Listamenn

MÖRK

MÖRK

Á sýningunni Mörk má sjá verk eftir myndlistarmennina Eygló Harðardóttur, Jónu Hlíf Halldórsdóttur, Karlottu Blöndal og Ólöfu Helgu Helgadóttur. Heiti sýningarinnar hefur jafn margar og ólíkar tilvísanir sem verkin en ein tilvísunin er í skóginn, sem leggur grunn að pappírsgerð, en það er efni allra verkanna á sýningunni. Heitið getur líka þýtt einskonar línu eða þröskuld sem þær sem skapendur og við sem áhorfendur ýtum á eða yfirstígum. En þó að efniviður verkanna sé pappír þá er hann af ýmsum gerðum og úrvinnslan margbreytileg. Eygló höfðar til tilfinninga í sínum verkum með litum og formgerð, Jóna Hlíf vinnur með beinskeittar samfélagslegar tilvísanir, Karlotta leggur fram óræð stór vatnslitaverk og Ólöf Helga glæðir verk sín skemmtilegum gáska. Verkin sem ýmist eru tvívíð eða þrívíð skapa áhugavert samtal og samhengi sín á milli og koma á óvart.

Eygló Harðardóttir

Eygló (1964) lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og framhaldsnámi frá AKI – Akademie voor Beeldende Kunst í Enschede Í Hollandi 1990. Árið 2005 lauk hún B.Ed.-gráðu frá menntavísindadeild Háskóla Íslands og 2014 lauk hún MA-gráðu við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Samhliða listsköpun sem hún hefur notið viðurkenningar og styrki fyrir, hefur Eygló sinnt kennslu bæði í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum í Reykjavík að hluta og með hléum. Eygló hefur starfað og sýnt verk sín hér heima og erlendis og verk hennar eru í eigu opinberra safna.
eyglohardardottir.net

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Jóna Hlíf (1978) útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2005, lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og MA-gráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2012. Samhliða listsköpun starfar Jóna Hlíf sem formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna og er stundakennari hjá Listaháskóla Íslands og Myndlistarskólanum á Akureyri. Jóna Hlíf hefur starfað og sýnt verk sín hér heima og erlendis og verk hennar eru í eigu opinberra safna.
jonahlif.is

Karlotta J. Blöndal

Karlotta (1973) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997. Hún var við framhaldsnám í Hollandi og Svíþjóð og lauk MFA-námi frá Listaháskólanum í Malmö árið 2002. Karlotta hefur samhliða listsköpun komið að nokkrum listamannareknum rýmum, staðið að útgáfu listtímarita, m.a. Sjónauka og fengist við kennslu í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún á að baki fjölmargar einka- og samsýningar hér heima og erlendis, m.a. í Þýskalandi, S-Kóreu og á Norðurlöndunum.
this.is/alphabet

Ólöf Helga Helgadóttir

Ólöf Helga (1972) stundaði nám við Kvikmyndaskóla Íslands árið 2001, útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og MFA-gráðu í myndlist frá Slade School of Fine Art í London árið 2010. Ólöf hefur sinnt listsköpun frá námslokum, tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis, haldið nokkrar einkasýningar og framundan er einkasýning í Malmö.

Eygló með listamannaspjall

Eygló með listamannsspjall

Eygló HarðardóttirSunnudaginn 7. febrúar kl. 15 gefst gestum tækifæri til þess að svala forvitni um tilurð nokkurra verkanna með því að eiga beint samtal við listamanninn Eygló Harðardóttur. Með litum og formgerð höfðar Eygló til upplifunar og tilfinninga áhorfandans, upplifun sem ávallt er persónuleg. Eygló mun ræða um við gesti hvernig við skynjum liti og form í rými en það er háð ýmsum þáttum og skilyrðum. Hún mun einnig segja frá hvernig hugmyndir vakna og glímuna við að útfæra þær.

Eygló nam myndlist bæði hér heima og í Hollandi og hefur notið ýmissa viðurkenninga fyrir list sína. Samhliða listsköpun hefur hún sinnt listkennslu við Listaháskólann og Myndlistaskólann í Reykjavík með hléum.

Karlotta með listamannaspjall

Karlotta með listamannsspjall

Karlotta BlondalSunnudaginn 21. febrúar kl. 15 á síðasta sýningardegi sýningarinnar MÖRK gefst gestum tækifæri til þess að svala forvitni um verk listamannsins Karlottu Blönda. Verk hennar á sýningunni eru tilraunir með vettvang og viðfangsefni. Þau eru óræð og flest stór vatnslitaverk sem geta vakið upp ýmis áhugaverð hugrenningatengsl svo sem við textíl, innyfli, náttúru og búa yfir fjölbreyttum blæbrigðum lita. Karlotta mun ræða við gesti um hvernig hún vinnur verkin og hvaðan hún sækir hugmyndirnar að þeim.

Karlotta nam myndlist bæði hér heima og í Svíþjóð og hefur sýnt víða. Auk listsköpunar hefur hún komið að útgáfu, rekstri sýningarrýma og kennslu í Myndlistaskóla Reykjavíkur.

Opnunarhátið Græna kortsins

Opnunarhátið Græna kortsins fyrir Suðurland í Listasafni Árnesinga

Græna kortið

Laugardaginn 12. sept. kl. 15:00 býður Náttúran.is til mótttöku og opinberrar gangsetningar Græns Korts - Suður, apps um menningu, hagkerfi og náttúru á Suðurlandi í samvinnu við Listasafn Árnesinga.

Wendy Brawer stofnandi Green Map Systemheldur fyrirlestur um grænkortagerð sem tæki til grænvæðingar heimsins. Wendy hefur unnið til fjölda verðlauna og er m.a. á lista UTNE um „50 visionaries changing your world“.

Græn kort hafa nú verið þróuð í yfir 900 borgum, bæjum og samfélögum í 65 löndum. Vefþróunarfyrirtækið nátturan.is hefur staðið að þróun Grænna korta hérlendis síðan árið 2008 en Grænt kort - Suður er fyrsta Grænkorta appið sem fyrirtækið þróar. Áður hefur Náttúran.is gefið Græn kort út í prent- og vefútgáfum og öppin HÚSIÐ og umhverfið og Endurvinnslukort.

Náttúrar.is fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands til þróunar appsins en fyrirtækið hefur starfað á Suðurlandi frá stofnun árið 2007, fyrst á Selfossi, síðan í Ölfusi við Hveragerði og nú er það starfrækt í Alviðru, umhverfisfræðslusetri í Ölfusi. Náttúrar.is er handhafið Kuðungsins, umhverfisviðurkenningar Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2012 og fékk Umhverfisverðlaun Ölfuss nú í ár.

Að veita og þiggja

Að veita og þiggja

Jón, Ásborg og Eva

Umræðudagskrá í Listasafni Árnesinga í tengslum við sýninguna Gullkistan: 20 ár,
Sunnudaginn 13. sept. kl. 13 – 14:30

Frummælendur:

  • Jón Özur Snorrason : Gesturinn
    • Jón hefur tekið þátt í því að taka á móti gestum Gullkistunnar og hefur einnig verið í sporum gestsins og notið dvalar í „residensíu“ erlendis.
  • Ásborg Arnþórsdóttir : Ferðamaðurinn
    • Ásborg er ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu
  • Guðrún Eva Mínervudóttir : Nærumhverfi sköpunar
    • Guðrún er rithöfundur sem býr í Hveragerði

Miðað er við 10-15 mín. erindi frá hverjum framsögumanni og síðan umræðum með þátttöku gesta. Í pallborði munu einnig sitja Alda Sigurðardóttir og Kristveig Halldórsdóttir stofnendur Gullkistunnar. Umræðum stjórnar Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Gert er ráð fyrir að dagskráin verði að hámarki einn og hálfur tími.


Alda Sigurðardóttir

Sunnudaginn 20. september kl. 15 fer Alda Sigurðardóttir með gestum um sýninguna Gullkistan: 20 ár og fjallar um sýninguna og starfsemi Gullkistunnar á Laugarvatni. Alda stofnaði og rekur Gullkistuna ásamt Kristveigu Halldórsdóttur. Starfsemin hófst sem stór listahátíð 1995, en frá 2009 er Gullkistan miðstöð sköpunar þar sem listamenn geta dvalið og starfað. Alda lærði tískuteikningu í París og lauk síðan námi frá fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1993. Alda hefur sinnt margvíslegum störfum við hönnun og í leikhúsi, stjórnað viðburðum og rekið eigin fyrirtæki. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið nokkrar einkasýningar hér heima og erlendis. Alda rak ásamt öðrum alþjóðlega sýningarstaðinn GUK (1999-2006), var hugmyndasmiður og framkvæmdastjóri útisýningarinnar Ferjustaður á Selfossi (2009).


Sunnudaginn 11. október kl. 15 fer Kristveig Halldórsdóttir fer með gestum um sýninguna Gullkistan: 20 ár og fjallar um sýninguna og starfsemi Gullkistunnar á Laugarvatni. Kristveig stofnaði og rekur Gullkistuna ásamt Öldu Sigurðardóttur. Starfsemin hófst sem stór listahátíð 1995, en frá 2009 er Gullkistan miðstöð sköpunar þar sem listamenn geta dvalið og starfað.

Kristveig

Kristveig er myndlistarmaður og kennari í Reykjavík. Hún lauk meistaranámi frá listaháskólanum í Osló árið 1998 með sérhæfingu í textílmyndlist og notkun handgerðs pappírs og plöntutrefja sem hún hélt áfram að nota eftir að hún sneri aftur til Íslands. Myndlist Kristveigar hefur smám saman þróast yfir í notkun annarra miðla og aðferða, einkum ljósmynda og tölvumyndvinnslu en með áframhaldandi tengingu við textíl.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn