Listamenn

Vinnustofur í myndlist í Listasafni Árnesinga í október og nóvember

Vinnustofur í myndlist í Listasafni Árnesinga í október og nóvember

Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður leiðbeinir í tveimur vinnustofum.

gudrun tryggvadottir vid vinnu sinaHugmynd og túlkun

fyrir unglinga á öllum aldri, fólk sem fæst eitthvað við myndlist og hefur einhverja reynslu og áhuga á að læra meira um hvernig fanga má hugmyndir og þroska þær áfram í myndmáli. Lögð er áhersla á að aðstoða hvern og einn persónulega.
8 skipti, 3 tímar í senn, samtals 24 klst.

  • Staður: Listasafn Árnesinga, Austurmörk 21, Hveragerði
  • Tími: fimmtudagar kl. 18:00 - 21:00, 1. okt. - 19. nóv.
  • Hámarks fjöldi þátttakenda: 10
  • Námskeiðsgjald: 28 þús.
  • Innritun í síma 863 5490 og á netfangið gunna@tryggvadottir.com

Módelteikning

Námskeið í módelteikningu fyrir byrjendur sem og lengra komna. Teiknað og málað eftir lifandi fyrirmynd og ýmsar aðferðir til formskynjunar kannaðar enda er formskynjun eitt af grundvallaratriðum allrar myndgerðar.
4 skipti, 5 tímar í senn, samtals 20 klst.

  • Staður: Listasafn Árnesinga, Austurmörk 21, Hveragerði
  • Tími: kl. 10:00 - 15:00 annan hvorn laugardag, 10. og 24. okt. og 7. og 21. nóv.
  • Hámarks fjöldi þátttakenda: 10
  • Námsskeiðsgjald: 30 þús.
  • Innritun í síma 863 5490 og á netfangið gunna@tryggvadottir.com

Guðrún Tryggvadóttir

er starfandi myndlistarmaður til áratuga. Guðrún hefur langa reynslu af myndlistarkennslu, byrjaði að aðstoða Hörð Ágústsson kennara sinn við módelteiknikennslu þegar hún var sjálf aðeins 18 ára og nemandi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún kenndi einnig í málaradeild sama skóla eftir að hún kom heim frá námi í Frakklandi og Þýskalandi og rak sinn eigin skóla, RÝMI myndmenntaskóla í Reykjavík á árunum 1992-93. Guðrún hefur einnig kennt hugmyndavinnu við Listaháskóla Íslands og á nokkrum sumarnámskeiðum í Listasafni Árnesinga.

Guðrún er formaður Listvinafélagsins í Hveragerði, framkvæmdastjóri og hönnuður vefsins náttúran.is. Hún er með vinnustofu í hlöðunni í Alviðru, umhverfisfræðslusetri við Sogið í Ölfusi og mun halda sýningu á verkum sínum þar í lok september næstkomandi. Sjá nánar um verk og feril Guðrúnar á tryggvadottir.com.

Gullkistan 20 ára

Gullkistan: 20 ára

Fyrir tuttugu árum efndu myndlistarmennirnir Alda Sigurðardóttir og Kristveig Halldórsdóttir, til listahátíðar á Laugarvatni þar sem þær voru þá búsettar. Yfir 130 listamenn tóku þátt í þeirri hátíð og þegar þær efndu aftur til hátíðar tíu árum síðar voru listamennirnir að minnsta kosti 145. Út frá þessum hátíðum kviknaði hugmyndin að dvalarstað fyrir skapandi fólk. Þeirri hugmynd hrundu þær líka í framkvæmd og til varð Gullkistan – miðstöð sköpunar, sem í dag hefur sitt aðal aðsetur í gömlu tjaldmiðstöðinni, en starfemin hefur náð til ýmissa staða á Laugarvatni.

Í tilefni þessara tímamóta er nú sett upp sýning í Listasafni Árnesinga á nýlegum verkum 24 listamanna sem tengst hafa Gullkistunni, ýmist sem þátttakendur í listahátíðunum eða dvalið í miðstöðinni. Verkin valdi Ben Valentine sem ráðinn var sem sýningarstjóri sýningarinnar og nálgunin er auga gestsins. Ben Valentine er sjálfstætt starfandi rithöfundur og sýningarstjóri sem kom hingað frá NY, en er nú að flytjast búferlum til Kambódíu þar sem hann mun stýra spennandi listamiðstöð. Á sýninguna hefur hann valið nýleg verk eftir níu íslenska listamenn og fimmtán erlenda þar sem sjá má áhrif frá Íslandsdvöl þeirra. Til hliðar við sýninguna verða aðgengilegar ýmsar heimildir um hátíðirnar tvær, miðstöðina og einnig er skapandi aðstaða fyrir gesti.

Sýningin, sem er samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga og Gullkistunnar, er styrkt af uppbyggingarsjóði Suðurlands og mun standa til og með 20. september.

Sýningarstjóri / Curator

Ben Valentine  BNA /USA
benjaminvalentine.com

Ben Valentine (1989) er sjálfstætt starfandi rithöfundur og sýningarstjóri sem hefur rannsakað víða um heim með hvaða hætti tækni, list og stjórnmál fléttast saman Hann hefur meðal annars skrifað og starfað fyrir SXSW, Salon, SFAQ, Hyperallergic, VICE og The New Inquiry. Ben hefur verið sýningarstjóri nokkurra sýninga, þar á meðal World's First Tumblr Art Symposium í New York, Global Space fyrir Nútímalistasafnið í Indianapolis og Unmasking the Network fyrir A Simple Collective í San Francisco. Ben starfar nú í Kambodíu.

Ben Valentine, (1989) is an independent writer and curator exploring how technology, art, and politics intersect around the world. He has written and spoken for SXSW, Salon, SFAQ, Hyperallergic, VICE, and The New Inquiry to name a few. Valentine has curated several exhibitions, including the World's First Tumblr Art Symposium, in NYC; Global Space, for the Indianapolis Museum of Contemporary Art; and Unmasking the Network for A Simple Collective in San Francisco. Valentine currently lives in Cambodia.

_ _ _

Listamenn / Artists                  

Alda Sigurðardóttir  Ísland /Iceland          
aldasig.is

Alda Sigurðardóttir (1960) lærði tískuteikningu í París (1985) og lauk síðan námi frá fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1993. Alda hefur sinnt margvíslegum störfum við hönnun og í leikhúsi, stjórnað viðburðum og rekið eigin fyrirtæki. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið nokkrar einkasýningar hér heima og erlendis. Alda rak ásamt öðrum alþjóðlega sýningarstaðinn GUK (1999-2006), hélt útisýninguna Ferjustað á Selfossi (2009) og er annar af tveimur stofnendum og stjórnendum Gullkistunnar. Alda hefur sinnt ýmsum félagsstörfum og setið m.a. í stjórnum Nýlistasafnsins og Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Jasna Bogdanovska  BNA /USA                  
jasnabogdanovska.com 

Jasna Bogdanovska (1978) er ljósmyndari, kennari og forfallin ferðakona sem kannar ólíka menningarheima. Hún rannsakar málefni kvenna, menningar og trúarbragða, fortíðarþrá og það að tilheyra með því að nota ýmiss konar miðla á borð við ljósmyndun, innsetningu og vídeó. Hún sýnir verk sín víða um heim á einkasýningum og samsýningum. Hún er fastráðinn aðstoðarprófessor í ljósmyndun við Monroe Community College og forseti Félags ungra atvinnuljósmyndara sem kenna sig við Eastman og tilheyra samnefndu ljósmynda- og kvikmyndasafni Eastmans í Rochester í New York. Jasna fæddist og ólst upp í Makedóníu.

Linda Buckley  Írland / Ireland
lindabuckley.org                 

Linda Buckley (1979) er tónskáld sem býr í Dublin. Tónlist hennar hefur verið lýst sem „næmri“ (Gramophone) og sem „sérkennilegri og fallegri“ (Boston Globe) líkt og „tignarlegum jökli“ (RTÉ Ten) þar sem „spennandi safn verka markar henni sess í framvarðasveit yngri kynslóðar írskra tónskálda (Journal of Music). Verk hennar hafa verið flutt af symfóníuhljómsveit breska ríkisútvarpsins (BBC), symfóníuhljómsveit Dresden, Crash Ensemble, Fidelio Trio og á alþjóðlegum tónlistarhátíðum. Linda var „RTÉ lyric fm Composer in Residence“ frá 2011-13. Að loknu námi við UCC og Trinity College kennir hún nú við þann síðarnefnda í Dublin.

Alfredo De Stéfano  Mexíkó / Mexico
adestefano.com                  

Alfredo De Stéfano (1961) fæddist í Mexíkó í miðri eyðimörkinni. Hann hefur ástríðu fyrir landslagi, einkum eyðimörkinni sem hann hefur ferðast um ótal sinnum. Hann hefur haldið margar einkasýningar og samsýningar og verk hans hafa verið sýnd í fimm heimsálfum, þar á meðal París, Sao Paulo, New York, Washington, Madrid, Bogota og Buenos Aires. Hann hefur verið meðlimur í National System of Creators frá 2008.

Eygló Harðardóttir  Ísland/Iceland
eyglohardardottir.net 

Eygló Harðardóttir, (1964) lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnámi frá AKI – Akademie voor Beeldende Kunst í Enschede Í Hollandi.  Árið 2014 lauk hún MA gráðu við listkennsludeild Listaháskóla Íslands með rannsóknarritgerðinni „Listaverk gefur vísbendingar um þrívíða nálgun í litanámi”.
Eygló hefur undanfarið fengist við samsett málverk sem oft eru óhlutbundnir skúlptúrar, staðbundin verk unnin inn í rými ásamt myndbandsverkum. Í verkum sínum skoðar hún mörk málverksins í samspili við rými og áhorfendur. Eygló hefur starfað og sýnt verk sín hér heima og erlendis og verk hennar eru í eigu opinberra safna.

Virginia Griswold  BNA / USA
virginiagriswold.com          

Virginia Griswold (1981) lauk meistaranámi frá myndhöggvara- og glerlistadeild Alfred-háskólans í NY árið 2011 og bakkalárgráðu frá Virginia Commonwealth háskólanum árið 2004. Árið 2009 fékk hún Arts Council Re-Grant styrk frá Brooklyn og árið 2011 var henni boðin námsdvöl í Cité Internationale des Arts í París á vegum Alfred-háskólans. Hún er nú aðstoðarprófessor við Austin Peay State háskólann í Tennessee.

Harpa Árnadóttir  Ísland / Iceland
harpaarnadottir.com

Harpa Árnadóttir (1965) er þekkt fyrir málverk sín, bæði þau sem hún kallar „sprungumálverk“ og þau sem hún gerir með vatnslitum. Hún stundaði myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, flutti síðan til Svíþjóðar og nam við Valand listaháskólann í Gautaborg. Verk Hörpu hafa verið sýnd víða og eru í eigu margra safna í Evrópu.  Þau voru valin til sýningar á fyrsta Gautaborgartvíæringnum, á Momentum og sjötta norræna tvíæringnum í samtímalist í Moss í Noregi.

Hjörtur Hjartarson  Ísland / Iceland
hjortur.org

Hjörtur Hjartarson (1961) lauk námi frá fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1996 og stundaði nám í teiknideild Háskólans í Granada á Spáni 1996-1997. Hjörtur fæst við liti og form úr náttúrunni sem hann sækir yfirleitt  í lítinn dal í nágrenni Reykjavíkur sem hefur tengst honum frá unga aldri. Í dalnum ríkir mikil litadýrð vegna fjölbreytileika í gróðurfari, um hann rennur á og þar eru vötn og tjarnir. Á kyrrum dögum speglast umhverfið í vatnsfletinum og það glittir í botngróðurinn. Verk Hjartar eru reglulega til sýnis bæði hér á landi og erlendis.

Hlynur Hallsson  Ísland / Iceland
hallsson.de

Hlynur Hallsson (1968) býr og starfar í Hannover og á Akureyri. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands, FH Hannover, HfbK Hamburg og Kunstakademie Düsseldorf. Frá árinu 1999 hefur Hlynur kennt við Myndlistaskólann á Akureyri og Listaháskóla Íslands. Hlynur rannsakar hugtök eins og heimsvaldastefnu, landamæri þjóða og menningar í heimi hnattvæðingar og samskipti ólíkra menningarheima.

Erica Kremenak  BNA / USA
ekremenak.com

Erica Kremenak (1956) lauk bakkalárgráðu í fagurlistum frá Iowa háskólanum og nam skúlptúr og málaralist við San Francisco háskólann og San Francisco Art Institute. Hún býr nú í Oakland, Kaliforníu og vinnur ýmist við málverk, ljósmyndun eða hönnun.

Kristin Reynisdóttir  Ísland / Iceland
this.is/kristin

Kristín Reynisdóttir (1961) stundaði nám við Akademie der Bildenden Künste í Düsseldorf í Þýskalandi, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Pilchuck Glass School í Bandaríkjunum. Kristín hefur haldið einkasýningar á Íslandi, í Þýskalandi, Noregi og Finnlandi. Hún er meðlimur í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Nýlistasafninu. Hún hefur hlotið nokkra styrki, þar á meðal frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, styrk fyrir skandinavíska listamenn auk þess að hljóta listamannalaun.

Kristveig Halldórsdóttir  Ísland / Iceland
kristveig.is

Kristveig Halldórsdóttir (1964) er annar af tveimur stofnendum og stjórnendum Gullkistunnar. Hún er jafnframt myndlistarmaður og kennari í Reykjavík. Hún lauk meistaranámi frá listaháskólanum í Osló árið 1998 með sérhæfingu í textílmyndlist og notkun handgerðs pappírs og plöntutrefja sem hún hélt áfram að nota eftir að hún sneri aftur til Íslands. Myndlist Kristveigar hefur smám saman þróast yfir í notkun annarra miðla og aðferða, einkum ljósmynda og tölvumyndvinnslu en með áframhaldandi tengingu við textíl.

Keiko Kurita  Japan
swimciel.net                        

Keiko Kurita ((1975) er japanskur ljósmyndari með meistaragráðu í myndlist og miðlun frá Goldsmiths í London. Verk hennar snúast um að raungera hugmyndina um  að það sé skáldskapur í sannleikanum ef maður trúir því. Hún hefur sýnt myndraðir um þetta þema á einkasýningum í Tokyo, Reykjavík og London.

Catherine Ludwig  Austurríki / Austria
nocti-luca.com                     

Catherine Ludwig (1976) starfar og býr í Vín. Hún er „transmedia“ listamaður sem fer  út fyrir mörk hefðbundinna hindrana ólíkra listmiðla. Catherine lagði stund á grafíska hönnun í Nürnberg í Þýskalandi og „transmedia“ list í Vín við  Universität für angewandte Kunst í Vín. Hún hefur dvalið á mörgum listavinnustofum og haldið sýningar í Taiwan, Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu, Bandaríkjunum og Íslandi. Galerie Reintaler í Vín er umboðsgallerí Catherine Ludwig.

Joan Perlman BNA / USA
joanperlman.com               

Joan Perlman er búsett í Los Angeles. Hún hefur sýnt málverk sín og vídeóverk á ýmiss konar vettvangi í Bandaríkjunum og víðar. Þar á meðal má nefna Fringe Exhibitions í Los Angeles; Wave Hill í New York; Tufts University Arts Museum í Boston; Long Beach Museum of Art í  Kaliforníu og Hafnarborg í Reykjavík. Árið 2014 hlaut Joan styrk úr Amerísk-skandinavíska sjóðnum fyrir skapandi listir og Puffin-sjóðnum fyrir ljósmyndir.

Raom & Loba  Frakkland / France
raometloba.com 

Raom (1962) nam myndlýsingu við Escuela de Bellas Artes í Buenos Aires. Loba (1972) er grafískur hönnuður og nam við París VIII háskólann. Þau hafa unnið að gerð ljósmyndaraða frá árinu 1998 en hafa einnig gert teikningar, ætingar, skúlptúra og vídeóverk. Verk þeirra hafa verið sýnd víða um heim. Hver ljósmynd er brot af langri sögu og varpar ljósi á afmarkaðan hluta mannlegs eðlis með því að gera þann hluta  sýnilegan á táknrænan hátt.

Sara Björnsdóttir  Ísland / Iceland
sarabjornsdottir.com

Sara Björnsdóttir (1962) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Chelsea College of Art and Design í London. Hún býr og starfar í Reykjavík. Margræð verk Söru endurspegla upplifun hennar á daglegu lífi þar sem hún notar gjörninga, ljósmyndir og vídeó en rannsakar einnig ytra umhverfi sitt af gaumgæfni. Um leið og hún afhjúpar sjálfa sig stöðugt í list sinni gefur hún okkur á hljóðlátan hátt leyfi til að horfast í augu við fegurð okkar jafnt sem mistök.

Soffía Sæmundsdóttir Ísland / Iceland
soffias.is

Soffía Sæmundsdóttir (1965) útskrifaðist úr grafíkdeild MHÍ 1991, lauk meistaragráðu í málun frá Mills College í Kaliforníu 2001-3 og kennsluréttindum frá LHÍ 2010. Hún hefur staðið fyrir ótal sýningum, tekið þátt í samsýningum, rekið vinnustofu og kennt myndlist um árabil. Hún hefur auk þess tekið þátt í félagsstörfum myndlistarmanna m.a. sem formaður og í sýningarnefnd félagsins Íslensk grafík. Verk hennar eru í eigu fjölmargra einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á alþjóðlegum sem innlendum vettvangi og verið valin til þátttöku á sýningum fyrir Íslands hönd.

Anika Steppe and Anne Carlin, USA
anikasteppe.com

Anika Steppe (1991) og Anne Carlin (1990) komu til Íslands veturinn 2014 og dvöldu á tveimur listavinnustofum. Meðan á dvölinni á Gullkistunni stóð unnu þær saman að stuttmynd sem ber heitið „Total Time“ (ísl. Frá upphafi til enda). Anika vinnur aðallega með ljósmyndir en Anne á sviði heimildamyndagerðar. Þær eru báðar búsettar í Brooklyn í New York.

Alex Strada, USA
alexandrastrada.com

Alex Strada (1998) er ljósmyndari búsett í New York. Verk hennar hafa verið sýnd í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Belgíu, Mexíkó og á Íslandi, þar sem hún sótti ljósmyndanámskeið m.a. hjá Mary Ellen Mark. Alex hefur sagt að „ljósmyndun er mikilvægt tæki til þess að hægja á sér, líta í kringum sig og hugsa um tilveru okkar“. Hún stundar nú meistaranám við Columbia háskólann. 

Lilian Day Thorpe, USA
lilianday.com

Lilian Day Thorpe (1991) lauk BFA-prófi frá Pratt Institute í New York árið 2014 með láði. Ljósmyndir Thorpe eru stafræn samklipp gerð í myndvinnsluforriti en byggð á hennar eigin upprunalegu ljósmyndum. Útkoman er ímyndað landslag sem virðist meira í ætt við málverk en ljósmyndir. Hún leitast við að kalla fram sams konar áhrif „handmálunar“ í ljósmyndum sínum og ljósmyndarar í lok 19. aldar. Næstkomandi haust mun Thorpe hefja meistaranám í listasögu við Pratt Institute.

Gabrielle Vitollo, USA
gabriellevitollo.com

Gabrielle Vitollo (1989) lauk BFA-prófi frá Maryland Institute listaháskólanum árið 2012. Hún hefur dvalið á nokkrum listavinnustofum og hefur tvisvar hlotið styrk úr sjóði Elizabeth Greenshields. Hún hefur meðal annars haldið einkasýningar í Well Point í Philadelphia (2013), MICA Gateway Gallery í Baltimore (2011) og MADWAL Gallery í New York í Bandaríkjunum (2014). Hún mun hefja meistaranám við New York Steinhardt-háskólann haustið 2015.

Síðasti sýningardagur

Síðasti sýningardagur
– leiðsögn og sýningarspjall kl. 15

Sunnudaginn 12. júlí lýkur sýningunum Geymar ogFlassbakk og kl. 15 þann dag mun Sirra Sigrún Sigurðardóttir myndllistarmaður og Inga Jónsdóttir safnstjóri ganga með gestum um safnið og ræða hugmyndirnar sem liggja að baki verkunum. Í samræðum við gestina veltum við fyrir okkur hvort og þá hvernig verkin geta haft áhrif á ímyndunarafl áhorfandans, einnig hvort og þá hvernig myndlist getur velt upp annarri sýn á tilveruna og örvað uppgötvun, sem er ekki síður mikilvægara en önnur þekkingaröflun? Einnig er áhugavert að spyrja um hvað hrífi listamann til sköpunar, hvort umhverfið hafi áhrif og þá hvað í umhverfinu.

Á sýningunni Geymar sjá má hvernig Sirra Sigrún Sigurðardóttir veltir fyrir sér ólíkum viðfangsefnum sem snerta mannlega tilvist og hverng þau eru kveikja verka hennar. Hún vinnur m.a. markvisst með tölfræðilegar upplýsingar, myndrænar niðurstöður kenninga eða vísindarannsókna, ummyndar þær og aðlagar lögmálum myndlistar s.s. lit, formi, rúmi og tíma. Víða má sjá tilvísanir í listasöguna, ýmist persónulega eða í víðara samhengi bæði blandaða kímni og alvöru.

Á sýningunni Flassbakk eru verk úr safneign Listasafns Árnesinga, sem Sirra var fengin til þess að velja og setja saman í sýningu sem bæði kallar fram endurminningar hennar frá safninu sem var staðsett á Selfossi ásamt Byggðasafni Árnesinga og náttúrugripadeild þess, þegar hún var að alast þar upp og kallast líka á við sýninguna Geymar og listsköpun Sirru.

Á hátíðinni Blóm í bæ í Listasafni Árnesinga

Á hátíðinni Blóm í bæ í Listasafni Árnesinga
- listasmiðja 27. júní #1 kl. 10-12 og #2 kl. 14-16
- leiðsögn um sýningarnar 28. júní kl. 15

Helena GuttormsdottirHelena Guttormsdóttir myndlistarmaður og brautarstjóri umhverfisskipulagsbrautar Landbúnaðarháskóla Íslands leiðir tvær listasmiðjur á lóð Listasafns Árnesinga laugardaginn 27. júní. Þátttaka í listasmiðjunum er ókeypis og hægt að taka þátt annars vegar á tímanum kl.10-12 og hins vegar kl. 14-16. Þær eru hugsaðar fyrir börn á öllum aldri, gjarnan fjölskyldur þar sem unnið verður með efnivið sem er á staðnum og fenginn er úr náttúrunni í og við Hveragerði. Möguleikar forma náttúrunnar verða kannaðir og verk unnin á staðnum sem verða höfð til sýnis meðan á hátíðinni stendur. Þátttaka í listasmiðjunum er ókeypis og Helena hefur áður leiðbeint á vinsælum námskeiðum í Listasafni Árnesinga.

Á sunnudeginum, 28. júní kl. 15 mun Inga Jónsdóttir safnstjóri ganga með gestum um sýningarnar GEYMAR og FLASSBAKK þar sem sjá má hvernig Sirra Sigrún Sigurðardóttir veltir fyrir sér ólíkum viðfangsefnum sem snerta mannlega tilvist og þróar verk sín út frá því. Hún vinnur m.a. markvisst með tölfræðilegar upplýsingar, myndrænar niðurstöður kenninga eða vísindarannsókna, ummyndar þær og aðlagar lögmálum myndlistar s.s. lit, formi, rúmi og tíma. Á sýningunni Flassbakk fékk Sirra að velja saman verk úr safneign Listasafns Árnesinga, sem kalla fram endurminningar frá Selfossi þar sem hún ólst upp og safnið var fyrst staðsett ásamt Byggðasafni Árnesinga og náttúrugripadeild þess.

Samræður á sunnudegi

Samræður á sunnudegi, 14. júní kl. 15 Sirra Sigrún ræðir við gesti og segir frá verkum sínum á sýningunni GEYMAR í Listasafni Árnesinga.

SirraGestum er boðið að ganga inn í myndheim Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur og sjá hvernig hún veltir fyrir sér ólíkum viðfangsefnum sem snerta mannlega tilvist og þróar verk sín út frá því. Hún vinnur m.a. markvisst með tölfræðilegar upplýsingar, myndrænar niðurstöður kenninga eða vísindarannsókna, ummyndar þær og aðlagar lögmálum myndlistar s.s. lit, formi, rúmi og tíma. Í innsetningum sínum vinnur hún með sjónhverfingar sem hrífa áhorfandann á vit upplifunar og víða má sjá tilvísun í listasöguna, ýmist persónulega eða í víðara samhengi, blandaða kímni og alvöru. Sirra er einnig með samfélagslegar skírskotanir og á sýningunni er m.a. eitt myndlistarverk sem sprottið er úr nærsamfélaginu. Sýningin GEYMAR var á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2015.

Sirra Sigrún setti einnig saman sýninguna Flassbakk þar sem hún hefur valið verk úr safneign Listasafns Árnesinga, sem kalla fram endurminningar frá Selfossi þar sem hún ólst upp og safnið var fyrst staðsett ásamt Byggðasafni Árnesinga og náttúruminjadeild þess.

Það er kærkomið tækifæri að fá að ræða beint við listamanninn um tilurð verkanna og oft skapast líflegar og áhugaverðar umræður.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn