Pallborðsumræður
Í tengslum við sýninguna Heimkynni-Sigrid Valtingojer efnir Listasafn ASÍ til umræðna um íslenska grafík sunnudaginn 28. maí í Listasafni Árnesinga, en sýningin er sameiginlegt verkefni safnanna.
Elísabet Stefánsdóttir formaður Félagsins íslensk grafík flytur stuttan sögulegan inngang og í framhaldinu verða pallborðsumræður og almennar umræður með þátttöku gesta í sal. Í pallborði verða auk Elísabetar, Aðalheiður Valgeirsdóttir sýningarstjóri sýningarinnar Heimkynni, Jóhann Ludwig Torfason myndlistarmaður og umsjónarmaður grafíkverkstæðisins í Listaháskóla Íslands, Leifur Ýmir Eyjólfsson myndlistarmaður og annar stofnenda verkefnisins Prent & Vinir og síðast en ekki síst Ragneiður Jónsdóttir teiknari og grafíker.
Umræðustjóri er Heiðar Kári Rannversson listfræðingur. Heiðar Kári lauk MA prófi í listfræðum frá Háskólanum í Amsterdam árið 2012 og hefur starfað á sviði íslenskrar myndlistar um árabil. Hann stýrði fræðslu- og viðburðardagskrá Listasafns Reykjavíkur á árunum 2013-2016, en er nú sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri.
Í pallborðinu verður m.a. velt vöngum yfir stöðu grafíktlistarinnar í samtímanum, sem einkennist einna helst af örri þróun stafrænnar tækni og spurt hver staða grafíkverka sé í samtíma myndlist. Hvað einkennir grafík dagsins í dag og hvernig má bera hana saman við blómaskeið grafíklistarinnar hér á landi á áttunda áratug síðustu aldar? Eiga form og aðferðafræði grafíklistarinnar ennþá erindi við samtímann? Hvað vilt þú vita um grafík?
Dagskráin hefst kl. 16 á sunnudaginn eins og fyrr sagði og aðgangur er ókeypis. Sýningin Heimkynni – Sigrid Valtingojer mun standa til 18. júní
![]() |
![]() |
![]() |