Listamenn

Listamaðurinn í verkinu - Magnús Kjartansson

Listamaðurinn í verkinu - Magnús Kjartansson

á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2008

Verkin á sýningunni marka mikið umbrotatímabil í list Magnúsar þar sem reiddi sig minna á fágun og formtækni en áður og gekk nær sjálfum sér, bæði í myndefninu og aðferðunum við gerð myndanna. Magnúsi lynti ekki alltaf við samtíð sína en margt í list hans kallast sterkt á við verk yngri íslenskra listamanna, einkum hvað varðar sjálfsskilning listamannsins og líkamlega nálægð í verkunum. Líkamleg tjáning í þessum verkum er sterk og þar birtast handa og jafnvel fótaför innan um ágengar táknmyndir svo tjáning þeirra er einna líkust dansi og sterkir litir og kröftug teikning draga áhorfandann nær.

Um sýninguna
Magnús Kjartansson (1949-2006) vakti snemma mikla athygli en sýndi sjaldnar er á leið þótt sýningarnar vektu alltaf athygli. Magnúsi lynti ekki alltaf við samtíð sína en margt í list hans kallast sterkt á við verk yngri íslenskra listamanna, einkum hvað varðar sjálfsskilning listamannsins og líkamlega nálægð í verkunum. Magnús dó fyrir aldur fram en hafði þegar á ferli sínum tekist á við undramarga miðla, klippimyndir, málverk, skúlptúr, ljósmyndir og hvers konar þrykk.

Þessi sýning tekur á verkum sem Magnús vann á pappír milli 1982 og 1988. Aðeins fáein af þessum verkum hafa áður verið sýnd þótt nokkur hafi ratað í bæði almennings og einkasöfn. Í þeim má rekja tilraunir Magnúsar með ýmsar ljósprentsaðferðir sem gerðu honum kleift að þrykkja hluti, myndir og jafnvel eigin líkama beint á pappírinn. Í mörgum myndunum má síðan sjá hvernig Magnús hefur unnið þær áfram, stundum með kemískum aðferðum en stundum með málningu. Verkin sýna hvernig endurtekin form, myndir og tákn verða að persónulegu myndrænu tungumáli og saman eru þau til vitnis um einstæða listræna rannsókn Magnúsar sem ögraði ekki einasta viðurkenndum aðferðum heldur var líka afar nærgöngull í sjálfsskoðun og fól í sér gagnrýnið endurmat á hlutverki listamannsins og erindi hans í listinni.
Slík viðfangsefni hafa orðið æ algengari í list nýrrar kynslóðar listamanna sem greinilega upplifa eitthvað í list og samfélagi vorra tíma svipað því sem Magnús var að takast á við á níunda áratugnum.
Sýningarstjóri er Jón Proppé.

Ferill listamannsins
Magnús Kjartansson (1949-2006) byrjaði að mála strax í menntaskóla í Reykjavík og sótti námskeið hjá Herði Ágústssyni. Þegar hann hafði lokið stúdentsprófi 1969 hóf hann nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands  þar sem hann var til 1972 en það ár hélt hann sýningu ásamt Sigurði Örlygssyni í Norræna húsinu áður en hann fór utan til Kaupmannahafnar og var næstu þrjú árin við nám í Konunglegu listaakademíunni, meðal annars hjá hinum þekkta danska málara Richard Mortensen. Að námi loknu sýndi Magnús á Kjarvalsstöðum 1976 og næstu árin kvað strax mikið að honum. Hann sýndi klippimyndir, skúlptúra, málverk og hvers konar þrykk en hvar sem hann bar niður þekktist sterkt handbragð og afstaða höfundarins. Þessi leit í hinum ýmsu miðlum og aðferðum einkenndi list Magnúsar alla tíð og með hverri sýningu birti hann ekki aðeins ný verk heldur nýja aðferð og nýja hugsun. Magnús lést fyrir aldur fram árið 2006.

Ferill sýningarstjóra
Jón Proppé (fæddur 1962) lærði heimspeki við Illinois-háksóla í Bandaríkjunum en býr og starfar í Reykjavík. Hann hefur skrifað mikið um menningu og listir, mörg hundruð sýningarumfjallanir, greinar og bókakafla, auk greina í á annað hundrað sýningarskráa hér á Íslandi, á Norðurlöndum, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Hann hefur líka stýrt sýningum fyrir söfn og aðrar stofnanir á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Þýskalandi. Um tíma stýrði hann Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, í afleysingum og hefur gegnt ýmsum opinberum ábyrgðarverkefnum síðan. Jón hafur líka starfað að bókaútgáfu, bæði sem ritstjóri og hönnuður, kennt, haldið fyrirlestra og leitt ráðstefnur, auk þess sem hann hefur komið að gerð margra heimildamynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahús. Jón er einn þeirra höfunda sem nú starfa við að skrifa nýja sögu íslenskrar myndlistar á tuttugustu öld.

Heitar ástríður í Hveragerði

Síðasta sýningarhelgi

Heitar ástríður í Hveragerði - tangó og tal um myndlist Magnúsar Kjartanssonar

sunnudaginn 20. júlí kl. 15

Sunnudaginn 20. júlí kl. 15 mun Kristín Bjarnadóttir ljóðskáld lesa úr ljóðum sínum um argentínskan tangó og í kjölfarið ræða þær Inga Jónsdóttir safnstjóri og Kolbrún Björgólfsdóttir, Kogga, leirlistamaður og ekkja listamannsins um verk Magnúsar við gesti sýningarinnar.

Síðasti sýningardagur á verkum Magnúsar Kjartanssonar í Listasafni Árnesinga er nk sunnudag, 20. júlí. Sýningunni hefur verið vel tekið enda fjórtán ár frá því hægt hefur verið að skoða verk Magnúsar á stórri sýningu. Verkin marka mikið umbrotatímabil í list hans og hann vann með gamla ljósmyndatækni sem hann þróaði á sinn persónulega hátt. Hann reiddi sig minna á fágun og formtækni en áður og gekk nær sjálfum sér, bæði í myndefninu og aðferðunum við gerð myndanna. Líkamleg tjáning í þessum verkum er sterk og þar birtast handa og jafnvel fótaför innan um ágengar táknmyndir svo tjáning þeirra er einna líkust dansi og sterkir litir og kröftug teikning láta áhorfandann finna fyrir ástríðunni sem liggur að baki.

Tangó býr líka yfir ástríðu og er Kristínu Bjarnadóttur ljóðskáldi hugleikinn. Hún er menntaður leikari, hefur skrifað og þýtt leikhúsverk og hefur séð um eða tekið þátt í ýmsum menningardagskrám víða um land. Hún hefur lagt stund á jazzdans, nútímadans og afródans en áhugi hennar á tangó vaknaði þegar hún sá sýningu um sögu tangósins í dansi og tónlist með ýmsum stílbrögðum. Hún hefur dvalið í Buenos Aires og í textum sínum fjallar hún oft um tangóheiminn frá sjónarhóli tangóþyrstrar norrænar konu. Kristín er ættuð úr Húnavatnssýslu en er nú búsett í Svíþjóð. Hún hefur dvalið þennan mánuð í listamannaíbúðinni í Hveragerði.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12 – 18. Hægt er að kaupa m.a. kaffi, kakó og vöfflur í kaffistofu safnsins. Núverandi sýningu lýkur 20. júlí. Aðgangur er ókeypis.

Nánar um sýninguna - Listamaðurinn í verkinu - Magnús Kjartansson

Á ferð með fuglum Höskuldur Björnsson

Á ferð með fuglum - Höskuldur Björnsson

Sýningarlok og sýningastjóra spjall

Nú er komið að lokum sýningarinnar á verkum Höskuldar Björnssonar, sem listgagnrýnir Morgunblaðsins gaf yfirskriftina „Yndisleiki íslenskrar náttúru.” Höskuldur náði að skapa sér sess í íslenskri listasögu sem fuglamálari og flest verkanna á sýningunni eru af fuglum, en þar má líka sjá landlagsmyndir, sjálfsmyndir og uppstillingar. Þær eru ýmist unnar með olíulitum eða vatnslitum en einnig er hægt að skoða myndskreytt sendibréf til vina og ættingja. Höskuldur fæddist 1907 í Nesjum við Hornafjörð en lést fyrir aldur fram 1963 og hafði þá búið síðustu sautján æviár sín í Hveragerði, á listamannsárum þess.

Um sýninguna
Höskuldur skipar sérstakan sess í íslenskri listasögu sem helsti fuglamálari Íslands. Þessi sérstaða hans hélst vel fram á sjöunda áratuginn og í hugum margra landsmanna lifir hann enn sem slíkur. Höskuldur var einnig  afkastamikill  landslagsmálari en hann málaði fyrst og fremst á  suður- og suðausturlandi og einbeitti  sér meðal annars að fjarlægum sjóndeildarhringnum og óendanlegum himni hins  víðáttumikla landslags.
Flest verkanna á sýningunni eru fuglamyndir, en þar má líka sjá landlagsmyndir, sjálfsmyndir, uppstillingar og myndskreytt sendibréf. 
Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram.

Ferill listamannsins
Höskuldur fæddist í Dilksnesi í Nesjum í Hornafirði  26. júlí árið 1907 og ólst þar upp. Hann fékk snemma áhuga á myndlist og naut félagsskapar sveitunga sinna, æskuvinarins Svavars Guðnasonar og frænda síns Jóns Þorleifssonar, sem allir áttu sér sama áhugamál. Það að Ásgrímur Jónsson kom og málaði á Hornafirði hefur eflaust haft einhver áhrif á val Höskuldar að leggja fyrir sig myndlist. Hann var næmur á umhverfi sitt og ríkulegt fuglalíf Hornafjarðar lagði grunninn að sérstöðu hans sem málara. Höskuldur var að mestu leyti sjálflærður en sótti listaskóla sem bræðurnir Finnur og Ríkharður Jónssynir ráku og naut einnig leiðsagnar Jóns Stefánssonar einn vetur.
Um tíma bjó Höskuldur á Laugarvatni en síðustu sautján ár ævi sinnar bjó hann í Hveragerði  þar sem hann lést árið 1963. Á þeim tíma má segja að Hveragerði hafi verið eins konar listamannanýlenda því þá bjuggu þar fjöldi þjóðþekktra listamanna;  listmálarar og myndhöggvarar, tónskáld, rithöfundar og skáld.

Um sýningarstjórann

Hrafnhildur Schram er sýningarstjóri þessarar sýningar og ritar grein um Höskuld í sýningarskrá þar sem hún skoðar hans feril með tilliti til listasögunnar. Hrafnhildur lauk licentiatsprófi í listasögu frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún hefur starfað sem safnstjóri Listasafns Ásgríms Jónssonar, Listasafns Einars Jónssonar og verið deildarstjóri í Listasafni Íslands. Hrafnhildur hefur kennt listasögu, ritað listgagnrýni og fjölda greina um íslenska myndlist í blöð og tímarit og unnið heimildarmyndir fyrir sjónvarp um íslenska myndlistarmenn. Hún hefur unnið að rannsóknum á íslenskum myndlistarkonum og er höfundur fyrstu sérbókar um íslenska myndlistarkonu, Nínu Tryggvadóttur. Árið 2005 sendi hún frá sér bókina Huldukonur í íslenskri myndlist sem fjallar um fyrstu konurnar sem sigldu til myndlistarnáms í Kaupmannahöfn. Hrafnhildur starfar  nú sem sjálfstæður fræðimaður og rithöfundur.

Dagskrá blómstrandi daga í LÁ

Dagskrá blómstrandi daga í LÁ


Föstudagur – sunnudagur 15.-17. ágúst
Í tilefni blómstrandi daga hefur Leikfélag Hveragerðis sett upp sýningu á ljósmyndum frá flestum leiksýningum þess og tilheyrandi leikskrám í Listasafni Árnesinga. Fer vel á því samhliða núverandi sýningu því Höskuldur starfaði með leikfélaginu, málaði leiktjöld og vann einnig leikskrár.

Sunnudagur 17. ágúst
kl. 14:00
Bjarni Eiríkur Sigurðsson spjallar við gesti og segir frá kynnum sínum af Höskuldi og hvernig það var að alast upp í Hveragerði þegar skáld og aðrir listamenn settust þar að á eftirstríðsárunum.
Bjarni er sonur Ingunnar Bjarnadóttur, tónskálds frá Kyljuholti á Mýrum við Hornafjörð. Á Hornafirði kynntist Bjarni Höskuldi fyrst, þá 10 ára. Vinfengi var á milli Höskulds og foreldra Bjarna og fluttust báðar fjölskyldur árið 1946 til Hveragerðis. Bjarni varð síðar kennari við Grunnskólann í Hveragerði þar sem hann kenndi m.a. myndmennt. Árið 2000 kom út bók eftir Bjarna, Bernskubrot, þar sem finna má frásögn um lífið í Hveragerði á dögum skálda og annarra listamanna.

kl. 17:00
Tónleikar með jazzkvartett Vigdísar Ásgeirsdóttur.

Picasso á Íslandi

Sunnudagur 30. nóvember kl. 15:00 - Sýningarspjall á sunnudegi


Helgi Þorgils Friðjónsson myndlistarmaður og sýningarstjóri sýningarinnar PICASSO Á ÍSLANDI ræðir við gesti um sýninguna og skapar umræður meðal þeirra um verkin og markmið sýningarinnar.

Picasso á Íslandi


Picasso á Íslandier heiti núverandi sýningar í Listasafni Árnesinga. Picasso er „sá meistari nútímans sem sameinar meira af allri heimslistini samanlagðri en nokkur annar snillingur sem uppi hefur verið, án þess að vera þó annað en Picasso”. Svo ritaði Halldór Kiljan Laxness árið 1943. Á sýningunni í Listasafni Árnesinga má skoða bein og óbein áhrif spænska myndlistarmannsins Picasso í íslenskri myndlist samkvæmt tillögum sýningarstjórans Helga Þorgils Friðjónssonar myndlistarmanns. Til sýnins eru verk frá fyrri hluta síðustu aldar til samtímans, eftir Picasso og 26 íslenska myndlistarmenn.

Spænski listamaðurinn Pablo Picasso hafði gríðarleg áhrif á þróun nútímalistar og skynjun nútímamannsins á list, en vandfundið er það mannsbarn á vesturlöndum sem ekki þekkir nafn hans. Íslensku listaverkin á sýningunni spanna tæpa öld, enda gætir áhrifa Picasso víða.  Elsta verkið á sýningunni er eftir Jón Stefánsson, sem líklegast er frá öðrum áratug síðustu aldar, en yngsta verkið er eftir Valgerði Guðlaugsdóttur. 

„Ég hef ekki áhuga á að draga fram það sem er endilega líkast Picasso sjónrænt og alls ekki stælingar sem ég þekki þó nokkrar, heldur áhugaverð myndverk sem kallast á við þennan meistara tuttugustu aldar, eins og hann er oft kallaður á jákvæðan hátt.“  Segir sýningarstjórinn og listamaðurinn Helgi Þorgils Friðjónsson. „Ég gef mér líka þann möguleika að horfa á fagurfræðilega og ljóðræna samsvörun, sem hugsanlega getur verið á skjön við hugmyndir listfræðinga, með það fyrir augum að opna mögulega glugga fyrir annað útsýni." Picasso var afar fjölhæfur og nýtti ótrúlegustu hluti í list sinni, hvort sem það var sem málari eða skúlptúristi. „Þannig eru áhrifin margbrotin og leiðin ekki alltaf bein, heldur flókin víxlverkun eins og jafnan í myndlist og auðvelt að fabúlera með það í allar áttir”.

Fyrir utan verk Pablo Picasso  (1881-1973), eiga eftirtaldir íslenskir listamenn verk á sýningunni:

Ásmundur Sveinsson  1893-1982 Jóhannes S. Kjarval  1885-1972
Bragi Ásgeirsson  1931 Jón Engilberts  1908-1972
Einar G. Baldvinsson  1919–2004 Jón Stefánsson  1881-1962
Erró  1932 Karl Kvaran  1924-1989
Finnur Jónsson  1892-1993 Kjartan Guðjónsson 1921-   
Gerður Helgadóttir  1928-1975 Kristján Davíðsson  1917-
Guðjón Ketilsson  1956- Louisa Matthíasdóttir  1917-2000
Gunnar Gunnarsson  1914-1977 Nína Tryggvadóttir  1913-1968
Gunnlaugur Ó. Scheving  1904-1972 Sigurjón Ólafsson  1908-1982
Hallsteinn Sigurðsson  1944- Snorri Arinbjarnar  1901-1958
Helgi Þorgils Friðjónsson  1953- Vilhjálmur Bergsson 1937
Hörður Ágústsson  1922-2005 Valgerður Guðlaugsdóttir  1970-
Jóhannes Jóhannesson  1921-1998 Þorvaldur Skúlason  1906-1984


Um sýningarstjórann
Helgi Þorgils Friðjónsson er með þekktustu myndlistarmönnum Íslands, en hann nam list sína bæði hér heima og í Hollandi. Þá hefur hann haldið ótal einkasýningar um allan heim, til að mynda í Mexíkó, Ítalíu, Spáni, Hollandi og Bandaríkjunum.  Eftir að hann sneri heim úr námi hefur Helgi starfað bæði sem myndlistarmaður og sem kennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar Listaháskóla Íslands. Þá hefur hann verið gestakennari og fyrirlesari í Evrópu og Bandaríkjunum. Frá árinu 1980 hefur Helgi rekið sýningarrýmið Ganginn.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn