Listamenn

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson er fæddur árið 1968. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti og sótti síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-91, Kunstakademie Düsseldorf 1991-92, AKI í Hollandi 1992-94 og San Francisco Art Institute 1994-95. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi jafnt hér heima sem erlendis síðan á námsárunum. Helgi rak sýningarrýmið 20m2 um hríð og hefur sinnt ýmsum störfum tengdum myndlist svo sem stjórnarsetu í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Nýlistasafninu, verið í sýningarnefndum og starfað við kennslu. Verk Helga eru oft haganlega unnir smíðagripir sem virðast hafa notagildi en hafa þó ekki. Hann hefur einnig fengist við aðra miðla svo sem ljósmyndir, vatnslitamyndir og myndbönd. Undir yfirheitinu Kjöraðstæður hefur Helgi unnið nokkrar innsetningar þar sem grunnhugmyndin er sú að allar aðstæður séu kjöraðstæður, ef ekki fyrir þig þá einhvern annan.

Helgi Þorgils Friðjónsson

Helgi Þorgils Friðjónsson

Helgi Þorgils Friðjónsson er fæddur árið 1953. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971-76 og stundaði framhaldsnám í Hollandi við De Vrjie Academie í Haag 1976-77 og Jan van Eyck Akademie í Maastricht 1977-79. Helgi hefur verið starfandi myndlistarmaður frá því hann lauk námi. Hann hefur aðallega fengist við olíumálverk en jafnframt unnið teikningar, grafík, texta, bókverk og skúlptúra. Verkin hans eru fígúratíf og hann hefur sagt að í þeim tefli hann saman sögum mannkyns og lista og að viðfangsefnið sé líka einsemd mannsins. Verk hans hafa verið sýnd víða jafn innanlands sem erlendis. Helgi hefur átt þátt í stofnun ýmissa sýningarýma og má þar nefna Gallerí Vísir sem var í dagblaðinu Vísi, Nýlistasafnið og Suðurgata 7 í Reykjavík og Gallerí Lóa í Amsterdam. Gangurinn er þekktur sýningarvettvangur á heimili Helga sem hann hefur rekið frá árinu 1980 og er nú að Rekagranda 8 í Reykjavík. Helgi hefur líka sinnt kennslu, setið í stjónum listastofnanna og verið sýningarstjóri nokkurra sýninga svo sem Picasso á Íslandi sem sett var upp hér í Listasafni Árnesinga 2008.

www.helgi-fridjonsson.com

Ragnhildur Stefánsdóttir

Ragnhildur Stefánsdóttir

Ragnhildur Stefánsdóttir er fædd árið 1958. Hún var nemandi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977-80, við Minneapolis College of Art and Craft í Bandaríkjunum 1980-81 og Carnegie Mellon University – College of fine Art 1985-87. Ragnhildur hefur lengst af fengist við fígúratífa höggmyndalist og tilvistarlegar spurningar. Í verkum sínum vinnur hún gjarnan með hið efnislega og huglæga í manninum og leitar þá bæði í austurlensk og vestræn fræði. Hún á að baki tugi einka- og samsýninga innan lands sem utan. Ragnhildur hefur tekið þátt í nokkrum samkeppnum um úti- og innilistaverk, kennt við Listaháskóla Íslands og Pacific Lutheran Háskólann í Tacoma í Bandaríkjunum og hannað leikmyndir. Hún var formaður Myndhöggvrafélagsins um skeið og hefur einnig félagsstörfum innan Sambandis íslenskra myndlistarmanna. Ragnhildur var einn stofnenda StartArt sem var starfrækt við Laugaveginn í Reykjavík á árunum 2007-2009.

www.ragnhildur.is 

Þórdís Alda Sigurðardóttir

Þórdís Alda Sigurðardóttir

Þórdís Alda Sigurðardóttir er fædd árið 1950. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1972. Þórdís sótti tíma í Myndlistaskóla Reykjavíkur á árunum 1977-79, nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1980-84 og Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi 1985-86. Frá námslokum hefur Þórdís unnið að myndlist og hafa verk hennar verið sýnd víða bæði innalands sem erlendis. Hún vinnur gjarnan umfangsmiklar innsetningar og sækir efnivið og hugmyndir í „dótakassa samtímans" þar sem hún skoðar og nýtir sammannlega hluti, þætti og athafnir sem hún tvinnar í nýtt samhengi. Samband manns og náttúru er henni líka hugleikið. Hún hefur sinnt félagsstörfum og sat m.a í stjórn Myndhöggvarafélagsins. Þórdís tók þátt í stofnun og rekstri Gallerí StartArt sem starfrækt var að Laugavegi 12b í rúm tvö ár, 2007-2009. Hún er líka annar tveggja stofnanda Listasjóðs Dungals sem veitti ungum og upprennandi myndlistarmönnum styrki og hefur gefið út listaverkabækur í samvinnu við bókaforlagið Crymogeu.

www.toa.is 

Þuríður Sigurðardóttir

Þuríður Sigurðardóttir

Þuríður Sigurðardóttir er fædd árið 1949. Hún sótti tíma í Myndlistaskóla Reykjavíkur, nam við listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1996-98. Þuríður var nemandi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1998-2000 og síðan Listaháskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist 2001. Hún sótti einnig námskeið í íkonamálun hjá prófessor Yuri Bobrov, professor í íkonafræðum við Listakademíuna í St. Pétursborg. Frá námslokum hefur Þuríður unnið að myndlist og sýnt víða bæði innanlands og utan. Hún fæst fyrst og fremst við olíumálverk og viðfangsefnið er gjarnan náttúran, stundum með þröngt eða óvænt sjónarhorn. Hún hefur kennt við Myndlistaskóla Reykavíkur og á eigin námskeiðum og verið sýningarstjóri m.a. með Markúsi Þór Andréssyni á sýningunni Tívolí, sem sett var upp í Listasafni Árnesinga 2005. Þuríður hefur verið virk í félagsstörfum og m.a. setið í stjórn Sambands íslenskra listamanna og Bandalags íslenskra listamanna. Hún átti þátt í stofnun og rekstri Opna Gallerísins sem nýtti sér ýmis rými í 101 Reykjavík 2002-2003 og StartArt Gallerísins við Laugaveg sem starfrækt var 2007-2009. Þuríður var valin bæjarlistamaður Garðabæjar 2004.

www.thura.is

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn