Listamenn

Upplestur - tónlist

Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði bjóða til jóladagskrár
þriðjudaginn 3. desember kl. 20:

UPPSPRETTA HUGMYNDA
- bókmenntir með tónlistar- og myndlistarívafi

Á jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga í ár munu rithöfundarnir Guðmundur Andri Thorsson, Óskar Árni Óskarsson, Sigrún Pálsdóttir, Sjón og Vigdís Grímsdóttir lesa úr nýjum höfundaverkum sínum. Jazzkvartett Vigdísar Ásgeirsdóttur mun flytja nokkur lög og sýningarnar Jólasýning, Samstíga og Skúlptúrar Rósu Gísladóttur verða líka opnar. Flytjendur gera lítillega grein fyrir því hvaðan og hvernig hugmyndirnar að þessum verkum eru fengnar.
Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Um jazz-kvartettinn:

Í Jazzkvartett Vigdísar Ásgeirsdóttur eru trymbillinn Páll Sveinsson, bassaleikarinn Jón Ómar Erlingsson, gítaristinn Jacob Hagedorn-Olsen og Vigdís sér um sönginn. Kvartettinn mun flytja nokkra jazz-standarda og segja söguna bak við lögin.

Um bækurnar sem lesið verður upp úr:

Í bókinni Sæmd byggir Guðmundur Andri á raunverulegum atburðum og persónum, dregur upp mynd af svipmiklu fólki og mannlífi á viðkvæmu skeiði í sögu þjóðarinnar, en segir líka sögu um glæp og refsingu, hugrekki, eðli valdsins, stéttaskiptingu, hlutverk skáldsins í samfélaginu – og sæmdina.

Það sem við tölum um þegar við tölum um ást er smásagnasafn eftir bandaríska höfundinn Raymond Carver (1938-1988) sem Óskar Árni þýddi. Carver er þekktur fyrir knappan og einfaldan stíl og viðfangsefnið er sársauki og brostnir draumar alþýðufólks. Óskar Árni mun einnig lesa úr prósabókinni Kuðungasafnið sem út kom á síðasta ári og dregur upp þorpsmyndir.

Sigrún og Friðgeir – Ferðasagaer saga ungra hjóna sem héldu til Bandaríkjanna í sérnám í læknisfræði 1940 og snéru heim með Goðafossi sem var skotinn niður skammt frá Reykjavík. Þetta er saga úr síðari heimsstyrjöldinni sem snertir ólíka þætti í sögu Íslands á 20. öld. Inn í hana sogast líka atburðir úr sögu bandarísks samfélags. Höfundurinn, Sigrún Pálsdóttir, byggir söguna á bréfum og dagbókum Sigrúnar og Friðgeirs.

Sjón lætur söguna Mánasteinn – drengurinn sem aldrei var til gerast í Reykjavík 1918 með Kötlugos, spænsku veikina og undirbúning fullveldis í bakgrunni. Drengurinn Máni Steinn lifir í kvikmyndum. Sofandi dreymir hann myndirnar í tilbrigðum með ívafi úr eigin lífi, en vakandi er hann á jaðri samfélagsins.

Dísusaga – Konan með gulu töskunaer óhefðbundin skáldævisaga sem fjallar um einægni, ofbeldi og mannúð. Saga þar sem Dísa Gríms af Kleppsveginum fær orðið en svarta Gríms sem bæði er bjargvættur og kúgari víkur. Það upplýsist jafnframt að það er hin svarta Gríms sem hingað til hefur ráðið ferðinni hjá rithöfundinum Vigdísi Grímsdóttur.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn