Listamenn

ÁR: málverkið á tímum straumvatna

ÁR: málverkið á tímum straumvatna

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson •  Þorvaldur Skúlason

Sýningarstjóri: Auður A. Ólafsdóttir listfræðingur og safnstjóri

Listasafn Háskóla Íslands býr að langstærsta safni landsins af verkum eftir Þorvald Skúlason; rúmlega 200 málverk og yfir þúsund teikningar og skissur frá öllum tímabilum ferils hans. Safnstjóri Listasafns Háskóla Íslands er Auður A. Ólafsdóttir listfræðingur og er hún jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar ÁR: málverkið á tímum straumvatna. Hún hefur valið að láta verk Þorvalds eiga stefnumót við samtímalistina, við verk Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar og kallar það í sýningarskrá „hinn óvænta fund rökhyggju og rómantíkur í miðju straumvatni.”

Einn virtasti abstraktmálari landsins, Þorvaldur Skúlason (1906-1984) dvaldi sumrin 1967-69 að Þórustöðum í Ölfusi. Björn Th. Björnsson segir frá því í bók sinni um Þorvald Skúlason að þar eystra hafi málarinn haft að venju að ganga upp með Ölfusá með skissubók og spá í soghvilftir, straumrásir og framrás vatnsins. „Straumurinn í þessu mikla fljóti, iðuköstin, andstreymið og spegillygnurnar á milli fundust honum svo nýstárlegt og heillandi formspil að penslar hans gátu ekki látið það í friði.” Tímabilið undir lok sjöunda áratugarins og á þeim áttunda hefur verið talið eitt djarfasta tímabilið í list Þorvalds. Það einkennist af kraftmiklum og litríkum straumrasta- og hringiðuverkum og er jafnan kennt við Ölfusárverkin. Árið 1969 málar Þorvaldur olíumálverk í bláum, gulum og hvítum litum sem hann nefnir Ölfusá.

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson myndlistarmaður er fæddur árið 1966,  ári áður en Þorvaldur Skúlason fer austur fyrir fjall og gengur upp með Ölfusá. Síðast liðin ár hefur Sigtryggur að mestu einbeitt sér að því að gera straumvatni skil í formi olíumálverka, vatnslitamynda, lágmynda og innsetninga. Verk hans eiga sér rætur í hugmyndamálverki tíunda áratugarins en í myndum sínum af ám veltir Sigtryggur m.a. fyrir sér spurningunni um „samhliða eðli málverks og vatnsyfirborðs”. Straumvatnamálverk hans eru ólík innbyrðis, sum hafa yfirbragð abstraktverka, önnur eru natúralískari. Sumarið 2004 gengur Sigtryggur meðfram bökkum Ölfusár með ljósmyndavél og tekur myndir. Í kjölfarið málar hann olíumálverk í rauðbrúnum, gulum og bláum litum sem hann nefnir Ölfusá.

Þrjátíu og fimm ár skilja að Ölfusármyndir þeirra Þorvalds og Sigtryggs. Á því tímabili hafa margar ár runnið til sjávar í samtímalistinni. Við fyrstu sýn kann að virðast sem himinn og haf skilji að hugmyndaheim módernista af gamla skólanum og samtímamálara, en á sýningunni má sjá að nálgun konseptmálarans Sigtryggs á þó býsna margt sameiginlegt með formrannsakandanum og rökhyggjumanninum Þorvaldi Skúlasyni.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn