Listamenn

ÍSLENSK MYNDLIST – hundrað ár í hnotskurn

ÍSLENSK MYNDLIST – hundrað ár í hnotskurn

30. janúar – 2. maí
Val verka á sýningunni byggist á þeirri hugmynd að verkin endurspegli ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði en ekki einstaka listamenn eða þróun þeirra.  Verkin standa sem tákn um ákveðið tímabil og viðhorf til myndlistar.

Verkin á sýningunni koma flest úr safneign Listasafns Íslands, höfuðsafni íslenskrar myndlistar en nokkur verkanna eru úr safneign Listasafns Árnesinga einkum úr gjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona. Litið var til sunnlenskra listamanna eftir því sem hægt var, en fyrst og fremst er sýningin um íslenska myndlist.

Umsjónarmaður og annar höfundur fræðsluefnis er Rakel Pétursdóttir deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Íslands og Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands hefur ritað texta í sýningarskrá.

Ítarefni fyrir kennara er hægt að fá sent til skóla til þess að undirbúa nemendur fyrir heimsóknina í safnið. Einnig er hægt að vinna verkefni á staðnum og í skólanum að heimsókn lokinni. Vert er að benda á að þótt fræðsluefnið eitt og sér sé áhugavert og ýmsar upplýsingar um myndlist að finna í bókum og á netinu, þá er sú tilfinning að standa andspænis listaverkinu sjálfu alltaf önnur en sú sem endurunnin birtingarmynd þess vekur.

Þessi sýning byggist á sýningu sem var opnuð í janúar 2008 í Skaftfelli á Seyðisfirði, og unnin í samvinnu Listasafns Íslands og Skaftfells, miðstöð myndlistar á Austurlandi. Markmiðið nú eins og þá er að vinna fræðslusýningu sem nýtist ungu fólki og öðrum áhugasömum til að átta sig á samhenginu í myndlistinni, samhengi nútíðar og fortíðar. Sýningunni er gróflega skipt niður í fjórar bylgjur hugmynda, en þar sem sýningin í Listasafni Árnesinga er mun umfangsmeiri en sýningin í Skaftfelli  er einnig rými fyrir örlitla útúrdúra. Því þó að sagan virðist línuleg framvinda þróast hugmyndir lagskipt, þ.e. eldri bylgjur hugmynda halda áfram þó að nýjar hafi komið fram.  Stund og staður skipta einnig máli.

Sýningarstjórar eru Dagný Heiðdal, deildarstjóri listaverkadeildar Listasafns Íslands, Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Íslands og Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Jólapokagluggasýning

Jólapokagluggasýning

17. desember 2009 - 6. janúar 2009
JólapokagluggasýningJólapokagluggasýningin er í anddyri safnsins og sett upp  í tengslum við Jól í bæ, sem er jóladagatal Hveragerðisbæjar. Hugleiðing um hin ýmsu tákn sem tengjast jólum og mynd af hverju tákni útdeilt um allan bæ. Tákn og texti eru unnin af Guðrúnu Tryggvadóttur myndlistarmanni.  Tákninu sem útdeilt var til Listasafnsins var jólapoki.

Listasafn Árnesinga fékk 20 listamenn til þess að vinna með hvíta bréfpoka sem nú eru til sýnis í anddyri safnsins og eru aðgengilegir til skoðunar í gegnum gluggana allan sólarhringinn. Pokarnir eru meðhöndlaðir á afar fjölbreyttan hátt og á sýningunni má sjá hina heilögu þrenningu, ofgnóttarpoka, kartöflupoka, snjóbolta, útskurðarpoka með meiru, fæðinguna, verkefnalista, hreindýrahjörð, stjörnur, jólatré, jólakúlur og jólapoka, jólasveina á grein, móður jörð, móður og barn, byltingarsinna, ljósritunarpoka, brjóstsykurspoka, pokadýr, íslenska fánann, hangikjötslæri og friðardúfuna.

Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eru  Alda Sigurðardóttir, Borghildur Óskarsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Eygló Harðardóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Guðrún Tryggvadóttir, Hannes Lárusson, Haraldur Jónsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hildur Bjarnadóttir, Hildur Hákonardóttir, Húbert Nói, Ingirafn Steinarsson, Ingvar Högni Ragnarsson, Karen Ósk Sigurðardóttir, Margrét Zophoníasdóttir, Steinunn Helgadóttir, Þórdís Sigurðardóttir og Þuríður Sigurðardóttir.

Dagskrá nóvember og desember

Dagskrá í nóvember og desember

Sunnudagur 15. nóvember
KL.15    Sýningarspjall á sunnudegi
Sunneva Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri HANDVERKS og HÖNNUNAR ræðir við gesti um sýninguna EINU SINNI ER, sem nú stendur í Listasafni Árnesinga.

Sunnudagur 22. nóvember
Kl. 14:00          Þráður eða lína - listasmiðja í teiknun
Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður miðlar grundvallaratriðum teiknunar. Efni á staðnum endurgjaldslaust til afnota. Tilvalið fyrir fjölskyldur og vini að eiga góða stund saman.
Kl. 15:00         Sýningarspjall á sunnudegi
Hildur Hákonardóttir ræðir við gesti um sýninguna ÞRÆDDIR ÞRÆÐIR og skapar umræður meðal þeirra um verkin og markmið sýningarinnar, en Hildur er höfundur nokkra verka á sýningunni.

Sunnudagur 29. nóvember
Kl. 15:00    Erindi Á röltinu með Ragnari í Smára - Samstarfsverkefni með menningarferðinni Á röltinu með Ragnari í Smára og Byggðasafni Árnesinga - nánari upplýsingar síðar.

þriðjudagur 1. desember
kl. 20:00    Bókmenntakvöld á Listasafni
Gyrðir Elíasson, Bragi Ólafsson, Jón Kalman Stefánsson og Oddný Eir Ævarsdóttir lesa úr verkum sínum. Fiðlutónar. Þetta er samstarfsverkefni með Bókasafni Hveragerðis.

Sunnudagur 6. desember
    Jólastemning í Listasafninu
    Sýningarlok - ÞRÆDDIR ÞRÆÐIR og EINU SINNI ER
Kl. 15-16    Listamannaspjall.  Listakonurnar sem eiga verk á sýningunni ÞRÆDDIR ÞRÆÐIR verða á staðnum og ræða við gesti um verk sín og nokkrir höfundar verka á sýningunni EINU SINNI ER verða einnig til staðar.
Kl. 16:30     Gítartónar. Hörður Friðþjófsson skapar stemningu með því að leika nokkur ljúf jólalög á gítarinn.
    Piparkökur og heitt súkkulaði í kaffistofunni.

 

Safnahelgi á Suðurlandi

Safnahelgi á Suðurlandi 6. - 9. nóv.

Söfn um allt Suðurland og í Vestmannaeyjum bjóða upp á fjölbreytta menningardagskrá helgina 5. – 8. nóvember 2009. Yfirskrift dagskrárinnar verður Safnahelgi á Suðurlandi með undirtitilinum Matur og menning úr héraði því auk hins sögulega og menningarlega hluta dagskrárinnar verður minnt á gamlar og nýjar hefðir í matargerðarlist í héraðinu. Það eru Samtök safna á Suðurlandi og Matarkista Suðurlands sem standa að dagskránni með hátt í eitt hundrað aðilum. Verkefnið nýtur stuðnings Menningarráðs Suðurlands. Hugmyndin að baki Safnahelgi á Suðurlandi er að þjappa þeim fjölmörgu aðilum sem vinna við sunnlenska menningu saman um eina sameiginlega viðburðahelgi og bjóða íbúum héraðsins og gestum að njóta þess fjölbreytta menningarstarfs sem er í boði. Á veitingastöðum verður boðið upp á það besta í sunnlenskri matarhefð. Boðið er upp á dagskrá frá fimmtudegi til sunnudags, en staðirnir eru þó með mismunandi opnunartíma. Safnahelgin verður formlega opnuð í tengslum við málþing sem haldið verður í tilefni 60 ára afmælis Byggðasafnsins í Skógum fimmtudaginn 5. nóvember. www.sofnasudurlandi.is

Dagskráin í Listasafni Árnesinga

Föstudagur 6. nóv. til sunnudags 8. nóv.
Kl. 12:00-18:00 ÞRÆDDIR ÞRÆÐIR og EINU SINNI ER
Tvær sýningar sem kallast á þar sem handverk er í öndvegi, annars vegar í listum og hins vegar í hönnun nytjahluta, en umræður um mörk lista og hönnunar hafa lengi verið ofarlega á baugi.
Nánar um ÞRÆDDA ÞRÆÐI - hér
Nánar um EINU SINNI ER - hér

Þráður eða lína - listasmiðja í teiknun

Laugard.  8. nóv. kl. 15
Hvað er líkt með þráð og línu? Gestum boðið að æfa sig í teiknun - tilvalið fyrir fjölskylduna til að hafa gaman af. Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður með meiru leiðbeinir gestum. Efni á staðnum endurgjaldslaust til afnota.

Sýningarspjall á sunnudegi

Sunnud. 9. nóv. kl. 15
Inga Jónsdóttir safnstjóri ræðir við gesti um sýningarnar og skapar umræður um verkin og markmið sýninganna.

Græna Íslandskortið, Ísland og heimurinn í grænu ljósi

Laug. og  sunnud. 8. og 9. nóv. kl. 14-15
Kynnt verður vefútgáfa „Græna Íslandskortsins" en jafnframt verða til sýnis græn kort sem þróuð hafa verið víða um heim. Tilgangur grænkortagerðar er að gera vistvæna kosti á sviði menningar, ferðaþjónustu og viðskipta um allan heim sýnilegri og aðgengilegri. Grænt Íslandskort/Green Map Iceland er samvinnuverkefni Náttúran.is, fyrirtækis sem starfrækt er í Hveragerði, Land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands og alþjóðlega verkefnisins Green Map System. Frekari upplýsingar á www.natturan.is

Heitir þræðir í Hveragerði

Menningarganga

HEITIR ÞRÆÐIR Í HVERAGERÐI

Sunnudaginn 18. október kl. 13


Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga efna til menningargöngu um Hveragerði undir yfirskriftinni HEITIR ÞRÆÐIR Í HVERAGERÐI.

Gangan hefst við Hverasvæðið, í gestamóttökunni, kl. 13 og lýkur í Listasafni Árnesinga með spjalli um yfirstandandi sýningar ÞRÆDDIR ÞRÆÐIR og EINU SINNI ER.

Á fyrrnefnri sýningunni eru verk eftir veflistakonurnar Ásgerði Búadóttur, Hildi Hákonardóttur, Guðrúnu Gunnarsdóttur og Hildi Bjarnadóttur. Þar er þráðurinn skoðaður sem vettvangur átaka og er birtingarmynd þráðarins ólík hjá þessum fjórum kynslóðum. Síðarnefnda sýningin kemur frá HANDVERKI OG HÖNNUN. Hugmyndin að henni var að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar með því að stefna saman tveimur ólíkum listamönnum. Þema sýningarinnar er „gamalt og nýtt“ og á sýningunni má sjá fjölda nýrra og áhugaverðra nytjahluta sem unnir eru af þessum tólf pörum.

Í göngunni um Hveragerði voru fjórir staðir valdir sem útgangspunktar og munu yngri kynslóðir rekja þráð sögunnar með ýmsum flækjum til dagsins í dag. Á Hverasvæðinu mun Soffía Valdimarsdóttir, þjóðfræðinemi, fjalla um ímynd svæðisins. Varmahlíðarhúsið er næsti viðkomustaður og þar mun Jóhanna Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi í Hveragerði, segja frá. Við Reykjafoss í Varmá mun Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur, m.a. rekja sögu ullarþvotta. Í Fagrahvammi mun Helga Sigurðardóttir, garðyrkjubóndi, segja frá þessari elstu gróðarstöð bæjarins.

Hlíf Arndal og Inga Jónsdóttir leiða gönguna og sýningarspjallið. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn