Listamenn

Hrafnhildur Schram

Hrafnhildur Schram

Hrafnhildur Schram lauk licentiatsprófi í listasögu frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún hefur starfað sem safnstjóri Listasafns Ásgríms Jónssonar, Listasafns Einars Jónssonar og verið deildarstjóri í Listasafni Íslands.

Hrafnhildur hefur kennt listasögu, ritað listgagnrýni og fjölda greina um íslenska myndlist í blöð og tímarit og unnið heimildarmyndir fyrir sjónvarp um íslenska myndlistarmenn. Hún hefur unnið að rannsóknum á íslenskum myndlistarkonum og er höfundur fyrstu sérbókar um íslenska myndlistarkonu, Nínu Tryggvadóttur. Árið 2005 sendi hún frá sér bókina Huldukonur í íslenskri myndlist sem fjallar um fyrstu konurnar sem sigldu til myndlistarnáms í Kaupmannahöfn.

Hrafnhildur starfar nú sem sjálfstæður fræðimaður og rithöfundur auk þess að starfa sem sýnngarstjóri.

Árið 2008 vann hún sýningu um listmálarann Höskuld Björsson í Listasafni Árnesinga.

 

Margrét Elísabet Ólafsdóttir

Margrét Elísabet Ólafsdóttir

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er fædd árið 1965. Hún er stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni og stundaði síðan nám við Parísarháskólann Sorbonne-Panthéon. Hún lauk diplóma námi í menningu og boðskiptafræðum árið 1994, sérhæfði sig síðan í fagurfræði og útskrifaðist með framhaldsgráðu árið 1999. Hún lauk doktorsprófi í list- og fagurfræði frá sama skóla árið 2013. Margrét hóf feril sem blaðamaður á Morgunblaðinu árið 1987 og skrifaði fyrir ýmis dagblöð og tímarit á námsárunum, aðallega um listir og menningu. Hún var deildarstjóri listaverka- og sýningardeildar Listasafns Íslands í eitt ár, en frá árinu 2002 hefur hún fengist við rannsóknir á raf- og stafrænum listum með áherslu á sögu þessara lista á Íslandi. Margrét var skipuleggjandi raflistahátíðarinnar Pikslaverk árið 2010 og 2011 og ein af sýningarstjórum sýningarinnar Sjónarmið – á mótum myndlistar og heimspeki í Listasafni Reykjavíkur árið 2011. Árið 2013 skipulagði hún gjörninginn Power Struggle eftir Olgu Kisseleva í Nýlistasafninu og sýninguna Íslensk vídeólist frá 1975-1990 í Listasafn Reykjavíkur sem var byggð á rannsóknum hennar.

 

Ásthildur B. Jónsdóttir (1970)

Ásthildur B. Jónsdóttir (1970)

Ásthildur er lektor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Hún er einnig doktorsnemi við Háskóla Íslands og háskólann í Rovaniemi Finnlandi. Í doktorsverkefni sínu skoðar hún þá möguleika sem samtímalist veitir menntun til sjálfbærni. Í verkum sínum leggur hún áherslu á hvernig menning og vinna með gildismat styður sjálfbæra þróun og menntun til sjálfbærni á öllum stigum, bæði í formlegu og óformlegu samhengi. Ásthildur hefur MA-gráðu frá New York University, The Steinhardt School of Culture, Education, and Human Development og MA-gráðu í listkennslufræðum frá Háskóla Íslands.

Jón Proppé

Jón Proppé

Jón Proppé er fæddur 1962. Hann lærði heimspeki við Illinois-háskóla í Bandaríkjunum en býr og starfar í Reykjavík. Hann hefur skrifað mikið um menningu og listir, mörg hundruð sýningarumfjallanir, greinar og bókakafla, auk greina í á annað hundrað sýningarskráa hér á Íslandi, á Norðurlöndum, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Hann hefur líka stýrt sýningum fyrir söfn og aðrar stofnanir á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Þýskalandi. Um tíma stýrði hann Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, í afleysingum og hefur gegnt ýmsum opinberum ábyrgðarverkefnum síðan. Jón hafur líka starfað að bókaútgáfu, bæði sem ritstjóri og hönnuður, kennt, haldið fyrirlestra og leitt ráðstefnur, auk þess sem hann hefur komið að gerð margra heimildamynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahús. Jón er einn þeirra höfunda sem rituðu nýútkomna sögu íslenskrar myndlistar á tuttugustu öld.

Hann hefur áður stýrt sýningu í Listasafni Árnesinga, sýningunni um Magnús Kjartansson.

Sara Riel

Sara Riel

Sara Riel (1980) útskrifaðist frá listasviði Fjölbrautarskólans í Breiðholti, nam við Listaháskóla Íslands 2000-2001 og Listaháskóla í Berlín (Kunsthochschule Berlin-Weissensee) 2001-2006 þar sem hún var meistaranemi síðasta árið. Söru hefur hlotnast ýmsar viðurkenningar; útskriftarverðlaun frá Listasviði FB, DAAD styrk sem veittur er erlendum námmönnum í Þýskalandi fyrir frábæran námsárangur, úthlutun úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur, úthlutun úr listasjóði Guðmundu S. Kristjánsdóttur (Erró) og þrisvar hefur hún fengið starfslaun úr Launasjóði myndlistarmanna, sex til níu mánuði. Sara hefur vakið eftirtekt sem listamaður og ekki síst vegna strætislistaverka víða um Reykjavík og aðrar borgir heimsins. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hérlendis og erlendis og sýnt verk sín í virtum sýningarsölum, þar á meðal í Hamburger Bahnhof í Berlín, Scion gallery LA, Tokio Wondersite og í Listasafni Reykjavíkur. Einnig hefur hún fengist við gerð plötuumslaga, bókakápa og nýlega teiknaði hún allar skýringarmyndir fyrir plöntugreiningarlykil sem unnin var fyrir farsíma og spjaldtölvur. Sara er meðlimur í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur og alþjóðlegu strætislistagengi sem nefnist Big Geezers.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn