Listamenn

Halldór Ásgeirsson (1956)

Halldór Ásgeirsson (1956)

Halldór Ásgeirsson nam myndlist við Parísarháskóla 8 Vincennes – St. Denis á árunum 1977-80 og 1983-86. Hann hefur fengist við gjörninga, reykteikningar, rýmis- og umhverfisverk, fánauppsetningar, ljósmyndir og ljóð á fjölbreyttan og tilraunakenndan hátt. Á fyrstu einkasýningu hans í Gallerí Suðurgötu 7 í Reykjavík árið 1981 vöktu athygli verk sem byggðust á höfuðskepnunum fjórum: eldi, vatni, lofti og jörð en þær hafa síðan fylgt listsköpun Halldórs. Við sama tækifæri sýndi Halldór í fyrsta sinn afrakstur tilrauna með eigið táknmál sem hann hefur haldið áfram að þróa.

Tímamót urðu á myndlistarferli Halldórs árið 1993 þegar hann lét eldinn komast í snertingu við hraun. Við það að logsjóða hraunstein við 1200 – 1400 gráðu hita bráðnar hann og ummyndast í svartan glerung, ekki ósvipaðan hrafntinnu. Snögg kólnunin í andrúmsloftinu veldur því að hraunið harðnar á miðri leið ef það er látið drjúpa og þannig skapar Halldór hárfína svarta þræði og glerunga sem líkjast lífrænum fyrirbærum sem verða uppspretta annarra verka eins og blekteikninga á pappír eða innsetninga. Hraunglerungarnir leiddu Halldór út í tilraunir með vatn í glerílátum og vörpun þess á vegg með ljósi. Þessar aðferðir þróaði hann enn frekar í samvinnu við tónskáldið Snorra Sigfús Birgisson og síðar tónlistarhópinn CAPUT og náðu þær ákveðnu hámarki á Heimssýningunni í Japan árið 2005 þar sem sex íslensk nútímatónverk voru túlkuð í sameiningu.

Halldór hefur sýnt víða um heim, ýmist í listasöfnum, galleríum, listamiðstöðvum, tilraunakenndum listrýmum eða á útilistasýningum og í Shinto hofi í Japan bræddi hann eldfjöllin Heklu og Fuji saman í gjörningi. Halldór hefur unnið að eldfjallaverkum í löndum eins og Frakklandi, Ítalíu, Japan og Kína og framundan eru verkefni á eldfjallaeyjunum Jövu í Indónesíu og Sikiley á Ítalíu.

www.4elements.is

Sirra Sigrún Sigurðardóttir (1977)

Sirra Sigrún Sigurðardóttir (1977)

Sirra lauk námi frá Listaháskóla Íslands 2001, nam listfræði við Háskóla Íslands einn vetur og lauk meistaranámi við School of Visual Arts í New York 2013. Hún er í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi og hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Sirra er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík þar sem hún hefur skipulagt fjölda sýninga og listviðburða með þátttöku innlendra og erlendra listamanna. Í desember 2012 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega sem listamenn sem vert er að fylgjast með á komandi árum..

Samstíga

Samstíga

Samstíga er önnur sýningin af þremur í samstarfsverkefni Listasafns Hornafjarðar, Listasafns Árnesinga og Listasafns Íslands. Markmið sýninganna er að veita innsýn í þrjú mismunandi tímabil í íslenskri listasögu. Einnig er boðið upp á ítarefni, verkefni fyrir skólaheimsóknir og gestum er líka boðið að bregða á leik.

Til sjávar og sveita var fyrsta sýningin í sýningaröðinni en þar var rýnt í verk Gunnlaugs Scheving til þess að varpa ljósi á tímabil þar sem maðurinn og atferli hans urðu viðfangsefni íslenskra listamanna og með fjölmörgum vinnuteikningum var einnig hægt að grandskoða vinnubrögð listamannsins. Þriðja sýningin sem verður á dagskrá næsta ár beinir sjónum að nýjum miðlum og fjölbreytni póstmódernismans.

Verkunum, sem eru valin, er ætlað að skapa áhugaverða heildræna sýningu sem stendur fyrir ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði frekar en að vera úrvalsverk frá ferli einstakra listamanna. Við bjóðum þér að vera samstíga okkur að rifja upp liðið tímabil, njóta og hafa gaman af.

Þeir listamenn sem verk eiga á sýningunni Samstíga eru eftirfarandi: :

Eyborg Guðmundsdóttir (1924–1977)
Gerður Helgadóttir (1928–1975)
Guðmunda Andrésdóttir (1922–2002)
Guðmundur Benediktsson (1920–2000)
Hörður Ágústsson (1922–2005)
Karl Kvaran (1924–1989)
Nína Tryggvadóttir (1913–1968)
Svavar Guðnason (1909–1988)
Valtýr Pétursson (1919–1988)
Þorvaldur Skúlason (1906-1984)

Verk neðantaldra listamanna frá árunum 1945-1969 er einnig áhugavert að skoða í þessu samhengi og eflaust verk eftir fleiri.

Ásgerður Búadóttir (1920)
Dieter Roth (1939-1938)
Eiríkur Smith (1925)
Hafsteinn Austmann (1934)
Hjörleifur Sigurðsson (1925-2010)
Jóhannes Jóhannesson     (1921-1998)
Kristinn Pétursson (1896-1981)
Louisa Matthíasdóttir (1917-2000)
Sigurjón Ólafsson (1908-1982)
Sverrir Haraldsson (1920-1985)
Valgerður Briem (1914-2002)
Valgerður Hafstað (1930-2011)

 

 

Rósa Gísladóttir

Rósa Gísladóttir 1957 -

Rósa Gísladóttir fæddist í Reykjavík árið 1957 og býr nú í Kópavogi. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977-1981 og við Listaakademíuna í München hjá prófessorEduardoPaolozzi 1981-1986. Hún bjó í Bandaríkjunum 1989-1993 og 1997-1998 og í Bretlandi 1999-2003. Hún lauk meistaragráðu í umhverfislist frá Manchester Metropolitan háskólanum í Englandi árið2002 og stundaði meistaranám í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands 2010-11.

Rósa hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og notið starfslauna úr launasjóði myndlistarmanna í nokkur skipti. Árið 2000 var hún þátttakandi í samkeppni á vegum Kirkjugarðasambands Íslands um gerð legsteina og árið 2013 var hún í úrslitum í samkeppni um gerð útilistaverks hjá HP Granda í Reykjavík. Hún á að baki fjölmargar samsýningar og einkasýningar bæði hér á landi sem erlendis svo sem alþjóðlegu samsýninguna Big Scale í Malmö í Svíþjóð 1988, listahátíð í Nordrhein-Westfalen í Þýskalandi 1995, Strandlengjuna 2000 í Reykjavík, Looking at the overlooked í Róm 2009 og Óttann við óvini framtíðarinnar í Gallerí Ágúst 2011. Rósa var ein þeirra sem áttu verk á sýningunni Nautn og notagildi í Listasafni Árnesinga 2012 og sama sumar var ennfremur opnuð stór sýning á verkum hennar, Come l'acqua come l'oro..., í hinu virta safni Mercati di Traiano í Róm þar sem sett hafa verið upp verk ýmissa heimsþekktra listamanna, s.s. Richard Serra og Anthony Caro.

Viðfangsefni Rósu eru hversdagslegir hlutir og umhverfismál. Lengst af hefur hún unnið í leir, gifs, steinsteypu og bylgjupappa en á síðustu árum hefur hún einnig notað plastflöskur, plexígler, vatn, ljós og jesmonite (sem líkist gifsi en er mun sterkara). Verk eftir Rósu er að finna í safneign Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Íslands.

Ásgrímur Jónsson 1876-1958

Ásgrímur Jónsson 1876-1958

Ásgrímur fæddist í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa, Árnessýslu og ólst þar upp. Liðlega tvítugur sigldi hann til Kaupmannahafnar staðráðinn í því að mennta sig í myndlist. Hann hafði í sig og á sem húsamálari, en sótti kvöldskóla í teikningu. Árið 1900 innritaðist hann í Konunglega danska listaháskólann og nam þar í þrjú ár. Eftir námið bjó hann áfram í Kaupmannahöfn í nokkur ár en dvaldi á Íslandi á sumrin. Árið 1908 fékk Ásgrímur styrk frá Alþingi til námsferðar til Ítalíu og ferðaðist hann þá í leiðinni til Weimar, München og Berlínar. Hann átti oft verk á vorsýningum Charlottenborgar og verk eftir hann hafa verið víða til sýnis hérlendis og í Evrópu, Rússlandi og Bandaríkjunum. Ásgrímur var tónlistarunnandi og nýlega uppgötvaðist að hann fékkst einnig við tónsmíðar.

Ásgrímur var brautryðjandi sem hafði mótandi áhrif á þróun nútíma myndlistar hér á landi og einn fyrstu Íslendinga sem gerðu myndlist að ævistarfi. Hann er einn mikilvirkasti landslagsmálari á Íslandi og vann jöfnum höndum með olíuliti og vatnsliti. Hann ferðaðist vítt og breitt um landið og málaði úti undir berum himni. Næmi á blæbrigði birtunnar og eðli litanna ásamt leitinni að fegurðinni eru aðalsmerki verka hans en á löngum ferli má sjá hjá honum ýmsar stefnur og áherslur.

Safn Ásgríms Jónssonar er deild innan Listasafns Íslands www.listasafn.is

 

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn