Listamenn

Hliðstæður og andstæður

HLIÐSTÆÐUR OG ANDSTÆÐUR

er samheiti tveggja nýrra sýninga:

Rósa Gísladóttir – skúlptúr
Samstíga – abstraktlist

Sýningarnar tvær kallast á í tíma og rúmi.
Viðfangsefni þeirra draga fram sjónarhorn á listasöguna og gefa tilefni til umræðu.

Markmiðið með sýningunni Samstíga er að kynna ákveðin tímabil og stefnur í íslenskri myndlist og opna fólki aðgang að þeim menningararfi sem Listasafn Íslands varðveitir. Skúlptúrar Rósu víkka hið sögulega sjónarhorn á geómetríuna í myndlist þar sem hún birtist bæði hliðstæð og andstæð í inntaki og formi.

Verk Rósu eru sett upp sem tvær kyrralífsmyndir sem vísa í klassíska hefð. Sú stærri nýtir stærsta sal listasafnsins og samanstendur af verkum sem Rósa vann fyrir sýningu í rústum Keisaratorganna í Róm sumarið 2012 en sú minni er frá árinu 1999 og endurspeglar klassísk kyrralífsmálverk. Verkin „fela í sér sprengikraft í kyrrstöðu sinni vegna þess að þau mynda skammhlaup á milli tveggja heima“ svo vitnað sé í áhugaverðan texta Ólafs Gíslasonar listfræðings í sýningarskránni þar sem hann heimfærir hugtak Walter Benjamin um „hina díalektísku kyrrstöðumynd“ upp á skúlptúra Rósu. En Benjamin var það hugtak hugleikið „í andófi hans gegn þeirri hugsun sem lítur á söguna og sagnfræðina sem uppfyllingu staðreynda í tiltekna tímaröð án frekari umhugsunar“.

Hin sýningin ber heitið Samstíga og opnar sýn inn í þróun abstraktlistar á árunum 1945-1969 í víðu samhengi. Sjónum er sérstaklega beint að geómetrískri abstraktlist sem var fyrirferðamikil hér á landi um miðbik 20. aldar. Þá náðu íslenskir myndlistarmenn athygli erlendis og voru samstíga öðrum listamönnum í Evrópu. Heiti sýningarinnar vísar líka í þá samþættingu listgreina sem abstrakt list einkum geometrían boðaði þó að titillinn sé ef til vill í andstöðu við þá ólgu sem fylgir róttækum breytingum. Þetta er önnur sýningin í þriggja sýninga samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga, Listasafns Hornafjarðar og Listasafns Íslands. Eyborg Guðmundsdóttir, Guðmunda Andrésdóttir, Guðmundur Benediktsson, Hörður Ágústsson, Karl Kvaran, Nína Tryggvadóttir, Svavar Guðnason, Valtýr Pétursson og Þorvaldur Skúlason eru höfundar verka sem koma úr safneign Listasafns Íslands en verk eftir Gerði Helgadóttur eru fengin að láni hjá Listasafni Kópavogs - Gerðarsafni.

Samstíga er þriðja sýning ársins sem tileinkuð er 50 ára listaverkagjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona hennar til Árnesinga og í anda hugsjóna Bjarnveigar hefur lítilli listasmiðju verið komið fyrir í safninu þar sem börnum og fullorðnum er boðið upp á leik og fræðslu með verkefnum til þess að glíma við og hafa gaman af. Báðum sýningunum er fylgt úr hlaði með sýningarskrám.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn