Listamenn

Opið hús í Seyðtúni, Bláskógum 6

Opið hús í Seyðtúni, Bláskógum 6:

Kristinn hófst handa við að byggja sér hús í fljótlega eftir að hann flutti til Hveragerðis 1940. Húsið nefndi hann Seyðtún og er byggt á jaðri hvrasæðisins í miðjum bænum eða að Bláskógum 6. Aðalkjarni hússins var rúmgóð vinnustofa þar sem Kristinn var djarfur í ýmsum myndlistartilraunum en húsið var jafnframt hans heimili. Frá því að Kristinn féll frá hafa tveir aðilar átt húsið sem nú er til sölu hjá fasteignasölunni Byr í Hveragerði. Þetta er sérstakt hús og eitt örfárra hér á landi sem teiknað er og byggt af myndlistarmanni.

Úr handriti Kristins, Töfratákn, sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni Íslands:

1-1-II

„1. Seyðtún

Húsbygging.

Nýir átthagar, samistaður, heimili.

            Í eðli sínu er maðurinn staðbundin vera. Það er stór áfangi á leið hvers manns til þroska að ráða yfir samastað sínum. Það eru ekki bara plönturnar sem skjóta rótum í umhverfi sínu.

            Það er svo á flestum sviðum, að aðstæður til vinnunnar er eitt af höfuð skilyrðum til góðrar vinnu. Því var það eitt af aðal atriðunum við ný vinnubrögð hjá mér að verða mér úti um góða vinnustofu, en á þeim tímum, sem eflaust ennþá, var það hvergi hægt á landi hér með öðrum hætti en að byggja hana eftir eigin þörfun. ...

            Þótt byggingarlist væri mér aðeins aukageta í námi mínu og því algert sjálfsnám, þá tel ég rett að geta helzu atriða við mótun og tilurð hússins Seyðtún. Það sem hér skipti máli er tvennt, hið listræna í mótun hússins og hið hentuga við gerð og fyrirkomulag þess fyrir þann, sem það á að nota.“

...

2-1-III

„Löngu síðar hef ég smíðað mér hús. Hefur það orðið hálfgerð eilífðarsmíði. Smíðað í mörgum áföngum og lotum. ... Í raun réttri má segja um hús mitt Seyðtún, að það hafi aldrei verið smíðað líkt og önnur hús, þetta eða hitt árið. Það hefur smávaxið sig til þess að verða hús meðal húsa, gildir það þó enn frekar að innan. Það hefur haft þann kost, að í rauninni hef ég búið í mörgum húsum hér í Seyðtúni. Umhverfi mitt hér hefur aldrei staðnað til lengdar frekar en myndlistarstörf mín hér. „Síungt gamalmenni í splunkunýju gömlu húsi“, sagði eitt sinn kunningi minn, er hann kom hér, eftir að ég hafði uppmublerað það með hljóðlátum höggmyndum.

            Það var því ekkert eðlilegra en hér færi ég að lokum að smíða höggmyndir, sem væru bæði mér og húsinu að skapi. Það er sagt, að með tíð og tíma verði ýmsar lífverur nokkurs konar partur af umhverfi sínu. Sennilega er ég og vinnustofa mín næstum orðin eitt í vissum skilningi. Ég get ekki hugsað mér að vinna að list annars staðar og oft finnst mér hálfkjánalegt, er ég bý í venjulegu herbergi. ”

...

            Lengi hafði það verið mér ljóst, að höggmynd, sem gerð er án neins ákveðins umhverfis, birtuskilyrða og skoðunaraðstöðu, er næsta óákveðið fyrirtæki, ofurselt happa- og glappakenndum aðstæðum. Þar eru allir hlutir aðeins almenns eðlis, bæði gerð myndarinnar og allt utanvið hana. Það

hafði því lengi gróið innra með mér löngun til að fá aðstöðu til að gera hluti fyrir ákveðna staði, birtu og skoðunaraðstöðu, viss sjónarhorn og fjarlægð skoðandans. Loks varð það til þess, að ég hófst handa að gera nokkrar höggmyndir fyrir ýmsar ákveðnar hillur og staði hér í húsinu Seyðtúni. Vitanlega hlutu öll form þeirra og lögun ásamt stærð og lit einvörðungu að ákveðast af öllum aðstæðum utan og innan myndarinnar ásamt aðstöðunni til að sjá hana og skoða, sem stundum getur verið nokkuð takmörkuð og því óhjákvæmilega haft sitt að segja um alla gerð myndarinnar.


Listamannaspjall 17. febrúar kl. 15

Hildigunnur Birgisdóttir og Unnar Örn munu ræða við gesti um verk sín á sýningunni TÓMIÐ, horfin verk Kristins Péturssonar og hvernig þau verk tengjast öðrum verkum sem þau hafa fengist við. Einnig gefst tækifæri til þess að ræða um list Kristins, listamanns sem fæddur er undir lok 19. aldar og hvernig list hans er sett í samhengi við listamenn samtímans nú á 21. öld.

 

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn