsýninga.  Í sýningaskránna ritar einnig Margrét Frímannsdóttir, sem fædd er og uppalin í Flóanum.

Sunnudagsspjall kl. 15

Tilvalið tækifæri til að ræða um tilurð, framsetningu og inntak sýningarinnar

16. mars
Hjálmar Sveinsson, sýningarstjóri og útvarpsmaður

30. mars
Borghildur Óskarsdóttir, myndlistamaður og höfundur verka á sýningunni

13. apríl
Sigríður Melrós Ólafsdóttir, myndlistamaður og höfundur verka á sýningunni

27. apríl
Hannes Lárusson myndlistamaður og staðarhaldari að Austur-Meðalholti í Flóa

4. maí
Inga Jónsdóttir, safnstjóri

Listamaðurinn í verkinu - Magnús Kjartansson

Listamaðurinn í verkinu - Magnús Kjartansson

á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2008

Verkin á sýningunni marka mikið umbrotatímabil í list Magnúsar þar sem reiddi sig minna á fágun og formtækni en áður og gekk nær sjálfum sér, bæði í myndefninu og aðferðunum við gerð myndanna. Magnúsi lynti ekki alltaf við samtíð sína en margt í list hans kallast sterkt á við verk yngri íslenskra listamanna, einkum hvað varðar sjálfsskilning listamannsins og líkamlega nálægð í verkunum. Líkamleg tjáning í þessum verkum er sterk og þar birtast handa og jafnvel fótaför innan um ágengar táknmyndir svo tjáning þeirra er einna líkust dansi og sterkir litir og kröftug teikning draga áhorfandann nær.

Um sýninguna
Magnús Kjartansson (1949-2006) vakti snemma mikla athygli en sýndi sjaldnar er á leið þótt sýningarnar vektu alltaf athygli. Magnúsi lynti ekki alltaf við samtíð sína en margt í list hans kallast sterkt á við verk yngri íslenskra listamanna, einkum hvað varðar sjálfsskilning listamannsins og líkamlega nálægð í verkunum. Magnús dó fyrir aldur fram en hafði þegar á ferli sínum tekist á við undramarga miðla, klippimyndir, málverk, skúlptúr, ljósmyndir og hvers konar þrykk.

Þessi sýning tekur á verkum sem Magnús vann á pappír milli 1982 og 1988. Aðeins fáein af þessum verkum hafa áður verið sýnd þótt nokkur hafi ratað í bæði almennings og einkasöfn. Í þeim má rekja tilraunir Magnúsar með ýmsar ljósprentsaðferðir sem gerðu honum kleift að þrykkja hluti, myndir og jafnvel eigin líkama beint á pappírinn. Í mörgum myndunum má síðan sjá hvernig Magnús hefur unnið þær áfram, stundum með kemískum aðferðum en stundum með málningu. Verkin sýna hvernig endurtekin form, myndir og tákn verða að persónulegu myndrænu tungumáli og saman eru þau til vitnis um einstæða listræna rannsókn Magnúsar sem ögraði ekki einasta viðurkenndum aðferðum heldur var líka afar nærgöngull í sjálfsskoðun og fól í sér gagnrýnið endurmat á hlutverki listamannsins og erindi hans í listinni.
Slík viðfangsefni hafa orðið æ algengari í list nýrrar kynslóðar listamanna sem greinilega upplifa eitthvað í list og samfélagi vorra tíma svipað því sem Magnús var að takast á við á níunda áratugnum.
Sýningarstjóri er Jón Proppé.

Ferill listamannsins
Magnús Kjartansson (1949-2006) byrjaði að mála strax í menntaskóla í Reykjavík og sótti námskeið hjá Herði Ágústssyni. Þegar hann hafði lokið stúdentsprófi 1969 hóf hann nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands  þar sem hann var til 1972 en það ár hélt hann sýningu ásamt Sigurði Örlygssyni í Norræna húsinu áður en hann fór utan til Kaupmannahafnar og var næstu þrjú árin við nám í Konunglegu listaakademíunni, meðal annars hjá hinum þekkta danska málara Richard Mortensen. Að námi loknu sýndi Magnús á Kjarvalsstöðum 1976 og næstu árin kvað strax mikið að honum. Hann sýndi klippimyndir, skúlptúra, málverk og hvers konar þrykk en hvar sem hann bar niður þekktist sterkt handbragð og afstaða höfundarins. Þessi leit í hinum ýmsu miðlum og aðferðum einkenndi list Magnúsar alla tíð og með hverri sýningu birti hann ekki aðeins ný verk heldur nýja aðferð og nýja hugsun. Magnús lést fyrir aldur fram árið 2006.

Ferill sýningarstjóra
Jón Proppé (fæddur 1962) lærði heimspeki við Illinois-háksóla í Bandaríkjunum en býr og starfar í Reykjavík. Hann hefur skrifað mikið um menningu og listir, mörg hundruð sýningarumfjallanir, greinar og bókakafla, auk greina í á annað hundrað sýningarskráa hér á Íslandi, á Norðurlöndum, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Hann hefur líka stýrt sýningum fyrir söfn og aðrar stofnanir á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Þýskalandi. Um tíma stýrði hann Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, í afleysingum og hefur gegnt ýmsum opinberum ábyrgðarverkefnum síðan. Jón hafur líka starfað að bókaútgáfu, bæði sem ritstjóri og hönnuður, kennt, haldið fyrirlestra og leitt ráðstefnur, auk þess sem hann hefur komið að gerð margra heimildamynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahús. Jón er einn þeirra höfunda sem nú starfa við að skrifa nýja sögu íslenskrar myndlistar á tuttugustu öld.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn