Listamenn

Björg Þorsteinsdóttir

Björg Þorsteinsdóttir

Björg er fædd 1940. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1960 og teiknikennaraprófi frá Handíða- og myndlistaskóla Íslands árið 1964. Hún stundaði einnig nám í grafík við sama skóla, sótti tíma í teikningu og málun við Myndlistaskólann í Reykjavík í þrjú ár og var við nám við Staatliche Akademie der bildenden Künste í Stuttgart um skeið. Á árunum 1971-1973 var Björg styrkþegi frönsku ríkisstjórnarinnar og lagði stund á málmgrafík við Atelier 17 hjá S.W. Hayter og steinþrykk við École Nationale Supérieure des Beaux Arts í París.

Í upphafi myndlistarferils síns málaði Björg einkum olíumálverk en á fyrstu einkasýningunni, 1971 sýndi hún þó eingöngu ætingar. Næstu ár á eftir fékkst Björg aðallega við grafík en í seinni tíð hefur hún lagt mesta rækt við málun. Á ferli sínum hefur hún málað, teiknað, unnið í grafík og gert collage-verk. Hún hefur haldið yfir 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga í flestum löndum Evrópu, nokkrum löndum Asíu og Afríku, í Bandaríkjunum og Ástralíu. Verk Bjargar er að finna í fjölmörgum opinberum söfnum og einkasöfnum hér heima og erlendis, m.a. í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Bibliothèque Nationale, París, Museet for Internasjonal Samtidsgrafikk, Fredriksstad í Noregi, Museo Nacional de Grabado Contemperaneo, Madríd á Spáni og víðar. Hún hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar og fengið starfslaun úr Launasjóði myndlistarmanna.

Björg hefur verið stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík og var forstöðumaður Safns Ásgríms Jónssonar, 1980-1984. Hún hefur starfað að félagsmálum myndlistarmanna og sat í fulltrúaráði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar.

Eeva Hannula

Eeva Hannula

Eeva Hannula (b.1983) stundar meistaranám í ljósmyndun við Aalto lista-, hönnunar og arkitektaháskólann í Helsinki Finnlandi. Verk hennar hafa verið sýnd í fjölmörgum samsýningum þar á meðal Summer school, í Finnska ljósmyndasafninu 2013 og Foam Magazine Talents exhibition í Rossphoto, Pétursborg í  Rússlandi 2014, en á þá sýningu var hún valin sem efnilegur ljósmyndari af alþjóðlega ljósmyndatímaritinu Foam Magazine.
www.eevahannula.com

Hertta Kiiski

Hertta Kiiski

Hertta Kiiski lauk BA-gráðu í ljósmyndun frá Listaháskólanum í Turku, Finnlandi 2012 og stundar nú meistaranám í Tíma- og rýmis-prógrammi Finnska listaháskólans í Helsinki. Hún vinnur með ljósmyndir, hreyfimyndir og innsetningar. Frá árinu 2009 hefur hún haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í ýmsum samsýningum bæði innan Finnlands og erlendis.
www.herttakiiski.com

Katrín Elvarsdóttir

Katrín Elvarsdóttir

Katrín Elvarsdóttir (f. 1964) útskrifaðist með BFA-gráðu í ljósmyndun frá Art Instistute of Boston, USA 1990. Hún á að baki nokkrar einkasýningar á Íslandi og hefur líka átt verk á fjölmörgum samsýningum víða um heim. Katrín hefur einnig sinnt sýningarstjórnun og kennt ljósmyndun bæði hér á landi og erlendis. Verk hennar hafa  birst í ljósmyndabókum og Crymogea hefur gefið út ljósmyndabækurnar Equivocal (2011) og Vanished Summer (2013) um verk hennar. Katrín hefur verið tilnefnd til ýmissa virtra verðlauna eins og heiðursverðlauna Myndstefs 2007 og Deutsche Börse Photographic Prize 2009.
www.katrinelvarsdottir.com

Lilja Birgisdóttir

Lilja Birgisdóttir

Lilja Birgisdóttir (f.1983) nam ljósmyndun í við Konunglega Listaháskólann í Haag Hollandi og útskrifaðist með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands 2010. Frá námslokum hefur hún verið einn aðstandenda listamannarekna gallerísins Kling og Bang í Reykjavík og 2011 stofnaði hún listtímaritið Endemi ásamt fleirum. Lilja var höfundur opnunarverks Listahátíðar í Reykjavík 2013, The Vessel Orchestra, sem var átta mínútna langt skipsflautuverk og nýverið lauk sýningunni Balloon í Rawson Projects gallery, NY þar sem Lilja átti verk.
www.liljabirgisdottir.is

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn