Articles

Listamannaspjall með Önnu Hallin og Guðjóni Ketissyni

Sunnudaginn 18. nóvember kl. 14:00 munu listamennirnir Anna Hallin og Guðjón Ketilsson spjalla við gesti um verk sín á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans, en verk þeirra eru ólík innbyrðis þó handverkið sameini þau og á mismunandi hátt kallast þau á við verk Halldórs.

Aðalefniviður Guðjóns hefur löngum verið tré eins og hjá Halldóri og verk Guðjóns sem bera heitið Verkfæri eru líka eins konar minni handverksins. Í nafnlausu verki eftir Guðjón hefur hann líka umbreytt gömlu húsgangi í skúlptúr og kallast það þar með á við það tímabil í ferli Halldórs er hann vann við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago.

Verk Önnu bera heitin Valdakonur, Listamenn og Skriffinnar og eiga það sameiginlegt að vera portret af mismunandi gerð. Þau kallast á við portret Halldórs, en að auki eiga þau Halldór það sameiginlegt að vera fædd og uppalin í öðru landi en þau settust að til starfa.

Guðjón vinnur að mestu við gerð teikninga og skúlptúra. Í verkum hans er mannslíkaminn í forgrunni, nærvera hans eða fjarvera. Guðjón hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Verk Guðjóns eru í eigu allra helstu listasafna á Íslandi, svo og nokkurra erlendis. Auk þess að vera boðið að vinna að list sinni á ýmsum alþjóðlegum vinnustofum, hefur hann verið valinn til þátttöku í samkeppnum um gerð listaverka í opinberu rými og má sjá verk hans í opinberu rými í Reykjavík og á Seyðisfirði.

Helsti efniviður Önnu hefur einkum verið leir og undanfarið hefur hún einnig fengist við teikningu. Hún hefur á ferli sínum tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis og haldið einkasýningar víða. Verk eftir hana eru m.a. í eigu Listasafns Reykjavikur, Gerðarsafns, Safnasafnsins, Listasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Íslands. Anna hefur um árabil unnið að myndlist í samstarfi við myndlistarkonuna Olgu Bergmann. Samstarf þeirra er ekki síst á sviði myndlistar í opinberu rými og sem dæmi má nefna verðlaunatillögu þeirra að listaverkum fyrir nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði.

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn