Samræður á sunnudegi

Undirstaða og uppspretta
– sýn á safneign

Upphaf Listasafns Árnesinga er rakið til gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona á 42 málverkum til Árnesinga sem unnin voru af helstu myndlistarmönnum þess tíma. Gjöfin var afhent 19. október 1963 og var komið fyrir á Selfossi. Þetta var jafnframt fyrsta listasafnið utan Reykjavíkur sem opið var almenningi. Bjarnveig hélt áfram að gefa listaverk í safnið og nokkrum árum síðar bættist önnur stór gjöf við þegar Halldór Einarsson tréskurðarmeistari gaf æviverk sitt og peningagjöf sem var hvati þess að hús yfir þessar tvær stóru gjafir var reist og var það vígt á Selfossi 1974. Smám saman hefur síðan bæst við safneignina og þrjátíu og átta árum eftir að safnið var fyrst aðgengilegt almenningi var sú ákvörðun tekin að flytja Listasafn Árnesinga í Hveragerði í enn stærra hús sem væntingar voru bundnar við að gæti verið sú umgjörð er gæfi safninu fleiri tækifæri til eflingar m.a. með fjölbreyttu sýningarhaldi og menningardagskrá.

Í safneign Listasafns Árnesinga eru varðveitt um það bil 550 listaverk. Með sýningunni Undirstaða og uppspretta – sýn á safneign er sjónum einkum beint að þeim verkum sem nýlega hafa bæst í safneignina en einnig að nokkrum öðrum verkum sem flest hafa ekki verið sýnd áður í safninu. Heiti sýningarinnar vísar í það að undirstaða safnastarfs er safneignin og hún er varðveitt til þess að vera öðrum uppspretta til frekari sköpunar bæði nú og í framtíðinni. Á sýningunni eru verk eftir sjö ólíka listamenn sem fæddir eru á árunum 1874-1951. Flest verkin á sýningunni koma úr nýlegri gjöf til safnsins frá Listaverkasafni Valtýs Péturssonar.

Þessir listamenn eru höfundar verkanna á sýningunni:

  • Einar Jónsson (1874-1954),
  • Ásgrímur Jónsson (1876-1958),
  • Kristinn Pétursson (1896-1981),
  • Jóhann Briem (1907-1991),
  • Valtýr Pétursson (1919-1988),
  • Guðmundur Benediktsson (1920-2000)
  • Ólafur Lárusson (1951-2014)

Á sýningunni liggja einnig frammi bækur sem ritaðar hafa verið um myndlist þessara listamanna og gestir sýninganna eru líka hvattir til þess að láta verkin verða hvata eigin sköpunar með pappír og litum sem þeim stendur til boða.

Þjórsá

Um nokkurn tíma hefur Borghildur Óskarsdóttir rannsakað ýmislegt sem tengist fjölskyldusögu hennar og skilað niðurstöðunum í formi margbreytilegra listaverka sem oft má skilgreina sem umhverfislist. „Í verkinu Þjórsá skrifar Borghildur nýjan kafla í heildarverk sitt og setur rannsóknina á fjölskyldusögunni í fyrirbærafræðilegt samhengi. Áherslan er ekki lengur á ættfræðina og frásagnir fólksins af baráttunni við sandinn, heldur á beina náttúrutengingu vitundarinnar við umhverfið. Í verkinu beinir hún athygli áhorfandans að Þjórsá, lengsta fljóti á Íslandi sem á upptök sín á norðanverðum Sprengisandi og rennur til sjávar í suðri. . . . Í verkinu miðlar hún birtu, lit, hreyfingu, hljóðum, áferð, og öðrum eiginleikum umhverfisins sem hafa sterkt fagurfræðilegt aðdráttarafl.“ Segir m.a. í grein eftir Æsu Sigurjónsdóttur sem birtist í sýningarskrá sem safnið gefur út um sýninguna. Þjórsá Borghildar í Listasafni Árnesinga er innsetning sem felur í sér vinsamlega hvatningu til þess að læra að þekkja og virða söguna og landið. Við það vakna líka pólitískar spurningar um samband manns og náttúru og með því að setja sýninguna Þjórsá upp samhliða sýningu á verkum úr safneign Listasafns Árnesinga verða spurningar um mat á verðmætum og gildi varðveislu enn áleitnari. Hvað felst í þeirri siðferðislegu og samfélagslegu ábyrgð að skila verðmætum til komandi kynslóða og hver eru þau verðmæti?

Borghildur Óskarsdóttir

Borghildur fæddist í Reykjavík árið 1942. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1959-60 og Listaháskólann í Edinborg, Skotlandi 1961-63. Árið 1973 lauk hún einnig prófi frá kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún kenndi myndlist í 3 ár við Hvassaleitisskóla og 10 ár við Myndlistaskólann í Reykjavík samhliða eigin listsköpun en hún hefur lengstum unnið sem sjálfstætt starfandi myndlistarmaður. Borghildur hefur einkum fengist við þrívíð verk og í upphafi vann hún einkum með leir en efniviður hennar hefur verið af ýmsum toga sem hæfir viðfangsefninu hverju sinni. Síðustu verk hennar tengjast rannsóknum á eigin fjölskyldusögu. Á löngum ferli hefur hún sýnt víða innanland og erlendis ssvo sem í Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi, Póllandi og á Norðurlöndunum. Verk eftir Borghildi er að finna bæði í einkasöfnum og safneignum opinberra stofnanna og safna.

Borghildur er félagi í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir þessi félög.

www.borghildur.com

Hrunamannadagur í LÁ

Hrunamannahreppur er eitt af átta sveitarfélögunum í Árnessýslu og þau eiga og reka í sameiningu Listasafn Árnesinga. Það er því með ánægju að Listasafn Árnesinga býður Hrunamenn hvaðanæva af landinu sérstaklega velkomna í safnið á sérstökum Hrunamannadegi. En það er öllum velkomið að njóta dagsins með okkur.

Kl. 13:00 – 16:00
Fjölskyldusmiðja í boði þar sem listkennslufræðingurinn Kristín Þóra Guðbjörnsdóttir mun leiðbeina. Vinnusmiðjan veitir þátttakendum tækifæri til að virkja eigin hugmyndir í listsköpun á sama tíma og rætt verður um inntak sýninganna tveggja í safninu og innblástur sóttur í þær. Þátttaka í smiðjunni er ókeypis og gestir geta komið og farið þegar þeim hentar en þurfa ekki að vera allan tímann.

Kl. 14:00
Inga Jónsdóttir safnstjóri og sýningarstjóri beggja sýningannaí safninu, annars vegar Undirstaða og uppspretta - sýn á safneign og hins vegar Þjórsá eftir Borghildi Óskarsdóttur mun fara um sýningarnar og ræða um þær við gesti sem líka eru hvattir til að spyrja.

Listamannsspjall - Borghildur fjallar um verkið Þjórsá

Borghildur OSunnudaginn 15. apríl kl. 15:00 ræðir Borghildur Óskarsdóttir við gesti um innsetningu sína í Listasafni Árnesinga sem ber heitið Þjórsá. Þar má sjá Þjórsá í öllu sínu veldi frá hálendinu til árósa bæði sem eins konar innrammaða mynd á gólfi en líka sem vídeó þar sem flogið er yfir ána frá upptökunum við Hofsjökul og niður að sjó. Á sýningunni er einnig þula um Þjórsá eftir Borghildi sem skoða má bæði sem sjónrænt myndverk og hlýða á í flutningi höfundar. Þá er þar líka tvöfalt vídeóverk þar sem Borghildur gerir gjörning í húsatótt við bakka Þjórsár, sem fyrrum var æskuheimili ömmu hennar.

Rúrí – kynnir nokkur þekkt verk

RúríRúrí hefur lengi verið einn þekktasti myndlistarmaður landsins og laugardaginn, 17. feb. kl. 14:00 fjallar hún um nokkur valin verk í Listasafni Árnesinga. Hún sýnir myndir og vídeó af verkum sem snerta samtímann og ræðir við gesti um þau, en Rúrí dvelur um þessar mundir í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði.

Frá upphafi ferils síns hefur Rúri vakið eftirtekt og sýningarferill hennar er umfangsmikill, bæði einka og samsýningar, hér á landi sem á alþjóðlegum vettvangi og útilistaverk eftir hana hafa verið sett upp á Íslandi og víðar í Evrópu. Verk hennar eru að finna í safneignum fjölmargra einka og opinberra safna innanlands sem utan og árið 2011 gaf þýska listabókaforlagið Hatje Cantz út yfirgripsmikla bók um Rúrí. Hún hefur einnig notið ýmissa viðurkenninga, m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2003.

Myndlist Rúríar er hugmyndafræðilegs eðlis og verk hennar vekja spurningar um tilvistarleg málefni, náttúruna og tímahugtakið og þó að sjá megi staðbundna tengingu þá er tilvísunin hnattræn. Verkin eru sett fram með með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúrar, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndaverk, vídeóverk, ljósmyndaverk, hljóðverk, blönduð tækni, tölvuvædd og gagnvirk verk.

Verk eftir Rúrí hafa nokkrum sinnum verið sýnd á samsýningum í Listasafni Árnesinga og fyrir tveimur árum var þar sett upp stór sýning á verkum hennar.

Tileinkun. Ljosm. Friðrik OrnTileinkun. Ljósmynd Friðrik Örn

Vocal VI. Ljósm. Marc MuehlbergerVocal VI. Ljósmynd Marc Muehlberger

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin
Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 12. des 2016 - 12. jan 2017

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn