Listamenn

Leiftur á stund hættunnar

Leiftur á stund hættunnar

Charlotta Hauksdóttir · Einar Falur Ingólfsson ·
Gréta S. Guðjónsdóttir
· Haraldur Jónsson · Ingvar Högni Ragnarsson ·
Katrín Elvarsdóttir
· Kristleifur Björnsson · Pétur Thomsen

Sýningarstjóri
er Sigrún Sigurðardóttir

Sýningin stendur frá 2.maí - 28. júní 2009

Á sýningunni eru verk eftir átta íslenska myndlistarmenn sem allir vinna með ljósmyndina í list sinni og hafa á undanförnum árum hlotið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir verk sín. List þeirra er á margan hátt alþjóðleg og fjallar um veruleikann á persónulegan en um leið margslunginn hátt.
         
Sýningin sækir heiti sitt í frægan texta eftir þýska menningarfræðinginn Walter Benjamin sem vísar til þess að nauðsynlegt sé að brjóta upp viðtekin viðhorf um sannleikann og veruleikann í kringum okkur með því að varpa á hann óvæntu og oft á tíðum ófyrirsjáanlegu ljósi, líkt og ljósmyndin sjálf kann að gera. Sýningin byggir á þessari hugsun og eru verk eftir ólíka listamenn jafnframt tengd við hugmyndir heimspekinga og rithöfunda um meðvitaðar og ómeðvitaðar minningar, og sannleikann sem kristallast í einu einstöku broti veruleikans.

Samræður á sunnudegi 17. maí kl. 15 - Pétur Thomsen

Samræður á sunnudegi 17. maí kl. 15 - Pétur Thomsen

 

Sunnudaginn 17. Maí kl. 15:00 mun Pétur Thomsen ræða við gesti sýningarinnar Leiftur á stund hættunnar sem nú stendur í Listasafni Árnesinga. Á sýningunni eru verk eftir átta íslenska myndlistarmenn sem allir vinna með ljósmyndina í list sinni og hafa á undanförnum árum hlotið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir verk sín. List þeirra er á margan hátt alþjóðleg og fjallar um veruleikann á persónulegan en um leið margslunginn hátt.

Pétur mun fyrst og fremst fjalla um sín verk og nálgunina á viðfangsefninu en mun einnig reyna að svara spurningum gesta.Pétur er einn þeirra átta listamanna sem eiga verk á sýningunni. Hann nam ljósmyndun í Ecole Supérieure des Métiers Artistiques í Montpellier og og lauk mastergráðu frá École Nationale Supérieur de la Photographie (ENSP) í Arles, Frakklandi árið 2004. Pétur hefur verið virkur í sýningarhaldi hérlendis og erlendis og verk eftir hann í eigu opinberra safna innanlands og utan. Hann hefur verið tilnefndur til mikilsvirtra verðlauna og hlotið m.a. alþjóðlegu unglistaverðlaun LVMH – Louis Vuitton Moët Hennessy. Árið 2005 var Pétur valinn til þátttöku í sýningunni ReGeneration, 50 ljósmyndarar framtíðarinnar, sem fyrst var opnuð í Elysée safninu í Sviss en síðan sett upp víða, m.a. í Bandaríkjunum og Rússlandi. Einkasýningar fyrir utan Íslands hafa verið settar upp í Frakklandi, Rússlandi, Sviss og Sýrlandi. 

Samræður á sunnudegi 24. maí kl. 15 - Haraldur Jónsson

Samræður á sunnudegi 24. maí kl. 15 - Haraldur Jónsson

Haraldur JónssonSunnudaginn 24. maí kl. 15:00 mun Haraldur Jónsson ræða við gesti sýningarinnar Leiftur á stund hættunnar sem nú stendur í Listasafni Árnesinga. Á sýningunni eru verk eftir átta íslenska myndlistarmenn sem allir vinna með ljósmyndina í list sinni og hafa á undanförnum árum hlotið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir verk sín. List þeirra er á margan hátt alþjóðleg og fjallar um veruleikann á persónulegan en um leið margslunginn hátt. Haraldur er einn þeirra átta listamanna sem eiga verk á sýningunni og hann mun fyrst og fremst fjalla um verkið sitt og nálgunina á viðfangsefninu en einnig fjalla um sýninguna sem heild og vekja umræður meðal gesta.

Haraldur lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og Listaakademíunni í Düsseldorf í Þýskalandi 1990. Þá nam hann við Institut des Hautes Etudes en Arts Plastiques í París í Frakklandi í eitt ár. Haraldur er í hópi framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar og notar ýmsa miðla við sköpunina. Á sýningunni í Listasafni Árnesinga er til sýnis hluti úr myndröðinni TSOYL, The Story of Your Life, sem hann hófst handa við árið 1988 og er enn að vinna að. Frá árinu 1989 hefur Haraldur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og haldið einkasýningar hérlendis sem erlendis og verk hans er að finna í helstu opinberum söfnum hér á landi, í Noregi og í ýmsum einkasöfnum víða um heim. Haraldur var tilnefndur til Menningarverðlauna DV 2009 fyrir sýningu sína Myrkurlampi sem og fyrir bók sína Fylgjur árið 1998.

Samræður á sunnudegi 7. - 28. júní

21. júní kl. 15:00 

Katrín Elvarsdóttir og Gréta S. Guðjónsdóttir

Sunnudaginn 21. júní kl. 15:00 munu Katrín Elvarsdóttir og Gréta S. Guðjónsdóttir ræða við gesti sýningarinnar LEIFTUR á stund hættunnar sem nú stendur í Listasafni Árnesinga, en þær eru tveir þeirra átta íslensku myndlistarmanna sem verk eiga á sýningunni. Þeir vinna allir með ljósmyndina í list sinni og hafa á undanförnum árum hlotið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir verk sín. Katrín var t.d. tilnefnd til Heiðursverðlauna Myndstefs 2007 og nýverið hlaut hún fyrstu verðlaun á sýningunni Camera Works 2009 og Gréta hefur vakið athygli fyrir myndaseríu sem hún vann um ömmu sína og 2004 vann hún til verðlauna í samkeppni á vegum Agva.  Þær munu fyrst og fremst fjalla um sín verk og nálgunina á viðfangsefninu en gestir eru hvattir til að nýta sér nærveru þeirra til að fá betri nálgun við verkin og inntak sýningarinnar.

Katrín Elvarsdóttir

Katrín lauk BA námi í frönsku frá Háskóla Íslands 1988, BA námi í ljósmyndun frá Brevard Community College í Bandaríkjunum 1990 og BFA námi frá Art Institute of Boston í Bandaríkjunum, 1993. Hún hefur kennt ljósmyndun bæði í Bandaríkjunum, Danmörku og frá 2006 við Listaháskóla Íslands. Katrín hefur tekið þátt í samsýningum víða um heim og einkasýningum hérlendis, í Danmörku og í Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið ýmsar virtar viðurkenningar og verk eftir hana eru í eigu helstu safna hérlendis. Katrín hefur einnig tekið þátt í ýmsum menningartengdum samstarfsverkefnum s.s. gerð ljósmyndabókarinnar Mórar-nærvídd, sem hún vann með tónlistarmanninum Matthíasi Hemstock, en 12 Tónar gáfu bókin út.

Ljósmyndari Gréta S. Guðjónsdóttir

Gréta lauk BA gráðu í listrænni ljósmyndun frá AKI, Akademie voor beeldende kunst, Hollandi, 1996 og námi í kennslu og uppeldisfræði í KHÍ og hefur kennt ljósmyndun á listasviði Fjölbrautarskólans Breiðholti. Gréta hefur einnig starfað sjálfstætt sem ljósmyndari hér á landi. Hún tók þátt í samsýningum í Enschede 1996 og Amsterdam 1997. Hér á landi hefur hún tekið þátt í samsýningum Blaðaljósmyndarafélags Íslands og Ljósmyndarafélags Íslands og unnið þar til verðlauna. Gréta var með einkasýningu í gallerí Start Art í September 2008 þar sem hún sýndi myndir úr ævi ömmu sinnar, en það eru einnig myndir úr þeirri myndröð nú til sýnis í Grensáskirkju sem og í Listasafni Árnesinga. 


28. júní 
Sigrún Sigurðardóttir

Sunnudaginn 28. júní kl. 15:00 mun Sigrún Sigurðardóttir ræða við gesti sýningarinnar LEIFTUR á stund hættunnar en það er síðasti dagur sýningarinnar í Listasafni Árnesinga. Þar eru til sýnis verk eftir átta íslenska myndlistarmenn sem allir vinna með ljósmyndina í list sinni og hafa á undanförnum árum hlotið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir verk sín. List þeirra er á margan hátt alþjóðleg og fjallar um veruleikann á persónulegan en um leið margslunginn hátt. Sigrún mun leiða umræður um sýninguna og svara spurningum gesta.

Sigrún er sýningarstjóri sýningarinnar.  Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og cand.mag. próf í menningarfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún hefur sérhæft sig í einsögurannsóknum og rannsóknum á ljósmyndum og þýðingu þeirra fyrir upplifun og skilning fólks á veruleikanum í fortíð og nútíð. Samhliða sjálfstæðum rannsóknum hefur Sigrún sinnt sýningastjórnun og eftir Sigrúnu hafa verið gefnar út bækurnar Afturgöngur og afskipti af sannleikanum (Þjóðminjasafnið, 2009), Endurkast. Íslensk samtímaljósmyndun (Þjóðminjasafnið, 2008) Det traumatiske øjeblik (Rævens sorte bibliotek, 2006) og Elskulega móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur. Fjölskyldubréf frá 19. öld (Háskólaútgáfan, 1999). Sigrún hefur einnig verið aðjunkt við Listaháskóla Íslands

Andans konur

5. júlí - 27. september

ANDANS KONUR

Gerður Helgadóttir - Nína Tryggvadóttir
París - Skálholt

Sýningarstjóri er Ásdís Ólafsdóttir

Gerður HelgadóttirVerk Gerðar og Nínu mætast í Skálholti. Verk þeirra frá Parísar árunum skarast einnig, en þar bjuggu þær á sjötta áratugnum og tóku virkan þátt í hræringum nútímalistar á meginlandinu. Síðari tíma verk á sýningunni tengjast andlegri leit og þroska.

Nína Tryggvadóttir (1913-1968) og Gerður Helgadóttir (1928-1975) voru meðal frumkvöðla í íslenskri abstraktlist á 20. öld, Nína á sviði málaralistar og Gerður í höggmyndalist. Þær bjuggu báðar í París á sjötta áratugnum og tóku virkan þátt í hræringum nútímalistar á meginlandinu. Þessar sterku og metnaðarfullu listakonur mættust í Skálholtskirkju, en þær hlutu fyrstu og önnur verðlaun í samkeppni um glerglugga byggingarinnar. Gluggar Gerðar, sem settir voru í kirkjuna 1959, eru að mestu óhlutbundnir og byggjast á djúpt hugsuðu kerfi kirkjutákna og talna. Mósaíkmynd Nínu frá 1965 sýnir loftkenndan Krist birtast í íslensku landslagi.

Nína TryggvadóttirÁ sýningunni er mikill fjöldi vinnuteikninga, auk málverka, höggmynda, klippimynda, vatnslitamynda og glerverka er hafa mörg ekki verið sýnd áður og spanna feril listakvennanna frá sjötta áratugnum til æviloka þeirra. Þær létust báðar um aldur fram, Gerður 47 ára og Nína 55 ára, en skildu eftir sig mikið og merkt ævistarf. Í síðustu verkum þeirra birtist sú ró og yfirvegun er bera vott um sátt fullþroska listamanns sem er í tengslum við andleg efni.

Að auki gefur að sjá myndasýningu eftir Salbjörgu Ritu Jónsdóttur myndverkakonu. Ljósmyndir hennar úr Skálholtskirkju gefa tilfinningu fyrir andrúmslofti staðarins og því magnaða samspili ljóss og lita sem gluggar og mósaík skapa. Þær eru ennfremur sýn ungrar listakonu á verk Gerðar og Nínu.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn