Listamenn

NAUTN / Conspiracy of Pleasure

NAUTN / Conspiracy of Pleasure

Listamenn Nautn - Sýning í Listasafni Árnesinga

Hin ýmsu lögmál og birtingarmyndir nautnar eru útgangspunktur sýningarinnar. Sex listamenn sýna ný verk, þar sem þeir fjalla um hugtakið, hver frá sínu sjónarhorni og forsendum, og efna til orðræðu um hlutverk nautnar í heimspekilegu, listrænu og veraldlegu samhengi. Í verkunum má sjá þráhyggjukenndar birtingarmyndir neysluhyggju og kynlífs í samtímanum, holdið í myndlistinni, mannslíkamann sem táknrænt fyrirbæri og innblástur eða einfaldlega hina frumstæðu nautn sem oft fylgir listsköpun, glímunni við efni og áferð, áráttu og blæti.

Hvar liggja mörkin á milli þess að leggja eðlilega og manneskjulega rækt við unað og ánægju annars vegar og hins vegar þess að gangast þessum eiginleikum hömlulaust á vald? Hvenær verður eitthvað að blæti? Hver er munurinn á munúð og ofgnótt, erótík og klámi, fegurð og kitsch, löngun og fíkn, metnaði og græðgi, háleitum markmiðum og firru? Og hver hefur vald til að setja fram þessar skilgreiningar?

Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eru Anna Hallin, Birgir Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Guðný Kristmannsdóttir, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Jóhann Ludwig Torfason. Sýningin var sett upp í Listasafninu á Akureyri síðast liðið sumar þar sem hún vakti verðskuldaða athygli og er nú sett upp í Listasafni Árnesinga lítilega breytt. Sýningin er samstarfsverkefni listasafnanna og sýningarstjórar eru Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga. Markús Þór Andrésson ritar grein í sýningarskrá sem gefin er út með sýningunni.

Sýningin Nautn / Conspiracy of Pleasure mun standa til og með 11. desember á þessu ári en þegar safnið verður opnað á ný eftir jólahlé 11. janúar 2017 verður sýningin áfram á dagskrá til 26. mars 2017.


Um listamennina í stafrófsröð:

Anna Hallin

Anna Hallin er fædd í Svíðþjóð árið 1965 og hefur verið búsett í Reykjavík síðan 2001. Anna hefur meistaragráðu í leirlist frá Háskólanum í Gautaborg og í myndlist frá Mills College, Oakland, Kaliforníu. Hún hefur á ferli sínum tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis og haldið einkasýningar hér á landi, í Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi, svo nokkuð sé nefnt. Verk eftir hana eru m.a. í eigu Listasafns Reykjavikur, Gerðarsafns, Safnasafnsins, Listasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Íslands. Anna hefur um árabil unnið að myndlist í samstarfi við myndlistarkonuna Olgu Bergmann. Samstarf þeirra er ekki síst á sviði myndlistar í opinberu rými og sem dæmi má nefna verðlaunatillögu þeirra að listaverkum fyrir nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði.
www.this.is/ahallin

Birgir Sigurðsson

Birgir (f. 1960) er að mestu sjálfmenntaður í myndlist, en naut um tíma handleiðslu Þorvaldar Þorsteinssonar. Hann hefur haldið 17 einkasýningar og tekið þátt í ótal samstarfsverkefnum. Birgir hefur alltaf leyft sér að vinna allskonar verk; ljósskúlptúra, dansverk, videó, upplestur, póstkort og ljóð, svo eitthvað sé nefnt. En útgangspunkturinn í myndlist Birgis er alltaf hans persónulega reynsla.
Árið 2010 stofnaði Birgir 002 Gallerí sem er 63 fm íbúð hans að Þúfubarði í Hafnarfirði. Þar hefur Birgir staðið fyrir 30 sýningum íslenskra samtímalistamanna.
www.002galleri.blogspot.com

Eygló Harðardóttir

Eygló (f. 1964) lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og framhaldsnámi frá AKI – Akademie voor Beeldende Kunst í Enschede Í Hollandi 1990. Árið 2005 lauk hún B.Ed. gráðu frá menntavísindadeild Háskóla Íslands og 2014 lauk hún MA gráðu við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Samhliða listsköpun, sem hún hefur hlotið styrki fyrir og viðurkenningar, hefur Eygló sinnt kennslu bæði í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum í Reykjavík að hluta og með hléum. Eygló hefur starfað og sýnt verk sín hér heima og erlendis og verk hennar eru í eigu opinberra safna.
www.eyglohardardottir.net

Guðný Þórunn Kristmannsdóttir

Guðný (f. 1965) lauk stúdentsprófi af myndlistarbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1988. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-1991 og brautskráðist þaðan úr málaradeild. Skömmu síðar flutti hún til Akureyrar og hefur búið þar og starfað síðan. Fyrstu einkasýningu sína, Teikningar, hélt hún í Gallerí Svartfugli á Akureyri 1998 og var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2009. Guðný hefur bæði haldið einkasýningar og tekið þátt í ýmsum samsýningum hér heima og erlendis.
www.gudny.is

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson

Helgi (f. 1968) útskrifaðist frá listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti og sótti síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-1991, Kunstakademie Düsseldorf 1991-1992, AKI í Hollandi 1992-1994 og San Francisco Art Institute 1994-1995. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi jafnt hér heima sem erlendis allt frá námsárunum og verk hans er m.a. að finna í safneign Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur. Helgi rak sýningarrýmið 20m2 um hríð og hefur sinnt ýmsum störfum tengdum myndlist svo sem stjórnarsetu í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Nýlistasafninu, verið í sýningarnefndum og starfað við kennslu. Verk Helga eru oft haganlega unnir smíðagripir sem virðast hafa notagildi en hafa þó ekki. Hann hefur einnig fengist við aðra miðla svo sem ljósmyndir, myndbönd og litaðar teikningar.

Jóhann Ludwig Torfason

Jóhann Ludwig Torfason (f. 1965) stundaði nám við grafíkdeild Myndlista og handíðaskóla Íslands 1985-1989 og við fjöltæknideild sama skóla 1989-1990. Hann hefur haldið 14 einkasýningar og tekið þátt í samsýningum og gjörningum hér heima og erlendis. Verk eftir Jóhann er að finna í opinberum söfnum á Íslandi. Jóhann stofnaði fyrirtækið/verkið Pabbakné árið 2005 og hefur sýnt í nafni þess síðan. Hann er einn stofnmeðlima myndasögublaðsins Gisp og hefur reglulega birt þar sögur og myndasögutengt efni frá 1990. Frá árinu 2006 hefur Jóhann verið umsjónarmaður prentverkstæðis Listaháskóla Íslands og kennt þar.
www.pabbakne.is

Jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga

myndlist - orðlist - tónlist

Listastund

Árleg jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga, fullveldisdaginn 1. desember verður haldin í Listasafninu í dag kl. 17:00. Þá munu rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir, Ásdís Thoroddsen, Guðmundur Óskarsson, Guðrún Eva Mínervudóttir og Gyrðir Elíasson lesa úr nýjum bókum sínum, Lay Low flytja fáein lög og Inga Jónsdóttir safnstjóri segja frá nýopnaðri sýningu, Nautn – Conspiracy of Pleasure.

Í skáldsögunni Ör fjallar Auður Ava Ólafsdóttir um stærstu spurningar lífsins: lífið, dauðann og ástina sem öllu skiptir. Hún segir frá Jónasi Eberneser, 49 ára fráskildum karlmanni. Þegar Jónas leggur af stað í ferðalag sem hann hefur ekki hugsað sér að snúa aftur úr tekur hann með sér borvél.

Utan þjónustusvæðis – krónika er fyrsta skáldsaga Ásdísar Thoroddsen. Þar er lýst mannlífi í litlum byggðarkjarna við sjávarsíðuna þar sem sveitungar tengjast margslungnum böndum, mikið er skrafað og um baráttu Heiðar, sem er aðflutt, við að vera tekin gild í samfélaginu.

Skáldsaga Guðmundar Óskarssonar, Villisumar, fjallar um afdrifaríka dvöl unglingspilts eitt sumar með föður sínum, þekktum og brokkgengum listmálara, í suðrænni borg. Löngu síðar snýr sonurinn aftur í fylgd uppkominna barna sinna og rifjar upp þetta einkennilega sumar þegar leiðir skildi.

Bók Guðrúnar Evu, Skegg Raspútíns, fjallar um tvær konur og mennina þeirra. Sögur kvennanna spegla hvor aðra og vinátta þeirra hefur mikil áhrif á líf beggja. Úr verður einstök frásögn, skrifuð af miklum mannskilningi um hlutskipti kvenna, samskipti kynjanna, örlög, frumkvæði, nánd og drauma.

Síðasta vegabréfið er 15. ljóðabók Gyrðis Elíassonar og Langbylgja er annað smáprósasafn hans. Langbylgja inniheldur 104 smáprósa, hnitmiðaðar og stundum óvæntar frásagnir. Í aldarþriðjung hefur Gyrðir fengist við flestar greinar skáldskapar og verk hans verið þýdd og gefin út víða um heim.

Lay Low er listamannsnafn Lovísu Elísabetar Sigrúnardóttur. Hún hefur alltaf haft brennandi áhuga á að vera í tónlist. Árið 2006 skaust hún upp á stjörnuhiminninn og heillaði fólk með sérstakri rödd sinni og fallegri tónlist sem hún semur sjálf. Hún er nú þekkt um allan heim og heldur endalaust áfram að skapa tónlist, nú síðustu árin í Ölfusinu.

Hin ýmsu lögmál og birtingarmyndir nautnar eru útgangspunktur sýningarinnar Nautn / Conspiracy of Pleasure þar sem fjallað er um hugtakið út frá mismunandi sjónarhorni og forsendum sex ólíkra listamanna.

Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands, aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Bjöllukór Íslands í Listasafni Árnesinga 8. desember kl. 17:00

Bjöllukór Íslands í Listasafni Árnesinga 8. desember kl. 17:00

Bjollukor Islands samsett

Jólatáknið í jóladagatali Hveragerðisbæjar fyrir 8. desember er bjalla og í ár lendir sú opna við Listasafn Árnesinga. Af því tilefni er boðið upp á tónleika með Bjöllukór Íslands í safninu kl. 17:00. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Bjöllukór Íslands öðru nafni Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar var stofnaður haustið 2012 af Karen J. Sturlaugsson í tilefni af því að Sinfóníuhljómsveit Íslands óskaði eftir bjöllukórum til að spila á jólatónleikum þeirra það árið. Eftir það var ekki aftur snúið og hefur kórinn spilað á öllum jólatónleikum Sinfóníunnar síðan þá við góðar undirtektir áheyrenda.

Sumarið 2015 hélt kórinn til Bandaríkjanna þar sem hann hóf dvölina á nokkurra daga bjöllukóranámskeiði/-hátíð í University of Massachusetts og enda ferðina á því að spila með stórri hljómsveit og kór í einum virtasta tónleikasal heims, Carnegie Hall í New York.

Meðlimir bjöllukórsins eru: Arnar Freyr Valsson, Ástþór Sindri Baldursson, Birta Dís Jónsdóttir, Helena Fanney Sölvadóttir, Hinrik Hafsteinsson, Jón Böðvarsson, Margrét Vala Kjartansdóttir, Ragnheiður Eir Magnúsdóttir, Sandra Rún Jónsdóttir, Sigurvin Þór Sveinsson og Þórarna Salóme Brynjólfsdóttir og stjórnandi frá upphafi er Karen J. Sturlaugsson.

Það er ánægjulegt fyrir okkur Hvergerðinga, nærsveitamenn og aðra gesti að fá að njóta tónlistar þeirra í tengslum við jóladagatal bæjarins á afmælisári Hveragerðis.

______________________________

Nánar um kvikmyndina og jólasögurnar síðar.

bíó Hveragerði - jólasögur og söngur

bíó Hveragerði - jólasögur og söngur

Á jóladagskrá safnsin á loka opnunardegi ársins, 11. desember er boðið í bíó kl. 15:00 og 17:00 og kl. 16:00 á milli sýninga segir Njörður Sigurðsson sagnfræðingur frá jólasögum og ljóðum úr Hveragerði og Hafsteinn Þór Auðunnarson flytur tónlist. Bíóið sem boðið er upp á er um Hveragerði; af hverju fólk fluttist úr skarkala borgarinnar og hóf búsetu á nýjum stað við heita hveri. Fókusinn í myndinni er á Skáldagötunni einng nefnd Frumskógar og við sögu koma ýmsir sagnfræðingar, eldri Hvergerðingar og afkomendur skáldanna. Handritshöfundur og sögumaður er Illugi Jökulsson, stjórn kvikmyndatöku og eftirvinnsla er í höndum Jóns Egils Bergþórssonar, en myndin er unnin að frumkvæði Mortens Geirs Ottesen í Hveragerði og það er hann og Kolbrún Bjarnadóttir sem bjóða Hvergerðingum í bíó.

Tímalög

Tímalög

Á sýningunni er teflt saman verkum eftir listmálarana Karl Kvaran frá tímabilinu 1968–1978, og málverkum og skúlptúrum eftir Erlu Þórarinsdóttur frá síðustu tíu árum.

Hinn huglægi þáttur er eitt af því sem sameinar verk listamannanna þar sem litur, form, lína, áferð og tækni skapa óhlutbundna myndheima. Í málverkum Erlu á sér stað ákveðið íhugunarferli þar sem andleg gildi leiða áhorfandann um innri hugarheima. Í list sinni leitaði Karl sífellt inn á við og leitin að hinu klára og tæra var drifkrafturinn í list hans.

Karl Kvaran rannsakaði möguleika og þanþol gvasslitarins rækilega og vann nánast óslitið með hann í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1956. Verk hans frá þessum tíma grundvallast á kröftugri línuteikningu sem síðar leikur mikilvægt hlutverk í olíumálverkum hans á 8. áratugnum. Hann leysir upp agaða lárétta myndbyggingu sem einkennir verk hans frá 6. áratugnum og bugðóttar grafískar línur fara að leika um myndflötinn í hrynjandi takti. Verk Karls eru máluð í mörgum lögum. Við fyrstu sýn virðast þau í fáum litum en við nánari skoðun má greina vinnuferlið og eldri litalög í gegnum yfirborðið.

Línan leikur sömuleiðis mikilvægt hlutverk í málverkum Erlu Þórarinsdóttur og er undirstaðan í formrænni útfærslu þeirra ásamt litnum. Verkin eru byggð upp af línuteikningu sem sveigir og beygir formin svo þau framkalla sjónræn þrívíddaráhrif. Oft má sjá glitta í undirlög á yfirborðinu sem gera myndflötinn lifandi og kvikan. Erla leggur verkin sín oft blaðsilfri sem ýmist þekur ákveðin form eða undirstrikar einstaka þætti þeirra. Á yfirborðinu rifar í undirliggjandi teikningu, liti og strúktúr verksins sem vitnar um vinnuferlið.

Athöfnin að mála afmarkast af þeim tíma sem varðveittur er í málverkinu í undirliggjandi tímalögum sem skrásett eru með pensilfarinu. Það byggist upp lag fyrir lag, ofan á það sem fyrir er og þannig varðveitist tíminn í verkinu.

Ferill tímans sem greina má í verkum listamannanna er sameiginlegur þráður. Undirmeðvitund málverksins kemur fram í mismunandi tímalögum, listsköpun sem Erla og Karl vinna með á persónulega hátt.

-------

Karl Kvaran

Karl fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð árið 1924 og lést í Reykjavík 1989. Hann nam myndlist í einkaskóla Marteins Guðmundssonar og Björns Björnssonar 1939-1940 og við Kvöldskóla Jóhanns Briem og Finns Jónssonar 1941-1942. Eftir nám við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík frá 1942 til 1945 hélt hann til Danmerkur þar sem hann nam við Konunglega listakademíið í Kaupmannahöfn og í einkaskóla Peters Rostrup Bøyesen frá 1945-1948. Karl hélt reglulega einkasýningar á verkum sínum í Reykjavík frá 1953, m.a. í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1968, 1969 og 1971. Hann tók þátt í Septembersýningunum í byrjun sjötta áratugarins og sýndi nær árlega með Septem hópnum frá 1974-1983. Árið 2010 var haldin stór yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni Íslands.

Erla Þórarinsdóttir

Erla er fædd í Reykjavík árið 1955, hún nam myndlist í Svíþjóð og lauk námi frá Konstfack, lista- og hönnunarháskólanum í Stokkhólmið árið 1981 og var gestanemi við Gerrit Rietweld Akademie í Hollandi sama ár. Erla bjó um árabil í Stokkhólmi og kom þar að rekstri listamannagalleríanna ZON og Barbar, auk þess að starfa við myndlist og hönnun. Hún hefur ferðast víða og hefur m.a. búið og starfað í New York, Kína og Marokkó.

Erla hefur haldið fjölmargar einka- og samsýningar hérlendis og erlendis og hefur hlotið viðurkenningar og styrki fyrir störf sín m.a. úr sjóði Pollock-Krasner Foundation árin, 2000 og 2008. Verk eftir Erlu eru í eigu einkaaðila og helstu safna hérlendis.
erlathor.org

-------------

Sýningarstjórar: Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir

Aðalheiður (f. 1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk BA-prófi í listfræði með menningarfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2011 og MA-prófi í sömu grein árið 2014. Í lokaritgerð sinni til MA-prófs sem ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. öld, fjallar hún um eðli málverksins, nálgun íslenskra samtímalistamanna á því og endurskilgreiningu málverksins með tilkomu nýrra miðla. Í upphafi myndlistarferils síns lagði Aðalheiður áherslu á grafík og teikningar en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni. Hún hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim.   Aldís (f. 1970) er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA-gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA-prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012. Í meistara ritgerð sinni fjallar hún um norrænu myndlistarsýninguna Experimental Environment II sem haldin var að Korpúlfsstöðum árið 1980 en BA-ritgerðin fjallar um áhrif Henris Bergson á myndmál Kjarvals. Hún hefur sinnt rannsóknarverkefnum tengdum myndlist og gert sýningartexta fyrir listamenn og gallerí. Aldís hélt fyrirlestur við opnun sýningarinnar Fletir í Arion banka árið 2015 og hlaut nýverið styrk til rannsóknar á landlist á Íslandi.

Saman stýrðu þær Aðalheiður og Aldís sýningunni Heimurinn án okkar í Hafnarborg en sýningartillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar árið 2015.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn