Listamenn

Listasafn Árnesinga

Listasafn Árnesinga

Rekja má upphaf safnsins til rausnarlegrar gjafar frú Bjarnveigar Bjarnadóttur og tveggja sona hennar Bjarna Markúsar og Lofts Jóhannessona, sem á tímabilinu 1963-1986 færðu Árnesingum liðlega sjötíu listaverk, eftir helstu listamenn þess tíma, það elsta frá árinu 1900 en flest frá miðbiki síðustu aldar. Gjöfin telur tuttugu verk eftir Ásgrím Jónsson og var það stærsti hutur eins listamanns. Í þessari stofngjöf voru einnig þrjú olíumálverk eftir Þorvald Skúlason, sem máluð voru á árunum 1940-41.

Til að byrja með var safnið hluti af Byggða- og listasafni Árnesinga og staðsett á Selfossi, en varð sjálfstæð stofnun árið 1994. Sjö árum síðar var safnið flutt í Hveragerði.

Listasafn Árnesinga er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga, en öll sveitarfélögin í Árnessýslu eiga aðild að henni. Þau eru Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus.

Listasafn Háskóla Íslands

Listasafn Háskóla Íslands

Listasafn Háskóla Íslands var stofnað árið 1980 með listaverkagjöf hjónanna Sverris Sigurðssonar (1909-2002) og Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1984). Stofngjöfin nam alls 140 listaverkum. Þar af voru 115 verk eftir Þorvald Skúlason listmálara. Sverrir sem oft var kenndur við Sjóklæðagerðina og Ingibjörg voru um áratugaskeið meðal stærstu listaverkasafnara landsins. Þau tóku snemma á hjúskaparárum sínum að kaupa listaverk, en hófu þó ekki að safna listaverkum að ráði fyrr en upp úr 1940. Margir listamenn urðu nánir vinir þeirra hjóna og heimagangar, m.a. Þorvaldur Skúlason. Árið 1985 gaf Sverrir Sigurðsson safninu aftur 101 verk til minningar um Ingibjörgu konu sína, þar af 75 verk eftir Þorvald Skúlason. Þá fékk Listasafnið um 900 skissur og smámyndir eftir Þorvald Skúlason að gjöf úr dánarbúi Sverris Sigurðssonar árið 2003 sem varpa mikilvægu ljósi á feril og vinnuaðferðir listamannsins. Listasafnið á því langstærsta safn landsins af verkum eftir Þorvald Skúlason eða rúmlega 200 málverk og yfir þúsund teikningar og skissur frá öllum tímabilum ferils hans. Í stofnskrá safnsins er áskilið að verk eftir Þorvald Skúlason skuli mynda sérstaka deild innan safnsins og bera nafn listamannsins; Þorvaldssafn. Elstu verkin eru gerð á Blöndósi árið 1921 þegar Þorvaldur var 15 ára, yngstu verkin eru unnin 63 árum síðar eða árið 1984, sama ár og Þorvaldur lést. Listaverkagjafir til Listasafns Háskóla Íslands eru meðal verðmætustu gjafa sem Háskóla Íslands hafa hlotnast en stór hluti listaverkaeignar safnsins er abstraktverk. Auk verka eftir Þorvald á safnið fjölda mikilvægra verka eftir Guðmundu Andrésdóttur, Hörð Ágústsson, Karl Kvaran og fleiri listamenn.

Þriggja manna stjórn safnsins er skipuð af háskólaráði en umsjón með safninu hefur safnstjóri. Háskóli Íslands er eini háskóli landsins sem á sitt eigið listaverkasafn og hefur frá upphafi verið lögð áhersla á tengsl listasafnsins við fræða-og vísindasamfélagið. Núverandi safnstjóri er jafnframt lektor í listfræði við hugvísindasvið HI. Árið 1999 var stofnaður sérstakur rannsóknarsjóður við Listasafn HÍ; Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands, með veglegu stofnframlagi Sverris Sigurðssonar. Hlutverk sjóðsins er að styrkja rannsóknir á íslenskri myndlist, myndlistarsögu og forvörslu myndverka. Samtals hafa 13 aðilar fengið styrki úr sjóðnum til listfræðilegra rannsókna á liðnum árum, að upphæð tæplega fjórar milljónir króna.

Svala Ólafsdóttir (1954)

Svala Ólafsdóttir

Svala lauk BFA námi við San Francisco Art Institute árið 1986, MA-námi frá University of Texas 2005 og útskrifaðist frá New Mexico State University með MFA gráðu árið 2008, en hún  hefur kennt myndlist við New Mexico State University frá því hún lauk námi.  Í verkum sínum fjallar Svala meðal annars um tengslin á milli mynninganna, sagnanna, og svo hins uppfundna, eða tilbúna.  Verk hennar eru unnin í ljósmyndun og oftar enn ekki er myndum raðað saman, tveimur eða fleirum til þess að skapa orðræðu eða ef til vill torræðu á milli einstakra ramma.   Svala hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði heima og erlendið, meðal annars í Bandaríkjunum, Englandi og Mexíkó.  Svala er gestalistamaður Hveragerðisbæjar nú í Júlí.

www.svalaolafsdottir.com

Pétur Örn Friðriksson (1967)

Pétur Örn Friðriksson

Pétur Örn nam myndlist við Myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Akademie voor Kunst en Industrie í Hollandi á árunum1985 til 1994. Hann hefur haldið 17 einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum síðastliðin tuttugu ár. Framan af einkenndust verk hans af kínetískum myndum sem helst má líkja við útskýringamódel á eðlisfræðifyrirbærum. Verk hans tilheyra ekki einni gerð, því viðfangsefnið ræður aðferðinni sem notuð er hverju sinni.

Unnar Örn (1974)

Unnar Örn

Unnar Örn býr og starfar í Reykjavík og Atlanta í Bandaríkjunum. Hann útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1999 og lauk mastersnámi við Malmö Art Academy í Svíþjóð 2003. Unnar Örn vinnur gjarnan sýningar sínar útfrá skjölum safna og „arkífa” og tengir þannig opinbera sögu við sitt eigið yfirgripsmikla heimildasafn sem hann hefur fangað úr ólíkum áttum. Með því leggur hann sig fram um að endurspegla birtingarmyndir ýmissa hugmyndakerfa sem lögð hafa verið til grundvallar ákvarðana í sögunni. Unnar Örn hefur valið ýmsa miðla fyrir verk sín ekki hvað síst bókverk, auk annars prentverks, innsetninga, klippimynda og langvarandi sýningarverkefna. Verk hans hafa verið sýnd víða á erlendum sem innlendum sýningarvettvangi samtímamyndlistar.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn