Listamenn

Sýningastjóri og listamenn

Sýningastjóri / curator

Ásthildur B. Jónsdóttir (1970)

Ásthildur er lektor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Hún er einnig doktorsnemi við Háskóla Íslands og háskólann í Rovaniemi Finnlandi. Í doktorsverkefni sínu skoðar hún þá möguleika sem samtímalist veitir menntun til sjálfbærni. Í verkum sínum leggur hún áherslu á hvernig menning og vinna með gildismat styður sjálfbæra þróun og menntun til sjálfbærni á öllum stigum, bæði í formlegu og óformlegu samhengi. Ásthildur hefur MA-gráðu frá New York University, The Steinhardt School of Culture, Education, and Human Development og MA-gráðu í listkennslufræðum frá Háskóla Íslands.

Listamenn / artists

Anna Líndal (1957)

Anna Líndal

útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1985 og lauk framhaldsnámi frá The Slade School of Fine Art í London árið 1990 og MA í Listrannsóknum frá St Lucas, University College of Art & Design, Antwerpen 2012. Auk fjölda innlendra og erlendra sýninga tók Anna Líndal þátt í Kwangju Biennalnum, Man + Space í S- Kóreu 2000, sýningarstjóri René Block. Istanbúl-tvíæringnum 1997, on life, beauty, translation and other difficulties, sýningarstjóri Rosa Martinez og alþjóðlegri myndlistarsýningu Listahátíðar í Reykjavík 2005 og 2008. 2012 var Anna með einkasýningu í Listasafni ASÍ Kortlagning hverfulleikans og Samhengissafnið / Línur í Harbinger 2014. Anna Líndal var prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2000 - 2009.www.annalindal.com

Ásdís Spanó (1973)

Ásdís lauk myndlistarnámi frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og hefur síðan sýnt jafnt og þétt á samsýningum og einkasýningum. Ásdís sótti einnig myndlistarnám við Central Saint Martins, University of the Arts í London og Accademia di Belle Arti í Bologna á Ítalíu. Verk Ásdísar byggja á hugleiðingum listamannsins um hin ýmsu útrænu og innrænu öfl sem áhrif hafa á yfirborð jarðvegs. Í lagskiptingu verkana byggir hún á samspili náttúru og borgar, hinu sjálfráða og hinu rökræna. www.asdisspano.com

Bjarki Bragason (1983)

Bjarki nam við Listaháskóla Íslands 2003-06, stundaði skiptinám við Universität der Künste í Berlín,2005 og lauk meistaranámi frá California Institute of the Arts (CalArts) í Los Angeles árið 2010. Árið 2008 hlaut hann styrki Listasjóðs Dungals og Styrktarsjóðs Guðmundu Andrésdóttur og árið 2009 Lovelace styrk vegna náms við CalArts. Á undanförnum árum hefur Bjarki unnið að sýningum, setið í stjórn Nýlistasafnsins og kennt við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. www.bjarkibragason.com

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson

Bryndís og Mark hafa starfað saman frá árinu 2001. Verk þeirra, einkennast af norrænum áherslum, þar sem þau kanna sögu, menningu og umhverfi í tengslum við einstaklinginn og tilfinninguna gagnvart því að tilheyra eða vilja aðgreina sig. Í mörgum verka sinna skoða þau samband manna og dýra, þar sem myndlíkingarnar eru nýttar til að spyrja spurninga um tilvist manna og dýra í nærumhverfinu og úti í villtri náttúrunni. Vinnuaðferðir þeirra byggja á rannsóknum þar sem þau sýna gjarnan ljósmyndir og vídeó sem innsetningar í valin rými. www.snaebjornsdottirwilson.com

Eggert Pétursson (1956)

Eggert nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1976-79 og við Jan van Eyck Academie 1979-81. Árum saman hafa strigar hans þaktir af smáblómum heillað áhorfendur og ruglað gagnrýnendur í rýminu. Verk Eggerts snúast um ferlið, hvernig hann dregur fram form blómanna úr striganum með litaglöðum penslastrikum, stundum varla sýnilegum undir lagi af hvítri málningu. Eins og hann segir um þessi málverk: Það er auðvelt að týna sér í smáatriðunum án þess að finna heildarsýn. Eggert á að baki fjölmargar sýningar og var tilnefndur til Carnegie-listaverðlaunanna 2004 og 2006 og var meðal vinningshafa í seinna skiptið.www.eggertpetursson.is

Gjörningaklúbburinn

Gjörningaklúbburinn samanstendur af þremur listamönnum: Eirúnu Sigurðardóttur (1971), Jóní Jónsdóttur (1972) og Sigrúnu Hrólfsdóttur (1973). Þær hafa unnið saman allt frá því að þær útskrifuðust úr Myndlista-  og handíðaskóla Íslands árið 1996 og vakið eftirtekt og viðurkenningu innanlands og erlendis. Í verkum sínum vinna þær með fjölbreytta miðla s.s. gjörninga, vídeó, ljósmyndir og innsetningar. Verkin einkennast af glettni, lúmskri félagslegri gagnrýni og fela oft í sér kvenlegar ímyndir en alltaf á forsendum Gjörningaklúbbsins. Þær Sigrún, Jóní og Eyrún hafa búið og starfað í New York, Berlín, Kaupmannahöfn en eru nú staðsettar í Reykjavík. www.ilc.is

Gunndís Ýr Finnbogadóttir (1979)

Gunndís útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá Piet Zwart Institute, Rotterdam og Plymouth University, 2008 og meistaragráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands, 2011. Verk hennar einkennast af málefnum sem snerta lífsrými, gestrisni, athafnir og hefðir sem snúast um minni og sjálfsímyndir kvenna. Verk hennar einkennast hinsvegar hvorki af félagsfræðilegum nálgunum né eru þau knúin af tilfinningum og fortíðarþrá, en eru mínímalísk og ljóðræn. Hún hefur áhuga á höfundarétti og samvinnu og spyr spurninga er varða einstaklingshyggju og hið einstaka. Mörg verka hennar fela í sér hugmyndir sem spegla samtímann.

Guðrún Tryggvadóttir (1958)

Guðrún nam myndlist í Akademie der Bildenden Künste í München 1979-83, Ecole Nationale Superieure des Beaux Arts í París,1978-79 og Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974-78. Hún hefur haldið fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, stofnað og rekið myndlistarskóla, myndskreytt barnabókina Furðudýr í íslenskum þjóðsögum og undanfarin ár hefur hún rekið umhverfisvefinn nattura.is, sem hún stofnaði 2006. Nú vinnur hún að málverkum þar sem hún myndgerir ættartengsl og kynslóðaskipti.

Auður Hildur Hákonardóttir (1938)

Hildur nam myndvefnað við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, listaháskólann í Edinborg og lauk vefnaðarkennaraprófi frá Myndlista- og handíðaskólanum 1980 eftir að hafa kennt þar á árunum 1969-81. Þar af var hún skólastjóri hans 1975-78 á miklum umbrotatímum í sögu skólans. Hildur starfaði jafnframt að listvefnaði á árunum 1969-90 og voru verk hennar víða til sýnis hér á landi og erlendis. Hún var virk í SÚM-hópnum og kvennabaráttunni sem endurspeglaðist í verkum hennar. Hildur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum tengdum myndlist, verk hennar er að finna í safneign helstu safna og henni var veitt heiðursorða Íslensku sjónlistaverðlaunanna 2010. Hún er einnig þekkt fyrir ræktun og ritstörf.

Hildur Bjarnadóttir (1969)

Hildur lauk námi frá textíldeild Listaháskóla Íslands 1992, framhaldsnámi 1997 frá Pratt Institut, New York í Bandaríkjunum og stundar nú doktorsnám við listaháskólann í Bergen, Noregi. Hildur hefur verið eftirsótt og virk í sýningarhaldi og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og einkasýningum bæði hér á landi og erlendis. Verk hennar hafa vakið athygli fyrir það hvernig hún rannsakar tilveru listarinnar og mörk handverks og lista á nýstárlegan hátt. Verk Hildar er að finna í helstu söfnum hér á landi og einnig í söfnum annars staðar á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum sem og í fjölmörgum einkasöfnum. www.hildur.net

Hrafnkell Sigurðsson (1963)

Hrafnkell nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1982-86, Jan van Eyck Academie í Maastricht 1988-90 og Goldsmith College í London 2001-02. Verk Hrafnkels, hvort heldur vídeó, ljósmyndir eða höggmyndir, spila með tvenndir eins og náttúru og menningu, hið hlutbundna og óhlutbunda, huga og líkama. Mörg ljósmyndaverka Hranfkels eru seríur sem fjalla um hversdagsleg málefni og hreyfa við skynjun áhorfandans með persónulegum tengingum. Tærar myndir hans fela í sér hefðir málaralistar og minna áhorfandann á hinn lagskipta raunveruleika bak við myndræna fleti. Sömu eiginleikar eru einnig til athugunar í þrívíddarverkum listamannsins sem og vídeóum, þar sem rýmið milli viðfangsefnisins og umhverfisins er skoðað.

Libia Castro (1970) og Ólafur Ólafsson (1973)

Libia og Ólafur hafa unnið saman og haldið sýningar á alþjóðlegum vettvangi síðan 1996. Þau beina sjónum sínum að ýmsum pólitískum, félagsfræðilegum og persónulegum öflum sem móta samtímann. Með því að sýna, kortleggja, grípa inn í og vinna á óformlegan hátt með fólkinu sem þau hitta, skoða þau rými, umhverfi og áhrifavalda á fjölbreyttan hátt. Verk þeirra eru opin í uppbyggingu og oft verður úr létt, ljóðræn, uppreisnargjörn og gagnrýnin list. Þau voru tilnefnd til hinna virtu verðlauna Prix de Rome og hlutu þar þriðju verðlaun. Þau voru þátttakendur á evrópska tvíæringnum Manifesta 7 árið 2009 og voru fulltrúar íslands á Feneyjatvíæringnum 2011. www.lilvia-olafur.com

Ólöf Nordal (1961)

Ólöf lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985 og meistaragráðu í myndlist frá Cranbrook-listaakademíunni í Bloomfield Hills og skúlptúrdeild Yale-háskólans í New Haven í Bandaríkjunum 1993. Hún stundaði einnig nám við Gerrit Rietvelt-akademíuna í Amsterdam. Ólöf hefur fundið verkum sínum farveg í ýmsum miðlum en mest hefur hún unnið skúlptúra, ljósmyndir og myndbandsinnsetningar, auk verka í almannarými. Á ferli sínum hefur hún á áhrifamikinn hátt tekist á við ýmis viðfangsefni sem tengjast menningu, uppruna og þjóðtrú um leið og hún hefur unnið með staðbundin og hnattræn málefni. www.olofnordal.com

Ósk Vilhjálmsdóttir (1962)

Ósk nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk mastergráðu frá Hochschule der Künste 1994. Hún vinnur jöfnum höndum í fjölbreytta miðla; málverk, ljósmyndir, vídeó og innsetningar. Verk hennar hafa skýra samfélagslega og pólitíska skírskotun og setja spurningarmerki við hefðbundið hlutverk listamannsins í samfélaginu. Mörg verka hennar gagnrýna neysluhyggju samtímans, hnattvæðingu og hagnýtingu umhverfisins og oft virkjar Ósk áhorfandann til þátttöku og athafna með verkum sínum, sem hafa verið sýnd víða hér heima og erlendis og henni hafa hlotnast ýmsar viðurkenningar. www.this.is/osk

Pétur Thomsen (1973)

Pétur nam listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry og ljósmyndun við École Superieure des Métiers Artistiques í Montpellier og École Nationale Supérieur de la Photographie (ENSP) í Arles. Pétur hefur verið tilnefndur til mikilsvirtra verðlauna, hlotið m.a. alþjóðlegu unglistaverðlaun LVMH – Louis Vuitton Moët Hennessy og árið 2005 var Pétur valinn af Elysée-safninu í Sviss til þátttöku í sýningunni ReGeneration, 50 ljósmyndarar framtíðarinnar. Mörg verka Péturs sýna yfirgang mannsins í náttúru Íslands. Hvort sem þau eru skoðuð sem félagsleg gagnrýni eða rómantísk yfirlýsing þá bera verk hans vitni um örar breytingar í landslagi og borgarmyndun. www.peturthomsen.is

Rósa Gísladóttir (1957)

Rósa útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981 og Listaakademíunni í München 1986. Hún lauk meistaragráðu í umhverfislist frá Manchester Metropolitan-háskólanum í Englandi og  meistaragráðu í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands 2014. Viðfangsefni hennar eru hversdagslegir hlutir og umhverfismál.  Rósa hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og verk hennar verið sýnd víða, m.a. í hinu virta safni Mercati di Traiano í Róm þar sem sett hafa verið upp verk ýmissa heimsþekktra listamanna.

Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg, 1951)

Rúrí nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands  1971-74 og De Vrije Academie Psychopolis, í Hague, Hollandi 1976-78 og einnig málmsmíði við Iðnskólann í Reykjavík 1974-75. Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis, en eru sett fram með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúrar, innsetningar, umhverfisverk, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndir, vídeó, hljóðverk,  tölvuvædd og gagnvirk verk.Listaverk hennar hafa verið sýnd á alþjóðlegum vettvangi, m.a. víða í Evrópu, í Ameríku og Asíu. Hún var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003 þar sem verk hennar vakti mjög mikla athygli og hlaut mikla umfjöllun á alþjóðlegum vettvangi.  www.ruri.is

Spessi (Sigurþór Hallbjörnsson, 1956)

Spessi nam ljósmyndun við De Vrije Akademie, Den Haag 1989-90 og Aki Akademie voor Beeldende Kunst, Enschede í Hollandi 1993-94. Hann hefur sýnt ljósmyndir sínar á fjöldamörgum sýningum hér heima og víða erlendis. Auk listrænna ljósmynda sinnir hann einnig auglýsinga- og portretljósmyndun og hefur skapað sér sérstöðu og vakið eftirtekt fyrir fersk og frumleg vinnubrögð. Ljósmyndir hans hafa m.a. birst í stórblöðum New York Times og Politiken.  Spessi hefur líka sinnt ljósmyndafræðslu í Listaháskóla Íslands og verið gestakennari í Ljósmyndaskólanum. www.spessi.com

Þorgerður Ólafsdóttir (1985)

Þorgerður útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2009 og lauk mastersnámi í myndlist frá Glasgow School of Art vorið 2013. Í verkum sínum veltir Þorgerður fyrir sér spurningum um ímyndir, staði og hið manngerða í náttúrunni. Hún hefur áhuga á kerfum og táknum sem notuð eru til þess að lýsa og koma skikkan á ytri aðstæður, eins og náttúruna og veðrið, og hvernig má túlka þau yfir á huglægari fleti gegnum minni og skáldskap. Þorgerður hefur sýnt verk sín á Íslandi, annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi ásamt því að fara fyrir sýningum og útgáfum listamanna hér heima. Þorgerður er framkvæmdastjóri Nýlistasafnsins og formaður stjórnar þess.  www.thorgerdurolfsdottir.net   

LÁ - KEMUR Á ÓVART

eyrarrosin islensku safnaverdlaunin 2018 La

Notaleg kaffistofa
Setkrókur og upplýsingarrit um myndlist
Verið velkomin!

OPNUNARTÍMI: 12 - 18

Sumar:
alla daga 1. maí - 30. september

Vetur:
fim - sun 1. okt - 30. apríl
lokað 17. des 2018 - 12. jan 2019

Austurmörk 21 - 810 Hveragerði
listasafn@listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727
Kort


Strætó leið 51stansar við Listasafnið

vidurkennt safn