Listamenn

Olga Bergmann (1967)

Olga Bergmann

Olga lauk námi við Myndlista- og handíðaskólann árið 1991 og MFA-námi frá CCA í Oakland Kaliforníu árið 1995. Í verkum sínum fjallar hún m.a. um náttúruvísindi, genaverkfræði og möguleika raunvísindanna. Einnig vinnur hún fyrirbæri eins og Wunderkammer í verkum sínum og fjallar á gagnrýninn hátt umhlutverk safna dagsins í dag. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum bæði heima og erlendis, meðal annars í Frakklandi, Þýskalandi, Finnlandi, Írlandi og Belgíu.  http://www.this.is/olga

Karlotta Blöndal (1973)

Karlotta Blöndal

Karlotta nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1993-1997 og útskrifaðist með MA-gráðu við Listaháskólann í Malmö í Svíþjóð 2002. Karlotta hefur auk þess að vinna ötullega að sýningarhaldi og útgáfu komið að nokkrum listamannareknum rýmum og staðið að útgáfu listritsins Sjónauka. Verk hennar taka á sig ýmis form en miðlun þekkingar, tungumál, birtingarmyndir valds og sjónarhorn hafa verið megininntak þeirra.  www.this.is/alphabet

Jeannette Castioni (1968)

Jeannette Castioni

Jeannette stundaði nám í forvörslu í Flórens á Ítalíu í frá 1990-93,  og listnám við Accademia di belle Arti í Bologna frá 1998-2002. Árið 2004 hóf hún listnám við Listaháskóla Íslands sem lauk með BA-gráðu árið 2006, og 2007 útskifaðist hún með kennsluréttindi frá sama skóla. Ferill Jeannette þenur út hefðbundin mörk þar sem nám hennar og bakgrunnur hafa mikil áhrif og nýtast henni sem verkfæri til að skoða og dýpka viðfangsefni hennar sem oft eru tengd við menningar- og samfélagslegar spurningar og efasemdir.
www.jeann.net

Hugsteypan (2008)

Hugsteypan

Hugsteypan er samstarfsverkefni Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur (1976) og Þórdísar Jóhannesdóttur (1979). Þær útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Ingunn lauk einnig BA-prófi í listasögu árið 2002, en Þórdís kennsluréttindanámi árið 2009.  Ingunn hefur bakgrunn í málverki en Þórdís hefur aðallega fengist við ljósmyndun. Báðar hafa þær unnið út frá miðlunum sjálfum á rannsakandi hátt og leitast við að finna á þeim nýja fleti. Verk Hugsteypunnar eru oft einhvers konar samruni ljósmyndar og málverks þar sem gerðar eru tilraunir með sjónræna upplifun og þær skírskotanir sem myndverk bera með sér. Verkin bera keim af rannsóknarferli þar sem þættir eins og listasaga, sjónmenning, framsetning og túlkun verka eru settir undir smásjá. www.hugsteypan.com

Huginn Þór Arason (1976)

Huginn Þór Arason

Huginn Þór útskrifaðist með BA-gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002 og með MA-gráðu á árinu 2007 frá Akademie der Bildenden Künste í Vínarborg. Í myndlist sinni fæst hann við afar fjölbreytta efnisnotkun og ýmsa miðla, en verk hans eru einföld í framsetningu og dansa sífellt á mörkum þess að vera gjörningar, skúlptúr og málverk. Í verkum sínum hefur Huginn Þór skapað eigin heim þar sem fléttast saman barnsleg form, sem líkjast hlutum úr daglega lífinu, skærir litir og gjörningar sem varpa ljósi á atferli fólks, persónulegan smekk og ákvarðanir.  Verk hans hafa verið sýnd á erlendum sem innlendum sýningarvettvangi samtímalistar.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn