Listamenn

KvíKví

KvíKví

Þýski listamaðurinn Heike Baranowsky er höfundur þessarar margmiðlunar innsetnningar, sem rekja má til upplifunar sem vinkonurnar Heike og Ursula Rogg deildu í Íslandsferð árið 2012. Þær komu gangandi af fjöllum að Seljavallalaug við rætur Eyjafjallajökulls þegar á móti þeim ómaði söngur frá kór ofan í lauginni. Upptendraðar af krafti og fegurð þessa augnabliks ákváðu þær að reyna að endurskapa atburðinn. Þær snéru aftur til Íslands tveimur árum síðar í leit að kór og til þess að vinna verk út frá sterkum en einnig óljósum minningum. Það eina sem þær vissu fyrir víst var að það yrði söngur - og hann myndi eiga sér stað í laug. Þær kynntust kórstjóranum Gróu Hreinsdóttur sem setti saman kór af konum sem flestar eru búsettar í nágrenni Seljavallalaugar en þær eru:
Anna Guðlaug Albertsdóttir, Anna Guðrún Jónsdóttir, Ásdís Arnaróttir, Ásdís Þ. Hafsteinsdóttir, Dóra Hrund Gísladóttir, Elín Jónsdóttir, Guðríður Júlíusdóttir, Jóhanna E. Gunnlaugsdóttir, Regína Róbertsdóttir, Sigríður Tryggvadóttir.

Söngkonurnar tíu stigu út fyrir þægindaramma sinn í eina viku, yfirgáfu sitt daglega líf til þess að að syngja, æfa og þróa gjörning, ásamt Heike, Ursulu og Gróu kórstjóra. Gamla þjóðvísan Móðir mín i kví kví sem fjallar um sorglega sögu sem tekur ævintýra beygju reyndist verða útgangspunktur margra spuna og þaðan er titill gjörningsins og sýningarinnar fenginn. Gjörningurinn fór fram í og við Seljavallalaug þar sem hann var tekinn upp og Heike hefur síðan unnið verkefnið frekar og sett upp sem margmiðlunar innsetningu í Berlín og nú í Listasafni Árnesinga.

Hljóðupptaka: Thomas Meier
Myndataka: Heike Baranowsky og Volker Gläser

Heike Baranowsky

fæddist árið 1966 í Augsburg, Þýskalandi og býr í Berlín. Hún nam myndlist í München, Hamborg og Berlín og lauk MFA-gráðu árið 1999 frá Royal College of Art í London. Hún var gestalistamaður og -kennari við Art Center College of Design í Pasadena í Bandaríkjunum, 2001-2003. Árið 2005 varð hún prófessor í ljósmyndun við Listaháskólann í Bergen, Noregi. Frá árinu 2008 hefur hún verið prófessor í myndlist við Akademie der Bildenden Künste í Nurnberg, Þýskalandi.

Heike Baranowsky er þekktur vídeólistamaður og hefur átt verk á sýningum víða í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Hún átti verk á enduropnunarsýningu MOMA í New York árið 2004.

www.heikebaranowsky.de

Helstu sýningar:

Einka: Kunstverein Frankfurt (1997), Entwistle London (1999), Kunst-Werke Berlin (2001), Museo Tamayo Arte Contemporáneo, Mexico City (2005), Galerie Barbara Weiss, Berlin (1998, 2000, 2003, 2006, 2010, 2015), G Fine Art Washington, DC (2006), Kunstfenster at BDI, Berlin (2008), Kunsthalle Nürnberg and Lentos Museum Linz (2013).

Samsýningar: newcontemporaries ’98, Liverpool and London (1998), Berlin Biennale, Berlin (1998), Loop - Back to the Beginning , P.S.1 Contemporary Art Center, New York / CAC Cinncinati, Ohio (2001), en route, Serpentine Gallery, London (2002), MoMA Reopen, Museum of Modern Art, New York (2004),Convergence at E 116˚/ N 40˚, 789 Dayaolu Workshop, Beijing (2005), 40 Years Video. Video Art in Germany from 1963 until today, ZKM, Karlsruhe and other venues (2006), DESTROY, SHE SAID, Julia Stoschek Collection, Düsseldorf (2007), As Time Goes By, Berlinische Galerie, Berlin (2009), Critique and Clinic, 62nd International Film Festival, Forum Expanded, Berlinale (2012).

Komdu og taktu þátt í kertagerð

Komdu og taktu þátt í kertagerð

Sunnudaginn 6. desember býður Listasafn Árnesinga öllum að taka þátt í kertagerð undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur í Listasafni Árnesinga

kertagerd
Þann sama dag opnar jóladagatal Hveragerðisbæjar í Lisasafninu með tákninu „kerti“ og eftirfarandi skýringartexta:

„Kertaljósið er í hefðbundnu jólahaldi okkar jólaljósið sjálft. Ljósið býr yfir djúpstæðri merkingu um jólaboðskapinn. Það býr yfir frumkraftinum; eldinum sem er táknrænn fyrir lífið sjálft, einkum hið innra líf. Það er ljósið innra með okkur; trúin, vonin og kærleikurinn.“

Það er bæði skemmtilegt og tiltölulega auðvelt að gera kerti úr kertaafgöngum. Gott er að safna öllum kertaafgöngum saman yfir árið og nota svo í ný kerti fyrir jólin.

Heimagerð kerti eru persónuleg gjöf sem gaman er að gefa þeim sem okkur þykir vænt um.

Hvað þarf að koma með?

  • löngun til þess að taka þátt og sjá
  • kertaafganga ef þeir eru til
  • form sem þig langar til að nota. Form til að steypa kerti í eru til á hverju heimili. Það er upplagt að nota skyrdósir, jógúrtdollur eða lítlar fernur t.d. utan af rjóma en svo má láta hugmyndaflugið finna til eitthvað annað skemmtilegt til að steypa kerti í.
  • gamla vaxliti, of stutta eða brotna, ef þeir eru til, en þeir eru tilvaldir til þess að lita kertavaxið.

Kveikjuþráð og annað sem til þarf verðum við með á safninu.

Kertagerðin hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 16:00.

Listrými, myndlistarnámskeið

LISTRÝMI fjölbreytt myndlistarnámskeið í umsjá Guðrúnar Tryggvadóttur.

ListrýmiGuðrún nam myndlist í Akademie der Bildenden Künste í München 1979-83, Ecole Nationale Superieure des Beaux Arts í París, 1978-79 og Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974-78. Hún hefur haldið fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, myndskreytt barnabókina Furðudýr í íslenskum þjóðsögum og undanfarin ár hefur hún rekið umhverfisvefinn nattura.is, sem hún stofnaði 2006.

Guðrún stofnaði RÝMI - Myndmenntaskóla, haustið 1992, þá nýkomin heim frá Bandaríkjunum, en skólinn var aðeins starfræktur þennan eina vetur því hún flutti aftur til Þýskalands vorið 1993. Guðrún stýrði skólanum, skipulagði allt nám og kynningar og fékk aðra myndlistarmenn með sér til að leiðbeina á námskeiðum.

Í RÝMI voru einnig fluttir fyrirlestrar og haldnar sýningar og ýmis helgarnámskeið í hugmyndafræði og tækniútfærslum. Aðsókn var gríðarlega góð en um 250 nemendur sóttu þar nám á vetrar- og vorönn 1992-93.

Nú er ætlunin að bjóða Sunnlendingum að njóta góðs af reynslu Guðrúnar með þátttöku í fjölbreyttum myndlistarnámskeiðum undir yfirheitinu LISTRÝMI.

Staður: Listasafn Árnesinga, Austurmörk 21, 810 Hveragerði.

Allir geta teiknað! - Teikning 1

Undirstöðuatriði teikningar. Þjálfun í að horfa á myndefnið með hreinum huga og koma til skila með fjölbreyttum tækniaðferðum. Unnið út frá verkefnum jafnframt því sem lögð er áhersla á að skissa og halda utan um eigin hugmyndir.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 7 janúar - 18. febrúar 2016.
Tími: Fimmtudagar 18:00 - 20:30
Tímar: 7 skipti, 2,5 klst. í senn. Samtals 17,5 tímar.
Verð: 25 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Vatnslitamálun - Málun 1

Undirstöðuatriði málunar með vatnslitum og blandaðri tækni. Kafað í lita- og formfræðina, bæði á efnislegan og persónulegan hátt. Unnið út frá verkefnum, tilraunum og eigin hugmyndum.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 10. mars - 28. apríl 2016.
Tími: Fimmtudagar 18:00 - 20:30.
Tímar: 8 skipti, 2,5 klst. í senn. Samtals 20 klst.
Verð: 28 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Fjarvídd og aðrar víddir - Teikning 2

Undirstöðuatriði fjarvíddar, að koma rými til skila á myndfletinum. Auk klassískrar fjarvíddarteikningar gefa litir og form, rými og fjarlægðir til kynna.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 30. jan. - 20. febrúar 2016.
Tími: Laugardagar 11:00 - 13:30
Tímar: 4 skipti, 2,5 klst. í senn. Samtals 10 klst.
Verð: 16 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Módelteikning - Teikning 3

Teiknun og málun eftir lifandi fyrirmynd. Styttri og lengri stellingar og áhersla lögð á fjölbreytta tækninotkun.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 12. mars - 2. apríl 2016.
Tími: Laugardagar 11:00 - 13:30.
Tímar: 4 skipti, 2,5 klst. í senn. Samtals 10 klst.
Verð: 24 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Olíumálun - Málun 2

Gerð og meðferð olíulita. Lögð áhersla á að gera tilraunir með ýmsar aðferðir til að kanna möguleikana sem olíutæknin býr yfir. Vinnustofa fyrir fólk sem hefur þegar einhverja reynslu af því að mála með olíulitum.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 9. - 30. apríl 2016.
Tími: Laugardagar 11:00 - 14:30.
Tímar: 4 skipti, 3,5 klst. í senn. Samtals 14 klst.
Verð: 22 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Skráning á gudrun@tryggvadottir.com og frekari upplýsingar í síma 863 5490.

Hægt er að panta Gjafakort fyrir allar vinnustofurnar.

10% afsláttur ef fleiri námskeið en eitt er sótt.

Listakvöld með ritlist, tónlist og myndlist

Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga bjóða að venju til jóladagskrár á fullveldisdaginn 1. des. kl. 20:00

LISTAKVÖLD með ritlist, tónlist og myndlist

Listakvöld

Þá munu rithöfundarnir Einar Már Guðmundsson, Hrafnhildur Schram, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir lesa úr bókum sínum. Tónlistaratriði verður flutt af sunnlenskum ungmennum í Tónlistarskóla Árnesinga og sýningin sem nú stendur í Listasafninu er sýningin MÖRK þar sem sjá má verk í pappír eftir Eygló Harðardóttur, Jónu Hlíf Halldórsdóttur, Karlottu Blöndal og Ólöfu Helgu Helgadóttur.

Lesið verður úr eftirfarandi bókum:

Hundadagar er skáldsaga Einars Márs Guðmundssonar. Leiftrandi skemmtileg saga um stórhug, vandræði, bresti og breyskleika. Sagan er ævintýraleg – og ævintýrin söguleg. Frásögnin leiðir okkur á vit Jörundar hundadagakonungs, Jóns Steingrímssonar eldklerks og fleira fólks fyrri alda.

Nína S. er heiti bókarinnar sem Hrafnhildur Schram hefur skrifað um Nínu Sæmundsson sem fyrst íslenskra kvenna nam höggmyndagerð. Hún vakti strax athygli í Danmörku á námsárunum, starfaði um tíma í París en fluttist síðan til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í þrjá áratugi.

Litlar byltingar, skáldsaga Kristínar Helgu Gunnarsdóttur er sögur af tíu konum sem spanna í senn eitt kvöld, eitt ár og heila öld. Gerir maður litlar byltingar, sem fæstir taka eftir, þá hreyfist veröldin með manni þangað sem förinni er heitið, en stórar byltingar skila eftir sig sviðna jörð.

Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum er heiti ljóðabókar eftir Ragnar Helga Ólafsson. Höfundur hefur eftirtektarverð tök á því að klæða myndir í orð og hann teflir saman óskyldum hlutum af óhátíðleka sem skapar ákveðna spennu sem ljær ljóðunum aukna dýpt.

Stúlka með höfuð er heiti bókar Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur. Þar segir hún frá uppvexti sínum í Reykjavík rokksins og hippaáranna, þar sem erfiður skilnaður foreldranna varpaði skugga á gleðina. Opinská frásögnin er ofin trega og hamingju, léttleika og djúpum söknuði.

Tónlistarskóli Árnesinga býður upp á metnaðarfullt tónlistarnám sem mörg sunnlensk ungmenni nýta sér og hafa náð góðum árangri. Tónlistaratriði kvöldsins verður jólagjöf til gesta listakvöldsins svo „hvað það verður veit nú enginn“ fyrr en þar að kemur.

Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Skemmtilegir jólatónleikar og samvera

Miðvikudaginn 2. desember kl. 20

Skemmtilegir jólatónleikar og samvera

Borgardætur

Borgardæturnar, Andrea Gylfadóttir, Berglind Björk Jónasdóttir og Ellen Kristjánsdóttir flytja jólalög úr ýmsum áttum í Listasafni Árnesinga. Með þeim verður einnig, líkt og frá upphafi, Eyþór Gunnarssyni sem leikur á píanó og fleiri hljóðfæri auk þess að útsetja lögin fyrir söngtríóið.

Söngtríóið Borgardætur kom fyrst fram á Hótel Borg á sumardaginn fyrsta 1993.
Stofnað var til samstarfsins í þeim tilgangi að setja saman dagskrá byggða á lögum hinna bandarísku Andrews systra. Dagskráin sló í gegn og næstu ár á eftir var tríóið áberandi í íslensku tónlistarlífi, hélt tónleika víða um land og gaf út þrjá geisladiska, Svo sannarlega (1993), Bitte nú (1995) og Jólaplötuna (2000).

Frá útkomu jólaplötunnar hafa Borgardætur haldið jólatónleika í desember sem er mörgum ómissandi aðdragandi jóla.

Auk þess að syngja fallega þá er hópurinn einnig þekktur fyrir gamanmál og almenn skemmtilegheit.

Tónleikarnir hefjast kl. 20, aðgangur er kr. 2.500.- og húsið opnar kl. 19:20.

 

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn