Listamenn

Jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga

myndlist - orðlist - tónlist

Listastund

Árleg jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga, fullveldisdaginn 1. desember verður haldin í Listasafninu í dag kl. 17:00. Þá munu rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir, Ásdís Thoroddsen, Guðmundur Óskarsson, Guðrún Eva Mínervudóttir og Gyrðir Elíasson lesa úr nýjum bókum sínum, Lay Low flytja fáein lög og Inga Jónsdóttir safnstjóri segja frá nýopnaðri sýningu, Nautn – Conspiracy of Pleasure.

Í skáldsögunni Ör fjallar Auður Ava Ólafsdóttir um stærstu spurningar lífsins: lífið, dauðann og ástina sem öllu skiptir. Hún segir frá Jónasi Eberneser, 49 ára fráskildum karlmanni. Þegar Jónas leggur af stað í ferðalag sem hann hefur ekki hugsað sér að snúa aftur úr tekur hann með sér borvél.

Utan þjónustusvæðis – krónika er fyrsta skáldsaga Ásdísar Thoroddsen. Þar er lýst mannlífi í litlum byggðarkjarna við sjávarsíðuna þar sem sveitungar tengjast margslungnum böndum, mikið er skrafað og um baráttu Heiðar, sem er aðflutt, við að vera tekin gild í samfélaginu.

Skáldsaga Guðmundar Óskarssonar, Villisumar, fjallar um afdrifaríka dvöl unglingspilts eitt sumar með föður sínum, þekktum og brokkgengum listmálara, í suðrænni borg. Löngu síðar snýr sonurinn aftur í fylgd uppkominna barna sinna og rifjar upp þetta einkennilega sumar þegar leiðir skildi.

Bók Guðrúnar Evu, Skegg Raspútíns, fjallar um tvær konur og mennina þeirra. Sögur kvennanna spegla hvor aðra og vinátta þeirra hefur mikil áhrif á líf beggja. Úr verður einstök frásögn, skrifuð af miklum mannskilningi um hlutskipti kvenna, samskipti kynjanna, örlög, frumkvæði, nánd og drauma.

Síðasta vegabréfið er 15. ljóðabók Gyrðis Elíassonar og Langbylgja er annað smáprósasafn hans. Langbylgja inniheldur 104 smáprósa, hnitmiðaðar og stundum óvæntar frásagnir. Í aldarþriðjung hefur Gyrðir fengist við flestar greinar skáldskapar og verk hans verið þýdd og gefin út víða um heim.

Lay Low er listamannsnafn Lovísu Elísabetar Sigrúnardóttur. Hún hefur alltaf haft brennandi áhuga á að vera í tónlist. Árið 2006 skaust hún upp á stjörnuhiminninn og heillaði fólk með sérstakri rödd sinni og fallegri tónlist sem hún semur sjálf. Hún er nú þekkt um allan heim og heldur endalaust áfram að skapa tónlist, nú síðustu árin í Ölfusinu.

Hin ýmsu lögmál og birtingarmyndir nautnar eru útgangspunktur sýningarinnar Nautn / Conspiracy of Pleasure þar sem fjallað er um hugtakið út frá mismunandi sjónarhorni og forsendum sex ólíkra listamanna.

Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands, aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn