Námskeið

Hetjur, skrýmsl og skattborgarar
Úlfhildur Dagsdóttir les í myndir:

Daglegt umhverfi okkar er fullt af ýmiskonar upplýsingum sem við eru mislæs á. Mikill hluti þessara skilaboða eru í formi mynda, en í vestrænum samfélögum hefur myndin iðulega verið undirskipuð orðinu og álitin á einhvern hátt ó-merkileg. þetta er þó augljóslega ekki aðeins rangt, heldur hefur viðhorf sem þetta rænt okkur þeim auðæfum sem búa í myndum.

Í erindi sínu fjallar Úlfhildur um myndmál og myndlæsi og notast við dæmi úr Ikea-bæklingum, auglýsingum og myndasögum, auk annars sem til fellur.

Úlfhildur er bókmenntafræðingur að mennt en viðfangefni hennar og áhugi spannar víðara svið en bókmenntirnar einar. Það nær til sjónmennta, kvikmynda og þar með myndasagna, hryllings og kynjafræða svo eitthvað sé nefnt. Hún rýnir í orð og myndir og miðlar til gagns af græsku og gæsku. Eftir að hafa hlýtt á erindi Úlfhildar er forvitnilegt fyrir gesti að rýna í sýninguna á safninu sem er Íslensk myndlist- hundrað ár í hnotskurn, og leita tákna, tengja og túlka. Sýningin er samstarfsverkefni með Listasafni Íslands og val verkanna á sýningunni er byggt á þeirri hugmynd að þau endurspegli ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði en ekki einstaka listamenn eða þróun þeirra.

Náttúruskoðun og myndlist

Námskeið fyrir börn


Tími:  28. - 31. júlí, kl. 10-16 alla nema miðvikudaginn 30. júlí er dagskrá til kl.18. Þann dag er farið í gönguferð upp að Ölkelduhálsi og foreldrar beðnir að sækja börnin þangað kl.18. Síðasta daginn eru foreldrar boðnir velkomnir í safnið kl.15 til að skoða afrakstur námskeiðsins.

Kennslustaður: Listasafn Árnesinga, Hveragerði og nágrenni

Kennarar:
Ósk Vilhjálmsdóttir og Margrét H. Blöndal. Báðar starfandi myndlistarmenn og hafa langa reynslu af miðlun til barna.

Lýsing:
Lögð er áhersla á það að njóta íslenskrar náttúru fótgangandi, staldra við í henni, teikna, móta, mála og skrá niður hugleiðingar. Farið verður yfir búnað og grunnatriði í göngutækni, lestri
landakorts og ratvísi.

Efni:
Allt efni er innifalið. Börnin fá vandaðar teiknibækur og vinna með vatnsliti, Þau fá MDF plötur sem þau móta landslag á og nota til þess flísalím, sand og fleira dót.

Klæðnaður og nesti:
Nemendur þurfa að vera klædd eftir veðri, koma með nesti og góða skó og klæðast fötum sem má koma málning í.

Aldur barnanna:
  9-14 ára

Hámarksfjöldi:
  hámark 14, ef aldursskipting barnanna er góð.

Verð:
10.000.-

Málstofa um Hveragerði á dögum „listamannanýlendunnar” verður í Lisasafni Árnesinga miðvikudaginn 24. september kl 20.


 

Hörður Friðþjófsson mun spila á gítar lög eftir Hveragerðistónskáld, einkum Ingunni Bjarnadóttur.

Björn Pálsson, héraðsskjalavörður, mun fjalla um forsöguna, hús og fólk. 

Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur, talar um hverahitann og upphaf þéttbýlis í Hveragerði. Hann fjallar um hvernig jarðhitinn varð til þess að í Hveragerði myndaðist þéttbýli, og sérstöðu þess í íslenskri byggða- og atvinnusögu. Stærstan hlut þeirrar sögu skipar Mjólkurbú Ölfusinga sem stofnað var 1928 og nýtti jarðhita í sinni starfsemi. 

Svanur Jóhannesson segir frá mannlífinu á árunum frá 1940 - 1947, en hann er sonur Jóhannesar úr Kötlum.

Að endingu mun Kristín B. Jóhannesdóttir lesa upp kvæði eftir séra Helga Sveinsson. Kristín á áttræðisafmæli um þessar mundir og hefur verið áberandi í menningarlífi bæjarins. Hún var ein af stofnendum Leikfélags Hveragerðis og Kirkjukórs Hveragerðis- og Kotstrandarsókna. 

Þetta er samstarfsverkefni Listasafnsins og menningarmálanefnd Hveragerðis.

Boðið verður upp á kaffi og kleinur. Allir eru velkomnir.

Í tilefni þess að liðin eru 100 ár frá fæðingu listamannsins Sigurjóns Ólafssonar efnir Listasafn Árnesinga til málþings honum til heiðurs, sunnudaginn 16. nóvember kl. 14 . 


Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, ræðir um verk eftir Sigurjón í opinberu rými og mun hann sérstaklega fjalla um þau verk sem staðsett eru í Árnessýslu.

Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur, mun ræða um list Sigurjóns í alþjóðlegu samhengi.

Kynnir og stjórnandi er Inga Jónsdóttir safnstjóri og að loknum erindum sitja þau Aðalsteinn, Æsa og Inga  fyrir svörum. Einnig er tækifæri að skoða nokkur verk eftir Sigurjón sem eru til sýnis á sýningunni Picasso á Íslandi.

Sigurjón fæddist á Eyrabakka 21. október 1908 og ólst þar upp, en lést í Reykjvík í desember 1982. Hann nam höggmyndalist í Danmörku og skóp sér langan og farsælan feril sem listamaður. Efniviðurinn var einkum steinn eða tré en einnig hin hefðbundnu myndmótunarefni leir og gifs sem og önnur efni. Eftir sautján ára dvöl í Danmörku við nám og störf, snéri hann heim árið 1945. Verk hans hafa verið á sýningum víða um heim og unnið til mikilsverðra verðlauna.

Í tengslum við sýninguna og íslensku hönnunardaganna HönnunarMars, stendur Listasafn Árnesinga fyrir námskeiði í samvinnu við Fræðslunet Suðurlands 28. mars og 4. apríl

Íslensk hönnun - íslensk ímynd

Hvernig lesum við í hönnun og hvaða táknmál hafa hlutir í umhverfinu, háð tíðaranda, tímabili stað og stund? Hvernig birtist íslensk þjóðarímynd í íslenskri hönnun? Skapar hönnun okkur ímynd eða er ímyndin í hönnuninni? Er til heildstæð ímynd í íslenskri hönnun? Hvernig birtist þetta í sögu íslenskrar hönnunar sem á sér ekki ríkan bakgrunn ...en þó! Á námskeiðinu verður spurningum á borð við þessar varpað fram og leitað svara með því að rekja og rýna fyrst og fremst í íslenska hönnun og hönnunarsögu með megináherslu á húsgagnahönnun.

Námskeiðið er alls 8 kennslustundir og skipt á tvo laugardaga frá kl. 10-12.50

Laugardagurinn 28. mars kl. 10 - 12:50

  1. Hvernig „lesum” við hluti? íslensk hönnun/erlend hönnun táknmál og túlkun. Frumkvöðlarnir, áhrifavaldar og umhverfi.
  2. Módernismi í hönnun á tíma þjóðernisvakningar – íslensk séreinkenni, sjálfsprottin eða búin til?

Laugardagurinn 4. apríl kl. 10 - 12:50

  1. Hönnun í skjóli tollalaga – afnám og EFTA. Samkeppni og hrun.Hver var ímyndin, hvar var ímyndin, hvaðan kom ímyndin?
  2. Ný kynslóð önnur ímynd. Íslenskir hönnuðir og hönnunarvakning. Útrásin og ímyndir. Alheimsvæðing, sérstaða og sérkenni – Staðan í dag? Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og umræðum í hópum.

Elísabet V. Ingvarsdóttir lauk mastersprófi í hönnunarsögu (Design History) frá Kingston University, London 2006. Ritgerðin fjallaði um þjóðarímynd í íslenskri hönnun með áherslu á húsgögn og innréttingar. Elísabet hefur BA próf sem innanhússarkitekt og starfaði við það í fjölmörg ár auk þess að afla sér réttinda til kennslu sem hefur verið hennar aðalstarf undanfarin ár. Elísabet var annar stjórnanda Hönnunarbrautar Iðnskólans í Reykjavík (nú Tækniskólinn) í um átta ár og starfar þar enn sem kennari auk stundakennslu við LHÍ auk þess að sinna ýmsum sértækum skrifum og verkefnum tengdum hönnun. Elísabet er hönnunargagnrýnandi Morgunblaðsins og pistilhöfundur um hönnun.

Verð: kr. 12.000.-

Skráning hjá Fræðsluneti Suðurlands, fraeslunet.is, sími 480 8155.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn