Listamenn

Upplestur úr nýjum bókum

Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði
bjóða til samveru í Listasafninu
fullveldisdaginn 1. desember kl. 20

Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga viðhalda þeirri hefð að bjóða upp á lestur úr nýjum bókum í Listasafninu 1. desember með tónlistarívafi, kertaljósum og piparkökum.

Höfundar lesa úr fjórum nýjum skáldsögum sem eru Bónusstelpan eftir Rögnu Sigurðardóttur, Meistaraverkið og fleiri sögur eftir Ólaf Gunnarsson, Trúir þú á töfra? eftir Vigdísi Grímsdóttur og Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson. Þá munu einnig Björg Einarsdóttir og Hildur Hákonardóttir lesa úr sínum köflum í bókinni Á rauðum sokkum - baráttukonur segja frá sem Olga Guðrún Árnadóttir ritstýrði.

Ungur fiðluleikari, Irena Silva Roe mun brjóta upplesturinn upp með því að leika nokkur lög á fiðlu. Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Bónusstelpan Trúir þú á töfraMeistaraverkiðValeyrarvalsinnÁ rauðum sokkum - baráttukonur segja fráBÓNUSSTELPAN
eftir Rögnu Sigurðardóttur

Sem útskriftarverkefni í Listaháskólanum velur Diljá að afgreiða á kassa í Bónus, með Bónusbleikt hár og skærbleikar varir. Þegar sá kvittur kemst á kreik að Bónusstelpan geri kraftaverk hikar Diljá ekki við að taka gjörninginn skrefi lengra. Skólinn og fjölskyldan vilja að hún hætti en þúsundþjalasmiðurinn Hafliði stendur með henni. Grípandi saga beint úr blæðandi íslenskum samtíma.

Ragna Sigurðardóttir nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1985-1989 og framhaldsnám við Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1989-1991. Frá árinu 2002 hefur hún starfað sem myndlistargagnrýnandi, fyrst hjá Morgunblaðinu en nú hjá Fréttablaðinu, auk þess að skrifa um myndlist og listamenn fyrir tímarit, söfn og sýningarstaði. Áður en hún einbeitti sér að ritstörfum hafði hún unnið með texta á margvíslegan hátt í ólíkum miðlum í myndlist sinni. Fyrsta skáldsaga Rögnu, Borg, sem kom út 1993 var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en áður hafði hún gefið út tvær ljóðabækur.

TRÚIR ÞÚ Á TÖFRA? eftir Vigdísi Grímsdóttur

Trúir þú á töfra? leiðir lesendur inn í völundarhús gerræðis og grimmdar sem enginn skilur – en einnig til þeirrar tæru gleði yfir lífinu sem ilmur fortíðar og angan framtíðar færir. Hjartnæm og eftirminnileg saga sem er sannkallaður óður til skáldskaparins en afhjúpar jafnframt varnarleysi manneskjunnar í flókinni lífsbaráttu þar sem töfrarnir einir megna að lýsa henni veginn.

Vigdís Grímsdóttir lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, og lagði síðan stund á íslensku, bókasafnsfræði, og íslenskar bókmenntir við Háskóla Íslands og lauk þaðan líka prófi í uppeldis- og kennslufræðum. Hún starfaði sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari í Reykjavík og Hafnarfirði til 1990 en hefur síðan nær eingöngu fengist við ritstörf. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Tíu myndir úr lífi þínu kom út árið 1983 og síðan hefur hún sent frá sér skáldsögur (þar á meðal barnabók), ljóðabækur, smásögur og ævisögu. Vigdís hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1989 fyrir Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón, 1996 fyrir Z og 2007 fyrir Söguna um Bíbí Ólafsdóttur. Verðlaunin hlaut hún árið 1994 fyrir Grandaveg 7. Leikgerðir Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón og Grandavegur 7 hafa verið á fjölum Þjóðleikhússins og Hilmar Oddson gerði minnisstæða kvikmynd eftir sögunni Kaldaljós. Frá árinu 2006 hefur Vigdís notið heiðurslauna listamanna.

MEISTARAVERKIÐ OG FLEIRI SÖGUR eftir Ólaf Gunnarsson

Í sínu fyrsta smásagnasafni leikur Ólafur á ýmsa strengi. Hér segir frá Íslendingi sem barðist í Víetnam, útbrunnum rokksöngvara sem fær óvænt tækifæri til að stíga á svið með Rod Stewart, súludansmey sem fer að búa með bifvélavirka, nasista og morðingja og ótal fleiri litríkum persónum. Og svo var það maðurinn sem þurfti að stela sínu eigin húsi árið sem Ísland varð lýðveldi.

Ólafur Gunnarsson lauk verslunarprófi frá VR 1969 og sinnti verslunarstörfum 1965 til 1971 Hann var bifreiðastjóri læknavaktar frá 1972 til 1978 en hefur stundað ritstörf frá 1974. Hann hefur verið tilnefndur til margvíslegra verðlauna og hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2003 fyrir bókin Öxin og jörðin. Margar bækur hans hafa verið þýddar á erlend mál. Bók hans Tröllakirkjan sem út kom 1992 var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðalunanna og var líka tilnefnd til IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunanna. Gerð var leikgerð upp úr sögunni sem frumsýnd var í Þjóðleikhúsinu 1996 og kvikmyndaréttur sögunnar hefur verið seldur. Einnig er búið að selja sjónvarpsseríurétt á Blóðakri.

VALEYRARVALSINN eftir Guðmund Andra Thorsson

Hrífandi og margslungið skáldverk þar sem sextán sögur fléttast saman og skarast margvíslega enda gerast þær allar á sömu tveimur mínútunum í litlu þorpi. Þetta eru sögur um mannfólkið og það sem kemur fyrir það, sögur um ástir og afglöp, alls konar tengsl og öll leyndarmálin, þau sem allir þekkja og hin sem liggja djúpt grafin.

Guðmundur Andri Thorsson nam íslensku og bókmenntafræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan cand.mag.-gráðu 1985. Guðmundur Andri hefur starfað sem blaðamaður, gagnrýnandi, ritstjóri og þáttagerðamaður. Fysta bók hans, Mín káta angist kom út 1988. Hann hlaut menningarverðlaun DV fyrir Íslenska drauminn 1991 og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Íslenska drauminn 1991 og Íslandsförina árið 1996.

Á RAUÐUM SOKKUM - BARÁTTUKONUR SEGJA FRÁ undir ritstjórn Olgu Guðrúnar Árnadóttir

Í ritinu segja tólf konur frá uppruna sínum og aðdraganda þess að þær urðu virkir þátttakendur í kvenréttindabaráttunni undir merkjum Rauðsokkahreyfingarinnar. Þær lýsa upphafinu, umbrotsárunum og þeirri þróun sem varð til þess að þáttaskil urðu í starfseminni á miðjum áttunda áratugnum. Baráttan var hörð og rauðsokkar beittu oft óhefðbundnum aðferðum til þess að koma málstað sínum á framfæri og vöktu með því hneykslan margra og kæti annarra. Í bókinni eru birt ljóð eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur sem flest voru ort á þessum árum og margar myndir sem aldrei hafa komið fyrir almenningssjónir.

Höfundar eru: Auður Hildur Hákonardóttir, Björg Einarsdóttir, Edda Óskarsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Friðgeirsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Helga Ólafsdóttir, Lilja Ólafsdóttir, Rannveig Jónsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Vilborg Sigurðardóttir. Vilborg Sigurðardóttir ritar inngangsorð og Dagný Kristjánsdóttir eftirmála. RIKK, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum gefur bókina út í samstarfi við Háskólaútgáfuna.

Auður Hildur Hákonardóttir lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1968 og hélt þá til framhaldsnáms við listaháskólann í Edinborg. Árið 1980 bætti hún síðan við sig réttindum sem vefnaðar-kennari frá Myndlista- og handíðaskólanum eftir að hafa kennt þar á árunum 1969–81. Þar af var hún skólastjóri hans 1975–78 á miklum umbrotatímum í sögu skólans. Hildur starfaði jafnframt að listvefnaði á árunum 1969 – 90. Hún var virk í SÚM-hópnum og kvenna-baráttunni sem endurspeglast í verkum hennar. Hildur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, s.s. setið í stjórn Textílfélagsins, í Listahátíðarnefnd og í stjórn Listskreytingasjóðs. Hún var forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnesinga á Selfossi 1986-93 og safnstjóri Listasafns Árnesinga 1998-2000. Síðustu ár er Hildur einkum þekkt fyrir ræktun og ritstörf.

Björg Einarsdóttir fræðimaður og rithöfundur stundaði nám í íslenskum og erlendum bókmenntum og almennri sögu í einkaskóla á árunum 1964-68. Hún sinnti skrifstofustörfum og kennslu áður en hún snéri sér að ritstörfum. Árið 1984 stofnaði hún ásamt fjórum öðrum konum útgáfufélagið Bókrún ehf. Björg var virk í kvennabaráttunni hér á landi  á áttunda og níunda áratugnum og hefur m.a. unnið áhugavert úrklippusafn sem veitir innsýn í þann tíma. Hún hefur einkum skrifað um konur og er ritsafn hennar "Úr ævi og starfi íslenskra kvenna" I-III, sem upphaflega var safn útvarpserinda, mikill fróðleikur um formæður okkar. Hún hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum í gegn um tíðina og leggur enn stund á ritstörf. Björg hefur verið búsett í Hveragerði síðastliðin ár.


LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn