Listamenn

Jóhannes S. Kjarval (1885-1972)

Jóhannes S. Kjarval (1885-1972)

Jóhannes Sveinsson Kjarval fæddist í Efriey í Skaftafellssýslu en ólst upp í Geitavík í Borgarfirði eystra. Snemma einsetti hann sér að mennta sig í myndlist. Árið 1911 hélt hann til London og hugði á nám við Konunglega listaháskólann. Skólavistin varð ekki að veruleika en hann notaði tímann í London til að skoða söfn og mála. Hann hélt til Kaupmannahafnar og að loknu árs teikninámi við tækniskóla fékk hann inngöngu í Konunglega danska listaháskólann og brautskráðist þaðan 1917. Á námsárunum kom Kjarval oftast heim á sumrin og málaði. Að loknu námi ferðaðist hann um Norðurlönd og dvaldist einnig um hríð á Ítalíu. Síðar dvaldi hann líka um skeið í París. Árið 1922 fluttist Kjarval til Íslands og var mjög upptekinn af hlutverki sínu sem listamaður í samfélagi sem átti sér litla myndlistarhefð. Íslenskt landslag varð eitt af hans meginviðfangsefnum. Hann dvaldi langdvölum úti í náttúrunni og hafðist þá við í tjaldi og fullvann myndirnar ýmist úti undir berum himni eða á vinnustofu sinni. Kjarval beitti ýmsum stíltegundum jafnvel innan sömu myndar; málaði örþunnt eða kreisti þykkan litinn beint úr túpunni á strigann. Segja má að Kjarval hafi kennt Íslendingum að meta fegurðina í hrauni, mosa og skófum.

Halldór Einarsson (1893-1977)

Halldór Einarsson (1893-1977)

Halldór fæddist í Brandshúsum í Gaulverjabæjarhreppi. Draumur hans var að læra tréskurð og hann beið í fimm ár eftir því að komast að hjá Stefáni Eiríkssyni tréskurðarmeistara, sem rak þá eina verkstæðið sem tók nema. Halldór nam þar í fjögur ár og tók próf í teikningu og tréskurði. Snemma tók hann þá ákvörðun að hann vildi ekki leitast við að vinna sér heiður og nafn sem listamaður. Hann vildi heldur skera út rósir og króka sem iðnaðarmaður. Halldór vildi heldur ekki nota orðið list um verk sín því þau væru tómstundaverk og sum gerð af þörf fyrir afþreyingu.

Halldór hélt til Vesturheims árið 1922 og starfaði lengst af ævinnar við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Í kringum 1930 myndskar Halldór í húsgögn fyrir rafmagnsfrömuðinn Hjört Þórðarson. Voru þau í bókasafni Hjartar á Klettey í Michigan-vatni, en safn það var fágætt að gæðum. Bók um þessi verk Halldórs kom út árið 1999. Árið 1965 kom Halldór aftur til Íslands og eftirlét Árnessýslu þá skornu gripi í tré og stein, sem hann hafði heim með sér úr Vesturheimi ásamt peningagjöf sem varið var í byggingu Listhúsins á Selfossi þar sem Listasafn Árnesinga var fyrst til húsa.

www.alvara.is/halldor

Gísli Jónsson (1878-1944)

Gísli Jónsson (1878-1944)

Gísli fæddist í Búrfellskoti í Grímsnesi og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Ungur notaði hann hverja hjástund til að draga til myndar eins og segir í listasögu Björns Th. Björnssonar og lifði fyrir köllun sína við erfið kjör og tók tiltölulega snemma ákvörðun um það að gera myndlist að atvinnu sinni. Hann var að mestu sjálfmenntaður en naut þó veturlangt tilsagnar Einars Jónssonar málara frá Fossi í Mýrdal. Einar nam málun í Kaupmannahöfn fyrir aldamótin 1900 og vann síðan við leiktjaldamálun. Gísli fékkst einnig við leiktjaldamálun og einnig talsvert við blómsturmálun á kistla og stokka. Stíll fyrstu mynda hans var vafningar, sving og krúsindúllur, en á tímum þjóðlegrar vakningar snéri hann sér alfarið að hinu háleita landslagsmálverki.

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson er fæddur á Akureyri árið 1966. Hann  varð stúdent af myndlistarbraut Menntaskólans á Akureyri 1986 en veturinn 1985-86 stundaði hann jafnframt nám við Myndlistarskólann á Akureyri.

Sigtryggur lauk prófi frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1990. Á árunum 1991-94 stundaði hann framhaldsnám í myndlist við École des Arts Decoratifs í Strassborg, Frakklandi.  Sigtryggur hefur kennt við Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík. Hann var einn af stofnendum Gullpenslanna og hefur sýnt reglulega með þeim.

Sigtryggur hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis, síðast hjá More North Galleríinu í New York. Verk eftir Sigtrygg eru í eigu helstu safna á Íslandi.

Sigtryggur er með heimasíðu: www.sigtryggurbjarni.is

Þorvaldur Skúlason

Þorvaldur Skúlason

Þorvaldur Skúlason var fæddur á Borðeyri árið 1906. Hann lést árið 1984, 78 ára að aldri. Þorvaldur fluttist unglingur til Reykjavíkur og naut þar leiðsagnar Þórarins B. Þorlákssonar og Ásgríms Jónssonar. 22 ára hélt hann sína fyrstu einkasýningu og settist sama ár á skólabekk í Listaháskólann í Osló. Árið 1933 settist Þorvaldur að í Kaupmannahöfn, vann þar að list sinni og tók þátt í ýmsum samsýningum. Árið 1939 flutti Þorvaldur til Parísar með danskri eiginkonu og þar fæddist Kristín dóttir þeirra haustið 1939. Dvölin í París varð þó endaslepp vegna framsóknar þýska hersins og flúði fjölskyldan frá Frakklandi árið 1940 og settist að á Íslandi. Þorvaldur sýndi fyrst abstraktverk á sýningu í Listamannaskálanum og varð í kjölfarið öflugur málsvari abstraktlistar á Íslandi, ekki síst s.k. strangflatarmálverks. Árið 1972 var haldin stór yfirlitssýning á verkum Þorvalds í Listasafni Íslands og sama ár tók hann þátt í Feneyjabíennali ásamt Svavari Guðnasyni.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn