Kammerkór Suðurlands opin æfing í LÁ sunnudaginn 26. apríl kl. 17-18
Kammerkór Suðurlands
opin æfing í LÁ sunnudaginn 26. apríl kl. 17-18
Kammerkór Suðurlands var stofnaður árið 1997 og er skipaður tónlistarfólki og áhugamönnum víðs vegar af Suðurlandi. Stofnandi og stjórnandi kórsins frá upphafi er Hilmar Örn Agnarsson, sem jafnframt er organisti í Grafarvogskirkju.
Kórinn hefur flutt bæði andlega og veraldlega tónlist frá ýmsum tímum og er þekktur fyrir fjölbreytt efnistök. Syngur allt frá djassi og dægurtónlist til tónverka sem endurspegla nýjustu strauma í samtímatónlist.
Hann hefur m.a. tekið þátt í Sumartónleikum í Skálholti og flutt þar verk eftir Karólínu Eiríksdóttur, Gunnar Reyni Sveinsson og fleiri, auk efnisskrár undir yfirskriftinni Íslensk kirkjutónlist í 1000 ár. Kórinn hefur einnig tekið þátt í ýmsum tónlistarhátíðum bæði hér á landi og erlendis.
Á Sumartónleikum í Skálholti 2004 flutti kórinn verk eftir sir John Travener, en það var í fyrsta skiptið sem samfelld dagskrá með verkum eftir hann var flutt hér á landi. Tavener tileinkaði kæornum eitt vekið, Schuon Hymnen.
Á tónleikum í Southwark Cathedral í Lundúnum í nóvember 2013 frumflutti kórinn Sonnettur Taveners, sem hann samdi sérstaklega fyrir kórinn. Vegna skyndilegs fráfalls Taveners, þremur dögum fyrir tónleikana, urðu þeir óvænt að minningartónleikum um tónskáldið og hlaut kórinn þá mikla umfjöllun í heimspressunni.
Kammerkór Suðurlands hefur nokkrum sinnum tekið þátt í uppákomum í Listasafni Árnesinga og sunnudaginn 26. apríl á síðasta sýningardegi sýningarinnar ÁKALL gefst gestum tækifæri til að hlýða á hann í opinni æfingu. Áður hefur verið boðið upp á opna æfingu kórsins í safninu og hefur þá skapast skemmtileg stemning.