Óþekkt - eftir Tinnu Ottesen

er staðbundin innsetning sem hólfuð er í þrjú rými og inn í innsta rýmið á bara einn að fara í einu. Áður en gengið er þar inn er hægt að virða fyrir sér myndskeið að öðrum innsetningum Tinnu þar sem hún er að vinna með sömu hugmyndir. Verkið býður upp á heimspekilegar vangaveltur og vekur vonandi fleiri spurningar en svör og það er hvers og eins að leita þeirra og svara.

Efni hegða sér á ólíkan hátt; eiginleikar þeirra eru mismunandi, efni geta vísað í söguna eða staðið sem myndlíking fyrir eitthvað annað. Hvaðan er það fengið, hvernig er það unnið og hvaða áhrif hefur það á okkur og umhverfið?

Innsetningin sem stóð uppi í apríl og maí var unnin úr plasti, en nú er hún unnin úr latex. Það er efni með aðra eiginleika og nýjar spurningar vakna. Og þar sem þetta er gagnvirk innsetning þá getur efnið líka gefið sig og verkið breyst af þeim sökum.

Verkið í heild hverfist líka um hið háleita sublim sem nefnt hefur verið ægifegurð á íslensku. Á rómantíska tímabilinu vísaði ægifegurðin til smæð mannsins andspænis ógnarkrafti náttúrunnar en nú er farið að túlka það sem ógnarkraft tæknivæðingarinnar. Er maðurinn hluti af náttúrunni – eða teljum við okkur yfir hana hafin með því að ætla að stjórna öllu – og getum við það?

Munið þið hafa stjórn á öllum aðstæðum þegar það gangið inn í Óþekkt Tinnu? Er verið að vísa í hið ókunna eða óþekka hegðun? Er það efnið sem er óþekkt eða er það sá sem fer inn? Og er öllu óhætt?


Tinna Ottesen

Tinna er fædd 1980. Hún stundaði nám í sjónrænum samskiptum við konunglega danska hönnunar og arkitektaskólann og sviðshönnun (production design) við danska kvikmyndaskólann í Kaupmannahöfn á árunum 2002-2009. Meðan á náminu stóð var hún einnig skiptinemi við Listaháskóla Íslands einn vetur og í starfsþjálfun við Zentropa í Danmörku. Tinna fékk inngöngu í a·pass (advanced performance and scenography studies) skólann í Belgíu og lauk þaðan post-master-gráðu 2016.

Allt frá árinu 2009 hefur Tinna unnið með fjölbreyttum hópum skapandi fólks (myndlistarmönnum, leikhúsmönnum, kvikmyndafólki, tónlistarfólki, hönnuðum) að ýmsum verkefnum sem mörg hver hafa unnið til viðurkenninga. Þar má nefna Neo Geo hópinn sem hefur skipulagt og framkvæmt tónleika neðanvatns í Sundhöll Reykjavíkur, hönnunarverkefni um miðbæ Hveragerðis sem fékk sérstaka viðurkenningu, heimildarkvikmyndina The Gentlemen sem vann til áhorfendaverðlauna á RIFF kvikmyndahátíðinni 2009 og Eins og í sögu (Storydelicious) á Hönnunarmars 2013 sem var innsetning og létt máltíð í senn; upplifun sem örvaði öll skilningarvitin og vann til hönnunarverðlauna Grapevine sem verkefni ársins. Tinna hefur unnið að verkefnum hér á landi og víða í Evrópu, nú síðst í Hamborg áður en hún setti verkið Óþekkt upp hér.
tinnaottesen.com

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn