Listamenn

Mismunandi endurómun

Mismunandi endurómun

Sýningin Mismunandi endurómun er verkefni sem mótað var af sex myndlistarmönnum sem allir búa og starfa í Þýskalandi eftir að hafa lokið þar myndlistarnámi. Listamennirnir eru Annette Wesseling, Ekkehard Neumann, Friedhelm Falke og Nikola Dimitrov sem eru fædd og uppalin í Þýskalandi, Elly Valk-Verheijen sem er fædd og uppalin í Hollandi og Sigrún Ólafsdóttir sem er fædd á Íslandi og ólst upp á Selfossi. Leiðir þeirra höfðu skarast á vettvangi myndlistar í Þýkalandi og þau þekktu vel verk og vinnubrögð hvert annars sem lagði traustan grunn að samstarfi. Sameiginlega mótuðu þau sýningarhugmynd þar sem lykilstefið var að ná fram gagnvirkum endurómi verkanna á milli og láta þau kallast á við ólíka sýningarstaði á víðum vettvangi. Ekki er um eiginlega farandsýningu að ræða því verkin á hverja sýningu eru valin með tilliti til misstórra sýningarstaða og í samráði við sýningarstjóra þeirra. Það er því blæbrigðamunur milli sýninganna en þess ávallt gætt að verkin endurkasti áhugaverðum bylgjum, ólíkri endurómun, milli sín innbyrðis og þess staðar sem er umgjörð hverrar sýningar. Sýningarstjóri sýningarinnar í Listasafni Árnesinga er Inga Jónsdóttir.

Stærð og umfang verkanna er mjög mismunandi, efniviðurinn margvíslegur og viðfangsefnið ólíkt, en sýningin snýst um það að ná jafnvægi milli þessara andstæðna. Verk listamannanna sýna að myndlist er rannsóknarvinna sem byggist á forvitni, tilraunum, framkvæmd og endurtekningu. Flest verkin eru óhlutbundin og mörg bera yfirbragð konkret listar eða geometríunnar en hugmyndalegur grunnur þeirra er annar. Það sem verkin eiga helst sameiginlegt er fjölbreytileiki sem áhugavert er að að stilla saman þannig að gestum er boðið upp á marglaga enduróm og samræður.

Fjölbreytileikinn felst líka í hugmyndalegri útfærslu verkanna sem eru unnin með blandaðri tækni, ýmist ný eða eldri, skúlptúrar, málverk, textíll, þrykk og innsetningar af ýmsum toga. Heyra má og sjá samhljóm og enduróm sem spannar víðan skala lífræns flæðis andspænis agaðri formfestu, mýkt gegnt hörku, kyrrð mót ágengni, léttleika andspænis þyngd svo eitthvað sé tilgreint. Saman kallast verkin á og ná að magna hvert annað svo áhorfendur hafa margt að skynja og geta fundið ríkulega endurgjöf og samtal, gefið, tengt og þegið ef þeir leggja sig eftir því.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn