Listamenn

Ikebana

Ikebana

Íslensku og japönsku hand- og hugverki teflt saman í Listasafni Árnesinga, laugardaginn 23. apríl kl. 14 - 16

Etsuko Satake listakonaEtsuko SatakeYukie Moriyama listakonaYukie MoriyamaÍ tilefni af 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands, 35 ára afmæli Íslensk-japanska félagsins og 70 ára afmæli Hveragerðisbæjar verður efnt til viðburðar í Listasafni Árnesinga laugardaginn 23. apríl kl. 14:00 – 16:00. Að viðburðinum koma japanskir blómaskreytingameistarar og útfæra blómaskreytingar á japanska vísu með blómum frá Hveragerði. Þeir hafa valið sér ker og vasa af sýningu Leirlistafélagsins og útfæra ólíkar skreytingar með blómum og greinum með tilliti til forms, litar og stærðar verkanna.

Blómaskreytingameistararnir eru Yukie Moriyama og Etsuko Satake en Kristín Ísleifsdóttir, fyrrverandi formaður Íslensk-japanska félagsins og félagi í Lerilistafélaginu, hefur umsjón með viðburðinum og mun ásamt þeim Yukie og Etsuko upplýsa fólk um ikebana.

Ikebana verkin munu síðan verða áfram til sýnis í safninu eftir því sem líftími blómanna gefur tilefni til.

 

Keramík

Keramík

Á þessu ári fagnar Leirlistafélag Íslands 35 ára afmæli og af því tilefni efnir safnið til sýningar á verkum 47 félagsmanna sem eru:
Anna Sigríður Hróðmarsdóttir, Arnfríður Lára Guðnadóttir, Auður Inga Ingvarsdóttir, Bjarni Viðar Sigurðsson, Dagný Gylfadóttir, Dóra Árna, Elín Guðmundsdóttir, Embla Sigurgeirsdóttir, Erla Huld Sigurðardóttir, Eygló Benediktsdóttir, Guðný Hafsteinsdóttir, Guðný Magnúsdóttir, Guðrún Indriðadóttir, Hafdís Brands, Halla Ásgeirsdóttir, Halldóra Hafsteinsdóttir, Helga Jóhannesdóttir, Herborg Eðvaldsdóttir, Hólmfríður Arngrímsdóttir, Hrefna Harðardóttir, Hrönn Waltersdóttir, Inga Elín, Ingibjörg Klemenzdóttir, Ingunn Erna Stefánsdóttir, Katrín V. Karldóttir – Kvalka, Kogga – Kolbrún Björgólfsdóttir, Kolbrún Kjarval, Kristbjörg Guðmundsdóttir, Magnús Þorgrímsson, Mansý – Margrét Árnadóttir, Margrét Jónsdóttir, Olga Dagmar Erlendsdóttir, Ólöf Erla Bjarnadóttir, Ragna Ingimundardóttir, Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir, Rannveig Tryggvadóttir, Sigríður Ágústsdóttir, Sigríður Helga Olgeirsdóttir, Sigrún Jóna Norðdahl, Sólveig Hólm, Steinunn Marteinsdóttir, Svafa Björg Einarsdóttir, Svetlana Matusa – Lana, Unnur Sæmundsdóttir, Þóra Breiðfjörð, Þórdís Baldursdóttir, Þórdís Sigfúsdóttir

Viðfangsefni sýningarinnar er að sýna fjölbreytileika fagsins. Verkin afmarkast við ker, skál eða vasa, það er að segja ílát sem geta borið vatn en með smá útútdúrum og þau eru frá ýmsum tímum. Í fagfélög kemur fólk og fer og er misvirkt á mismunandi tímum eins og gengur. Á þessari sýningu eru eingöngu félagar sem eru skráðir í Leirlistafélag Íslands í dag og því er sýning ekki tæmandi yfirlit yfir þá sem eru virkir í keramík á Íslandi í dag - þeir eru fleiri. Engu að síður má þar sjá margbreytileika og grósku sem vert er að fylgjast með og hvetja til frekari dáða. Á sýningunni eru verk eftir reynslumikla frumkvöðla í sögu leirlistar hér á landi en einnig yngri hönnuði og listamenn sem hafa fullan hug á viðgangi fagsins. Sjá má aukna áherslu á hönnun og fjöldaframleiðslu en þó með virðingu fyrir handverkinu og hugvitinu.

KvíKví

KvíKví

Þýski listamaðurinn Heike Baranowsky er höfundur þessarar margmiðlunar innsetnningar, sem rekja má til upplifunar sem vinkonurnar Heike og Ursula Rogg deildu í Íslandsferð árið 2012. Þær komu gangandi af fjöllum að Seljavallalaug við rætur Eyjafjallajökulls þegar á móti þeim ómaði söngur frá kór ofan í lauginni. Upptendraðar af krafti og fegurð þessa augnabliks ákváðu þær að reyna að endurskapa atburðinn. Þær snéru aftur til Íslands tveimur árum síðar í leit að kór og til þess að vinna verk út frá sterkum en einnig óljósum minningum. Það eina sem þær vissu fyrir víst var að það yrði söngur - og hann myndi eiga sér stað í laug. Þær kynntust kórstjóranum Gróu Hreinsdóttur sem setti saman kór af konum sem flestar eru búsettar í nágrenni Seljavallalaugar en þær eru:
Anna Guðlaug Albertsdóttir, Anna Guðrún Jónsdóttir, Ásdís Arnaróttir, Ásdís Þ. Hafsteinsdóttir, Dóra Hrund Gísladóttir, Elín Jónsdóttir, Guðríður Júlíusdóttir, Jóhanna E. Gunnlaugsdóttir, Regína Róbertsdóttir, Sigríður Tryggvadóttir.

Söngkonurnar tíu stigu út fyrir þægindaramma sinn í eina viku, yfirgáfu sitt daglega líf til þess að að syngja, æfa og þróa gjörning, ásamt Heike, Ursulu og Gróu kórstjóra. Gamla þjóðvísan Móðir mín i kví kví sem fjallar um sorglega sögu sem tekur ævintýra beygju reyndist verða útgangspunktur margra spuna og þaðan er titill gjörningsins og sýningarinnar fenginn. Gjörningurinn fór fram í og við Seljavallalaug þar sem hann var tekinn upp og Heike hefur síðan unnið verkefnið frekar og sett upp sem margmiðlunar innsetningu í Berlín og nú í Listasafni Árnesinga.

Hljóðupptaka: Thomas Meier
Myndataka: Heike Baranowsky og Volker Gläser

Heike Baranowsky

fæddist árið 1966 í Augsburg, Þýskalandi og býr í Berlín. Hún nam myndlist í München, Hamborg og Berlín og lauk MFA-gráðu árið 1999 frá Royal College of Art í London. Hún var gestalistamaður og -kennari við Art Center College of Design í Pasadena í Bandaríkjunum, 2001-2003. Árið 2005 varð hún prófessor í ljósmyndun við Listaháskólann í Bergen, Noregi. Frá árinu 2008 hefur hún verið prófessor í myndlist við Akademie der Bildenden Künste í Nurnberg, Þýskalandi.

Heike Baranowsky er þekktur vídeólistamaður og hefur átt verk á sýningum víða í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Hún átti verk á enduropnunarsýningu MOMA í New York árið 2004.

www.heikebaranowsky.de

Helstu sýningar:

Einka: Kunstverein Frankfurt (1997), Entwistle London (1999), Kunst-Werke Berlin (2001), Museo Tamayo Arte Contemporáneo, Mexico City (2005), Galerie Barbara Weiss, Berlin (1998, 2000, 2003, 2006, 2010, 2015), G Fine Art Washington, DC (2006), Kunstfenster at BDI, Berlin (2008), Kunsthalle Nürnberg and Lentos Museum Linz (2013).

Samsýningar: newcontemporaries ’98, Liverpool and London (1998), Berlin Biennale, Berlin (1998), Loop - Back to the Beginning , P.S.1 Contemporary Art Center, New York / CAC Cinncinati, Ohio (2001), en route, Serpentine Gallery, London (2002), MoMA Reopen, Museum of Modern Art, New York (2004),Convergence at E 116˚/ N 40˚, 789 Dayaolu Workshop, Beijing (2005), 40 Years Video. Video Art in Germany from 1963 until today, ZKM, Karlsruhe and other venues (2006), DESTROY, SHE SAID, Julia Stoschek Collection, Düsseldorf (2007), As Time Goes By, Berlinische Galerie, Berlin (2009), Critique and Clinic, 62nd International Film Festival, Forum Expanded, Berlinale (2012).

Komdu og taktu þátt í kertagerð

Komdu og taktu þátt í kertagerð

Sunnudaginn 6. desember býður Listasafn Árnesinga öllum að taka þátt í kertagerð undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur í Listasafni Árnesinga

kertagerd
Þann sama dag opnar jóladagatal Hveragerðisbæjar í Lisasafninu með tákninu „kerti“ og eftirfarandi skýringartexta:

„Kertaljósið er í hefðbundnu jólahaldi okkar jólaljósið sjálft. Ljósið býr yfir djúpstæðri merkingu um jólaboðskapinn. Það býr yfir frumkraftinum; eldinum sem er táknrænn fyrir lífið sjálft, einkum hið innra líf. Það er ljósið innra með okkur; trúin, vonin og kærleikurinn.“

Það er bæði skemmtilegt og tiltölulega auðvelt að gera kerti úr kertaafgöngum. Gott er að safna öllum kertaafgöngum saman yfir árið og nota svo í ný kerti fyrir jólin.

Heimagerð kerti eru persónuleg gjöf sem gaman er að gefa þeim sem okkur þykir vænt um.

Hvað þarf að koma með?

  • löngun til þess að taka þátt og sjá
  • kertaafganga ef þeir eru til
  • form sem þig langar til að nota. Form til að steypa kerti í eru til á hverju heimili. Það er upplagt að nota skyrdósir, jógúrtdollur eða lítlar fernur t.d. utan af rjóma en svo má láta hugmyndaflugið finna til eitthvað annað skemmtilegt til að steypa kerti í.
  • gamla vaxliti, of stutta eða brotna, ef þeir eru til, en þeir eru tilvaldir til þess að lita kertavaxið.

Kveikjuþráð og annað sem til þarf verðum við með á safninu.

Kertagerðin hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 16:00.

Listrými, myndlistarnámskeið

LISTRÝMI fjölbreytt myndlistarnámskeið í umsjá Guðrúnar Tryggvadóttur.

ListrýmiGuðrún nam myndlist í Akademie der Bildenden Künste í München 1979-83, Ecole Nationale Superieure des Beaux Arts í París, 1978-79 og Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974-78. Hún hefur haldið fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, myndskreytt barnabókina Furðudýr í íslenskum þjóðsögum og undanfarin ár hefur hún rekið umhverfisvefinn nattura.is, sem hún stofnaði 2006.

Guðrún stofnaði RÝMI - Myndmenntaskóla, haustið 1992, þá nýkomin heim frá Bandaríkjunum, en skólinn var aðeins starfræktur þennan eina vetur því hún flutti aftur til Þýskalands vorið 1993. Guðrún stýrði skólanum, skipulagði allt nám og kynningar og fékk aðra myndlistarmenn með sér til að leiðbeina á námskeiðum.

Í RÝMI voru einnig fluttir fyrirlestrar og haldnar sýningar og ýmis helgarnámskeið í hugmyndafræði og tækniútfærslum. Aðsókn var gríðarlega góð en um 250 nemendur sóttu þar nám á vetrar- og vorönn 1992-93.

Nú er ætlunin að bjóða Sunnlendingum að njóta góðs af reynslu Guðrúnar með þátttöku í fjölbreyttum myndlistarnámskeiðum undir yfirheitinu LISTRÝMI.

Staður: Listasafn Árnesinga, Austurmörk 21, 810 Hveragerði.

Allir geta teiknað! - Teikning 1

Undirstöðuatriði teikningar. Þjálfun í að horfa á myndefnið með hreinum huga og koma til skila með fjölbreyttum tækniaðferðum. Unnið út frá verkefnum jafnframt því sem lögð er áhersla á að skissa og halda utan um eigin hugmyndir.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 7 janúar - 18. febrúar 2016.
Tími: Fimmtudagar 18:00 - 20:30
Tímar: 7 skipti, 2,5 klst. í senn. Samtals 17,5 tímar.
Verð: 25 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Vatnslitamálun - Málun 1

Undirstöðuatriði málunar með vatnslitum og blandaðri tækni. Kafað í lita- og formfræðina, bæði á efnislegan og persónulegan hátt. Unnið út frá verkefnum, tilraunum og eigin hugmyndum.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 10. mars - 28. apríl 2016.
Tími: Fimmtudagar 18:00 - 20:30.
Tímar: 8 skipti, 2,5 klst. í senn. Samtals 20 klst.
Verð: 28 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Fjarvídd og aðrar víddir - Teikning 2

Undirstöðuatriði fjarvíddar, að koma rými til skila á myndfletinum. Auk klassískrar fjarvíddarteikningar gefa litir og form, rými og fjarlægðir til kynna.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 30. jan. - 20. febrúar 2016.
Tími: Laugardagar 11:00 - 13:30
Tímar: 4 skipti, 2,5 klst. í senn. Samtals 10 klst.
Verð: 16 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Módelteikning - Teikning 3

Teiknun og málun eftir lifandi fyrirmynd. Styttri og lengri stellingar og áhersla lögð á fjölbreytta tækninotkun.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 12. mars - 2. apríl 2016.
Tími: Laugardagar 11:00 - 13:30.
Tímar: 4 skipti, 2,5 klst. í senn. Samtals 10 klst.
Verð: 24 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Olíumálun - Málun 2

Gerð og meðferð olíulita. Lögð áhersla á að gera tilraunir með ýmsar aðferðir til að kanna möguleikana sem olíutæknin býr yfir. Vinnustofa fyrir fólk sem hefur þegar einhverja reynslu af því að mála með olíulitum.
Leiðbeinandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Tímabil: 9. - 30. apríl 2016.
Tími: Laugardagar 11:00 - 14:30.
Tímar: 4 skipti, 3,5 klst. í senn. Samtals 14 klst.
Verð: 22 þús.
Hámarksfjöldi þátttakenda: 10.

Skráning á gudrun@tryggvadottir.com og frekari upplýsingar í síma 863 5490.

Hægt er að panta Gjafakort fyrir allar vinnustofurnar.

10% afsláttur ef fleiri námskeið en eitt er sótt.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn