Articles

HEIMURINN SEM BROT ÚR HEILD

28. september – 15. desember

Heimurinn sem brot ur heild - Listasafn ÁrnesingaÁ sýningunni Heimurinn sem brot úr heild eru til sýnis verk eftir listamennina Önnu Jóa og Gústav Geir Bollason sem sýningarstjórinn Jóhannes Dagsson hefur valið saman. Jóhannes er menntaður bæði í myndlist og heimspeki og starfar við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Úttgangspunktur sýningarinnar er teikningin, en Jóhannes hefur einnig valið inn málverk, myndbandsverk og skúlptúra sem tengjast þeim hugmyndum sem sýningin byggir á. Í texta sýningarstjóra um sýninguna segir m.a.: „Hér eru vísbendingar um heima sem eru persónulegir, heima sem innihalda aðrar athafnir en þær sem við erum vön að lifa, heima sem eru liðnir, heima sem hafa ekki ennþá hafist. Brotin eru skynjanleg og í gegnum skynjun okkar á þeim verður til aðgengi, brotakennd leið. Þetta eru ekki heimar búnir til úr hugtökum eða óhlutbundnum forskriftum eða formúlum, heldur höfum við hér tækifæri til að reyna á eigin skinni, í gegnum skynjun og veru, drög að heimi.“

Anna og Gústav Geir eiga það sameiginlegt að hafa bæði stundað framhaldsnám í Frakklandi að loknu námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hafa bæði lagt sitt af mörkum til að koma myndlist annarra á framfæri. Anna stofnaði og rak um tíma Gallerí Skugga í Reykjavík en hefur einnig verið listgagnrýnandi og stundakennari í listfræði. Gústav Geir er einn af stofnendum listrýmisins Verksmiðjunnar á Hjalteyri og rekur hana í dag. En í Listasafni Árnesinga eru það þeirra verk sem eru til skoðunar. Þau hafa bæði átt verk á fjölmörgum sýningum, einka- sem samsýningum, innanlands og erlendis, en listaverk þeirra hafa ekki áður verið sett saman í sýningu. Verk þeirra eru afar ólík, en með því að stilla þeim saman skapast óvæntar aðstæður og forvitnileg sjónarhorn veita innsýn í áhugaverða heima til túlkunar.


Anna Jóa

Anna (f. 1969) lauk námi við MHÍ 1993 og meistaranámi við École nationale supérieure des Arts Décoratifs (EnsAD) í París árið 1996. Hún nam síðar listfræði við Háskóla Íslands. Viðfangsefni myndlistarverka hennar lúta að minningum, skynjun, stöðum og tengslum sjálfsmyndar og umhverfis. Hún hefur sýnt olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar, texta­ og ljósmyndaverk, auk þrívíðra verka og innsetninga. Anna hefur haldið fjölda einkasýninga á verkum sínum auk þess að taka þátt í samsýningum á Íslandi og erlendis. Hérlendis hafa verk hennar meðal annars verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands, Listasafni ASÍ og í Listasafni Árnesinga, auk þess sem hún hefur sýnt verk sín í Frakklandi, Finnlandi, Rússlandi, Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Eistlandi og á Englandi. Verk eftir Önnu eru í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja og einkaaðila. Hún rak sýningarrýmið Gallerí Skugga um árabil, hefur starfað við sýningarstjórn, sinnt ritstörfum, listgagnrýni og stundakennslu í listfræði við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Anna býr í Reykjavík en er einnig með dvalarstað á Stokkseyri.

Gústav Geir Bollason

Gústav (f. 1966) stundaði nám við MHÍ 1986­1989, nam teikningu í 1 ár við Magyar Képzömüveszeti Egyetem í Budapest, Ungverjalandi og lauk DNSEP (Diplôme national supérieur d’expression plastique) frá Ecole d'Art de Cergy Frakklandi 1995. Verk Gústavs taka á sig form teikninga, smíða, umsköpunar á fundnum hlutum og kvikmynda. Hann notar jöfnum höndum óhlutbundnar framsetningar, endursköpun eða hliðstæður og hugsar upp ferli þar sem hann stefnir saman aðferðum og viðfangsefnum. Hann vinnur sumpart með hina hefðbundnu flokka fagurlista, þá oftast landslag eða landslagsfrásagnir. Hann kannar staði með sögu, mannvistarleifar eða safnar hlutum, torkennilegum af meðförum náttúrunnar. Í hnignuninni má greina úr hverju þeir eru og í óreiðunni sjá þróun. Verk hans hafa verið sýnd á einkasýningu m.a. yfirgripsmikilli í Listasafninu á Akureyi og í Frakklandi. Hann hefur tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og víðar svo sem París, München, New York, San Francisco og Pérursborg. Gustav býr og rekur vinnustofu á Hjalteyri, er einn af stofnendum Verksmiðjunnar á Hjalteyri og rekur hana í dag.

Jóhannes Dagsson

Jóhannes er heimspekingur og myndlistarmaður. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá University of Calgary árið 2012 og stundaði nám í myndlist við Edinburgh Collage of Art. Rannsóknarsvið Jóhannesar liggur á mörkum hugspeki, málspeki og fagurfræði. Jóhannes er lektor í fræðigreinum við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Heimurinn sem brot úr heild

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn