Listamenn

Sirra Sigrún Sigurðardóttir (1977)

Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Sirra Sigrún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2001 og nam einnig listfræði við Háskóla Íslands.  Hún er jafnframt einn af stofnendum Kling & Bang gallerís. Sirra vinnur jöfnum höndum með ljósmyndir, teikningar, vídeó og skúlptúra, sem hún setur oft fram sem innsetningar. List Sirru virðist oft finna fótfestu á þunnri línu á milli listar og afþreyingar, fangar athygli áhorfandans án þess að sýna nákvæmar listrænar rannsóknir á litrófinu og grundvallarreglum hreyfingu og rýmis. Ákveðin persónuleg tákn bera tilvísanir í listasöguna, stöðu listamannsins, tölfræðilegar upplýsingar, vísindakenningar og staðfræðilegt samhengi.

Sara Björnsdóttir (1962)

Sara Björnsdóttir

Sara nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1991-1995 og hlaut MA-gráðu í Chelsea College of Art and Design í London árið 1997. Frá útskrift hefur hún unnið stöðugt að myndlist, tekið þátt í fjölda samsýninga heima og erlendis ásamt fjölda einkasýninga. Sara vinnur í flesta miðla þótt myndbönd og gjörningar hafi verið áberandi. Staðbundin myndbönd eru hennar aðaláhugamál í listvinnunni í dag.

Arnar Herbertsson (1933)

Arnar Herbertsson

Arnar Herbertssoner fæddur á Siglufirði árið 1933 og ólst þar upp. Hann lærði húsamálun sem hann sinnti samhliða myndlistariðkun eftir þörfum. Hann flutti til Reykjavíkur 1958 og nam við Myndlistaskólann í Reykjavík 1959-67. Hann sýndi fyrst á haustsýningum FÍM (Félags íslenskra myndlistarmanna) 1965 og 1966 en varð síðan virkur í SÚM (Samband ungra myndlistarmanna) og tók þátt í samsýningum þess bæði innanlands og erlendis. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Ásmundarsal árið 1967 og síðast í Start Art Galleríinu 2009. Hann var þáttakandi á Tvíæringnum í Rostock í Þýskalandi 1969 og í Nutida Nordisk Konst í Hässelby-höllinni í Svíþjóð 1970. Snemma á sjöunda áratugnum dró Arnar sig í hlé og sýndi lítið þar til árið 1990 en hefur sýnt reglulega eftir það og verk hans verið valin til sýningar. Arnar hefur hlotið starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna og verk eftir hann eru í eigu helstu safna á Íslandi.

Ósk Vilhjálmsdóttir (1962)

Ósk Vilhjálmsdóttir

Ósk stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún nam og starfaði í Berlín, útskrifaðist frá Hochschule der Künste með meistara-gráðu árið 1994. Verk hennar hafa skýra samfélagslega skírskotun og setja um leið spurningarmerki við hefðbundið hlutverk listamannsins í samfélaginu. Þau hafa víða verið sýnd hér heima og erlendis. Af verkum og uppákomum sem hún hefur skipulagt má nefna „Eitthvað annað" í Gallerí Hlemmi 2003, SCHEISSLAND á sýningunni Islandsbilder í Köln 2005, „Power in your hands" á sýningunni Rethinking Nordic Colonialism 2006, og málverk af íslenskum athafnamönnum á „Bæ bæ Ísland“ á Listasafni Akureyrar 2008.   http://this.is/osk/

Ólafur Sveinn Gíslason (1962)

Ólafur Sveinn Gíslason

Ólafur lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1983 og Hochschule für bildende Künste í Hamborg 1988. Það sem helst einkennir list Ólafs er hin félagslega vídd þar sem fengist er við samskipti listamannsins og liststofnana við áhorfandann og samfélagið. Að þessu leyti tengist list hans því sem hefur verið kallað „relational aesthetics“ eða fagurfræði tengsla þar sem megináherslan er á tengslin milli aðila við tilteknar aðstæður. Í verkum sínum hefur hann tekist á við viðfangsefni tengd óttafantasíu barna („Aus dem Kinderzimmer“, KX Kampnagel, Hamburg 2000), aðstæður innflytjanda („Träumen in Hannover“, Sprengel Museum Hannover, 2002) og nú síðast með sjálfsmyndir ungs fólks („Identity Check“, Listasafn ASÍ 2010).  Hann starfaði í Þýskalandi til ársins 2007, þar til hann tók við stöðu prófessors við Listaháskóla Íslands.  http://www.olafurgislason.de

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn