Listamenn

Alþjóðlegi safnadagurinn og Gilitrutt

Alþjóðlegi safnadagurinn og Gilitrutt

Söfn og samfélög um heim allan hafa fagnað Alþjóðlega safnadeginum í kringum 18. maí ár hvert frá árinu 1977 og er markmiðið að vekja athygli á mikilvægi safna í þróun samfélagsins. Yfirskrift dagsins í ár er „Söfn og umdeildar sögur: að segja það sem ekki má í söfnum“

Báðar sýningarnar HEIMKYNNI – Sigrid Valtingojer og ÓÞEKKT – Tinna Ottesen taka á málefnum samtímans sem eru sumum erfið, þe. málefni flóttamanna (Heimkynni) og tengsl okkar við náttúruna (Óþekkt). Sjá líka safnmenn.is/safnadagur

Söfn eru vettvangur samskipta og á safnadaginn, fimmtudaginn 18. maí kl. 18:00 verður boðið upp á sýningu á óperunni Gilitrutt eftir Þórunni Guðmundsdóttur og flytjendur eru söngnemendur, eldri strengjasveit og blásarar frá Tónlistaskóla Árnesinga. Flutningur óperunnar tengist þema vetrarins hjá skólanum sem er „Kventónskáld“.

Aðgangur að safninu og óperunni er ókeypis og allir velkomnir.

Óþekkt

Óþekkt - eftir Tinnu Ottesen

er staðbundin innsetning sem hólfuð er í þrjú rými og inn í innsta rýmið á bara einn að fara í einu. Áður en gengið er þar inn er hægt að virða fyrir sér myndskeið að öðrum innsetningum Tinnu þar sem hún er að vinna með sömu hugmyndir. Verkið býður upp á heimspekilegar vangaveltur og vekur vonandi fleiri spurningar en svör og það er hvers og eins að leita þeirra og svara.

Efni hegða sér á ólíkan hátt; eiginleikar þeirra eru mismunandi, efni geta vísað í söguna eða staðið sem myndlíking fyrir eitthvað annað. Hvaðan er það fengið, hvernig er það unnið og hvaða áhrif hefur það á okkur og umhverfið?

Innsetningin sem stóð uppi í apríl og maí var unnin úr plasti, en nú er hún unnin úr latex. Það er efni með aðra eiginleika og nýjar spurningar vakna. Og þar sem þetta er gagnvirk innsetning þá getur efnið líka gefið sig og verkið breyst af þeim sökum.

Verkið í heild hverfist líka um hið háleita sublim sem nefnt hefur verið ægifegurð á íslensku. Á rómantíska tímabilinu vísaði ægifegurðin til smæð mannsins andspænis ógnarkrafti náttúrunnar en nú er farið að túlka það sem ógnarkraft tæknivæðingarinnar. Er maðurinn hluti af náttúrunni – eða teljum við okkur yfir hana hafin með því að ætla að stjórna öllu – og getum við það?

Munið þið hafa stjórn á öllum aðstæðum þegar það gangið inn í Óþekkt Tinnu? Er verið að vísa í hið ókunna eða óþekka hegðun? Er það efnið sem er óþekkt eða er það sá sem fer inn? Og er öllu óhætt?


Tinna Ottesen

Tinna er fædd 1980. Hún stundaði nám í sjónrænum samskiptum við konunglega danska hönnunar og arkitektaskólann og sviðshönnun (production design) við danska kvikmyndaskólann í Kaupmannahöfn á árunum 2002-2009. Meðan á náminu stóð var hún einnig skiptinemi við Listaháskóla Íslands einn vetur og í starfsþjálfun við Zentropa í Danmörku. Tinna fékk inngöngu í a·pass (advanced performance and scenography studies) skólann í Belgíu og lauk þaðan post-master-gráðu 2016.

Allt frá árinu 2009 hefur Tinna unnið með fjölbreyttum hópum skapandi fólks (myndlistarmönnum, leikhúsmönnum, kvikmyndafólki, tónlistarfólki, hönnuðum) að ýmsum verkefnum sem mörg hver hafa unnið til viðurkenninga. Þar má nefna Neo Geo hópinn sem hefur skipulagt og framkvæmt tónleika neðanvatns í Sundhöll Reykjavíkur, hönnunarverkefni um miðbæ Hveragerðis sem fékk sérstaka viðurkenningu, heimildarkvikmyndina The Gentlemen sem vann til áhorfendaverðlauna á RIFF kvikmyndahátíðinni 2009 og Eins og í sögu (Storydelicious) á Hönnunarmars 2013 sem var innsetning og létt máltíð í senn; upplifun sem örvaði öll skilningarvitin og vann til hönnunarverðlauna Grapevine sem verkefni ársins. Tinna hefur unnið að verkefnum hér á landi og víða í Evrópu, nú síðst í Hamborg áður en hún setti verkið Óþekkt upp hér.
tinnaottesen.com

Heimkynni

Heimkynni

Sigrid Valtingojer

Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns ASÍ og Listasafns Árnesinga, þar sem það fyrrnefnda leggur til verkin, allt grafíkverk, en í hinu síðarnefnda er sýningin sett upp. Sigrid Valtingojer fæddist 1935 en við andlát sitt 2013 hafði hún arfleitt Listasafn ASÍ að öllum verkum sínum, um 300 alls, ásamt ýmsum gögnum þeim tengdum. Í safneign Listasafns Árnesinga er skráð eitt verk eftir Sigrid og nú gefst tækifæri til þess að bæta þar við mikilvægum upplýsingum um feril hennar og miðla til gesta. Sýningarstjóri er Aðalheiður Valgeirsdóttir listfræðingur og myndlistarmaður.

Auk þess að gefa innsýn í ólíkar aðferðir grafíklistar sem var aðalviðfangsefni Sigridar er hér kynntur heimsborgari því hún nam bæði erlendis og hér á landi, sýndi og starfaði víða og hlaut viðurkenningar fyrir list sína. Sem barn, við lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945, kynntist Sigrid því að vera flóttamaður þegar fjölskylda hennar var svift eignum og rekin brott frá heimkynnum sínum í Súdeta-héruðum Tékkóslóvakíu. Þau flúðu til Thüringen héraðs Þýskalands og settust að lokum að í Jena sem þá var á sovésku yfirráðasvæði. Í lok ársins 1947 flúði fjölskyldan til Vestur-Þýskalands. Fullorðin valdi Sigrid Ísland sem heimkynni sín, en árið 1961 settust hún hér að og hér skildi hún eftir arfleifð sem á rætur í evrópskri menningu.

Sýningin Heimkynni mun standa til og með 18. júní.


Sigrid Valtingojer (1935-2013)

fæddist í Teplitz í Tékklandi, en var búsett í Þýskalandi á árunum 1945-1961. Hún stundaði nám í Frankfurt/Main, Institut für modegrafik á 1954-1958. Hún fluttist til Íslands árið 1961 og vann við auglýsingateiknun fyrstu árin. Sigrid lauk námi frá Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1979 og kenndi við grafíkdeild skólans á árunum 1986-2001. Hún var gestakennari og gestalistamaður við Kyoto Seika listaháskólann í Kyoto 1990 og stundaði framhaldsnám við Winchester School of Art í Barcelona 2001-2002. Sigrid hélt fjölda einkasýninga hér á landi og erlendis og verk eftir hana eru í eigu helstu safna á Íslandi og víða um heim. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Grand Prix 1987 á alþjóðlegri grafíksýningu í Biella á Ítalíu. Umhverfis- og friðarmál voru henni hugleikin. Hún var ötul baráttukona fyrir frjálsri Palestínu og fór þangað sem sjálfboðaliði árð 2003. Hún hélt sýningar fyrir málstaðinn hér á landi og í Þýskalandi.

Aðalheiður Valgeirsdóttir

(1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014, og BA-gráðu í listfræði með menningarfræði sem aukagrein árið 2011. Í upphafi myndlistarferils síns vann Aðalheiður aðallega grafíkverk en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni, en hún fæst auk þess við teikningar og vatnsliti. Hún hefur haldið á 3. tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Undanfarið hefur hún einnig tekið að sér sýningarstjórnun og var ásamt Aldísi Arnardóttur sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög – Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir sem sett var upp í Listasafni Árnesinga á síðasta ári.

Pallborðsumræður

Pallborðsumræður

Grafík panel

Í tengslum við sýninguna Heimkynni-Sigrid Valtingojer efnir Listasafn ASÍ til umræðna um íslenska grafík sunnudaginn 28. maí í Listasafni Árnesinga, en sýningin er sameiginlegt verkefni safnanna.

Elísabet Stefánsdóttir formaður Félagsins íslensk grafík flytur stuttan sögulegan inngang og í framhaldinu verða pallborðsumræður og almennar umræður með þátttöku gesta í sal. Í pallborði verða auk Elísabetar, Aðalheiður Valgeirsdóttir sýningarstjóri sýningarinnar Heimkynni, Jóhann Ludwig Torfason myndlistarmaður og umsjónarmaður grafíkverkstæðisins í Listaháskóla Íslands, Leifur Ýmir Eyjólfsson myndlistarmaður og annar stofnenda verkefnisins Prent & Vinir og síðast en ekki síst Ragneiður Jónsdóttir teiknari og grafíker.

Umræðustjóri er Heiðar Kári Rannversson listfræðingur. Heiðar Kári lauk MA prófi í listfræðum frá Háskólanum í Amsterdam árið 2012 og hefur starfað á sviði íslenskrar myndlistar um árabil. Hann stýrði fræðslu- og viðburðardagskrá Listasafns Reykjavíkur á árunum 2013-2016, en er nú sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri.

Í pallborðinu verður m.a. velt vöngum yfir stöðu grafíktlistarinnar í samtímanum, sem einkennist einna helst af örri þróun stafrænnar tækni og spurt hver staða grafíkverka sé í samtíma myndlist. Hvað einkennir grafík dagsins í dag og hvernig má bera hana saman við blómaskeið grafíklistarinnar hér á landi á áttunda áratug síðustu aldar? Eiga form og aðferðafræði grafíklistarinnar ennþá erindi við samtímann? Hvað vilt þú vita um grafík?

Dagskráin hefst kl. 16 á sunnudaginn eins og fyrr sagði og aðgangur er ókeypis. Sýningin Heimkynni – Sigrid Valtingojer mun standa til 18. júní

pallbord Horund jardar Sigrid Listasafn ASI logo
LA logo

Heim úr öllum áttum

Heim úr öllum áttum

PoPP ljodskaldin

er heiti dagskrár sem flutt verður í safninu laugardaginn 3. júní kl. 15.00. Þá flytja ljóðskáldin Anna Mattsson, Axin Welat, Kristín Bjarnadóttir og Louise Halvardsson ljóð á fimm tungumálum; arabísku, ensku, íslensku, kúrdísku og sænsku. Þær Anna, Axin, Kristín og Louise eru allar meðlimir í sænska ljóðahópnum PoPP sem stendur fyrir Poeter orkar Poetiska Projekt og þýða mætti, Ljóðskáld valda ljóðrænum verkefnum.

Nánar um ljóðskáldin í stafrófsröð.

Anna Mattsson
er rithöfundur og þýðandi. Fyrsta rit hennar kom út árið 1988 en síðan hafa komið út fjölmörg ljóðasöfn og skáldsögur og má þar nefna Alexandras rum (1994), De ensammas hus (2004) og Ljusgatan (2013). Árið 2009 hlaut hún menningarverðlaun Sälskapet Gnistans og árið 2014 hlaut hún verðlaunin Rithöfundur ársins fyrir ljóðabókina Ljusgatan.

Anna er með BA-gráðu í norðurlandamálum, bókmenntum og heimspeki frá Gautaborgarháskóla, prófgráðu í norrænum tungumálum frá Fróðskaparsetri Færeyja og hún nam einnig Khmer fyrir erlenda stúdenta við Háskólann í Phnom Penh í Kambódíu.

Hún hefur verið virk innan sænsku Rithöfundamiðstöðvarinnar í vestri, á þar sæti í stjórn og verið þar lektor frá árinu 2014. Anna hefur skipulagt skipti á menningarviðburðum milli Svíþjóð og Kambódíu frá árinu 2004. Hún situr líka í stjórn sænsku PEN samtakanna og kom á fót PEN miðstöð í Gautaborg og í Phnom Penh. Frá árinu 2014 hefur Anna verið í forsvari fyrir Politisk Poesifestival sem er samstarfsverkefni milli félagsins Kambódía-Svíþjóð og bókasafnsins í Gautaborg. Hún á sæti í vinnuhóp á vegum Menningarráðs sænska ríkisins um stuðning við bókmenntir.

Anna hefur verið þátttakandi í ljóðahópnum PoPP frá stofnun hans árið 2015.

Axin Welat
kemur frá sýrlenska hluta Kúrdistan. Hún er ljóðskáld og skrifar bæði á kúrdísku og arabísku, og nú einnig á sænsku. Gefnar hafa verið út nokkrar ljóðabækur á kúrdísku og arabísku eftir Axin af bókaútgáfum í Líbanon, Egyptalandi, Sýrlandi og Istanbúl. Fyrsta ljóðasafn hennar á sænsku, En aprikos två körsbär, kom út árið 2013 og er þýðing úr kúrdísku og arabísku.
Axin nam arabískar bókmenntir við Háskólann í Aleppo í Sýrlandi, þar sem hún starfaði einnig sem tungumálakennari. Hún starfaði líka sem blaðamaður, hafði eigin dálk í kúrdísku tímariti í Líbanon í þrjú ár og var ritstjóri stafræns tímarits um kúrdískra bókmenntir á arabísku. Hún tók þátt í fjölda menningarhátíða í Líbanon, Sýrlandi, Tyrklandi og Kurdistan, þar sem hún las úr ljóðum sínum á arabísku og kúrdísku. Axin flutti til Svíþjóðar árið 2004 þar sem hún hefur lært sænsku allt að framhaldsskólastigi. Hún nam ritlist við lýðháskólann í Angered og list og hönnun við ABF og þar lagði hún einnig stund á þýðingar úr arabísku á sænsku og öfugt og fæst nú við þýðingar á bókum úr og í kúrdísku, arabísku og sænsku.

Axin Welat er meðlimur í rithöfundasambandinu sænska og Rithöfundamiðstöðinni í vestri og hefur í gegnum það tekið þátt í nokkrum bókmenntahátíðum eins og Textival, Merci ljóðahátíðinni, Peace and poetry og Festival illegal. Hún er einnig félagi í Fenix klúbbnum og Poesiwerken samtökunum.

Kristín Bjarnadóttir
er skáld og ritgerðasmiður sem skrifar bæði á sænsku og íslensku. Hún ólst upp á Íslandi en hefur verið búsett í Gautaborg frá árinu 1985. Frá áttunda áratugnum hafa ljóð Kristínar birtst í tímaritum og safnritum, og upplestur þeirra verið á dagskrá RÚV. Hún hefur einnig átt þátt í að framleiða röð útvarpsþátta um norræna samtíma ljóðlist. Meðal birtra texta á síðari árum eru Timing the tango - The Queer Tango Book, antologi - E-bok (2015 og á spænsku 2017), Kokosclown, Lost in migration, (2011), Åtta dikter úr Ty landskapet är ditt / Því að þitt er landslagið (Ariel 2-3 2001), Jag lutar mig mot dig och flyger (Staka 2009), Ég halla mér að þér og flýg (2007); Heimsins besti tangóari/El mejor tanguero del mundo, (2005).

Kristín stundaði nám í leiklistarskólaum við Odense Teater í Danmörku, 1971-1974, og nam bókmenntir og heimspeki við Háskólann í Gautaborg 1989 -1994. Árin 2014 -2015 sótti Kristín kúrsa í Valand listaháskólanum; Að mæta því nýja (í Ritlistardeild) og kynningarnámskeið í samtímalist og heimspeki.

Á árunum 1974-90 var Kristín virk í leikhúsum í Danmörku, á Íslandi og í Svíþjóð, fyrst og fremst sem leikari, en einnig sem leikskáld og þýðandi. Hún hefur þýtt leikrit úr íslensku á dönsku fyrir Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn og leikhúsið í Óðinsvéum og einnig ljóð úr dönsku og sænsku yfir í íslensku. Kristín starfaði sem menningarblaðamaður á Morgunblaðinu á árunum 1985 - 2008 og á tímaritinu DANS – tidningen för rörlig scenkonst í Stokkhólmi frá árinu 2001. Hún er meðlimur í íslenska rithöfundasambandinu og einnig því sænska. Hún hefur verið stjórnarmaður í Rithöfundamiðstöðin í vestri í Svíþjóð frá árinu 2010, varaformaður frá 2012 og formaður frá árinu 2017. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum ljóðahátíðum í Svíþjóð, Íslandi, Kambódíu og víðar. Hún hefur tvisvar áður komið að ljóðadagskrá í Listasafni Árnesinga og dvalið í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði.

Kristín er einn frumkvöðla að stofnun ljóðahópsins PoPP árið 2015.

Louise Halvardsson
er rithöfundur, fyrirlesari og sjálfstætt starfandi blaðamaður. Hún ólst upp í Nässjö í Svíþjóð, bjó síðar tíu ár í Englandi, en býr nú í Gautaborg. Hún nam ritlist við Jakobsbergs lýðháskólann, lauk BA gráðu í blaðamennsku frá JMG háskólanum í Gautaborg og hefur líka stundað rannsóknir í þjóðfræði við Gautaborgarháskóla.

Árið 2007 hlaut hún debutantverðlaun sænska rithöfundasambandins Slangbellan, fyrir frumraun sína sem var Punkindustriell hårdrockare med attityd. Árið 2015 kom út bókin Svenglish – en 30-årings resa genom vardagen og var tilnefnd til Selmu verðlaunanna. 2017 kom ljóðabókin Hejdå tonårsångest – 35 dikter innan 35.

Louise er virk á vettvangi hins talaða orðs; kemur oft fram á bókmenntahátíðum og einnig upplestrarsamkomum í skólum eða á bókasöfnum. Hún hefur m.a. tekið þátt í Winter Word Festival í Strömstad og einnig North Sea Writer‘s Exchange. Hún er líka einn stofnenda ljóðafélagsins Poesiwerken og félagi í Poetry Slam Gautaborgar.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn