Listamenn

NAUTN / Conspiracy of Pleasure

NAUTN / Conspiracy of Pleasure

Listamenn Nautn - Sýning í Listasafni Árnesinga

Hin ýmsu lögmál og birtingarmyndir nautnar eru útgangspunktur sýningarinnar. Sex listamenn sýna ný verk, þar sem þeir fjalla um hugtakið, hver frá sínu sjónarhorni og forsendum, og efna til orðræðu um hlutverk nautnar í heimspekilegu, listrænu og veraldlegu samhengi. Í verkunum má sjá þráhyggjukenndar birtingarmyndir neysluhyggju og kynlífs í samtímanum, holdið í myndlistinni, mannslíkamann sem táknrænt fyrirbæri og innblástur eða einfaldlega hina frumstæðu nautn sem oft fylgir listsköpun, glímunni við efni og áferð, áráttu og blæti.

Hvar liggja mörkin á milli þess að leggja eðlilega og manneskjulega rækt við unað og ánægju annars vegar og hins vegar þess að gangast þessum eiginleikum hömlulaust á vald? Hvenær verður eitthvað að blæti? Hver er munurinn á munúð og ofgnótt, erótík og klámi, fegurð og kitsch, löngun og fíkn, metnaði og græðgi, háleitum markmiðum og firru? Og hver hefur vald til að setja fram þessar skilgreiningar?

Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eru Anna Hallin, Birgir Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Guðný Kristmannsdóttir, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Jóhann Ludwig Torfason. Sýningin var sett upp í Listasafninu á Akureyri síðast liðið sumar þar sem hún vakti verðskuldaða athygli og er nú sett upp í Listasafni Árnesinga lítilega breytt. Sýningin er samstarfsverkefni listasafnanna og sýningarstjórar eru Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga. Markús Þór Andrésson ritar grein í sýningarskrá sem gefin er út með sýningunni.

Sýningin Nautn / Conspiracy of Pleasure mun standa til og með 11. desember á þessu ári en þegar safnið verður opnað á ný eftir jólahlé 11. janúar 2017 verður sýningin áfram á dagskrá til 26. mars 2017.


Um listamennina í stafrófsröð:

Anna Hallin

Anna Hallin er fædd í Svíðþjóð árið 1965 og hefur verið búsett í Reykjavík síðan 2001. Anna hefur meistaragráðu í leirlist frá Háskólanum í Gautaborg og í myndlist frá Mills College, Oakland, Kaliforníu. Hún hefur á ferli sínum tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis og haldið einkasýningar hér á landi, í Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi, svo nokkuð sé nefnt. Verk eftir hana eru m.a. í eigu Listasafns Reykjavikur, Gerðarsafns, Safnasafnsins, Listasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Íslands. Anna hefur um árabil unnið að myndlist í samstarfi við myndlistarkonuna Olgu Bergmann. Samstarf þeirra er ekki síst á sviði myndlistar í opinberu rými og sem dæmi má nefna verðlaunatillögu þeirra að listaverkum fyrir nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði.
www.this.is/ahallin

Birgir Sigurðsson

Birgir (f. 1960) er að mestu sjálfmenntaður í myndlist, en naut um tíma handleiðslu Þorvaldar Þorsteinssonar. Hann hefur haldið 17 einkasýningar og tekið þátt í ótal samstarfsverkefnum. Birgir hefur alltaf leyft sér að vinna allskonar verk; ljósskúlptúra, dansverk, videó, upplestur, póstkort og ljóð, svo eitthvað sé nefnt. En útgangspunkturinn í myndlist Birgis er alltaf hans persónulega reynsla.
Árið 2010 stofnaði Birgir 002 Gallerí sem er 63 fm íbúð hans að Þúfubarði í Hafnarfirði. Þar hefur Birgir staðið fyrir 30 sýningum íslenskra samtímalistamanna.
www.002galleri.blogspot.com

Eygló Harðardóttir

Eygló (f. 1964) lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og framhaldsnámi frá AKI – Akademie voor Beeldende Kunst í Enschede Í Hollandi 1990. Árið 2005 lauk hún B.Ed. gráðu frá menntavísindadeild Háskóla Íslands og 2014 lauk hún MA gráðu við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Samhliða listsköpun, sem hún hefur hlotið styrki fyrir og viðurkenningar, hefur Eygló sinnt kennslu bæði í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum í Reykjavík að hluta og með hléum. Eygló hefur starfað og sýnt verk sín hér heima og erlendis og verk hennar eru í eigu opinberra safna.
www.eyglohardardottir.net

Guðný Þórunn Kristmannsdóttir

Guðný (f. 1965) lauk stúdentsprófi af myndlistarbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1988. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-1991 og brautskráðist þaðan úr málaradeild. Skömmu síðar flutti hún til Akureyrar og hefur búið þar og starfað síðan. Fyrstu einkasýningu sína, Teikningar, hélt hún í Gallerí Svartfugli á Akureyri 1998 og var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2009. Guðný hefur bæði haldið einkasýningar og tekið þátt í ýmsum samsýningum hér heima og erlendis.
www.gudny.is

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson

Helgi (f. 1968) útskrifaðist frá listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti og sótti síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-1991, Kunstakademie Düsseldorf 1991-1992, AKI í Hollandi 1992-1994 og San Francisco Art Institute 1994-1995. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi jafnt hér heima sem erlendis allt frá námsárunum og verk hans er m.a. að finna í safneign Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur. Helgi rak sýningarrýmið 20m2 um hríð og hefur sinnt ýmsum störfum tengdum myndlist svo sem stjórnarsetu í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Nýlistasafninu, verið í sýningarnefndum og starfað við kennslu. Verk Helga eru oft haganlega unnir smíðagripir sem virðast hafa notagildi en hafa þó ekki. Hann hefur einnig fengist við aðra miðla svo sem ljósmyndir, myndbönd og litaðar teikningar.

Jóhann Ludwig Torfason

Jóhann Ludwig Torfason (f. 1965) stundaði nám við grafíkdeild Myndlista og handíðaskóla Íslands 1985-1989 og við fjöltæknideild sama skóla 1989-1990. Hann hefur haldið 14 einkasýningar og tekið þátt í samsýningum og gjörningum hér heima og erlendis. Verk eftir Jóhann er að finna í opinberum söfnum á Íslandi. Jóhann stofnaði fyrirtækið/verkið Pabbakné árið 2005 og hefur sýnt í nafni þess síðan. Hann er einn stofnmeðlima myndasögublaðsins Gisp og hefur reglulega birt þar sögur og myndasögutengt efni frá 1990. Frá árinu 2006 hefur Jóhann verið umsjónarmaður prentverkstæðis Listaháskóla Íslands og kennt þar.
www.pabbakne.is

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn