Listamenn

Jólasýningin Jólin koma

Jólin koma

Jólasýningin Jólin koma er samvinnuverkefni Listasafns Árnesinga, Hveragerðisbæjar, Listvinafélags Hveragerðis og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Þetta er sýning á Jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum og teikningum Tryggva Magnússonar og er sýningin fengin frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni með góðfúslegu leyfi erfngja Tryggva. Þá eru einnig til sýnis 22 eintök af kvæðakveri Jóhannesar úr Kötlum, þar á meðal frumútgáfan frá 1932 og hátíðarútgáfan frá síðasta ári í tilefni af 80 ára útgáfuafmæli.  Fáar bækur hafa verið endurútgefnar jafn oft og von er á nýrri útgáfu nú í desember sem er sennilega sú þrítugasta.  Kverin eru fengin að láni hjá syni Jóhannesar, Svani Jóhannessyni. Kvæðin í kverinu eru „Jólin koma“, „Jólasveinarnir“, „Grýlukvæði“, „Jólakötturinn“ og „Jólabarnið“.

Kvæðakverið Jólin koma

Árið 1932 kom út kvæðakver Jóhannesar úr Kötlum Jólin koma með vísum um íslenskar jólavættir. Tryggvi Magnússon myndskreytti bókina, en hann var þá þekktasti teiknari landsins. Bókin kom út á tíma sjálfstæðisbaráttunnar þegar þjóðararfurinn gekk í endurnýjun lífdaga. Þjóðsagnaminni voru færð nær þjóðinni og um leið mörkuð sérstaða íslenskrar menningar. Á fyrri hluta 20. aldar var litið á íslensku jólasveinana sem tröll en jólasveinar Tryggva minna frekar á bændur. Þeir eru í eðlilegri stærð og klæðaburður þeirra þótti kunnuglegur. Þannig færði Tryggvi íslensku jólasveinana nær börnunum og jafnframt varð smám saman til málamiðlun á milli íslensku tröllanna og ameríska jólasveinsins. Jólasveinarnir fengu að vera þrettán talsins og heita sínum gömlu nöfnum. Aftur á móti fóru þeir smám saman að klæðast sömu fötum og sá ameríski og gefa gjafir jafnframt því að halda sínum séreinkennum og hrekkjum. Jóhannes úr Kötlum notaði að mestu sömu nöfn á sveinana og séra Páll Jónsson á Myrká (1812-1889) sjötíu árum fyrr í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Með þessu kvæði sínu má segja að Jóhannes hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna, fjölda þeirra og í hvaða röð þeir halda til byggða. Landsbókasafn eignaðist árið 1989 frumeintök teikninganna í Jólin koma.

Jóhannes úr Kötlum

(Jóhannes Bjarni Jónasson)
(1899-1972)

Jóhannes úr Kötlum var rithöfundur og ljóðskáld, þýðandi, farkennari og alþingismaður. Jóhannes samdi bæði bundin ljóð og prósaljóð og einnig nokkrar skáldsögur. Jóhannes fæddist að Goddastöðum í Laxárdal í Dölum en ólst upp frá sex mánaða aldri í Ljárskógaseli í sömu sveit. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Jóhannesson og Halldóra Guðbrandsdóttir. Skammt frá Ljárskógaseli rennur áin Fáskrúð og þar eru svonefndir Katlar, fossar, hyljir og klettar, þar sem Jóhannes lék sér mikið í bernsku. Þegar hann gaf út fyrstu ljóðabók sína kenndi hann sig við þetta svæði og nefndi sig Jóhannes úr Kötlum. Jóhannes tók kennarapróf árið 1921 og stundaði kennslu við ýmsa skóla í Dalasýslu frá 1917 til 1932. Þá flutti hann til Reykjavíkur og kenndi einn vetur við Austurbæjarskólann en einbeitti sér síðan að ritstörfum og ritstjórn, fyrst í Reykjavík og síðan í Hveragerði, en fluttist aftur til Reykjavíkur 1959 og bjó þar til æviloka.

Tryggvi Magnússon

(1900-1960)

Tryggvi Magnússon fæddist að Bæ í Steingrímsfirði á Ströndum. Hann lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri og stundaði nám í Kaupmannahöfn í tvö ár og fór svo til New York til náms í andlitsmyndagerð. Hann stundaði svo nám í málaralist í í Dresden og fluttist að námi loknu til Reykjavíkur. Stundum er sagt að Tryggvi hafi verið fyrsti teiknarinn sem hafði atvinnu af listgrein sinni. Hann teiknaði fornmannaspilin, sýslumerkin fyrir Alþingishátíðina 1930 og skjaldarmerki Íslands. Tryggvi var hvað þekktastur fyrir teikningar sínar í skopritið Spegilinn.

Dagskrá:

Fimmtudaginn 12. desember Kl. 17
Jóladagskrá fyrir börn á öllum aldri þar sem m.a. Jólavísur Jóhannesar úr Kötlum við lag Ingunnar Bjarnadóttur verða sungnar. Stekkjarstaur kominn til byggða og lítur inn.

Föstudaginn 13. desember kl. 17
Listasmiðja fyrir fjölskylduna og barnadagskrá með Giljagaur sem kom til byggða nóttina áður.

Laugardaginn 14. desember kl. 17
Listasmiðja fyrir fjölskylduna og barnadagskrá með Stúf sem kom til byggða nóttina áður.   

Sunnudaginn 15. desember kl. 17
Listasmiðja fyrir fjölskylduna og barnadagskrá með Þvörusleiki sem kom til byggða nóttina áður.

Síðasti dagurinn sem Listasafn Árnesinga er opið á árinu.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn