Listamenn

Vegferð

VEGFERÐ – Halldór Ásgeirsson

Sýningin VEGFERÐ er í raun umfangsmikil dagbókarfærsla sem veitir innsýn inn í upplifun Halldórs Ásgeirssonar á náttúrunni og leiðir hans til að útfæra sína eigin heimsmynd. Sýningin er að hluta til yfirlit – og um leið endurlit til þess tíma sem Halldór byrjaði að vinna að myndlist. Hér sést að þráðurinn hefur aldrei slitnað og í yngri jafnt sem eldri verkum má greina ólíkar útfærslur á tilraunum listamannsins með sjálfsprottna skrift, gjörninga, og efni náttúrunnar: eld, vatn, og ljós, sem hann tók að vinna með snemma á ferlinum. Þannig lýsir Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur sýningunni í texta sýningarskrár sem gefinn er út um sýninguna. Halldór vinnur nú að útilistaverki við Kerhólsskóla í Grímsnes og Grafningshreppi og af því tilefni er ferill listamannsins kynnur í Listasafni Árnesinga. Svo skemmtilega vill til að fyrsta verk hans á opinberum vettvangi vann hann á útihús að Sogni í Ölfusi 1978. Halldór var einnig þátttakandi í því umróti sem átti sér stað í íslensku listalífi uppúr 1970 sem kynnast má á hinni sýningunni sem stendur í Listasafni Árnesinga á sama tíma. Þá urðu m.a. gjörningar sýnilegt listform og við opnunina flytur Halldór gjörning sem síðan verður sýnilegur á skjá.

Umrót

UMRÓT – íslensk myndlist um og eftir 1970

UMRÓT er samstarfssýning með Listasafni Íslands, sú þriðja og síðasta af sýningarröð sem er ætlað að veita innsýn í ákveðin tímabil og kynna ríkjandi stefnur í íslenskri myndlist. Jafnframt er gestum, gjarnan skólahópum, boðin fræðsla og verkefni til þess að glíma við og hafa gaman af. UMRÓT tekur til tímabilsins um og eftir 1970 sem einkenndist af umróti nýrra strauma þegar öflugir ungir listamenn fóru að vinna með ný viðfangsefni og nýja miðla. Á sýningunni eru m.a. verk eftir Erró, Dieter Roth, Rúrí, Hildi Hákonardóttur og 50 fleiri listamenn til viðbótar sem hafa ýmist unnið verk sín sem skúlptúra, málverk, grafík, vefnað, innsetningu, ljósmyndaverk, myndbandsverk og eða bókverk. Verkin koma öll úr safneign Listasafns Íslands utan tvö sem fengin eru hjá viðkomandi listamanni. Á sýningunni verður einnig hægt að fletta í gegnum fjölmargar dagblaðaumfjallanir sem koma tíðarandanum líka til skila.

Eftirtaldir eiga verk á sýningunni UMRÓT

Árni Ingólfsson, Ásta Ólafsdóttir, Ben Sveinsson, Beth Laurin,
Birgir Andrésson, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Claes Tellvid,
Daði Guðbjörnsson, Dieter Roth, Douwe Jan Baker,
Eggert Pétursson, Finn Nielsen, Erla Þórarinsdóttir, Erró,
Guðrún Tryggvadóttir, Gunnar Örn, Halldór Ásgeirsson,
Hannes Lárusson, Helge Røed, Helgi Þorgils Friðjónsson,
Helgi Skúta, Hildur Hákonardóttir, Hreinn Friðfinnsson,
Ingólfur Arnarson, Ívar Valgarðsson,  Jökull Jónsson,
Kristinn G. Harðarson, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá,
Kristján Guðmundsson, Lars Emil Árnason, Magnús Pálsson,
Marianne Ågren, Ólafur Lárusson, Ómar Stefánsson,
Pétur Magnússon, Philip Corner, Ragna Hermannsdóttir,
Ragnheiður Jónsdóttir, Rhea Gaisner, Robert Flliou, Róska,
Rúna Þorkelsdóttir, Rúrí, Sigrún Harðardóttir,
Sigurður Guðmundsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir,
Steina Vasulka, Steingrímur E. Kristmundsson,
Tryggvi Hansen, Tumi Magnússon, Valgarður Gunnarsson,
Þorvaldur Þorsteinsson, Þór Elís Pálsson, Þór Vigfússon.

Snertipunktar

Snertipunktar

Á sýningunni má sjá fjölbreytt verk eftir sjö íslenska myndlistarmenn sem fæddir eru á árunum 1948-1966. Þeir hafa sýnt verk sín sem sem tveir aðskildir listamannahópar bæði hér á landi og erlendis auk þess að standa fyrir rekstri sýningarýma. Annar hópurinn samanstendur af Önnu Eyjólfsdóttur, Ragnhildi Stefánsdóttur, Þórdísi Öldu Sigurðardóttur, og Þuríði Sigurðardóttur, sem voru stofnendur StartArt gallerísins við Laugaveginn og ráku það ásamt fleirum á árunum 2007-2009. Hinn hópurinn samastendur af Birgi Snæbirni Birgissyni, Helga Hjaltalín Eyjólfssyni og Helga Þorgils Friðjónssyni. Um tíma rak Helgi Hjaltalín galleríið 20m2, Helgi Þorgils hefur rekið Gallerí Ganginn heima hjá sér í þrjá áratugi og Birgir Snæbjörn Gallerí Skilti við sitt heimili frá árinu 2007. Viðfangsefni og efnisnotkun þessarra listamanna er ólík og endurspeglar gróskuna í íslenskri samtímamyndlist. Allir listamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa verið virkir í íslensku listalífi og jafnframt skapað sér vettvang erlendis.

Sýningarstjóri er Margrét Elísabet Ólafsdóttir, list- og fagurfræðingur. Hún hefur valið saman verk á sýninguna og ritar einnig grein í sýningaskrá þar sem hún fjallar um félagslegt samhengi myndlistar í sögulegu ljósi og veltir fyrir sér starfsumhverfi íslenskra myndlistarmanna.

Vítamín Náttúra

Vítamín Náttúra

Um áhrif umhverfis á heilsu og samskipti
Sýning um verðlaunað útskriftarverkefni í innanhússhönnun.

Anna Birna Björnsdóttir„Það hefur verið sýnt fram á að náttúran hefur sérstaklega jákvæð áhrif á samskipti, sambönd og heilsu í alla staði svo hví ekki að nýta hana sem úrræði í byggðu umhverfi?“ segir Anna Birna Björnsdóttir, sem lauk  nýverið meistaranámi frá Kunst- og designhøgskolen i Bergen, Noregi og hreppti útskriftarverðlaunin við það tilefni.

Lokaverkefni hennar, Vítamín Náttúra, fjallar um áhrif umhverfis á heilsu og samskipti og er líkan að endurhæfingarstöð fyrir fjölskyldur. Anna Birna, sem ólst upp í Hveragerði hefur staðsett stöðina við lítinn foss sem heitir Baula, rétt fyrir ofan Hveragerði. Þar er hægt að baða sig í ánni og við lítinn hver sem hitar upp vatnið. Náttúran á svæðinu er hluti hönnunarinnar og notuð sem meðferðarúrræði. Vítamín Náttúra er sett upp í Listasafni Árnesinga í tengslum við Blómstrandi daga í Hveragerði.

Á námstímanum hefur Anna Birni vakið athygli fyrir verk sín. Þegar nýsköpunarmiðstöðin Impact Hub var að koma sér fyrir í Bergen var nemendum nokkurra hönnunarskóla í Noregi boðið að mynda vinnuhópa og senda inn tillögur að innréttingu aðstöðunnar. Tíu nemendahópar tóku þátt í þessari samkeppni og tillaga hópsins sem Anna Birna var í varð fyrir valinu. Impact Hub er með aðsetur í 36 borgum 5 heimsálfa og býður aðstöðu fyrir frumkvöðla til þess að vinna, hittast, læra, tengast og koma framskæknum hugmyndum af stað með sjálfbærni að leiðarljósi.

Anna Birna hannaði einnig fjölnota húsgagnið Brota sem sýnt var á virtri húsgagnasýningu, Stockholm Furniture Fair 2012. Þar náði Broti athygli nokkurra framleiðanda. Það verður einnig til sýnis ásamt útskriftaverkefninu Vítamín Náttúra til 6. júlí.

Hringiða

Hringiða

Hringiða er margmiðlunarinnsetning þar sem hljóð og mynd hreyfa við hugmyndum um landamæri eða mörk, raunveruleg og ímynduð. Um er að ræða samvinnu við finskan sýningarstjóra, Mari Krappala og sex listamenn íslenska og erlenda. Við opnuna verður fluttur gjörningur eftir Lilju Birgisdóttur. Frá Íslandi leggja listamennirnir Katrín Elvarsdóttir fram ljósmyndir og Lilja Birgisdóttir hljóðverk. Þrír finnskir ljósmyndarar, Eeva Hannula, Hertta Kiiski og Tiina Palmu hafa í semeiningur unnið tvö myndbönd fyrir sýninguna og frá eistneska listamanninum Marko Mäetamm koma þrívíð verk. Á sýningunni eru ný verk sem ekki hafa verið sýnd áður nema verk Mätamm sem tilnefnt var til virtra eistneskra verðlauna 2012, Köler verðlauna Samtímalistasafnsins í Tallin, en það er nú sett upp í nýju og stærra samhengi.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn